29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi aldrei heyrt hæstv. ráðh. vera jafnblíðan við andstöðuflokka og hann var í síðustu ræðu, er hann bar fram þakkir sínar fyrir þá afstöðu, sem Sjálfstfl. hefur í þessu máli, sem þó er sama afstaða sem hann hefur alltaf haft.

Það leikur ekki á tveim tungum, að ekki getur verið æskilegt fyrir nokkurt þjóðfélag að hafa meinsemd eins og verðbólguna innan vébanda sinna. Þess vegna hljóta allir, sem nokkuð hugsa um mál þetta, að fagna því, ef gerðar eru ráðstafanir, sem duga til þess að ráða niðurlögum þessa vágests. Mér skilst, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé að tilætlun ríkisstj. fyrsta skrefið til þess að stöðva verðbólguna. En það er þá rétt einnig að gera sér grein fyrir því, hvað á undan hefur gengið í þessu máli og hverjar eru raunverulega meginástæðurnar fyrir því, að ríkisstj. hefur orðið að ]eggja slíkt frv. fram.

Hver ríkisstj., sem kom til valda eftir síðustu kosningar, hlaut að taka þetta mál til meðferðar. Það var öllum ljóst þá, og það er öllum ljóst nú. Þess vegna er það í sjálfu sér ekkert þakkarvert, þó að núv. stjórn hafi tekið þetta mál til meðferðar, eins og hver einasta stjórn hefði gert, sem komið hefði til valda í þessu landi. En núv. stjórnarflokkar vilja láta líta svo út fyrir þjóðinni, að þeir séu þeir einu, sem hafi komið auga á það, að nauðsynlegt sé að sporna við verðbólgunni. Ég vil minna hv. þm. á það, að í árslok 1954 ræddi form. Sjálfstfl., þáv. forsrh. (ÓTh), um þetta mál og lagði ríkt á við þjóðina að sporna gegn því, að kaupgjald yrði hækkað, en það mundi halda við verðbólguskrúfunni. En hvernig var þessu tekið? Því var tekið svo, að núv. hæstv. félmrh. (HV) beitti sér fyrir því, að víðtækt verkfall var sett á í landinu fyrri hluta vetrar 1955. Við vitum allir, hverjar afleiðingar það verkfall hafði.

Með frv. þessu stefnir stjórnin einnig að því að greiða stórfé úr ríkissjóði til þess að stöðva vísitöluna. Ingólfur Jónsson, fyrrv. viðskmrh., lagði til s. 1. vor, að þetta yrði gert, að stöðvuð yrði hækkun vísitölunnar meðan verið væri að leita annarra úrræða.

Nú kemur stjórnin fram með þetta frv., sem hér liggur fyrir, og segir: Þetta frv. er aðeins um ákveðinn tíma, meðan verið er að leita ráða til þess að ráða bót á þessu máli. — En áður var þó þetta talin hlægileg fjarstæða af hv. núv. stjórnarliðum.

Það er rétt að gera sér lítils háttar grein um það, hvernig vísitalan hefur hagað sér undanfarin fimm ár. Í febr. 1952 er vísitalan 155, og í sept. sama ár er hún 160. Í árslok 1953, hálfu öðru ári seinna, er hún 158, og í árslok 1954 er hún 160, M. ö. o., vísitalan stóð í stað þessi þrjú ár, 1952, 1953 og 1954, þrátt fyrir afleiðingar verkfallsins 1952. En í júlí 1955 er vísitalan orðin 165 stig og í árslok sama ár 174 stig, en þá eru líka komnar fram afleiðingar verkfallsins vorið 1955. Keðjuverkanir þess koma svo enn greinilegar fram í hækkun vísitölunnar á þessu ári, sem stöðvuð var með þessum bráðabirgðalögum.

Því verður ekki neitað, að verðbólguskrúfan hefur hækkað óhugnanlega mikið árið 1955 og það sem af er þessu ári, er vísitalan hækkar nálega um 20 stig og verðlagið í landinu að sjálfsögðu hækkar að sama skapi.

Það getur engum dulizt, að verðbólgan er í örum og hættulegum vexti vegna þess kapphlaups, sem orðið hefur á milli kaupgjalds og verðlags. Undanfarandi tveim ríkisstj. var að sjálfsögðu ljóst, hver lífsnauðsyn þjóðinni var að halda verðlaginu í föstum skorðum, enda breyttist verðlagið lítið í hálft fjórða ár, frá 1952 til miðsumars 1955, en á þeim tíma voru háð tvö stór verkföll, og eftir að hinu síðara lauk með mikilli kauphækkun, fór verðlagið í landinu fyrst um þverbak.

Það er ekki fyrst og fremst þeim tveim ríkisstj. að kenna, sem sátu að völdum 1950–56. heldur stjórn kommúnista á verkalýðsfélögunum og þeirri baráttu, sem þeir og fylgismenn þeirra ásamt Alþfl. háðu með verkföllum fyrir kauphækkun til þess að koma efnahagslífi landsins úr skorðum. Það er ástæðan fyrst og fremst fyrir þeirri dýrtíðarskrúfu, sem nú snýst með flughraða, og því kapphlaupi milli vinnulauna og verðlags, sem ég hef nú þegar getið um og kommúnistar stofnuðu til í ákveðnu augnamiði. rýrir síðustu kosningar lýstu þeir því yfir feimnislaust, að ef þeir yrðu ekki teknir í ríkisstj. eftir kosningar, mundu þeir hefja hvert verkfallið á fætur öðru með sívaxandi kaupkröfum, til þess að hverri ríkisstj. væri ógerlegt að starfa, sem ekki vildi hafa þá í samvinnu við sig.

Það dylst engum heilvita manni, að þjóðin er í mikilli hættu stödd, ef ekkert er gert til þess að stöðva dýrtíðarskrúfuna, og það má þá segja, að komi vel á vondan, að þeir stöðvi hana, sem aðallega hafa komið henni af stað. En hverjum sem þessi þróun er að kenna, þá varðar þó mestu, að þetta þjóðarmein verði læknað á réttan og skynsamlegan hátt.

Andstæðingar sjálfstæðismanna reyna að telja þjóðinni trú um, að þeir séu á móti öllum ráðstöfunum til þess að stöðva dýrtíðina og þess vegna séu þeir á móti einnig þessum ráðstöfunum núv. stjórnar, sem þetta frv. fjallar um. Þetta er mjög fjarri sanni. Við sjálfstæðismenn styðjum allar ráðstafanir, sem við teljum þjóðinni hollar og nauðsynlegar. Það sér hver heilvita maður, að fyrsta skrefið til þess að sigrast á dýrtíðinni er að stöðva framgang hennar, eða eins og Hóraz segir á einum stað, að fyrsta skrefið til vizku sé að losna við heimsku. Nú, það má segja, að þetta hafi stjórnin nú gert fram til áramóta, og það er ekki nema gott um það að segja, ef hér verður ekki tjaldað aðeins til einnar nætur. En stjórnin á vonandi eftir að sýna, að henni takist giftusamlega með framhaldið.

Sjálfstæðismenn hafa undanfarin ár í ræðu og riti varað þjóðina mjög sterklega við þeim hættulegu afleiðingum, sem væru af aðgerðum kommúnista til þess að kynda bál verðbólgunnar. Þessu hefur verið svarað með hrópum og svívirðingum. Þó að við séum samþykkir þessum aðgerðum, sem hér eru nú lagðar fram, þá teljum við enga ástæðu til að bera munninn fullan af lofi um núv. hæstv. ráðherra og líta á þá sem bjargvætti föðurlandsins fyrir að stöðva þá hættulegu þróun, sem þeir eiga sjálfir mesta sök á, margir þeirra.

Ef fjárhagskerfið er helsjúkt, eins og þeir vilja nú vera láta, þá hafa þar engir meira um fjallað en kommúnistar — og framsóknarmenn, sem ráðið hafa stefnu fjármálanna í s. l. sjö ár. Það má segja, að skylt sé skeggið hökunni. En þótt kaupgjald og verðlag hafi átt aðalþátt í hækkun dýrtíðarinnar og verðþensluskrúfunnar, þá mega menn ekki loka augunum fyrir því, að verðbólgan verður ekki læknuð eingöngu með verðstöðvun eða kaupbindingu um stuttan tíma. Framkvæmdirnar í landinu geta líka sett allt á annan endann, truflað framleiðsluna og sett efnahagskerfið úr skorðum. Í allri þeirri löngu baráttu, sem hér á landi hefur verið háð við verðbólguna í s. 1. 15 ár, hefur jafnan verið litið á fjárfestinguna sem tiltölulega saklausan þátt í dýrtíðardansinum, og svo er enn.

Rafvæðing landsins og húsabyggingar eru nauðsynlegar framkvæmdir og pólitískt vinsælar. En þrátt fyrir það verðum við að gera okkur grein fyrir því, að rafvæðing alls landsins á fáum árum með innlendu fé að mestu leyti, meðan allar hendur í landinu hafa jafnframt nóg að starfa, hlýtur að auka þrýstinginn í efnahagskerfi þjóðarinnar.

Opinber framlög í tugum milljóna til jafnnauðsynlegra framkvæmda og íbúðabygginga, þegar byggingarframkvæmdir taka öllu öðru fram, sem áður hefur þekkzt, hljóta einnig að reyna á þolrifin í efnahagskerfinu. En ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma að þessu sinni, en minnist á þetta til þess að benda á, að lækningu dýrtíðarinnar er ekki hægt að framkvæma eingöngu með kaupbindingu og verðstöðvun. Ein afleiðing hinnar miklu þenslu í vinnumarkaðinum núna er t. d. sú, að þrátt fyrir alla kaupfestingu verður fjöldi manns að sætta sig við það að fá iðnaðarvinnu af hendi leysta í helgidaga og eftirvinnu fyrir tvöfalt verð, af þeirri einföldu ástæðu, að enginn maður er fáanlegur til þess að framkvæma þessa vinnu nema á þennan hátt. Þarna kemur kaupfestingin að litlu liði.

Um frv. sjálft er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Það atriði frv., sem mætti segja að væri vafasamast, er verðbindingin og þá einkanlega og sér í lagi sú hlið hennar, sem lýtur að verðlagningu erlendra vara. Ég hef ekki orðið var við annað en að allir í verzlunarstétt tækju þessu yfirleitt vel, ef þetta ákvæði í lögunum er ekki fært út í öfgar. En ég kalla að færa það út í öfgar, þegar neitað er að breyta verði á innfluttum vörum, sem eingöngu er til komið vegna þess, að tollar voru hækkaðir hér á síðasta þingi. Þetta er að fara út í öfgar með þetta mál, og það gerir aðeins illt verra. Ef þessu er beitt of þjösnalega, hlýtur það að enda með því, að menn kaupi ekki vörurnar. Menn kaupa ekki vöruna, þegar þeir sjá í hendi sér, að þeir verða að gefa með henni, um leið og þeir láta hana af hendi. Ég vil aðeins beina þessu til þeirra manna, sem framkvæmd hafa á hendi. Að vísu er það ekkert smáræðis bákn, sem hver breyting þarf að ganga í gegnum. Hver breyting þarf fyrst að ganga til verðlagsstjóra, svo þarf hún að fara til innflutningsnefndarinnar og þar næst til ríkisstj. M. ö. o., ríkisstj. þarf að taka ákvörðun um hverja einustu verðbreytingu, sem til greina kemur skv. 4. gr. laganna.

Þetta nær ekki nokkurri átt. Þetta er skriffinnska á hæsta stigi. Það er hægt að hafa í fullu tré um þetta mál, án þess að þörf sé á að gera ríkisstj. að innflutningsnefnd í þessu landi. Ég vil sem sagt beina því til þeirra, sem hafa framkvæmd á þessu, að eyðileggja ekki þann velvilja, sem komið hefur fram hjá þeim stéttum, sem þetta mæðir mest á, með því að beita þær mjög ósanngjörnum tökum í þessu máli.

Eitt gleðilegasta táknið í sambandi við frv. þetta er þó það, að hæstv. félmrh., sem ber fram þetta frv, um kaupbindingu og verðstöðvun, hefur sýnilega snúið baki við fortíð sinni. Á tímabilinu 1951–55 gerðust þau undur, eins og ég gat um áðan, að verðlaginu var nokkurn veginn haldið föstu, þrátt fyrir það þótt núv. hæstv. verðlagsmálaráðherra gerði allt, sem í hans valdi stóð, til þess að koma verðlaginu úr jafnvægi. Það tókst að halda verðlaginu í jafnvægi, þrátt fyrir það þó að hæstv. ráðh. reyndi með viðtækum verkföllum að hækka verðlagið í landinu með hækkuðu kaupgjaldi. Hinar örvæntingarfullu tilraunir hans til þess að raska verðlaginu og raska þar með efnahagskerfinu báru ekki árangur fyrr en eftir verkfallið 1955. En frá 1. sept. 1955 til 1. sept. 1956 er talið, að kaupgjald hafi hækkað um 24%. Verðlagið í landinu hefur að sjálfsögðu hækkað að sama skapi. Hæstv. ráðh. hafði nú tekizt svo vel með aðstöðu sinni í Alþýðusambandinu og með aðstoð þess að sundra efnahagskerfinu með kauphækkunum, sem leiddu af sér allsherjar verðhækkun, að efnahags- og fjármálakerfi landsins var að dómi núv. hæstv. forsrh. orðið helsjúkt í lok september þessa árs. Þetta var vafalaust góður árangur að hans dómi, áður en honum kom til hugar, að hann þyrfti nokkru sinni að hefja skelegga baráttu gegn sínum fyrri aðgerðum. Afturhvarf frá fyrri syndum gerist oft skyndilega. Sumir heyra raddir og aðrir sjá sýnir. Mér þykir líklegast, að hæstv. ráðh. hafi heyrt rödd, sem kallaði hann til sætis meðal hinna útvöldu, sem höfðu fengið köllun til þess að bjarga fósturlandinu. En nú sá hann líka, að syndir hans gegn efnahagskerfi þjóðar sinnar undanfarin 5 ár risu eins og refsivöndur yfir höfði hans. Um þá staðreynd verður nú ekki lengur villzt, að hæstv. ráðh. hefur horfið frá sinni fyrri villu og nú leggur hann þetta frv. um kaupbindingu og verðstöðvun sem minnisvarða á leiði fortíðar sinnar.

Það er sagt, að englarnir gleðjist meira yfir einum syndugum, sem bætir ráð sitt, en yfir 99 heilögum. Víst er um það, að batnandi manni er bezt að lifa, og það er vert að gleðjast yfir því, að hæstv. ráðh. er farinn að sjá, að skefjalaus kauphækkun getur gert efnahagslífið helsjúkt. En úr því að hann hefur nú reist svona virðulegan minnisvarða yfir fortíð sína, sem við getum vafalaust verið sammála um að sé bezt geymd undir grænni torfu, þá á hann líka skilið, að við fögnum afturhvarfi hans með því að láta frv. fylgja þau eftirmæli, sem hann hefur sjálfur samið og bera glöggt vitni um, að þrátt fyrir mikla forherðingu sálarinnar geta menn samt vikið frá villu síns vegar og viðurkennt yfirsjónir sínar eins og heiðarlegum mönnum ber.

Ég vildi biðja hv. þingmenn að gefa gaum þeim gífurlega mun á þeim vel meintu aðgerðum hæstv. ráðh. með frv. þessu til þess að þjóna landi sínu og þeim hrokafullu ögrunarorðum, sem fram gengu af munni þessa manns, áður en hann meðtók sáluhjálpina. Nú ætla ég að lofa ykkur að heyra þessi orð hans. Hann komst svo að orði, hæstv. félmrh. (HV), 19. júní 1956 í útvarpsumræðunum:

„Alþýðusambandið aðvarar af fyllstu alvöru. Kjósið umfram allt ekki yfir ykkur gengislækkun og kaupbindingu. Kjósið ekki yfir ykkur kauplækkun og lífskjaraskerðingu. Það er bjargföst skoðun núverandi stjórnar Alþýðusambands Íslands, að nú ríði verkalýðshreyfingunni lífið á að eignast svo sterkan þingflokk á Alþingi, skuldbundinn af stefnuskrá Alþýðusambandsins, að gengislækkun, lögbindingu kaups og vísitöluskerðingu eða nýju skattaflóði verði ekki með neinu móti komið fram á Alþingi:

Hann heldur áfram :

„Við teljum það glapræði, að nokkur meðlimur í verkalýðshreyfingunni kjósi frambjóðanda nokkurs þess flokks, sem ekki megi fulltreysta til andstöðu við þessi óþurftarmál verkalýðsins:“

Ég ásaka ekki hæstv. ráðherra fyrir að hafa skipt um skoðun, því að nú virðist hann hafa öðlazt þá innri sannfæringu fyrir villu síns vegar, sem ýmsir hér í þingsölunum hafa reynt að koma honum í skilning um á undanförnum árum.