30.10.1956
Neðri deild: 8. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla að svara hér nokkrum orðum meginkjarna ræðu hv. 1. þm. Reykv. (BBen), að svo miklu leyti sem ræðan var svar við því, sem ég sagði í gær um frv., sem fyrir liggur til umr. En áður en ég kem að kjarna málsins, því, sem okkur aðallega greinir á um, vil ég fara nokkrum orðum um þau ummæli, sem hann viðhafði varðandi það gjald, sem hann sagði að stjórnarforustan hefði krafizt af kommúnistum fyrir inngöngu þeirra í ríkisstjórnina.

Hv. þm. sagði, að stjórnarforustan hefði krafizt mikils gjalds, hás aðgangseyris af kommúnistum, að því er hann sagði, fyrir það, að þeir fengju að taka sæti í ríkisstjórn. Hann sagði, að þeir hefðu verið látnir borga fyrir að fá að vinna á bátnum hjá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Gjaldið hefði verið fólgið í því að samþykkja kaupbindingu, að samþykkja verðfestingarlögin, en auðvitað hefðu þeir fengið eitthvað í staðinn og allmikið, að manni skildist. Hann sagði: Það, sem kommúnistar fengu í staðinn, voru allsherjarráð um stefnu Íslands í utanríkismálum.

Hér er ekki lítið sagt af formanni þingflokks stjórnarandstöðunnar. Hann staðhæfir í ræðu hér í hv. d., að kommúnistar hafi nú úrslitaráð í íslenzkum utanríkismálum. Þetta segir hann ekki af því, að hann viti ekki, hver er stefna ríkisstj. í utanríkismálum, hún hefur verið skýrt og ljóst mörkuð. Hún er fólgin í samþykkt Alþ. frá því í apríl s. 1. Stefnan er tvíþætt. Hún er annars vegar fólgin í því að lýsa yfir fylgi við áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar í því, að varnarsamningurinn við Bandaríkin verði endurskoðaður á þann veg, að erlendur her dvelji ekki lengur hér á landi. Fyrri þátturinn hefur verið íslenzk utanríkisstefna síðan Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu 1949. Ísland ætlar sér, þessi ríkisstj. eins og þær, sem setið hafa að völdum síðan þessi ályktun var gerð um aðild landsins að Atlantshafshandalaginu, að halda áfram að stuðla að aðild Íslands að þeim varnarsamtökum. Hinn meginþáttur stefnunnar í utanríkismálum, að endurskoða varnarsamninginn frá 1951 á þann veg, að hér verði ekki lengur erlendur her í landi, er einnig sú grundvallarstefna, sem var mörkuð, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið 1949, og Sjálfstfl. þá stóð að. Vegna sérstaks ástands í heimsmálum 1951 var vikið frá þessari stefnu með samþykki Sjálfstfl. Nú hefur ástand í heimsmálum að dómi núverandi stjórnarflokka aftur breytzt þann veg, að þeir telja rétt að hverfa aftur til þeirrar stefnu, sem mörkuð var með opinberri yfirlýsingu, þegar landið gekk í Atlantshafsbandalagið 1949. Þetta er stefna ríkisstj. í utanríkismálum. Samt sem áður leyfir formælandi stjórnarandstöðunnar sér hér á Alþ. að staðhæfa, að þessi stefna sé kommúnistísk utanríkisstefna. Sé svo, þá markaði hann kommúnistíska utanríkisstefnu í Washington í yfirlýsingu, sem hann gaf við undirritun samnings Atlantshafsbandalagsins 1949, því að þá tók hann einmitt fram sem stefnu Íslands, að það vildi ekki á það fallast, að hér á landi væri erlendur her á friðartímum. Þetta sýnir eitt með öðru, út í hverjar ógöngur stjórnarandstaða Sjálfstfl. er komin.

Ég vildi ekki láta þessum ummælum hv. 1. þm. Reykv. ómótmælt, fyrst ég stóð upp á annað borð, jafnvel þótt erindi mitt í ræðustólinn hafi verið að ræða það, sem var kjarninn í hans ræðu, en ekki þetta, sem var að vísu aukaatriði, þó að það væri af mjög miklu ábyrgðarleysi mælt.

Við hv. 1. þm. Reykv. erum sammála um það, að nauðsyn beri til þess að hefta vöxt verðbólgunnar. Hins vegar greinir okkur á um, hver sé orsök verðbólgunnar. Hv. þm. játar, að verðbólgan sé böl, sem beri að vinna gegn. Hann játaði það í upphafi ræðu sinnar. Samt sem áður gekk meginhluti ræðu hans út á að deila á hina svonefndu jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, að deila á þá stefnu, sem hefur það sem megineinkenni, að jafnvægi skuli vera milli fyrirætlana um fjárfestingu og sparnað, þannig að ekki verði tiltakanleg hreyfing á verðlagi upp á við, m. ö. o., að verðlag haldist stöðugt í landinu, a. m. k. að hvorki útlánaaukning banka né hallarekstur hjá ríkissjóði né taprekstur hjá atvinnuvegunum verði þess valdandi, að verðlag fari hækkandi.

Ég verð að segja það, að mér kom mjög á óvart, að þm. skyldi taka þessa stefnu í ræðu sinni, fyrst hann byrjaði þannig að játa, að verðbólgan væri böl. Þessar tvær stefnur eru einmitt meginandstæðurnar í öllum efnahagsmálum nútímans. Þar takast á verðbólgustefnan annars vegar, þ. e. sú stefna að halda uppi atvinnu með því að auka útlán banka úr hófi fram, með því að halda uppi hallarekstri hjá ríkissjóði eða taprekstri hjá atvinnuvegum, þó að það kosti það, að verðlag fari síhækkandi og peningagildi þar með minnkandi. Andspænis þessari stefnu er jafnvægisstefnan svonefnda, sem hefur það höfuðmarkmið að halda þess konar jafnvægi milli fjármálastefnu bankanna og fjármálastefnu ríkisins, að úr þessari átt verði ekki verðlagið fyrir hækkunaráhrifum og peningagildið rýrni þar af leiðandi ekki vegna þessara orsaka.

Yfirleitt er það svo, að allir ábyrgir stjórnmálamenn í hinum svonefndu lýðræðisríkjum telja sig vera fylgjendur jafnvægisstefnunnar, en andstæðinga verðbólgustefnunnar. Það er alveg sérstaklega einkenni á málflutningi allra hægri sinnaðra stjórnmálamanna að telja sig sérstaka forvígismenn jafnvægisstefnunnar, en deila á þá efnahagsmálastefnu, sem vinstri menn yfirleitt fylgja, vegna þess að hún sé verðbólgustefna, þó að hún sé það í raun og veru ekki, eða þótt vinstri mennirnir telji hana ekki vera raunverulega verðbólgustefnu. Sá skoðanamunur, sem á sér stað í umræðum um efnahagsmál í lýðræðisheiminum yfirleitt, er fyrst og fremst fólginn í því, hvort sú stefna, sem framfylgt er í hverju einstöku landi, sé jafnvægisstefna eða verðbólgustefna. Allir eru sammála um, að jafnvægisstefnan sé æskilegri og réttlátari, ekki hvað sízt fyrir launamenn, heldur en verðbólgustefnan. Um hitt greinir menn svo nokkuð á, hvort afleiðingin af þeirri pólitík, sem rekin er, sé jafnvægi eða verðbólga. Þar, sem vinstri menn eru við völd, er það yfirleitt höfuðgagnrýni stjórnarandstæðinga, hægri manna, að raunveruleg stjórnarstefna vinstri manna hafi í för með sér nokkra verðbólgu. Kjarninn í ágreiningnum milli hægri manna og vinstri manna í efnahagsmálum er ekki um það, hvort skynsamlegra sé að framfylgja jafnvægisstefnu eða verðbólgustefnu, heldur um hitt, hvernig eigi að tryggja framkvæmd jafnvægisstefnunnar. Hægri mennirnir hafa trú á því, að jafnvægisstefnan verði bezt framkvæmd með því að láta allt afskiptalaust, með því að hið opinbera hafi sem allra minnst, jafnvel alls engin áhrif á þróun efnahagsmálanna. Kjarninn í efnahagsboðskap vinstri sinnaðra manna er aftur á móti fólginn í því, að réttlátt jafnvægi í þjóðarbúskapnum, jafnvægi, sem launþegar geti við unað og sé réttlátt í þeirra garð, náist ekki nema því aðeins að hið opinbera gripi í taumana og tryggi jafnvægið. Skoðanamunurinn í hinum lýðræðissinnaða heimi, þar sem þessi mál eru rædd fyrir opnum tjöldum, er því alls ekki um það, hvort heldur beri að fylgja jafnvægisstefnu eða verðbólgustefnu, heldur er hann um það, á hvern hátt megi tryggja framkvæmd jafnvægisstefnunnar. Það er það, sem vinstri mönnum og hægri mönnum ber hér á milli.

Þess vegna verð ég að segja það, að það er einsdæmi í vestrænum lýðræðisríkjum, að upp skuli rísa málsvari stórs hægri sinnaðs flokks og lýsa sig í raun og veru andvígan jafnvægisráðstöfunum, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði í ræðu sinni áðan, í meginkafla ræðunnar, þó að hann byrjaði á því að lýsa verðbólgunni sem böli. Ég þekki engan annan leiðtoga hægri sinnaðs flokks í Vestur-Evrópu, sem væri líklegur til þess að flytja upp undir klukkutíma ræðu, sem hefði það að meginuppistöðu að deila á efnahagsstefnu, sem hefur jafnvægisráðstöfun að höfuðmarkmiði.

Hv. þm. (BBen) bar mér á brýn, að sá boðskapur, sem ég hafði að flytja í gær, fæli það í sér, að ég vildi hæfilegt atvinnuleysi, að ég vildi þrengja sultarólina að launþegum, m. ö. o., að ég hafi gerzt málsvari hægri sinnaðra sjónarmiða í efnahagsmálum. Kjarninn í þeim hefur einmitt verið talinn, að til þess að halda jafnvægi, — það hafa fjölmargir hægri sinnaðir hagfræðingar og stjórnmálamenn sagt, — geti verið nauðsynlegt að hafa nokkurt eða eitthvert atvinnuleysi. Venjulega hefur mér verið borið það á brýn af hv. sjálfstæðismönnum, að ég væri mjög ákveðinn haftasinni, m. ö. o., að ég fylgdi stefnu í efnahagsmálum, sem væri mjög róttæk, sem væri mjög vinstri sinnuð, mjög langt frá hinni frjálslyndu stefnu hægri manna, og vildi ganga mjög langt í því að stjórna efnahagslífinu með opinberum afskiptum. Nú á það allt í einu að vera orðin höfuðsök mín að aðhyllast of íhaldssamar ráðstafanir í efnahagsmálum.

Sannleikurinn er sá, að hvorugt er rétt að því er mig snertir. Því fer auðvitað víðs fjarri, að ég aðhyllist þær grundvallarskoðanir í efnahagsmálum, eins og ég hef marglýst, að líklegt sé, að heilbrigt og launþegum hagstætt jafnvægisástand mundi verða afleiðing þess, ef hið opinbera hefði engin afskipti af efnahagsmálum. Hitt er ekki heldur skoðun mín, að það sé líklegasta leiðin til þess að ná hinu æskilega og fyrir launþega réttláta jafnvægi með því að láta hið opinbera vera með nefið ofan í bókstaflega hvers manns koppi í efnahagsmálunum. Hér þarf að finna skynsamlegt jafnvægi á milli, skynsamlegan gullinn meðalveg.

Ég vil undirstrika aftur það, sem ég sagði áðan, að allir ábyrgir stjórnmálamenn, sem bera skyn á hagmál, telja æskilegt að stefna að jafnvægi í efnahagsmálum. Þeir, sem annaðhvort bera ekki skyn á vandamál efnahagsmálanna eða eru fyrst og fremst ábyrgðarlausir áróðursmenn, eru andstæðingar hinnar heilbrigðu jafnvægisstefnu í efnahagsmálum. Ég vil ekki halda því fram, að hv. 1. þm. Reykv. beri ekki skyn á kjarna þeirra vandamála, sem hér er um að ræða, en málflutningur hans gefur fyllsta tilefni til þess að ætla, að hann sé hér í hlutverki hins ábyrgðarlausa áróðursmanns. Annars tel ég nauðsynlegt, að það komi alveg skýrt fram, hver er skoðun hv. i. þm. Reykv., sem er aðalmálsvari stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi, á þeirri stefnu, sem framfylgt hefur verið í bankamálum og fjármálum ríkisins undanfarinn áratug. Hann hefur setið í ríkisstjórn sjálfur meginhlutann af þessu tímabili, og hann á ekki að komast undan því að segja til um það alveg skýrt, hvaða skoðun hann hefur á þessu máli. Hann hefur haldið tvær ræður um þetta mál, í gær og í dag, og rætt um orsakir verðbólgunnar. Hann hefur ekki séð ástæðu til þess að nefna það, að fjármálastefna bankanna eða fjármálastefna ríkisins hafi átt nokkurn minnsta þátt í því verðbólguástandi, sem hér hefur átt sér stað undanfarin 10 ár. Þess vegna er rétt að beina þeirri fyrirspurn til hans og óska eftir því, að hann svari henni alveg skýrt og skorinort, hver sé skoðun hans á fjármálastefnu bankanna s. l. 10 ár og hver sé skoðun hans á fjármálastefnu ríkisins s. l. 10 ár. Telur hann fjármálastefnu banka og ríkis hafa verið heilbrigða allan tímann? Telur hann fjármálastefnu banka og ríkis ekki hafa átt nokkurn þátt í því verðbólguástandi, sem hefur óneitanlega verið s. l. 10 ár? Ég hef enga löngun til að gera honum upp aðrar skoðanir en þær, sem hann raunverulega hefur, eða deila á hann fyrir skoðanir, sem hann hefur ekki. Þess vegna þarf hann að segja það skýrt og skorinort. Telur hann fjármálastefnu bankanna hafa verið rétta, eða telur hann hana hafa verið ranga? Telur hann fjármálastefnu ríkisins undanfarin 10 ár hafa verið rétta, eða telur hann hana hafa verið ranga? Þessu verður hann að svara. Hann leiddi það hjá sér í ræðum sínum, bæði í gær og í dag, að segja nokkuð skýrt og ákveðið um þetta mál.

Skýringin er ósköp einföld. Hv. 1. þm. Reykv. er miklu hyggnari maður en svo, að hann geri sér ekki fullkomna grein fyrir því, að hann hefði farið út á mjög hálan ís að gera þessi atriði að umræðuefni, í fyrsta lagi af því, að hann veit, að eftir stríð og fram til 1950 var fjármálastefna ríkisins flest árin mjög óheilbrigð og hafði mjög óheppileg áhrif á verðþróunina í landinu. Hvers vegna þegir hv. þm. um þetta? Jú, það er af því, að þá var stjórn fjármála ríkisins í höndum ráðherra Sjálfstfl. Ég trúi því heldur ekki, að hv. 1. þm. Reykv. geri sér ekki fulla grein fyrir því, að fjármálastefna bankanna hefur s. l. 10 ár verið með þeim hætti, að hún hefur verið mjög verðbólguaukandi. Hvers vegna þegir hann þá um þetta í tveimur ræðum? Hvers vegna gerir hann það? Auðvitað af því, að hann veit það, eins og við öll, sem erum hér inni, vitum það líka, að Sjálfstfl. hefur haft tögl og hagldir í bankamálum landsins allt þetta tímabil og hefur það enn. Þess vegna er það pólitísk nauðsyn fyrir hv. 1. þm. Reykv. að deila ekki á fjármálastefnu bankanna og ekki á fjármálastefnu ríkisins.

Heiðarlegur málflutningur er það hins vegar ekki, og heppilegt er það ekki fyrir hann, þegar hann veður út á þær villigötur að gerast andmælandi þeirrar stefnu, sem venjulega er kölluð jafnvægisstefna í efnahagsmálum, og formælandi þess, að bankar og ríkissjóður haldi uppi óeðlilegri kaupgetu í landinu.

Okkur hv. 1. þm. Reykv. greinir fyrst og fremst á um það, hver sé frumorsök þeirrar verðbólgu, sem hér hefur ómótmælanlega verið s. l. áratug. Mín skýring var og er í sem stytztu máli þessi, og frá henni skýrði hann rétt í öllum aðalatriðum í ræðu sinni áðan. Hún er sú, að fjármálastefna bankanna árin eftir stríðið, fram til 1951, hafi verið með þeim hætti, að til verðbólguþróunar hefði hlotið að koma, jafnvel þó að pólitík verkalýðsfélaganna hefði verið önnur en hún raunverulega var og jafnvel þó að kaupgjald hefði alls ekki verið bundið við vísitölu. Hér hefði orðið verðbólga samt, jafnvel þó að verkalýðsfélögin hefðu fylgt algerri stöðvunarstefnu eða reynt að fylgja algerri stöðvunarstefnu að því er kaupgjaldið snertir, alveg eins og hér varð áframhaldandi verðbólga á árunum 1947–1950, þó að verkalýðshreyfingin þá fylgdi slíkri stöðvunarstefnu. Það tímabil er einmitt ljósasta sönnun þess, að pólitík verkalýðsfélaganna er alls ekki frumorsökin að þeirri óheillavænlegu verðlagsþróun, sem hér hefur átt sér stað.

Það, sem hefur gerzt að því er snertir verðlagspólitík verkalýðsfélaganna, er það, að skilyrði þeirra til þess að halda fast við samræmi kaupgjalds og verðlags og knýja fram grunnkaupshækkanir hafa verið sérstaklega hagstæð vegna þeirrar verðbólgustefnu, sem ríkisvaldið hefur rekið, og vegna áhrifanna, sem borizt hafa inn í efnahagskerfið frá Keflavíkurflugvelli. M. ö. o.: Ríkisvaldið sjálft og bankarnir, — í þessu sambandi tel ég bankana til ríkisvaldsins, — hafa með stefnu sinni í bankamálum og fjármálum lagt grundvöllinn að því, að verkalýðsfélögin hafa getað fylgt þeirri stefnu, sem þau raunverulega hafa fylgt. Þau hafa raunverulega gert meira. Þau hafa beinlínis hvatt verkalýðsfélögin til þess að fylgja þeirri stefnu, sem þau raunverulega fylgdu.

Það er þetta, sem er í meginatriðum skoðun mín á málinu.

Hv. 1. þm. Reykv. heldur því hins vegar fram, að stefna verkalýðsfélaganna í kaupgjaldsmálum sé frumorsökin að verðbólguþróuninni. Það er það, sem ég tel fyrst og fremst rangt í hans málflutningi. Hér stendur nú okkar á milli, í okkar orðaskiptum, staðhæfing á móti staðhæfingu, og ég er þess fullviss, að allir hv. þm. gera sér kjarna þessa skoðanamunar algerlega ljósan. Ég skal því ekki eyða meiri tíma í að ræða þetta fram og til baka. Annað ætla ég að gera, og það er að leiða vitni, stuttlega, máli mínu til stuðnings, og það vitni, sem ég ætla nú að leiða, vænti ég að sé þannig, að hv. 1. þm. Reykv. taki það trúanlegra en hann virðist hafa tilhneigingu til að gera að því er varðar röksemdafærslu eða skoðanir mínir. Þetta vitni er hv. 9. landsk. þm., Ólafur Björnsson prófessor, sem 1950 skrifaði hagfræðilega álitsgerð fyrir þáv. ríkisstj., sem hv. 1, þm. Reykv, átti sæti í, og ræddi þetta mál nokkuð. Þeir hagfræðingarnir, dr. Benjamín Eiríksson og próf. Ólafur Björnsson, ræddu í hinni ýtarlegu álitsgerð sinni um efnahagsmál m. a. orsakir dýrtíðarinnar, í 3. kafla hennar, og þar segir m. a. svo á bls. 14–15, með leyfi hæstv. forseta, — ég les aðeins nokkrar setningar, að vísu sundurlausar, en þær skýra þó algerlega skoðun þeirra tveggja á því, hver hafi verið meginorsök dýrtíðarinnar frá stríðsbyrjun og til 1950:

„Íslenzkri hagþróun seinustu 10 árin má skipta í tvö tímabil: stríðstímabilið og tímabilið síðan stríðinu lauk. Bæði tímabilin einkennast af dýrtíð, en orsök dýrtíðarinnar er ekki sú sama þessi tvö tímabil“.

Svo rekja þeir það, að orsök dýrtíðarinnar á stríðsárunum sé fyrst og fremst röng gengisskráning, og niðurstaða þeirra er:

„Það er því lággengi krónunnar þessi ár, sem veitir erlendum verðhækkunum og áhrifum hærri farmgjalda inn í landið og getur því á vissan hátt talizt höfuðorsök dýrtíðar styrjaldaráranna:“

Svo mörg er u þau orð. Höfuðorsök dýrtíðar styrjaldaráranna er gengisskráningin, sú gengispólitík, sem fylgt er, en alls ekki kaupgjaldspólitík verkalýðsfélaganna. Síðan segir:

„Orsök dýrtíðar árin eftir stríðið“, þ. e. árin eftir að hv. 1. þm. Reykv. er kominn í ríkisstj., „er því sú, að fjárfesting og hallarekstur annars vegar nema meiru en sparifjármyndun, afskriftum og óúthlutuðum arði hins vegar, að óbreyttu verðlagi og peningatekjum þjóðarinnar. Þær tekjur, sem myndazt hafa af þessum mismun, eru nettóaukning eftirspurnarinnar eftir vörum og þjónustu, svo að hún verður meiri en framboðið. Aukin eftirspurn leiðir til aukins innflutnings og greiðsluhalla við útlönd, meðan verzlunin er frjáls, en til vöruskorts og verðhækkunar, þegar innflutningurinn er takmarkaður.“

Svo halda þeir röksemdafærslunni áfram og segja, að undirstaðan undir þeirri eftirspurnaraukningu, sem hafi átt sér stað á þessu tímabili, sé annars vegar óheilbrigð útlánaaukning bankanna og hins vegar greiðsluhalli hjá ríkissjóði. Niðurstaðan á bls. 25, sem þeir komast að eftir miklar útlistanir um þessi efni, er þessi:

„Jafnvægisástandi innanlands má koma á fyrst og fremst með því að sjá um, að engin lánsfjárþensla eigi sér stað hjá bönkunum og að ríkisreksturinn sé hallalaus. Skortur á jafnvægi við útlönd, þ. e. taprekstur í útflutningsframleiðslunni og greiðsluhalli við útlönd, stafar af misvægi innanlands. Þegar verzlunarhöftum og eftirliti með verðlagi og fjárfestingu þarf að beita um lengri tíma, stafar það af óheilbrigðri meðferð banka- og fjármála. Verzlunarhöftum og eftirliti með fjárfestingu þarf aldrei að beita lengi í senn, nema annað tveggja sé, að bankarnir eða ríkið, eða báðir þessir aðilar, hagi starfsemi sinni gálauslega, eða að stefna óhóflegrar fjárfestingar hindrar heilbrigða meðferð banka- og fjármála:“

Það er m. ö. o. meginniðurstaða þeirra, að dýrtíð áranna eftir stríðið, frá 1945 til 1950, þegar þeir skrifa þessa álitsgerð, sé óheilbrigð meðferð banka- og fjármála. Um þetta þegir hv. 1. þm. Reykv. algerlega í tveim ræðum, þar sem hann er að fjalla um orsakir verðbólgunnar.

Í raun og veru þarf ekki meira um þetta að fjölyrða. Þeir geta ekki báðir haft rétt fyrir sér, hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og hv. 9. landsk. þm. (ÓB), þó að flokksmenn séu, þeim ber þarna mikið á milli, nema þá því aðeins, að hv. 1. þm. Reykv. hafi í ræðu sinni áðan látið berast út í það að segja eitthvað annað en hann raunverulega vildi sagt hafa. Um þetta ættu þeir að eigast hér við fyrir opnum tjöldum á næsta fundi. Það væri gaman að heyra þá deila um það, hv. 1. þm. Reykv. og hv. 9. landsk. þm., hvort skoðun próf. Ólafs Björnssonar frá 1950 sé rétt eða röng. Um það virðast þeir ekki vera sammála, en það vildum við gjarnan fá að heyra, hvernig þeir ræddust við um þessi atriði.

Að síðustu vil ég svo segja þetta: Verkfallið síðasta var í raun og veru mjög skýrt dæmi um það, að sú skoðun, sem ég hef hér gerzt málsvari fyrir varðandi orsök verðbólgunnar, er rétt, en skoðun sú, sem hv. 1. þm. Reykv. gerist málsvari fyrir, er röng. Spurningin um kauphækkunina, sem varð í síðasta verkfalli, er ofur einfaldlega þessi: Var hún, sú kauphækkun, sem var afleiðing verkfallsins, frumorsök verðbólguþróunar þess tímabils, sem hún gerðist á, eða var hún afleiðing verðbólguþróunar þessa sama tímabils?

Ég skil ekki í, að nokkrum heilskyggnum manni geti blandazt hugur um það, að á þeim tíma, er uppsagnir kaup- og kjarasamninga fóru fram, voru kauptaxtarnir orðnir langt undir markaðsverði vinnunnar. Það var hvarvetna boðið miklu hærra í vinnu af öllum tegundum, ófaglærðrar vinnu og faglærðrar vinnu, en svaraði til gildandi kauptaxta. Það var svo að segja daglega auglýst í blöðum og útvarpi eftir vinnuafli á nær öllum sviðum og boðið meira en gildandi töxtum nam. Augljósari sönnun var ekki hægt að fá fyrir því, að raunverulegt kaupgjald var hækkað, að efnahagskerfið þoldi meira kaupgjald en svaraði til taxtanna, því að annars hefðu atvinnurekendur ekki boðið meira kaup en töxtunum nam í jafnríkum mæli og þeir raunverulega gerðu. Það var verðbólguþróunin, sem hafði skapað atvinnurekendum skilyrði til þess að bjóða meira kaup en svaraði til taxtanna, og hvað var þá eðlilegra en að verkalýðshreyfingin fylgdi hinum marglofuðu reglum frjálsrar verðmyndunar, frjáls markaðar og hækkaði kaupgjaldið til samræmis við það, sem í það var boðið af atvinnurekenda hálfu?

Hitt er svo annað mál, að ekki varð hjá því komizt, að í kjölfar þessara kaupgjaldshækkana sigldi nokkur verðlagshækkun. Það er eðlilegt. Þar með er ekki sagt, að kaupgjaldshækkunin hafi verið frumorsök verðbólguþróunarinnar á tímabilinu. Það er atriði, sem um er deilt.

Ég tel því einu gilda, hvort litið er á þetta mál algerlega frá fræðilegu sjónarmiði eða með því að vísa til þeirrar raunverulegu þróunar, sem átt hefur sér stað. Niðurstaðan verður í báðum tilfellum sú, að á pólitík verkalýðsfélaganna verður ekki lögð höfuðábyrgðin á því ófremdarástandi, sem hér hefur verið í verðlagsmálum síðan stríði lauk. Af því verður ríkisvaldið að taka höfuðábyrgðina og þá auðvitað hv. 1. þm. Reykv. sinn hluta af henni sem einn helzti ráðamaður í ríkisstj. Íslands síðan stríðinu lauk.