06.12.1956
Efri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

4. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og menn sjá, er þetta frv. að meginefni aðeins um það að framlengja þau ákvæði, sem gilt hafa um bifreiðaskatt, eða réttara sagt um bráðabirgðabreyting á þeim lögum, og fjallar um það að innheimta aukalega 20 aura af hverjum lítra benzíns og að 5 aurar af því renni í brúasjóð og 5 aurar í sérstakan sjóð, sem varið verði til að gera akfæra þjóðvegi á milli byggðarlaga.

Svo er ákvæði um það, að bifreiðaskattur fyrir árið 1957, er kann að verða greiddur á því ári vegna eigendaskipta á bifreiðum eða af öðrum ástæðum, verði innheimtur með sömu álögum.

Ákvæðin í 3. lið 1. gr. um skatt af hjólbörðum og gúmmíslöngum eru um framlengingu.

Eins og sjá má á nál. fjhn. á þskj. 114, leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Einn af nm., hv. 4. þm. Reykv., var veikur, þegar n. afgreiddi málið, og tók því ekki þátt í afgreiðslunni.