18.12.1956
Efri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

90. mál, skemmtanaskattsviðauki

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þd. kemur þetta frv. að sjálfsögðu ekki á óvart, Það er gamall kunningi, eins og hæstv. menntmrh. gat um, endurflutt frá ári til árs. En af tilefni þess vil ég leyfa mér að beina einni fsp. til hæstv. ráðherra. Á undanförnum árum hefur oftlega verið um það rætt, að nauðsyn bæri til þess að endurskoða gildandi lagaákvæði um skemmtanaskatt. Ég hygg meira að segja, að þessu tali hafi verið svo langt á veg komið, að hjá einhverri af fyrrverandi hæstv. ríkisstj. hafi verið hafinn undirbúningur að þessari endurskoðun og jafnvel á Alþ. gefnar yfirlýsingar um það, að slík endurskoðun skyldi fram fara. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort hann og núv. hæstv. ríkisstj. hafi nokkuð slíkt í hyggju.

Ég vil segja það, að á því er mjög rík nauðsyn, að endurskoðun þessarar löggjafar fari fram. Greiðsla skemmtanaskatts er í dag hin handahófslegasta. Undanþágur þær, sem gilda um greiðslu skattsins, eru að minni hyggju mjög ósanngjarnar og koma misjafnlega niður. Hins vegar er um að ræða mjög ríka þörf þeirra aðila, sem skemmtanaskattsins eiga að njóta. Í því sambandi má t. d. benda á, að félagsheimilasjóður, sem fær nú, að ég hygg, 35% skattsins, hafði eitt sinn, fyrir nokkrum árum, 50% hans. En á undanförnum árum hefur verið smáhöggvið í þennan eina tekjustofn félagsheimilasjóðs, þannig að sjóðurinn er nú engan veginn fær um að gegna því hlutverki, sem honum var ætlað. Hjá stjórn sjóðsins liggja fyrir tugir umsókna, sem ekki er hægt að sinna, og biður félagslíf fólksins úti um land allt í sveitum og við sjávarsíðu hinn mesta hnekki af þessu.

Í öðru lagi má á það benda, að þjóðleikhúsið, rekstrarsjóð þess, skortir alltaf fé. Á rekstri hússins verður verulegur halli frá ári til árs, og Alþ. hefur oft staðið uppi í töluverðum vanda með að leysa fjárþörf þessarar merku menningarstofnunar.

Þegar á allt þetta er litið, þá held ég, að naumast verði gengið á snið við þá staðreynd, að brýna nauðsyn beri til þess að endurskoða þessa löggjöf. Mér þykir ekki óeðlilegt, að núverandi hæstv. ríkisstj. þurfi að fá frv. eins og þetta í gegnum þingið á þessum tíma og framlengdar þær álagsheimildir, sem í því eru. En ég mundi telja það mjög vel farið, ef hæstv. menntmrh. gæti hér gefið eitthvert fyrirheit um það, að þessi margrædda endurskoðun þessarar löggjafar skyldi fram fara á næstunni.