18.12.1956
Efri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

90. mál, skemmtanaskattsviðauki

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég tek undir þakkirnar til hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar, sem hann hefur gefið hér, varðandi endurskoðun félagsheimilalaganna. En ég vil segja það í þessu sambandi, að það er ekki til neins að ætla sér að skipta skemmtanaskattinum til þess að fullnægja þörf félagsheimilanna og þjóðleikhússins. Það er langsamlega of lítið fé, sem þar er um að ræða. Ef á að haldast sú skipting, sem nú er, að þjóðleikhúsið fái þann hluta, sem það hefur haft, og félagsheimilin ekki nema 35%, verður að auka tekjur félagsheimilasjóðs á annan hátt handa félagsheimilunum. Það er útilokað annað, því að annars fer í sama öngþveitið, það hrúgast upp skuldir á félagsheimilin. Annars vil ég segja það, að ólíku er saman að jafna, félagsheimilunum og þjóðleikhúsinu. Allur sá halli, sem á rekstri þjóðleikhússins er, er tekinn úr ríkissjóði. Það er í heimildargrein fjárl. heimilt að greiða 450 þús. kr. halla á rekstri þjóðleikhússins. Félagsheimilin hafa engan slíkan sjóð upp á að hlaupa. Þau verða að sitja með skuldirnar og vonleysið og bíða eftir, að eitthvað úr rætist. Það verður að auka tekjur félagsheimilasjóðs.