18.12.1956
Efri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

90. mál, skemmtanaskattsviðauki

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur milli mín og þeirra tveggja hv. þm., sem talað hafa, um það, að sjá þarf bæði félagsheimilasjóði og þjóðleikhúsinu fyrir auknum föstum tekjum frá því, sem nú á sér stað. Skemmtanaskatturinn eða skemmtanaskattslöggjöfin, eins og hún hefur verið framkvæmd undanfarin ár, þ. e. a, s. með þeim undanþáguákvæðum, sem gilt hafa í framkvæmd, rís ekki undir eðlilegri fjárþörf félagsheimilasjóðs og þjóðleikhúss. Það var þess vegna, sem ég fól þeim þremur embættismönnum, sem ég bað að athuga þessi mál, alveg sérstaklega að rannsaka, hvort breyting á gildandi undanþáguákvæðum gæti aukið tekjurnar samkv. gildandi skemmtanaskattslögum. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir, mun ég svo eða rn., eins og ég gat um áðan, taka til athugunar, hvort þörf er á að breyta sjálfri grundvallarlöggjöfinni um skemmtanaskattinn.

Ég geri mér von um, að breytt framkvæmd á undanþáguákvæðunum muni auka skemmtanaskattstekjurnar eitthvað, en hversu mikið það mun verða, þori ég ekki að segja á þessu stigi málsins. En ef það reynist lítið, ef það reynist miklu minna en nemur eðlilegri viðbótarfjárþörf félagsheimilasjóðs og þjóðleikhúss, þá stendur það, sem ég sagði áðan, að þá mun ég beita mér fyrir því, að sjálf skemmtanaskattslöggjöfin verði endurskoðuð, til þess að sjá um, að skattstofninn skili auknum tekjum.

Hv. þm. N-Ísf. gat þess, að það yrði mikil breyting til bóta á starfsemi þjóðleikhússins, ef söngleikaflutningur yrði gerður að föstum lið í starfsemi þess. Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á, að samkv. gildandi lögum um þjóðleikhús er það fast hlutverk þjóðleikhússins að flytja söngleika og leikdansa, ballett, auk leiklistarflutningsins sjálfs, sem hingað til hefur að vísu verið aðalverkefni þjóðleikhússins. Það þarf því enga lagabreytingu til þess að telja söngleikaflutning vera eitt af hlutverkum þjóðleikhússins. Það á sér þegar stað nú, og söngleikar hafa verið fluttir þar reglulega öll undanfarin ár, Það er að vísu ekki alveg rétt hjá hv. þm., að óhætt sé að fullyrða, að söngleikaflutningurinn sé arðvænlegri en leiklistarflutningurinn, Nákvæm athugun, sem gerð hefur verið á því — en hana hef ég látið gera fyrir nokkru — leiðir það að vísu ekki í ljós. En ef rétt er reiknað, tel ég það alls ekki merg málsins. Ég tel, að það eigi alls ekki að leggja það sjónarmið á það, hvað flutt sé í þjóðleikhúsinu, hvað borgi sig bezt. Þar á hið listræna gildi að hafa meginþýðingu, og þjóðleikhúsið á, eins og það hefur gert, að hafa flutning söngleika reglulega á starfsskrá sinni, og ég tel, að söngleikaflutninginn eigi að auka. Það er einmitt af þeim sökum, sem ég vil nota þetta tækifæri til þess að skýra frá því, að það er einmitt af þeim sökum, sem fyrir nokkru hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að ráða fastan hljómsveitarstjóra að þjóðleikhúsinu, og fyrir valinu varð dr. Victor Urbancic, sem er öllum tónlistarunnendum að mjög góðu kunnur. Hann hefur fyrir hálfum öðrum mánuði verið ráðinn fastur starfsmaður þjóðleikhússins sem hljómsveitarstjóri þess, og var einmitt tilætlunin, að það væri fyrsta sporið í þá átt að tryggja aukinn flutning söngleika við þjóðleikhúsið. En án þess að við það starfi fastur hljómsveitarstjóri, er ekki unnt að vinna frekar að undirbúningi málsins. Ég tel því, að fyrsta sporið hafi þegar verið stigið með ráðningu hins fasta hljómsveitarstjóra, og tel val hans hafa tekizt mjög vel. Annað mun svo vonandi á eftir koma.