21.12.1956
Neðri deild: 42. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

6. mál, tollskrá o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er út af því ákvæði þessa frv., að tiltekið aukagjald á að leggjast á til þess að byggja tollstöð í Reykjavik. Ég verð að segja, að yfirleitt er það óheppilegt fyrirkomulag að vera að búta þannig sundur ríkistekjurnar og ráðstafa þeim með sérstökum lagaákvæðum. Í raun og veru er verið að fela fyrir mönnum, hvernig þeim er ráðstafað, í stað þess að láta þær allar koma fram á fjárlfrv. og síðan tæki Alþ. með samþykkt fjárlaga ákvörðun um það, hvernig þeim skuli varið. Þetta er miklu eðlilegri háttur.

En úr því að fjmrh. leggur áherzlu á, að svona skuli farið að, verður sjálfsagt ekki við því gert að þessu sinni, en ég vil þó spyrja hæstv. ríkisstj.: Telur hún, að það sé ekki eins brýn þörf á ýmsum öðrum opinberum byggingum hér í bænum og nýrri tollstöð? Er ekki alveg eins nauðsynlegt og í raun og veru tollinum til mikillar styrktar, ef lögreglustöð yrði komið hér upp? Ég hygg, að svo lélegur sem aðbúnaður tollsins sé, þá sé aðstaða lögreglunnar sízt betri.

Meðan ég var dómsmrh., reyndi ég — og lagði á það mikla áherzlu — að fá fé lagt til hliðar til lögreglustöðvarbyggingar, og tókst mér smám saman að fá, með meira eða minna góðfúslegu samþykki fjmrh., nokkurt fé lagt til hliðar í því skyni. Þar sem hann ætlar nú að verða svo stórtækur til tollstöðvarbyggingar og ber vott um hans örláta hug um þessar mundir, vildi ég beina því til hans, hvort hann mundi ekki fallast á það, að lagt verði annað prósent ofan á til þess að byggja lögreglustöð, þannig að þessar tvær höfuðlöggæzlustofnanir í bænum gætu nokkurn veginn fylgzt að.

Mér hefur ekki gefizt tími til þess að flytja um þetta brtt., en mun fara nokkuð eftir undirtektum hæstv. fjmrh., hvort ég tel það hafa þýðingu eða ekki.

En tilfellið er það, eins og ég hef komið að hér áður á Alþ. og rætt um við hæstv. fjmrh. hvað eftir annað, að ég held, að það verði ákaflega erfitt að koma á fullnægjandi tollgæzlu hér í bænum, nema með miklu nánara samstarfi lögreglu og tolls en verið hefur. Mín sannfæring er sú, að ein þarfasta umbótin í þessu væri sú að sameina tollgæzluliðið og lögregluliðið, annaðhvort að öllu eða mjög verulegu leyti. Ég hygg, að það sé á engan hallað, þó að það sé sagt, að ekki sé heppilegt, að sömu mennirnir séu áratugum saman tollgæzlumenn á sama stað og þurfi að umgangast þá, sem þeir eiga að hafa eftirlit með, með svo nánum kunningsskaparhætt.i sem hlýtur að skapast. Ég er ekki að drótta neinu óheiðarlegu að neinum manni með þessu, en það er óhjákvæmilegt, að þeir, sem við eiga að búa, fari að þekkja viðbrögð og starfshætti tollmannanna, eftir því sem þeir kynnast þeim, svo að þótt annað kæmi ekki til, er mjög óheppilegt, að sömu mennirnir þurfi ætíð að vera alveg á sama staðnum að annast þessi störf.

Í okkar litla þjóðfélagi er mjög erfitt að bæta úr þessu, nema með því að sameina fleiri starfsgreinar og gera þannig mögulegt að skipta örar um en fram að þessu hefur verið gert. Ég kem ekki auga á aðra heppilegri leið til þess en þá að láta lögreglu og toll að verulegu leyti sameinast. Það átti nú að athuga þetta nánar í viðræðum milli dómsmrn. og fjmrn. Ég veit ekki, hvað þeim hefur miðað áfram, eftir að ég hvarf úr ríkisstj., en ég þori að fullyrða þá meginstaðreynd, að eitt öflugasta ráðið til þess að bæta tollgæzluna er nánara samstarf við lögregluliðið, og þess vegna er það engan veginn sagt út í bláinn, heldur er það að verulegu leyti sama málið að bæta aðstöðu lögreglunnar hér í bænum og tollgæzlunnar, og ég efast um, að úr þessu verði bætt til hlítar, nema með því að þær nýju stöðvar verði að einhverju leyti sameinaðar. Það er ekki hægt að öllu leyti, en einhverju verulegu leyti.

Þessu vildi ég hér hreyfa til þess að á þessi atriði væri bent og sérstaklega óska eftir umsögn hins örláta hæstv. fjmrh. um það, hvort hann mundi nú ekki í öllu þessu skattaflóði vera mér sammála um það að bæta 1% ofan á, til þess að verulegur skriður gæti komizt á byggingu lögreglustöðvar.