19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það hefur nú verið lítill tími til þess að átta sig á þessu frv., svo að það, sem ég segi hér, verður meira almenns eðlis. Það verður ekki möguleiki á að kryfja þetta mál til mergjar að svo stöddu frá hagfræðilegu sjónarmiði, og veit ég, að það muni gleðja áheyrendur, því að ég er vondaufur um, að mér mundi takast öllu betur en kollega mínum, hæstv. menntmrh., að gera hagfræðina vinsæla meðal hv. þingmanna.

En að einu leyti er að mínu áliti ástæða til að fagna því, að þetta frv. hefur verið borið fram.

Þegar efnahagsvandamálin hafa verið á döfinni að undanförnu hér á hv. Alþingi, hefur því í rauninni verið neitað af stjórnarandstöðunni, sem var, að hér væri um raunveruleg vandamál að ræða. Að vísu hefur því ekki verið neitað, að gera þyrfti ráðstafanir, til þess að útgerðin bæri sig. En hins vegar hefur því verið haldið fram, bæði af kommúnistum og Alþfl.-mönnum, að allan vanda mætti leysa með ráðstöfunum, sem ekki snertu hag almennings, svo sem með skatti á gróða bankanna, olíufélaganna, vátryggingarfélaganna o. s. frv., auk þess sem hækka mætti afurðaverðið með því að afla nýrra markaða.

Þeim, sem hingað til hafa lagt trúnað á þennan áróður, hlýtur nú að bregða í brún, er þeir sjá þetta frv., þar sem gert er ráð fyrir nýjum álögum á almenning, sem nema á þriðja hundrað millj. kr. Það er eðlilegt, að þetta fólk spyrji sem svo, hvers vegna þær leiðir, sem fyrrv. stjórnarandstæðingar hafa áður bent á, séu nú ekki farnar, eftir að þeir eru komnir í stjórnaraðstöðu, heldur séu lagðar svo stórfelldar álögur á almenning. Hvers vegna er þessi skattur ekki tekinn af vátryggingarfélögunum, olíufélögunum, bönkunum o. s. frv. og að því leyti sem það ekki hrekkur til, þá sé aflað nýrra og betri markaða? Að vísu er gert ráð fyrir nokkrum skatti á vátryggingarfélög, banka o. s. frv., en þar er ekki um að ræða nema lítið brot af því fé, sem afla þarf.

Þeim, sem áður hefur því dulizt, að hér væri um raunveruleg vandamál að ræða, getur vart dulizt það lengur, og ætti slíkt að skapa grundvöll fyrir raunsærri umr. um þessi mál en hingað til hafa átt sér stað.

En í hverju er það nú, sem hið raunverulega vandamál er fólgið? Að mínu áliti er það fyrst og fremst í því, að framleiðslukostnaðurinn hér innanlands er hærri en svo, að útflutningsframleiðslan geti borið sig með því verði, sem fæst fyrir útflutningsafurðirnar, miðað við núverandi gengisskráningu og afurðaverð.

Það eru tvær leiðir, sem hægt er að fara til þess að leiðrétta þetta misræmi. Önnur er sú að færa nægilega niður framleiðslukostnaðinn innanlands, til þess að útgerðin geti borið sig að óbreyttu gengi og afurðaverði. Það er hin svonefnda verðhjöðnunarleið, eins og það hefur verið kallað. Hin er sú að hækka í einni eða annarri mynd verð það, sem útgerðin fær fyrir gjaldeyri sinn, þannig að nægi til þess að standa undir framleiðslukostnaðinum, en það þýðir lækkun á gengi íslenzku krónunnar. Eftir báðum þessum leiðum er hægt að framkvæma þá tekjuyfirfærslu til útgerðarinnar eða útflutningsframleiðslunnar, sem hæstv. ráðh. hafa talað um. Hins vegar kom mér það satt að segja dálítið ókunnuglega fyrir sjónir, þegar hæstv. menntmrh. talaði annars vegar um gengislækkunarleiðina, en hins vegar um tekjuyfirfærsluleiðina. Þær ráðstafanir, sem gerðar eru útflutningsframleiðslunni til hjálpar, hljóta alltaf að mínu áliti að hafa í för með sér einhvers konar tekjuyfirfærslu. En þetta atriði skiptir í sjálfu sér ekki svo miklu máli. Leiðin, sem valin hefur verið, er sú að hækka verðið á hinum erlenda gjaldeyri, og enda þótt ekki liggi fyrir upplýsingar um það, hve mikil niðurfærsla hefði þurft að eiga sér stað, til þess að útgerðinni yrði haldið uppi með því móti, þá tel ég víst, að ef fara hefði átt þá leið, þá hefði það valdið slíkri röskun á efnahagskerfinu, að slíkt hefði orðið lítt framkvæmanlegt, þá að ég skuli síður en svo fullyrða, að verðhjöðnunarleiðin hefði, a. m. k. þegar frá liði, haft meiri kjaraskerðingu í för með sér fyrir almenning en sú leið, sem raunverulega hefur verið farin, og meira að segja vissar líkur á hinu gagnstæða.

En gengislækkunina má framkvæma í ýmsum myndum og kalla hana ýmsum nöfnum. Í stað þess að tala um gengislækkun er auðvitað hægt að tala um bátagjaldeyri, gjaldeyrisskatt, yfirfærslugjöld, innflutningsgjöld o. s. frv. Það er ekkert atriði, hvaða heiti á að velja þessari ráðstöfun. En í öllum tilfellum hefur hún í för með sér minni kaupmátt peninganna gagnvart erlendum gjaldeyri og erlendum vörum, þ. e. a. s. lækkun á gengi krónunnar.

Þótt ég hafi á þeim stutta tíma, sem liðinn er, enga aðstöðu haft til þess að gera mér grein fyrir því, hver sé þörf útvegsins fyrir auknar tekjur, þá skal ég þó ekki draga í efa, að nauðsyn sé nokkurrar tekjuyfirfærslu, og samkv. framansögðu fellst ég einnig á það, að eftir atvikum sé hagkvæmara að fara gengislækkunarleiðina en niðurfærslu- eða verðhjöðnunarleiðina. En það, sem að mínu áliti skiptir mestu máli í sambandi við frv. það, er hér liggur fyrir, er það, hvort gengislækkunin í þeirri mynd, sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að framkvæma hana, sé sú leiðin til þess að framkvæma nauðsynlega aðstoð við sjávarútveginn, sem minnsta kjaraskerðingu hefur í för með sér fyrir almenning. Í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv. er enginn samanburður gerður við aðrar leiðir, sem til greina komi, og því miður er það svo, að enginn grundvöllur er fyrir hendi, sem hægt sé að byggja á útreikninga, er sýni niðurstöður, sem hægt sé að reiða sig á í því efni.

Eini mælikvarðinn á þróun heildarverðlagsins, sem við höfum, er vísitala framfærslukostnaðar, en grundvöllur hennar er algerlega úreltur. Hann er frá því í stríðsbyrjun, þegar neyzluvenjur fólks og fjárhagsafkoma var allt önnur en nú. Þó að vitað sé, að grundvöllur vísitölunnar sé úreltur, gæti hún þó gefið nokkra vísbendingu um verðlagsþróunina, ef ekki væri um markvissar aðgerðir að ræða í því skyni að láta hana sýna ranga mynd af verðlagsbreytingum, en eitt af því, sem augljósast er í sambandi við frv. þetta, er hin skipulagða og stórkostlega fölsun vísitölunnar sem mælikvarða á verðlagið, sem hér er verið að framkvæma, því að hver trúir því, að hægt sé að leggja 200 millj. kr. á vöru, sem almenningur kaupir, eða sem nemur 10 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu, án þess að verðlag hækki nokkuð? Sá maður mun varla til, sem sé svo skyni skroppinn, að hann sjái það ekki. En samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, er gert ráð fyrir því, að vísitalan muni ekki sýna meiri hækkun verðlagsins en um 1–2%, eftir að verðhækkanir þær, sem af ráðstöfununum leiðir, eru komnar fram.

Það skal að vísu fúslega viðurkennt, að sú synd að reyna að falsa vísitöluna var ekki borin inn í heiminn með núv. ríkisstj. En allar tilraunir í þá átt að falsa vísitöluna af hálfu fyrrv. ríkisstj. eru þó smávægilegar hjá því, sem nú er verið að gera. Hér eftir leggur enginn trúnað á vísitöluna sem mælikvarða á verðlagið.

Það er af því gumað í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv., að með þessum ráðstöfunum muni takast að stöðva verðbólguna. Það er auðvitað fráleitt, að 200 millj. kr. álögur, sem koma fram í hækkuðu vöruverði, stöðvi verðbólguna, en vísitalan á bara ekki að sýna neinar hækkanir.

Það er ekki hægt að lækna sjúkling af hitasótt með því að mölva hitamælinn, en það er í rauninni það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert í þessu efni. Sjúklingurinn hefur ekki læknazt af verðbólgusóttinni, en það, sem gert hefur verið, er, að hitamælirinn hefur verið eyðilagður. Mælikvarðinn á verðlagsbreytingarnar, sem vissulega var orðinn ónákvæmur fyrir, er nú eyðilagður, og það er engin von til þess, að launamenn og aðrir, sem fá kaup greitt samkv. vísitölu, sætti sig við þetta til lengdar.

En þótt vísitalan sé þannig óábyggileg, þá vekur það þó nokkra undrun, að í grg. hæstv. ríkisstj. skuli ekki birt neitt af niðurstöðum hinna margvíslegu útreikninga, sem gerðir eiga að hafa verið undanfarið til þess að komast að niðurstöðu um það, hvaða leið til úrlausnar vandamálum efnahagslífsins mundi hagkvæmust. Það hefur heldur ekki verið birt neitt af niðurstöðum hinna erlendu hagfræðinga, sem hæstv. ríkisstj. fékk til landsins í septembermánuði s. l. og talað hefur verið um í málgögnum hennar að skilað hafi ýtarlegu áliti. Þetta vekur nokkra undrun, ekki sízt af því, að ef ég man rétt, þá talaði hæstv. forsrh. um það á fundum í haust, að að þessu sinni mundu allar niðurstöður af þessum athugunum verða lagðar fyrir almenning, þegar tími væri til. Ég dreg ekki í efa, að þessir útreikningar muni verða birtir síðar, en eðlilegt hefði verið, að álitsgerð hinna erlendu hagfræðinga og aðrar athuganir, sem gerðar hafa verið í þessum efnum, væru einmitt lagðar fram jafnhliða þessu frv.

Það fer ekki, hvað sem þessu líður, milli mála, að á leið þeirri, sem hér er lagt til að farin verði, eru margir og stórir annmarkar. Ég fæ ekki betur séð en hér sé verið að innleiða það, sem kalla mætti margfalt gengi, þ. e. a. s. erlendur gjaldeyrir er seldur á mjög mismunandi verði eftir því, til hvers hann er notaður. Það má að vísu með nokkrum rétti segja, að inn á þá braut hafi verið gengið með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu svonefnda. Að vísu er það að mínu áliti nokkurt álitamál, hvort bátagjaldeyrisfyrirkomulagið hafi þýtt gengislækkun, og stendur það í sambandi við það sérstaka ástand á vörumarkaðinum, sem var, þegar þetta fyrirkomulag var tekið upp, að bátagjaldeyrisálagið var yfirleitt lagt á vörur, sem mjög lítill innflutningur hafði verið á þá að undanförnu og vörurnar þess vegna ekki fáanlegar nema á svörtum markaði. En þar var verðið svo hátt, svo að tekið sé alþekkt dæmi í þessu sambandi, verð á nælonsokkum, að þeir gengu kaupum og sölum á svörtum markaði á 70 kr. árið 1949, en nú munu sams konar sokkar ekki kosta meira en 35–40 kr. þrátt fyrir allar þær mörgu álögur, sem síðan hafa komið á þann varning, svo að vafamál var, hvort hægt væri að segja, að kaupmáttur peninganna hefði raunverulega minnkað gagnvart þessum bátagjaldeyrisvörum, sem höfðu áður verið að mestu ófáanlegar. En hvað sem því líður, hvort þeir annmarkar, sem á því eru að hafa fleira en eitt gengi, hafa að einhverju leyti verið fyrir hendi, áður en þessar till. voru komnar fram, þá er víst, að þessir annmarkar munu margfaldast, er þær koma til framkvæmda. En þessir annmarkar eru í því fólgnir, að reynt verður að samræma þessi mörgu gengi eftir ýmsum leiðum, smygl verður stórum arðvænlegra en nokkru sinni fyrr og erfiðara að hafa eftirlit með því. Framleiðsla svokallaðra lúxusvara nýtur vegna hins háa álags gífurlegrar tollverndar og dregur til sín vinnuafl og fjármagn, en atvinnurekstur, sem keppir við þær vörur, sem minnstar álögur hvíla á, verður ósamkeppnisfær. Jafnframt má gera ráð fyrir því, að hin ströngu verðlagsákvæði, sem gert er ráð fyrir, muni hafa í för með sér eflingu allrar þeirrar framleiðslustarfsemi, sem óframkvæmanlegt er að hafa verðlagseftirlit með. Framkvæmd þessa fyrirkomulags hlýtur líka að gera það nauðsynlegt, að komið sé á fót umfangsmiklu hafta- og eftirlitskerfi. Það vantar að mínu áliti alla grg. fyrir því, að þau úrræði, sem hér er stungið upp á, skerði lífskjör almennings minna en aðrar leiðir, sem til greina koma.

Það er ekki vafi á því, að hægt er að koma slíku jafnvægi á í efnahagsmálum, að hægt sé að afnema höft á innflutningsverzluninni, sem er eina raunhæfa leiðin að mínu áliti til þess að halda milliliðagróða í skefjum og ólíkt líklegri til árangurs en verðlagseftirlit. Það má í þessu sambandi minna t. d. á það ástand í verzlunarmálum, sem hér var ríkjandi fyrir 1930 eða áður en innflutningshöftin komu til sögunnar. Þá var það þannig, að fólkið sjálft gat eftir vild pantað vörur samkvæmt erlendum verðlistum, og ég veit um það, að jafnvel til sveita var það algengt, að fólk pantaði eftir verðlistum vörur frá Danmörku, jafnvel frá Frakklandi og víðar að. Þegar það er þannig, þarf enginn að skipta við millilið, nema hann telji sér það hagkvæmt. Telji fólkið, að of mikið sé lagt á vörurnar, þá útvegar það sér vörurnar sjálft, en skiptir því aðeins við milliliðinn, að það telji, að hann geti útvegað vörurnar með hagkvæmara verði en fólkið sjálft. Það er slíkt fyrirkomulag eitt, sem getur komið í veg fyrir það, að óhóflegur milliliðagróði í einni eða annarri mynd eigi sér stað. Verðlagseftirlit hlýtur alltaf að verða meira eða minna kák og lítils árangurs af því að vænta, en annars mun ég ekki ræða þá hlið málsins ýtarlegar í þessu sambandi.

Það er líka víst, að öllum vestrænum ríkjum, að undanteknum Íslendingum, hefur tekizt að koma slíku jafnvægi á hjá sér, að hægt er að hafa utanríkisverzlunina frjálsa. Ég hygg, að fyrirmyndin að slíku fyrirkomulagi, sem hér er lagt til að verði tekið upp, finnist ekki annars staðar en í fasistaríkjunum. Feður hugmyndanna um margfalt gengi voru Hitler og ráðunautar hans í efnahagsmálum. Fyrir stríð voru t. d. átta gengi á þýzka markinu. Fyrir fáum árum voru ein fjórtán gengi á pesetanum á Spáni, og Peron, fyrrv. einræðisherra Argentínu, fetaði einnig dyggilega í fótspor félaga sinna og kom á fót mjög flóknu kerfi gjaldeyrissölu og útflutningsuppbóta með margföldu gengi á argentíska pesosnum. En ekki hefur stjórn þessara herra verið talin til fyrirmyndar hvað lífskjör almennings snertir, og mun efnahagskerfi þeirra eiga þar mikla sök á.

Ég mundi vilja mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún leysti betur frá skjóðu sinni hvað snertir rökstuðning fyrir því, að gengislækkunin í þeirri mynd, sem hér er lagt til, sé sú ráðstöfun, sem skerði hag almennings minnst, og það gleður mig, að hæstv. menntmrh. talaði um það áðan, að hann væri reiðubúinn að gera grein fyrir því, hvers vegna þessi leið hefði verið farin, en ekki aðrar, og vænti ég þess því, að um þetta verði gefin nokkur skýrsla.

Það mundi að vísu koma mjög í bága við ríkjandi hugmyndir meðal hagfræðinga, ef það tækist að leggja fram fyrir því sannanir eða þótt ekki væri nema líkur, að þessi leið sé að því leyti hagkvæmari en aðrar leiðir, sem hugsanlegar væru, að hún skerði kjör almennings minna. En ef það tækist, þá mundi ég ekki eingöngu telja mig standa í þakkarskuld við hæstv. ríkisstj. fyrir þann aukna lærdóm, sem ég hefði öðlazt, heldur mundi ég telja, að sú þakkarskuld yrði bezt greidd með því að styðja þetta frv., sem mér og bæri skylda til, með tilliti til þeirrar siðferðislegu skyldu, sem ég tel að hvíli á hverjum þingmanni að taka afstöðu til málefna eftir sannfæringu sinni einni.