19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. er mjög ánægður með sjálfan sig og sínar gerðir og þá náttúrlega það frv., sem hér er til umr., og er nú ekki annað að heyra á þeim hæstv. ráðh., sem hér hafa talið í kvöld, en að þeir flytji hér nýjan boðskap, sem megi verði íslenzku þjóðinni til bjargar og sigurs, ekki aðeins nú, heldur í allri framtíð. Ég segi nú, ef þessir hæstv. ráðh. meina nokkuð af því, sem þeir hafa sagt hér í kvöld, þá er ekki mikils af þeim að vænta, meðan þeir sitja í ráðherrastóll. Ég býst reyndar við, að sumir af þeim séu það skynsamir, það raunhæfir í hugsun, að þeir viti betur en þeir hafa talað hér.

Það er vitað mál, að þetta frv., sem hér er til umr., er neyðarkostir. Það er verið að leggja á þjóðina 240 millj. í nýjum sköttum. Hæstv. sjútvmrh. sagði hér áðan: Þetta er nýbreytni, þetta er allt annars eðlis en unnið var að um s. l. áramót, — og það skal ég taka undir. Það, sem hér er lagt til, er að taka helmingi meira en þá var gert af alþýðu manna í þessu landi í neyzlusköttum, og það er orðið anzi lítið úr stóryrðum hæstv. viðskmrh. frá því í fyrravetur, þegar hann ætlaði að taka allt, sem útgerðin þurfti þá, af nokkrum aðilum, sem hann taldi að væru stórgróðafyrirtæki, og þá voru það olíufélögin, sem voru efst á blaði hjá honum. Nú hefur hann snúið alveg við, nú sér hann enga möguleika til þess að taka nokkurn hlut af olíufélögunum, ekki að taka af þeim, en hann hefur orðið til þess að rétta þeim fjárfúlgur, gefa einu olíufélaginu fjárfúlgur, kannske tugi milljóna, og það athæfi út af fyrir sig og þáttur hæstv. ríkisstj. í þessu olíumáli verður dæmdur hart af alþýðu manna í landinu. Stjórnarblöðin öll hafa reynt að afsaka það í fyrsta lagi, að olíufélögunum var neitað um að leigja skip, þegar þau gátu fengið það fyrir 120 shillinga, neitað um það, þangað til fragtirnar voru komnar upp í 220 shillinga. Þetta tjón, sem hæstv. ríkisstj. hefur bakað landsmönnum í heild með því að neita að leigja 15 þús. tonna skip fyrir 120 shillinga, nemur tæpum 4 millj. kr. Í öðru lagi hefur hæstv. ríkisstj. með því að leigja Hamrafellið í fjórar ferðir í fimm mánuði rétt að Olíufélaginu og eigendum Hamrafells 14–15 millj. kr. fram yfir það, sem skipið þarf að fá til þess að svara vöxtum, hæfilegri fyrningu og nokkrum aukagróða. Hér er líka talað um í grg. fyrir frv., að það þurfi 22 millj. á næsta ári til þess að greiða niður olíu, en það er hér um bil sú upphæð, sem hæstv. ríkisstj. hefði getað sparað þjóðinni, ef hún hefði haldið rétt á málum.

Það er alveg ótrúlegt, hvað veldur því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki notað heimild í lögum til þess að ákveða hámarksfragt á olíunni, eins og ákveðið er með önnur flutningsgjöld með skipum og flestum farartækjum í þessu landi, bæði á lofti og landi. Það er hlægilegt, þegar talað er um það, að hæstv. viðskmrh. hafi þrýst fragtinni niður í 160 shillinga, að hæstv. ríkisstj. hefur staðið í samningum við eigendur Hamrafells. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki staðið í samningum við stjórnendur Eimskips, hvorki á s. l. ári né á þessu ári, en það hefur verið ákveðið, að fragtirnar skyldu ekki hækkaðar, enda þótt Eimskipafélagið teldi, að það væri taprekstur með þessum flutningsgjöldum, sem því eru leyfð, og Eimskipafélagið ætti áreiðanlega kost á því að sigla erlendis með meiri gróða en að sigla fyrir Íslendinga, en stjórnendum Eimskips hefur aldrei komið til hugar að stinga upp á því. Mér þykir ólíklegt, að eigendur Hamrafells hafi látið sér detta slíkt í hug, og enn þá ólíklegra, að hæstv. ríkisstj. í heild hafi ekki gert sér ljóst, að hún gat ákveðið það, að Hamrafellið væri í þjónustu Íslendinga, og hún gat ákveðið það, að flutningsgjöldin skyldu miðuð við það, sem skipið þurfti að fá til þess að bera sig.

Þessi þáttur hæstv. ríkisstj. er harla einkennilegur, og það er kátlegt að heyra hæstv. viðskmrh. koma hér upp og halda ræðu til varnar þessu okri og dæmalausa hneyksli. Það væri freistandi, ef tími væri til, að lesa nokkuð upp úr ræðum þessa hæstv. ráðh. frá undanförnum þingum um olíumálin.

Hann talaði nú um það hér áðan, að fyrrv. ríkisstj. hafi alltaf leyft hækkun á olíu, hvenær sem farið var fram á það. Þetta eru alveg rakalaus ósannindi. Það er vitað mál, að olían hefur verið undir hámarksákvæðum, og á meðan ég var í stjórninni, var aldrei veitt heimild til frekari hækkunar á olíu en sannanlegt var að fragtir eða annar kostnaður hefði hækkað, enda var það innflutningsskrifstofan, sem fylgdist með þessu, og verðgæzlustjóri, þar sem olían var undir hámarksákvæðum. Og þegar hæstv. ráðh. var hér áðan að tala um hækkun á togaraolíunni um áramótin 1955 og 1956, þá má geta þess, að olíufélögin hækkuðu þá ekki olíuna eins og kostnaðurinn var. Fragtirnar höfðu hækkað um 120 kr. á tonn, innkaupsverðið hafði hækkað um 28 kr. á tonn, þetta gerir samtals 148 kr. á tonn, en hækkun á olíunni var 110 kr. á tonn, þannig að það vantaði 38 kr. á smálest, til þess að olíufélögin hækkuðu olíuna eins og hún hafði raunverulega hækkað, og ég skal viðurkenna, að það var vegna þrýstings frá viðskmrh. og verðgæzlustjóra, að ekki var farið hærra.

Sá grundvöllur, sem olíuverðið byggist á, er æði gamall, og ég spyr hæstv. viðskmrh.: Er það vegna þess, að ég vildi halda verndarhendi yfir olíuokri, að ég skipaði nefnd til þess að rannsaka rekstur olíufélaganna? Var það vegna þess, að ég vildi halda verndarhendi yfir olíuokri, að ég valdi flokksbróður hans, Ragnar Ólafsson, til þess að hafa forustu og formennsku í þessari nefnd? Ragnar Ólafsson var upptekinn á s. l. vetri við tvö stórmál, það var mál Helga Benediktssonar í Vestmannaeyjum og mál Gunnars Halls, og gat þess vegna ekki byrjað á olíurannsókninni fyrr en komið var fram á vor. Ég ætla nú, að þessi olíurannsókn sé nokkuð á veg komin, og ég vænti þess, að hæstv. viðskmrh., Lúðvík Jósefsson, sé nú ekki svo snúinn í huga sínum gagnvart olíufélögunum, að hann snúist gegn þessari n., ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að olíuverðið og sá kostnaður, sem olíufélögunum er ætlaður fyrir dreifingu, sé óþarflega hár. Það gæti þó hugsazt, að hæstv. ráðh. vildi verða verndari olíufélaganna í fleiri en einu tilliti, t. d. með því að rétta Olíufélaginu h/f nokkrar milljónir króna. Hann á eftir, til þess að gera ekki upp á milli olíufélaganna, að rétta eitthvað að hinum tveimur, Shell og B. P. Við skulum bíða og sjá, hvernig hann snýst við, þegar nál. kemur frá nefnd, sem flokksbróðir hans, Ragnar Ólafsson, er formaður í.

Hæstv. sjútvmrh. var hér áðan að tala um stóreignaskattinn. Það á að taka mikið af þeim stóru, það á að taka lítið af þeim fátæku, lítið af almenningi. Samt sem áður er gert ráð fyrir að taka 240 millj. í neyzlusköttum, í nefsköttum af allri alþýðu og almenningi í landinu. En hvað á að taka mikið af stórgróðamönnunum? Það á að taka 15 millj. á næsta ári. Og það er sennilega alveg í samræmi við það, sem þessi hæstv. ráðh. sagði hér á síðasta þingi. Ég er ekki kunnugur því, hvað skynsamlegt er að ganga í stórgróðaskattinum. Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi rannsakað það. En ég segi: Þegar hæstv. ríkisstj. talar um, að byrðarnar séu ekki lagðar á almenning í landinu, heldur á þá stóru, þá kemst ég ekki hjá að minna á þetta hlutfall. Það eru 15 millj. af þeim stóru, það eru 240 millj. af þeim, sem hafa veiku bökin. Það eru 1400–1500 af hverju mannsbarni í landinu, og þetta kemur þyngst niður á barnafjölskyldum og á þeim fátækustu. Ég segi: Þetta er köld kveðja frá þeim mönnum, sem hafa til þessa talið sig málsvara þeirra fátæku, verkalýðsins, þeirra, sem lægst eru launaðir. Það má segja, að hæstv. viðskmrh. hafi snúizt hugur í fleiru en einn, ekki aðeins gagnvart olíufélögunum, heldur einnig gagnvart sínum umbjóðendum og almenningi í landinn, því að nú hefur hann og þessir verkalýðsflokkar forustu um að leggja nefskatt á allan almenning í landinu. En hvers vegna er það, sem þarf nú að taka 240 millj. í nefsköttum? Hverjir bera ábyrgðina á því? Það væri freistandi að fara í uppgjör út af því máli. Í tilefni af því, að hæstv. sjútvmrh. sagði hér áðan: Hverjar eru till. Sjálfstfl.? — og talaði um till. Sjálfstfl. frá s. l. vetri með lítilsvirðingu, skal ég, að gefnu tilefni, rifja það upp, hverjar þær till. voru, og ég vil minna á, að ef farið hefði verið að ráðum okkar sjálfstæðismanna á s. l. vetri, þá þyrfti ekki að leggja þær byrðar á þjóðina, sem nú er ætlað að gera.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram till. um að greiða niður verðlagið og festa vísitöluna í 173 stigum. Við gerðum það til þess að tryggja, að þær aðgerðir, sem gerðar voru um mánaðamótin janúar og febrúar s. l., gætu komið að gagni.

Við höfðum gert okkur ljóst, að ef dýrtíðin væri látin halda áfram að hlaða utan á sig, þá voru þeir skattar, sem á voru lagðir við síðustu áramót, ekki til neins gagns. Þess vegna vildum við festa verðlagið í 173 stigum, og hvað hefði það kostað fyrir ríkissjóð? Hvað segir hagstofustjóri um það? Ég hef hér útreikninga hagstofustjóra og álit. Þetta álit birtist í blöðunum á s. l. vetri, og ég ætla ekki að eyða tímanum til þess að lesa það upp. Ég ætla aðeins að minna á það og aðeins segja, hver niðurstaðan var í útreikningum hagstofustjóra.

Hvað kostaði það ríkissjóð á árinu 1956 að halda vísitölunni í 173 stigum? Nettókostnaður ríkissjóðs, miðað við það, að byrjað væri að greiða niður 1. apríl, var 32.4 millj., og það er sennilegt, að það hefði verið skynsamlegra og eðlilegast að byrja þá. En ef byrjað hefði verið 1. júlí, hefði nettókostnaður orðið 27.1 millj. kr. En fyrir árið 1957 hefði þessi kostnaður orðið samkvæmt útreikningum hagstofustjóra 45 millj. kr.

Það sjá nú allir, að ef farið hefði verið að okkar ráðum, dýrtíðinni verið haldið í skefjum á þeim standpunkti, sem hún var, þegar samið var við útgerðina um s. l. áramót, þá er ljóst, að útgerðin hafði ekki aðstöðu til að krefjast miklu meira en samið var um við s. l. áramót, og hún hefði verið eins vel sett þá, þótt hún hefði ekki fengið öllu meira, eins og hún er nú, eftir að dýrtíðin hefur leikið lausum hala og ýmsir kostnaðarliðir hjá útgerðinni hafa stórum hækkað. Það hefði verið hægara að fá samkomulag og leggja á skatta til bjargar atvinnuvegunum sem svarar ¼ af því, sem núna er lagt til, en samkvæmt niðurstöðum hagstofustjóra hefði mátt ætla, að það hefði nægt, ef núverandi stjórnarflokkar hefðu viljað hlusta á till. okkar og fara eftir þeim. En þeir gerðu það ekki. Þeir reyndu að gera grín að því. Þeir sögðu t. d., að það væri aðeins einn viðskmrh. í heiminum, sem vildi greiða niður vísitöluna. Þeir sögðu, að þessar till., sem við bárum fram, væru aðeins bráðabirgðaúrræði. Framsfl. sagði, að það væri ekki hægt að leysa efnahagsvandamálið með sjálfstæðismönnum, það yrði að leita til umbótaaflanna í landinu. Það var fyrst og fremst Alþfl., og með aðstoð Alþfl. átti að leysa allan vanda, því að mig minnir, að svardagarnir um það, að ekki skyldi mynduð stjórn með kommúnistum, hafi byrjað strax í fyrravetur. En ákafast var þó svarið fyrir kosningarnar, að það kæmi aldrei til, að Hræðslubandalagið myndaði stjórn með kommúnistum. En það munaði nú ekkert um að svíkja þetta í trausti þess, að kjósendur gætu gleymt og fyrirgefið. Í stað þess að hlusta á till. okkar sjálfstæðismanna og ljá þeim fylgi var efnt til kosninga og stefnt að vinstra samstarfi. Vísitalan var látin hækka, dýrtíðin hækkaði vegna kosninganna og þess, að Framsfl. hafði hlaupið frá allri ábyrgð.

Þegar loks verðfestingarlögin, brbl., koma, hafði vísitalan hækkað úr 173 upp í 184, og er nú komin upp í 186 stig þrátt fyrir verðfestingarlögin. Í sambandi við þetta hækkuðu ýmsir útgjaldaliðir atvinnuveganna, útgerðarinnar, landbúnaðarins, iðnaðarins o. s. frv. Núverandi ríkisstj. hækkaði styrk til togaranna sem svaraði 15 aurum á hvert kg, hækkaði styrk til síldveiða við Faxaflóa, hækkaði styrk vegna karfans, og afleiðingin af því er, að nú vantar 21 millj. í framleiðslusjóð, til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar hvað snertir þetta ár.

Hæstv. núverandi ríkisstj. og stjórnarflokkar bera ábyrgðina á því, að nú er talið nauðsynlegt að leggja drápsklyfjar á þjóðina. Þeir kalla þetta frv. og þær till., sem í því felast, sennilega ekki bráðabirgðaúrræði, kalla það bjargráð og segja: Nú á dýrtíðin ekki að hækka, kaupmáttur krónunnar á ekki að minnka, og það er ekki til þess að auka virðingu okkar alþm. fyrir hagfræðinni, þegar hagfræðingurinn, hæstv. menntmrh., fullyrðir hér áðan, að þetta séu varanlegar aðgerðir, að álögur upp á 240 millj. kr. auki ekki dýrtíðina og minnki ekki kaupmátt launanna.

Ef þetta er hagfræði, þá held ég, að það brjóti alveg í bága við heilbrigða skynsemi, og þá getum við hefur þakkað fyrir það að vera ekki hagfræðingar, ef þeir freistast til þess að halda slíku fram.

Hæstv. ríkisstj. lofaði því að koma með varanlegar leiðir í efnahagsmálunum. Þeir hafa að vísu nú á þessu hausti og á þessum vetri talað aðeins um þrjár leiðir, þ. e. gengislækkun, niðurgreiðslu eða hækkaðan bátagjaldeyri. Fjórðu leiðina, þessa varanlegu, sem þeir lofuðu að þjóðin gæti fengið fyrir kosningarnar og rétt eftir að stjórnin var mynduð, virðast þeir ekki hafa fundið. Að fullyrða það, sem þeir hafa gert hér í þessum umr., að komið hafi verið í veg fyrir gengislækkun, er vitanlega hrein fjarstæða. Skyldi það ekki vera gengislækkun að ákveða 16% gjaldeyrisskatt á flestar vörur, eins og þetta frv. boðar? Undanþegnar þessum gjaldeyrisskatti eru útgerðarvörur, fóðurbætir, áburður og fátt annað. Að fullyrða, að ekki séu lagðir nýir skattar á brýnustu nauðsynjar, er vitanlega hrein fjarstæða einnig. Skyldi byggingarefnið ekki vera nauðsynjavara? Hvað mundi þeim finnast, sem ekki hefur enn eignazt þak yfir höfuðið, og hvað mundu þessar nýju álögur hæstv. ríkisstj. á byggingarkostnað hækka t. d. þriggja herbergja íbúð mikið?

Það má segja, að núverandi hæstv. ríkisstj. hafi verið þörf almenningi í landinn í húsnæðismálunum. Hún hefur gefið út brbl. um fjölgun húsnæðismálastjórnar úr fimm upp í sjö, og hún hefur með þessu frv. boðað stórfellda hækkun á byggingarefni, en hún hefur ekki útvegað fé til bygginga. Þetta á víst að vera öruggt ráð til þess að draga úr fjárfestingu, til þess að draga úr gjaldeyriseyðslu fyrir byggingarefni, og ég hygg, að hæstv. ríkisstj. sé alveg á réttri leið með það að draga úr fjárfestingu og framkvæmdum með þessum hætti, því að þeir munu verða færri, sem treysta sér til að byrja á því að byggja íbúð yfir sig, og margur bóndinn mun verða að fresta því að byggja peningshús, heyhlöður og annað, sem nauðsynlegt er að byggja, vegna þess, hvað byggingarefnið hækkar mikið í verði.

Það er kannske ekki nauðsynlegt að hafa heimilistæki, búsáhöld og öll verkfæri, sem eru stórhækkuð samkvæmt þessu frv. Og af því að ég fékk ekki vörulistann fyrr en seint í kvöld í matartímanum, nokkuð af honum, hef ég ekki getað lesið hann svo nákvæmlega, að ég nefni hér allar þær nauðsynjavörur, sem eru stórkostlega hækkaðar samkvæmt þessu frv., — nauðsynjavörur, sem allur almenningur verður að kaupa og nota daglega, enda eru 2/3 af innflutningnum eða rúmlega það skattlagðir til stórfelldrar hækkunar frá því, sem verið hefur.

Það er undarlegt, þegar hæstv. ráðh. koma hér hver á eftir annan og segja, að brýnustu nauðsynjar almennings séu ekki skattlagðar, en stórgróðinn verði skattlagður seinna. Það eru 15 millj., sem á að taka á næsta ári af þeim ríku, en það á að taka 240 millj. og það strax af þeim fátæku, og ég verð að segja, að það er vel í ístaðinu staðið hjá forustumönnum verkalýðsflokkanna, sem svo hafa kallað sig, og vel séð fyrir hagsmunum þeirra smærri í þjóðfélaginu.

Ég held, að það sé nú ekki öllu fleira, sem ég þarf að segja við hæstv. viðskmrh. En mig langar að gefnu tilefni að víkja nokkuð að því, sem hæstv. menntmrh. sagði hér í kvöld. Hann var að tala um arfinn frá fyrrv. ríkisstj., hvernig það hefði verið að setjast í búið, eins og var við það skilið, og hann var að tala um greiðsluhalla við útlönd og gjaldeyrisstöðuna. Það er eins og þessi hæstv. ráðh. telji, að fyrrv. ríkisstj. hafi tekið við gjaldeyrissjóðum, hún hafi setzt í svo gott bú, en haldið illa á.

Ég vil minna á, hvernig gjaldeyrisstaðan var, þegar fyrrverandi ríkisstj. tók við, en framsóknarmenn hafa talið, að þá hafi þjóðarskútan siglt í sléttum sjó, þá hafi allt verið í lagi í gjaldeyrismálunum. En ef við berum þetta saman, hver er þá samanburðurinn? Hann er sá, að nettóskuld bankanna 30. apríl 1953 var 40 millj. kr., en nettóskuld bankanna 30. apríl 1959 var 28 millj., eða 14 millj. lægri. En hvernig var svo þetta í júlílok 1953? Þá er nettóskuld bankanna ekki nema 19.9 millj., en 39.9 millj. í júlílok s. l., þegar fyrrverandi ríkisstj. fer frá. En það þarf að segja meira. Útflutningsbirgðir í júlílok 1953 voru 324 millj., en 425 millj. í júlílok s. l., eða 101 millj. kr. meiri. M. ö. o.: Aðstaða þjóðarbúsins út á við hafði batnað í tíð fyrrv. ríkisstj., á þriggja ára tímabili, um 82 millj. kr.

Ég held, að það væri hollt fyrir hæstv. menntmrh. að skrifa þessar tölur hjá sér. Gæti hann þá komizt hjá því að fara oftar með slíkar fjarstæður sem hann gerði hér áðan.

Hann var að tala um, hvernig það hefði verið um áramótin síðustu, þá hefði greiðsluhallinn verið nærri 150 millj. kr. Hann gleymdi að geta þess, að útflutningsbirgðir við s. l. áramót höfðu aukizt um 94.6 millj. kr. frá því um næstu áramót á undan. Við skulum vona, að útkoman verði eitthvað betri við næstu áramót en við síðustu. Þess vildi ég óska. En ekkert bendir til, að afstaða bankanna við útlönd fari batnandi. Í októberlok 1955 var nettóskuld bankanna 48 millj. kr. Í októberlok s. l. var nettóskuld bankanna 98 millj. kr., hafði aukizt um 50 millj. kr. Og eftir því, sem ég hef komizt næst með afskipanir og útflutning núna síðustu vikurnar, þá skilst mér, að birgðir í landinu nú séu minni en þær voru við síðustu áramót. Þetta kemur að vísu allt gleggra í ljós næstu vikurnar, en mér skilst það eftir þeim fregnum, sem ég hef fengið, að útflutningsbirgðirnar muni verða minni en á sama tíma í fyrra, og þá eru líkur til, að gjaldeyrisstaðan verði mun verri en við s. l. áramót — því er nú verr — þrátt fyrir stóraukna framleiðslu.

En með því að leggja svo þunga skatta á þjóðina og rýra kaupmátt krónunnar jafnmikið og boðað er með þessu frv., þá getur hugsazt, að hæstv. ríkisstj. takist að vinna bug á greiðsluhallanum við útlönd. Ef fólk hefur svo litla fjármuni í buddunni, að það geti ekki keypt, þá minnkar eftirspurnin eftir innfluttum varningi. Og ef dregið verður úr framkvæmdum og fjárfestingu vegna þess, hvað byggingarefnið er dýrt, þá minnkar einnig eftirspurnin eftir vinnuaflinu, eftirvinnan verður afnumin og tekjur manna minnka. Hæstv. ríkisstj. virðist hafa komið auga á þetta, að minnka atvinnuna og minnka tekjur manna, að hækka vöruverðið með stórauknum tollum og sköttum og þannig á tvennan hátt að minnka eftirspurnina eftir innfluttum varningi. Stjórn hinna vinnandi stétta hugsar sér á þennan hátt að minnka eftirspurnina eftir innfluttum vörum og bæta gjaldeyrisaðstöðuna.

Ég hafði hins vegar hugsað mér, að það væri heilbrigðara og það væri betra fyrir allan almenning í landinu að halda þeirri stefnu, sem fyrrverandi ríkisstj. hélt, að auka atvinnutækin og framleiðsluna, auka útflutningsverðmætin um 100 millj. kr. á ári, eins og fyrrverandi ríkisstj. gerði. Og það er enginn vafi á því, að með því að halda þeirri stefnu má takast að vinna bug á gjaldeyrisskortinum, og það er hin heilbrigða stefna. Hitt er sveltistefna, kreppustefna, sem ekki er sæmandi í því þjóðfélagi, sem við búum í, og í því landi, sem við lifum í, með jafnmikla möguleika og það á ónotaða.

Eitt er það, sem þetta frv. boðar og er fagnaðarerindi hæstv. ráðherra, sem hér hafa talað, það er verðlagseftirlitið, og er það, sem þeir segja að við sjálfstæðismenn séum sérstaklega hræddir við og höfum ótta af. Hvers vegna ættum við að óttast verðlagseftirlit frekar en þeir? Skyldu ekki milliliðirnir vera víðar en í Sjálfstfl.? Eða er það meiningin að taka hér upp gömlu stefnuna, hlutdrægnisstefnuna, sem notuð var í ríkum mæli á árunum 1934–39, þegar höftunum var beitt alveg sérstaklega gegn vissum aðilum og vörunum, sem voru skammtaðar, var beint að þeim, sem voru taldir verðugir og fylgdu stjórnarflokkunum? Ég hefði nú hugsað mér, að núverandi stjórnarflokkar væru vaxnir upp úr því siðferði og byðu ekki landsmönnum upp á slíkt aftur.

Við höfum reynsluna af verðlagseftirliti. Það var verðlagseftirlit hér, og það strangt, 1947 og 1949, undir sérstakri stjórn og forustu Alþfl. Það hefur aldrei verið strangara, og það verðlagseftirlit, sem hér er boðað, verður tæplega strangara en það, sem þá var. En hvernig voru verzlunarkjörin þá? Þau hafa aldrei verið aumari í þessu landi en þá. Og þá var það, sem haftakerfið ríkti, eins og þetta frv. boðar að nú skuli koma. Afleiðing haftakerfisins er vöruskorturinn, eins og reynslan hefur sýnt okkur. Afleiðing vöruskortsins er svarti markaðurinn og biðraðirnar.

Ég held, að það sé hreinn misskilningur hjá hæstv. ráðherrum að óttast það, að við sjálfstæðismenn séum hræddir við verðlagseftirlit. Við höfum hins vegar gert okkur fulla grein fyrir því, að það kemur ekki að gagni til þess að bæta lífskjör fólksins í landinu. Það er ekkert, sem dugir í verðlagsmálunum, annað en að það sé nægilegt vöruframboð, að það sé vöruframboð og úrval og að fólkið sjálft geti gengið milli verzlananna og keypt þar, sem vöruverðið er lægst.

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) minntist á það hér áðan, að a. m. k. framsóknarmenn hafa haldið því fram, að kaupfélögin væru trygging fyrir því, að vörurnar væru seldar með sannvirði, að kaupfélögin héldu uppi þeirri samkeppni í landinu, að það væri öruggt, að ekki væri okrað á vörunum. En eins og hv. 2. þm. Eyf. benti hér á áðan, virðist það svo, að hæstv. ríkisstj. vantreysti kaupfélögunum og Sambandinu til þess að standa þannig í ístaðinn, að það haldi verðinu niðri. Er svo komið, að kaupfélögunum sé ekki treystandi til þess að skapa það aðhald, sem framsóknarmenn og ýmsir fleiri stjórnarsinnar hafa áður haldið fram að þau gætu gert? Ef kaupfélögin nytu trausts, væri verðlagseftirlitið algerlega óþarft.

Ég man ekki eftir því, að það væri fleira, sem hæstv. menntmrh. talaði hér um í kvöld og ég tel ástæðu til að svara.

Í sambandi við þessa skatta er það að segja, sem áður hefur verið minnzt á, að ríkissjóður á að fá 20% af þeim, en útflutningsframleiðslan 80 prósent.

Það er sýnilegt, að fjárlögin muni hækka á næsta ári um 100 millj. kr., og virðist það vera nokkuð fastur ásetningur hæstv. fjmrh. að láta það ekki bregðast, að fjárlögin hækki svo mikið. Ef til vill er það vegna þessarar ágætu fjármálastjórnar, sem alltaf er verið að guma af, að fjárlögin hoppa svona upp. Og eins og ég sagði við hæstv. fjmrh. hér áðan, þegar við vorum að drekka kaffið, þá munu fjárlögin komast upp í einn milljarð kr., ef honum endist tími til að vera fjmrh. næstu tvö árin. Það má kannske ætla, að það sé spor í þá átt að efla verðgildi krónunnar og vinna gegn verðbólgunni, eins og skilja mátti á sumum ráðherrum hér áðan að þetta frv. gerði. Ég held, að bæði frv. og stefna hæstv. fjmrh. miði örugglega að því að minnka verðgildi krónunnar, að hér sé á ferðinni sú stærsta gengislækkun, sem nokkurn tíma hefur átt sér stað, en aðeins í öðru formi en þegar skráningu krónunnar er breytt gagnvart erlendum gjaldeyri.

Hæstv. ríkisstj. er ánægð með gerðir sínar. Svo er að heyra. Hræðslubandalagið er ánægt með að hafa svikið það, sem það sór fyrir við síðustu kosningar, að það skyldi ekki mynda stjórn með kommúnistum. Það ætlast til, að kjósendur í landinu gleymi og fyrirgefi. Allir stjórnarflokkarnir sóru það fyrir kosningar, að varnarliðið skyldi fara úr landi, og því var mjög hampað, að við sjálfstæðismenn værum landráðamenn, af því að við vildum hafa varnarliðið áfram um sinn. Stjórnarflokkarnir hafa svikið þetta. Þeir ætlast til, að kjósendur gleymi þar einnig og fyrirgefi. Stjórnarflokkarnir lofuðu því, að þeir skyldu leysa efnahagsvandamálin á varanlegan hátt og alveg forðast bráðabirgðaúrræði sjálfstæðismanna. En með þessu frv., sem útbýtt var í gær hér í hv. deild, eru allir sannfærðir um, að stjórnarflokkarnir hafa einnig svikið þar. Er þá ljóst, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafa svikið allt, sem máli skiptir af því, sem þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar.

Ég hefði haldið, að hæstv. ríkisstj. væri nokkuð ósamstæð, og ég hef jafnvel heyrt, að stundum hrikti í á stjórnarheimilinu. En það er eitt, sem getur haldið þessari ríkisstj. saman enn þá þrátt fyrir ágreining, og það er hræðslan við fólkið, það er hræðslan við kjósendurna. Það er vitað mál, að ef fólkið á Íslandi fengi nú að láta skoðun sína í ljós, þá yrðu núverandi stjórnarflokkar í minni hluta með þjóðinni, og ég hygg, að hv. stjórnarflokkar hafi gert sér þetta ljóst og að þeir hafi þess vegna ekki manndóm til þess að gera það, sem réttast er, og það, sem hv. þm. G-K. (ÓTh) benti hér á í kvöld, það er að játa, að þeir hafi gefizt upp við að leysa vandamálin, að viðurkenna, að þeir hafi ekki getað staðið við það, sem lofað var. Það væri heiðarlegt. Það væri manndómur. En hræðslan við fólkið og manndómsleysið mun ráða gerðum þessara manna. Þess vegna hygg ég, að þeir reyni að lafa saman, þangað til andúð alls þorra manna í landinu verður það augljós og opinber, að þeir neyðast til að yfirgefa stólana. Og ég hygg nú, að þótt við fáum ekki kosningar í vor, og kjósandinn í þessu landi, sem hefur verið blekktur, fái ekki að leiðrétta atkvæðaseðilinn í vor, þá verði ekki langt að bíða, að þeim flokkum, sem staðið hafa að ranglætinu og svikunum, verði refsað af íslenzkum kjósendum við kjörborðið.