20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur skoðað frv. og rætt um það á tveim fundum í dag, og hv. fjhn. Ed. hefur tekið þátt í athugunum málsins með fjhn. þessarar deildar.

Ekki eru allir nm. á eitt sáttir um afgreiðslu málsins. Meiri hl., 3 nm., skilar áliti á þskj. 168 og mælir með því, að frv. verði samþ., en 2 nm. lýstu sig andvíga frv. og skila séráliti.

Meiri hl. flytur brtt. við frv. á þskj. 169, og vil ég fara um þær nokkrum orðum.

Fyrsta brtt., við 2. gr., er aðeins leiðrétting á nafni eins félags.

Önnur brtt., við 4. gr., er flutt eftir tilmælum hæstv. sjútvmrh. Þar er lagt til, að daggreiðslur til togara á svonefndum ísfiskveiðum, þegar landað er erlendis, hækki úr 3500 kr. í 4000 kr.

Brtt. við 7. og 8. gr. frv. eru einnig fram bornar eftir tilmælum hæstv. sjútvmrh. Fyrri brtt., við 7. gr., er til nánari skýringar á ákvæði greinarinnar. — Síðari brtt. við 7. gr. er til leiðréttingar á prósentutölu. — Fyrsta brtt. við 8. gr. er leiðrétting á nafni sjóðsins, sem frv. fjallar um. Hinar þrjár brtt. við þá gr. snerta prósentutölur, sem nefndar eru í greininni. Mun hafa komið í ljós við endurskoðun á útreikningum, að breyta þarf tölunum á þann hátt, sem lagt er til í brtt.

Brtt. við 15. gr. er flutt samkv. beiðni hæstv. ríkisstj. Með brtt. er ríkisstj. veitt heimild til að undanþiggja nauðsynleg skipagjöld erlendis yfirfærslugjaldi að einhverju eða öllu leyti. Mun brtt. flutt m. a. með hliðsjón af því, að samkv. b-lið 16. gr. frv. eru skipaleigur undanþegnar yfirfærslugjaldi.

Brtt. við 18. og 19. gr. eru ekki efnisbreytingar, aðeins lagfæringar á orðalagi.

Brtt. við 28. gr., sem felur í sér undanþáguheimild, er flutt eftir tilmælum hæstv. ríkisstj. Hafa þá verið nefndar þær brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur.

Ég mun ekki ræða mikið um einstök atriði í þessu frv., vil þó aðeins minnast á 5. gr. þess. Í henni er ákvæði um eins árs greiðslufrest á afborgun lána, sem stofnlánadeild sjávarútvegsins og ríkissjóður hafa veitt til kaupa á togurum. Slíkur greiðslufrestur hefur áður verið veittur togaraútgerðarfyrirtækjum, síðast í lögum um framleiðslusjóð, er sett voru í næstliðnum janúarmánuði. Mér sýnist, að það geti verið varhugavert að veita þannig greiðslufrest á stofnlánum ár eftir ár. Fiskiskip eru tæki, sem ganga úr sér. Þegar rekstraráætlanir fyrir útveginn eru gerðar, þarf að telja með gjöldum hæfilega fyrningu á skipunum, og meðan eitthvað er ógreitt af stofnlánum eða upphaflegu kaupverði skipanna, þarf fyrningargjaldið að ganga til lækkunar á slíkum skuldum. Sé þessa ekki gætt, en látið hjá líða að reikna hæfilegt fyrningargjald og lækka stofnskuldir sem því nemur, er verið að veita óeðlilegum byrðum yfir á framtíðina. Það hlýtur að verða örðugt fyrir útgerðarfyrirtækin að endurgreiða stofnlánin, þegar svo er komið, að skipin eru orðin gömul og viðhald þeirra kostnaðarsamt. Afleiðingin af greiðslufresti ár eftir ár gæti því orðið sú, að þau lán, sem tekin voru til greiðslu á kaupverði skipanna, verði ógreidd að verulegu leyti, þegar skipin eru orðin það gömul, að þau eru lítt eða ekki nothæf. Það er talið, að margir togarar hafi á þessu ári verið reknir með verulegu tapi. Hefur því sennilega verið talið óhjákvæmilegt að veita enn slíkan greiðslufrest, en þetta, að taprekstur hefur verið hjá togurunum, sýnir, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru með lögunum um framleiðslusjóð fyrir u. þ. b. 11 mánuðum, hafa reynzt alveg ófullnægjandi fyrir þann atvinnuveg.

Þess er nú að vænta, að þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar viðkomandi útgerðinni, bæti svo fyrir togararekstrinum m. a., að ekki þurfi á næstu árum að grípa til þess neyðarúrræðis að fresta afborgunum stofnlána.

Það er ekki nýtt í sögu Alþ., að nálægt áramótum séu þar til skoðunar og lögfestingar frumvörp um opinberar aðgerðir til þess að tryggja áframhaldandi framleiðslustarfsemi landsmanna. Eitt slíkt mál var afgreitt á síðasta Alþ. seint í janúarmánuði, og vegna þess, hvað það var seint á ferð í þinginu, var litið um sjósókn í verstöðvunum í janúarmánuði 1956. Hefur að sjálfsögðu orðið af því tjón fyrir þjóðfélagið.

Nú er hins vegar að því stefnt, að það mál, sem hér er á dagskrá, fái fullnaðarafgreiðslu næstu daga, svo að sjávarútvegurinn þurfi ekki að stöðvast um áramótin. Horfir því betur nú í þessu efni en fyrir ári.

Það er eftirtektarvert, að við undirbúning þess frv., sem hér liggur fyrir, hefur hæstv. ríkisstj. haft samráð og samvinnu við fjölmennustu stéttasamtökin í landinu. Þetta er nýjung, og er ástæða til að vænta þess, að vegna samstarfs þeirra aðila við ríkisstj. um úrlausnir í efnahags- og atvinnumálunum verði beitt og varanlegri árangur af lagasetningunni heldur en áður hefur verið.

Það hefur komið fram, eins og vænta mátti, að ekki eru allir sammála um þetta frv. í heild eða einstök ákvæði þess. Menn tala um ýmsar leiðir í efnahagsmálunum. Oft heyrist um það rætt, að þrjár leiðir komi einkum til álita, þ. e. gengisbreyting, svonefnd verðhjöðnunarleið eða niðurfærsluleið og uppbótaleið. Rétt mun það, að ríkisafskiptin af þessum vandamálum geta verið með mismunandi móti, en ekki hefði mér þótt óeðlilegt, að áður en farið er að tala um það, hvernig ríkisvaldið eigi að haga afskiptum sínum af málinu, væri íhugað, hvort löggjafarþing og ríkisstj. eigi að blanda sér svo mjög í þessi mál sem gert hefur verið um alllangt skeið. Mér sýnist, að hér geti verið um tvær leiðir að ræða, a. m. k.fræðilega séð, þ. e. annaðhvort afskipti eða afskiptaleysi löggjafarvaldsins og ríkisstj. af viðskiptamálunum. Ef menn vildu hætta íhlutun hins opinbera af þessum málum, þá mundi það gerast með þeim hætti, að hömlum væri létt af atvinnu- og viðskiptafyrirtækjum. Þá væri numin úr lögum skylda útflytjendanna til þess að afhenda bönkunum erlendan gjaldeyri, sem þeir fá fyrir vörur sínar, fyrir lögákveðið verð. Þeir gætu þá verzlað með hann sjálfir, frjálsir og óhindraðir. Þá yrði einnig aflétt öðrum hömlum af útflutningsverzluninni og innflutningsverzluninni o. s. frv. En það hefur ekkert verið minnzt á þennan möguleika á undanförnum árum, a. m. k. man ég ekki eftir því.

Einn af stjórnmálaflokkunum hér á landi nefnist Sjálfstfl., sem kunnugt er. Hann segist hafa frjáls viðskipti á stefnuskrá sinni svo og sem mest athafnafrelsi allra landsmanna í atvinnumálum. Flokkur þessi hefur verið þátttakandi í ríkisstj. mörg undanfarandi ár, en ég minnist þess ekki, að hann hafi á þeim tíma beitt sér fyrir því frelsi í viðskipta- og atvinnumálum, sem ég hér hef nefnt. Hann hefur ekki, svo að ég muni, flutt neinar till. um slíkt, virðist því öðrum stjórnmálaflokkum hér sammála um, að ríkisafskiptin í viðskipta- og atvinnumálum séu þjóðinni hagkvæmari en fullkomið frelsi.

Það má gera ráð fyrir, að ríkisafskiptin haldi áfram. Enginn hefur hreyft andmælum gegn því, og ég ætla ekki að bera fram till. um, að ríkisvaldið hætti að skipta sér af þessum málum, a. m. k. ekki í kvöld, enda þyrfti það mál verulega athugun og undirbúning. Það er höfuðnauðsyn, að framleiðslustarfsemin geti haldið áfram, bæði framleiðsla á vörum til útflutnings og einnig til innanlandsnotkunar. Til þess að það geti orðið, þarf að búa svo að framleiðslunni, að þeir, sem við hana starfa, hafi ekki lakari afkomu en aðrir menn í þjóðfélaginu. Hafi þeir minna fyrir sitt erfiði en eðlilegt má teljast, m. a. vegna þess, að gjaldeyrir er tekinn af þeim fyrir lægra verð en kostnaðarverði hans nemur, þá þarf að gera þar á lagfæringar.

Frv., sem hér liggur fyrir, er fyrst og fremst um þetta.

Vegna þess, hvað ríkisvaldið hefur nú á tímum mikil afskipti af atvinnumálunum, af öflun tekna og skiptingu þeirra, þá má vel líta svo á, að það sé skylda valdhafanna að hlutast til um það, að þjóðartekjurnar deilist svo réttlátlega milli landsmanna sem unnt er.

Ríkisstj., sem styðst við fjölmennustu stéttasamtökin í landinu, hefur að því er virðist betri aðstöðu en aðrir til að koma tekjuskiptingunni sanngjarnlega fyrir.

Mér sýnist, að það ætti að vera eitt af viðfangsefnum núverandi ríkisstj. að láta fram fara ýtarlega rannsókn á því, hvernig tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu er nú raunverulega fyrir komið, og vinna síðan að því, að samkomulag náist um þær lagfæringar í því efni, sem gera þarf að beztu manna yfirsýn.