20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það stórmál, sem hér er til umr., er án efa eitt alvarlegasta og þýðingarmesta mál, sem ætla má að komi fyrir það Alþingi, sem nú situr. Það er þess vegna ekki neitt undarlegt, enda þótt málið sé ekki nýtt, að það séu verulega skiptar skoðanir um afgreiðslu þess.

hæstv. ráðh., sem hér var að ljúka máli sínu, hæstv. núverandi og fyrrverandi fjmrh., hefur haft meiri áhrif á það en nokkur einn maður annar í þessu landi, hvaða leiðir hafa verið farnar í fjármálum að undanförnu, og þegar hann er að tala um í ræðu sinni troðnar slóðir, þá er það sannarlega ekki út í hött, að þessi hæstv. ráðherra tali um troðnar slóðir í sambandi við þetta frv., vegna þess að það eru vissulega farnar troðnar slóðir eftir hann samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, og þær troðnu slóðir liggja í þessu: það eru hærri skattar, hærri tollar, hærri dýrtíð, hækkuð laun, meiri fjármálavitleysa en nokkurn tíma hefur áður þekkzt. Þetta er áframhald af þeirri sögu, sem þessi hæstv. ráðherra á í stjórnmálum okkar lands.

Nú skal ég minnast á það, að þessi hæstv. ráðherra sagði hér í gærkvöld, að það hefði komið í ljós í hvert sinn, þegar hefðu verið gerðar nýjar ráðstafanir til bjargar framleiðslunni, að þá hefði dýrtíðarhjólið farið af stað. Þetta eru sönn orð. Þau eru byggð á reynslu og ekki hægt að gera neina athugasemd við þau. En mundi nokkrum alþm. eða yfirleitt nokkrum landsmanni detta það í hug, sem kynnir sér það frv., sem hér liggur fyrir, að það sé ekki endurtekning á þeirri sögu, sem hæstv. ráðherra var að minnast á í sambandi við þetta mál, því að hafi dýrtíðarhjólið farið oft áður á harðan gang í sambandi við ráðstafanir Alþingis í efnahagsmálum, þá er víst, að það fer kannske harðar, á harðasta gangi nú við framkvæmd þeirra laga, sem hér á að knýja í gegn þessa daga.

Annars er það sérstaklega eitt atriði einmitt í sambandi við dýrtíðarskrúfuna, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hér hljóðs, vegna þess að ég hef á undanförnum árum verið mjög á annarri línu en margir aðrir alþm., bæði andstæðingar mínir og hefur sumir mínir flokksmenn, og það er það, að mér hefur verið það fullkomlega ljóst, að undirstaða allra þeirra villustiga, sem við höfum lent á í fjármálum og atvinnulífi, eigi rót sína að rekja til dýrtíðarskrúfunnar, sem stofnað var til í ársbyrjun 1940 og síðan hefur alltaf verið rekin með mismunandi stökkum og mismunandi hætti.

Nú verð ég að segja það, að í því svartamyrkri óstjórnar, sem þjóðin hefur búið við undanfarna mánuði, hafa þó birzt tvö vitaljós, sem bæði eru þýðingarmikil. Annað er það, að hæstv. ríkisstj. hefur snúið frá villu síns vegar varðandi varnir landsins. Hitt er það, að það voru hér fram sett af hæstv. félmrh. bráðabirgðalög á síðasta sumri um það að stöðva dýrtíðarskrúfuna, stöðva vísitöluna með festingu kaupgjalds og verðlags.

Ég skal ekki draga af því, að ég tel hæstv. félmrh. til sóma að hafa sett þessi lög, því að hann hefur vafalaust átt í því mestan þátt og sýnt í því mestan manndóm. En það kemur í ljós í sambandi við þetta frv., að Adam var ekki lengi í Paradís, því að nú á að setja dýrtíðarskrúfuna í fullan gang á ný.

Ég gerði um það fyrirspurn við 2. umr. þess frv. hér í hv. deild, hver væri ætlunin með áframhald þessara bráðabirgðalaga um festingu verðlags og kaupgjalds. Það mun enginn hæstv. ráðherra hafa verið viðstaddur, og þess vegna var það, að formaður fjhn., hv. þm. V-Húnv. (SkG), varð fyrir svörum, og hans svör voru á þá leið, að það mundi ekkert samkomulag hafa orðið um það í fjhn. að afnema það ákvæði, að þessi lög gengju úr gildi á næsta nýári, og í því fólst auðsjáanlega vísbending um það, að nú væri ætlunin, að hér ætti að breyta og taka vísitöluskrúfuna í gang aftur, enda sýnir það sig í 36. gr. þessa frv., að nú eru bráðabirgðalögin gerð að engu að öðru en því, að þau 6 vísitölustig, sem afnumin voru, eiga ekki að koma til hagnaðar fyrir launþega og framleiðendur til þess að hækka vísitöluskrúfuna áfram. Það má segja, að það sé spor í rétta átt, en hitt er aðalatriðið, að með þessu frv. er algerlega snúið frá þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. var töluvert búin að útmála og segja margt mjög réttilega um á s. l. hausti, og nú á að setja vísitöluskrúfuna í gang aftur, hvort sem það stafar af því, að hæstv. félmrh., sem hafði hér forustuna, hefur skipt um skoðun, ellegar þá að hinir hæstv. ráðherrar hafa orðið yfirsterkari og beitt hann ráðum, til þess að hér skuli gersamlega breytt frá því, sem verið hefur.

Nú skal ég segja hv. þm. það, að þrátt fyrir alla galla, sem eru stórir og miklir á þessu frv., þá hefði ég kannske skoðað huga minn um það, hvernig ég ætti að greiða atkv., ef það hefði verið alveg fastákveðið í frv. að stöðva vísitöluskrúfuna fyrir fullt og allt, því að þá var þó hægt að segja, að það væri tilgangur í þessu frv., og hann nokkur, sem ætla mætti að gæti gert gagn fyrir framtíðarvelferð okkar þjóðar.

Nú gæti skeð, að það mætti segja, að ég ætti að bera fram brtt. um þetta atriði. En ég sé, að þetta mál er bundið svo föstum böndum með samningum og krossbindingum sitt á hvað hjá hæstv. ríkisstj., hv. stjórnarflokkum og þeim samtökum, sem þeir hafa leitað til, að ég sé ekki, að það hafi neina þýðingu fyrir mig að bera fram brtt. um að gerbreyta þessari 36. gr. frv., og það verður þá að liggja ljóst fyrir þjóðinni, að það eru þessir stjórnarherrar, sem bera ábyrgð á því að snúa algerlega frá því skásta striki, sem þeir hafa þó gert, síðan þeir tóku við völdum, sem er bráðabirgðalög hæstv. félmrh.

Nú skal ég ekki fara út í mjög náin einstök atriði þessa frv., því að hv. 5. þm. Reykv., frsm. minni hl. fjhn., hefur gert því rækileg skil og á sjálfsagt eftir að fara inn á mörg atriði þar. En ég ætla að minnast á nokkur stærri atriði, sem hljóta að vera öllum hv. alþm. ljós fyrir augum í sambandi við það stórmál, sem hér liggur fyrir.

Það er áætlað, eftir því sem útlit er fyrir, að þeir tollar og skattar, sem á að innheimta samkvæmt þessu frv., séu eitthvað rúmlega 500 millj. kr. Þar af er hækkun frá því, sem verið hefur, um 240 millj. kr. Þetta er byggt á því, að það eru tekin inn framleiðslusjóðsgjöldin frá því í fyrra og bátagjaldeyririnn og nokkur atriði önnur. Samkvæmt því fjárlagafrv., sem liggur fyrir þessu Alþingi, eru gjöld þess áætluð 712 millj. kr. rúmlega. Þetta er samtals 1212 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir, að af þeim tekjum, sem þetta frv. gefur, fari um 100 millj. kr. inn í fjárlagagreiðslur, svo að hér eiga samkvæmt áætlunum heildarútgjöld, sem falla á landslýðinn árið 1957, að verða 1112 millj. kr., með því móti þó, að það sé ekki reiknað með því, sem venjulegt er, að stórar umframgreiðslur komi fram frá fjárlögum. Þessi upphæð svarar til þess að vera tæplega 7000 kr. á hvert einasta mannsbarn á Íslandi, þar með talin börnin í vöggunni, sjúklingarnir á spítölunum og gamalmennin, sem komin eru að fótum fram.

Geta menn nú búizt við, að það sé hægt að halda svona áfram mjög lengi? En þessi áætlun svarar mjög til þess, að þetta sé þó ekki meira en 100 millj. kr. hækkun frá því, sem gera ber ráð fyrir að verði þetta ár, árið 1956. Sú áætlun er þannig: Áætlun fjárlaganna er 661 millj. kr., áætlun yfir útgjöld framleiðslusjóðs er 152 millj. kr., og það er gert ráð fyrir því, að a. m. k. sé bátagjaldeyrir 100 millj. kr., og þá er komið í 913 millj. kr. Nú veit ég það af fenginni reynslu og öllum líkum, að úr því að hæstv. núverandi fjmrh. stjórnar til ársloka, þá munu umframgreiðslurnar á fjárlögum aldrei verða innan við 100 millj. kr., svo að þá er þetta komið í 1013 millj. kr., eða 100 millj. kr. minna en gert er ráð fyrir að verði á árinu 1957, og það er þó sá fyrirvari um það, að það er byggt á því, að fjárlögin hækki ekki í meðferð þingsins meira en því svarar, sem hér hefur verið um talað, og að þar eru ekki teknar með þær væntanlegu umframgreiðslur á næsta ári.

Nú hefur verið mjög um það talað á undanförnum árum af núverandi stjórnarflokkum, sem eru höfuðsakaraðilar í því, hvernig komið er okkar hag með hlutfallið milli framleiðslu og vinnu, — það hefur verið mjög um það talað og var mjög um það talað í gærkvöld og nótt, að það væri verzlunin, sem sérstaklega þyrfti að taka í gegn. Það hefur verið útmálað og kom fram m. a. frá hæstv. menntmrh., að sá gífurlegi mismunur, sem er á verðlagi á vörum í nágrannalöndunum og hér, sé fyrst og fremst því að kenna, hvað verzlunarstéttin, þ. e. samvinnufélög og kaupmenn, leggi mikið á vörurnar. Ég held, að þetta sé að mjög miklu leyti misskilningur. Ég efast um, að við höfum nokkuð áleitnari verzlunarstétt, Íslendingar, heldur en gerist meðal annarra þjóða,enda er það svo, að hér er annað, sem villir um fyrir fólkinu og er eðlilegt að villi um fyrir því.

Það er almennt talið, að það sé svo mikill verðmunur erlendis og hér, að það borgi sig fyrir einhleypan mann að sigla til útlanda og kaupa sér föt frá því innsta til hins yzta, mismunurinn á verðinn á fatnaðinum vinni upp allan ferðakostnaðinn. Þetta er mjög almennt talið, hvað þá þegar sá fjöldi manna, sem siglir til útlanda, kaupir í ferðinni fatnað á alla sína fjölskyldu. En mundi þetta vera aðallega af álagningu verzlunarstéttarinnar? Ég segi nei. Það er fyrst og fremst ríkið, sem á þarna hlut að máli. Það eru tollarnir, sem eru aðalatriðið í þeim gífurlega verðmismun, sem hér er um að ræða, enda þegar komið er svo, að það á að taka 7000 kr. af hverju mannsbarni á landinu í tekjur til þess opinbera, og eru þó útsvörin ekki þar talin með, og þegar meginhlutinn af því er tekinn í gegnum tolla, þá er ekki furða, þó að það sé nokkuð alvarlegur mismunur á verðlagi hér í nágrannalöndunum á nauðsynjavörum við það, sem hér er.

Nú er það svo, að hér hefur verið mjög talað um það, að þetta frv. væri fram sett með samkomulagi við stéttarfélög og það mundi þess vegna, beinlínis þess vegna, verða meira til þess að halda í skefjum dýrtíðarskrúfunni en verið hefur. Ég hef enga trú á þessu. Þó að talað hafi verið við nokkrar stjórnir stéttarfélaga, og það er út af fyrir sig virðingarvert og hefur oft verið gert áður að tala við þær, þá hefur alls ekki verið talað við allan almenning, sem ekki er hægt, enda er ég yfirleitt þeirrar skoðunar, að hver sú ríkisstj., sem hefur manndóm til þess að taka ákvörðun, sem hún telur rétta, eigi ekki að þurfa að tala við nein stéttarfélög, heldur eigi hún að berjast fyrir sínum málstað við stéttarfélögin eftir á, þegar hún er búin að taka ákvörðun um það, hvað hún álítur rétt vera.

Nú er það þess vegna alveg ljóst, a. m. k. er það ljóst fyrir mínum augum, að að svo miklu leyti sem þetta frv., sem hér liggur fyrir og vafalaust verður gert að lögum, að svo miklu leyti sem það er ekki beint gengisfall eða gengisbreyting, stefnir það óðfluga að því að koma hér á því, sem stefnt hefur verið töluvert mikið að undanfarið, sem er gengishrun, ekki gengisfall, heldur gengishrun, hrein vandræði, því að það er alveg augljóst, að það verður stærsta skrefið, sem lengi hefur verið stigið í dýrtíðarátt.

Ég skal nú ekki fara út í mikla pólitíska hluti hér að öðru leyti, en ég get þó ekki stillt mig um að minna á ein þau stórpólitísku ummæli, sem komu hér fram í gærkvöld frá hæstv. fjmrh. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hann væri orðinn sannfærður um það, hefði komizt að þeirri niðurstöðu,að þau ráð, sem Alþýðubandalagið og verkalýðsfélögin hefðu, væru alltaf beztu ráðin. Ég vil nú leyfa mér að óska hæstv. félmrh., formanni Alþýðusambandsins, innilega til hamingju með þessi ummæli fjmrh., því að ef einhver alvara stendur á bak við þau, þá hljóta þau að leiða til þess, að það verður ekki mjög langt þess að bíða, að Framsfl. gangi í einni heild inn í Alþýðubandalagið. Hvort honum á þá að fylgja fylgifiskurinn, hv. Alþýðuflokkur, það getur verið kannske meira aukaatriði. En hvað sem því líður, þá er þó víst, að það frv., sem hér liggur fyrir, og þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið í því sambandi, það er allt saman þannig, að það getur haft mjög veigamikla þýðingu fyrir öll okkar stjórnmál á næstkomandi tímum.