20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður, heldur segja aðeins örfáar setningar. Það væri að vísu freistandi að taka nokkurn þátt í þeim almennu pólitísku umræðum, sem eiga sér hér stað svona inn á milli, en vegna þess að höfuðatriðið er að fá málið afgreitt í nótt, mun ég ekki gera það.

Það var út af einu atriði, sem kom fram í gærkvöld hjá hv. 2. þm. Eyf. (MJ) og aftur í kvöld hjá hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem ég kvaddi mér hljóðs, en þetta atriði er álagning samvinnufélaganna og sérstaklega Sambandsins.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði hér í kvöld: Er það rétt, að vöruverð hafi hækkað í landinu vegna aukaálagningar Sambands íslenzkra samvinnufélaga til fjárfestingar?

Ég ætla aðeins út af þessu að gefa þær upplýsingar hér nú, sem bráðum verða alþjóð kunnar hvort sem er, að það hefur farið fram athugun á álagningarmálunum, og það kemur í ljós, og það veit ég að muni gleðja mjög hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Eyf., að heildsöluálagning Sambandsins er á mörgum þýðingarmestu vörutegundum þriðjungi til helmingi lægri en heildsalanna.