20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem var að ljúka ræðu sinni, talaði um það í miklum fyrirlitningartón, að hér hafi annar fjhn. maður Sjálfstfl. talað um það, hvað hefði verið álit erlends sérfræðings um þessi mál, og vildi gera gys að því, að við vildum vera að leita eftir áliti útlendinga um lausn á efnahagsmálum okkar eða till. Þetta er mesti misskilningur. Bæði ég og Ólafur Björnsson höfum vikið að því að það var hæstv. ríkisstj., sem óskaði eftir því að fá útlending í þjónustu sína til þess að gefa sér álitsgerð um ástandið í efnahagsmálunum, og við inntum bara eftir því, hvernig á því stæði, að sú álitsgerð, sem ríkisstj. sjálf hefði óskað eftir að fá frá þessum útlendingi, hefði ekki verið látin koma fram í dagsljósið, sem og ekki heldur neinar álitsgerðir frá öðrum mönnum, sem hæstv. ríkisstj. hefur fengið í þjónustu sína til þess að fjalla um þessi mál, innlenda hagfræðinga einnig, og hina svokölluðu efnahagsmálanefnd stjórnarliðsins.

Hv. 3. þm. Reykv. hælist yfir því, að með þessu frv., þó að það sé, eins og hann játaði sjálfur, mesta torf og ýmislegt miður í því, hefði þó verið komið í veg fyrir gengislækkun, sem hefði verið annar kosturinn. Ja, það hefur áður hér við 1. umr. verið innt eftir því. Er það rétt, sem blað eins stjórnarflokksins hefur hermt, Þjóðviljinn, að bæði Framsfl. og Alþfl. hafi fyrir sitt leyti viljað heldur en þessi úrræði gengisfellingu? Við því hafa ekki fengizt nein svör enn þá. Ég endurtek þessa spurningu, og mér finnst, að það ætti ekki að vera ofraun fyrir umboðsmenn þessara flokka, þegar blað eins stjórnarflokksins heldur því fram og lesa má í orðum þingmanna sama stjórnarflokks hér, að tveir stjórnarflokkanna hafi heldur viljað gengisfellingu en þessi úrræði, sem hér er um að ræða, að þeir svari þá fyrir sig og geri grein fyrir sínu máli. Enn fremur var í því sambandi innt eftir því hér í gær, hvort sérfræðingarnir, bæði þeir erlendu og innlendu, sem unnið hafa á vegum ríkisstj., hafi fyrir sitt leyti gert tillögur um gengisfellingu og rökstutt þær, og þá væntanlega rökstutt þær m. a. með því, að þær væru ekki þungbærari almenningi en þessar till., sem hér eru lagðar fram, nema síður væri, og á sama tíma kannske gagnlegri og varanlegri lausn í efnahagsmálunum.

Þessar spurningar eru ítrekaðar hér í kvöld og vænti ég þess, að stjórnarliðar eða fyrirsvarsmenn stjórnarinnar reyni að leysa úr þeim.

Hv. 3, þm. Reykv. (EO1) sagði og býsnaðist yfir, að ekki hefði nú fyrrv. stjórn sjálfstæðismanna — eins og er alltaf talað um, enda þótt Framsfl. hafi verið þar með á skútunni — verið góð, hún hafi enga togara flutt inn, en 5000 bíla. Ja, það var mikill bílainnflutningur. En hverjir gerðu till. um bílainnflutninginn? Ég sé ekki hæstv. atvmrh. í bili, en skyldi hann hafa verið í nefnd, sem ríkisstj. skipaði fulltrúum allra flokka, og þessi nefnd, sem skipuð var fulltrúum allra flokka, hafi lagt til við fyrrv. ríkisstj. að auka stórlega innflutning bíla, að vísu til þess að endurnýja bílakost landsmanna, en ekki aðallega vegna þess, heldur aðallega vegna hins, að leggja á þá stórkostleg gjöld, þannig að togarafloti landsmanna lægi ekki bundinn við festar og gæti haldið áfram rekstri sínum? Jú, það er sem sagt staðreynd, að þessi nefnd, sem skipuð var fulltrúum allra flokka og þ. á m. núv. hæstv. atvmrh., lagði þetta til, og það var upphafið að hinum aukna bílainnflutningi, sem fyrst og fremst hefur lagt grundvöllinn að því, að hægt hefur verið að afla fram til þessa m. a. fjár í hinn svokallaða togarasjóð, til þess að rekstur togaranna stöðvaðist ekki. Hitt er svo vitað, að sjálfstæðismenn höfðu forgöngu um það á sínum tíma að endurbyggja togaraflota landsmanna með nýsköpunartogurunum, þegar sjálfstæðismenn höfðu forsæti í ríkisstj. á árunum eftir stríðið, og enn fremur beittu þeir sér fyrir viðbót á togarakaupum í samvinnu við Frams.- og Alþfl. í tíð ríkisstj., sem Alþfl. veitti forsæti. Og það mun ekki standa á Sjálfstæðisfl. að stuðla að kaupum togara nú fremur en endranær, og hefur það greinilega komið í ljós í sambandi við þær umr., sem um þessi mál hafa orðið hér á þinginu að undanförnu.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það hefðu ekki komið mótmæli frá neinum nema Landsbankanum gegn þessu frv. Ja, menn hafa nú ekki haft mikil tækifæri til þess að mótmæla þessu frv., sem útbýtt var í þinginu á hádegi í gær. En hitt er engan veginn óeðlilegt, að þjóðbanki landsins skrifl Alþingi eins og hann gerði og veki athygli á því, að það eru á hann og aðra banka lagðar ýmsar kvaðir, og það voru engan veginn sérstaklega þessar 10 millj. kr. í útflutningssjóðinn eða til ríkissjóðs eða hvert sem það nú fer, heldur ýmislegt annað, sem bönkunum er ætlað að inna af hendi í þessu frv. og er í hæsta máta óviðeigandi, án þess að nokkurn tíma hafi átt sér stað neinar viðræður eða samráð við — í þessu tilfelli — Landsbankann. Og það er mesti misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv., að það sé eina till. okkar fulltrúa Sjálfstfl. í sambandi við þessa 17. gr. frv. um framlög bankanna að breyta henni, því að við höfum gert einarðlega grein fyrir því, að við höfum aðra miklu veigameiri till. í þessu máli, og það er að fella þetta frv.

Um till. okkar sjálfstæðismanna og afstöðu í efnahagsmálunum, hvað við leggjum þar til, þá er það vitað. Við höfum á sínum tíma, þegar nauðsyn krafði, gengið að því í samvinnu við Framsfl. að skipa efnahagsmálunum á þeim tíma með gengisbreytingu og fleiri ráðstöfunum. Við höfum á öðrum tímum verið reiðubúnir til þess að skipa efnahagsmálunum með tilfærslu í þjóðfélaginu, á svipaðan hátt og gert er í þessu frv. hér. Við höfum lagt til á yfirstandandi ári að halda niðri dýrtíðinni með niðurgreiðslum úr ríkissjóði. En hitt er algerlega út í bláinn, ef þm. ríkisstj. álita, að það sé verkefni okkar sjálfstæðismanna nú, þegar fram kemur slíkt frv., að bera fram till. um lausn efnahagsmálanna. Það er m. a. eitt af því, sem við erum að gagnrýna hæstv. ríkisstj. fyrir, að þetta frv. er ekki nægjanlega undirbúið og undirbyggt með nákvæmri og gagnkvæmri rannsókn á efnahagsástandinu, eins og gera þarf, áður en till. eru lagðar fram, hvort sem er til varanlegrar lausnar eða bráðabirgðalausnar. Það verður að vera hægt að sýna fram á það, og það er Sjálfstfl. ekki í dag reiðubúinn að gera í þeirri aðstöðu, sem hann er, að á hverjum tíma, þegar verulegar aðgerðir eru, þá sé ein leiðin öðrum fremur ákjósanleg, bæði til þess að ná þeim tilgangi, sem að er stefnt, og fela í sér minnstar byrðar á almenning. En það er ekkert, sem fylgir þessu frv., sem sker úr um það, hvort þær formbreytingar á aðstoð við útgerðina, sem hér eru lagðar til, eru henni nokkuð gagnlegri og betri en það fyrirkomulag, sem áður var, og það er heldur ekki neinn rökstuðningur eða grg. með þessu frv. um það, að þær leiðir, sem hér eru farnar, séu almenningi léttbærari en aðrar leiðir, eins og gengisbreyting eða hver önnur leið, sem mundi verða farin í þessum málum, og það er einmitt það sem við gagnrýnum stjórnina fyrir. Okkur dettur ekki í hug, sjálfstæðismönnum, að leggja fram á slíku stigi málsins eins og hér heildartill. í efnahagsmálum og höfum ekki aðstöðu til annars, þegar slíkt frv. kemur fram, heldur en að skipa okkur annaðhvort með því eða á móti eða þá að reyna að gera á því einhverjar breyt. Ég skal viðurkenna það, að við höfðum í huga, meðnefndarmaður minn og ég, að gera nokkrar breyt. á þessu frv., sem ég skal játa hispurslaust að við höfum gefizt upp á að flytja, af því að við höfum ekki komið þessum brtt. saman. Það hefur farið fyrir okkur eins og hv. þm. Borgf., að þegar hann ætlaði að flytja eina litla brtt., þá ætlaði hann varla að komast út úr völundarhúsinu aftur.

Annað er það, að ég mun sjálfur flytja hér þá brtt. við 17. gr. um greiðslu frá bönkunum, og verð ég eins og á stendur að flytja hana skriflega, að í staðinn fyrir það, að gjaldeyrisbönkunum er gert að greiða þessar umtöluðu 10 millj. af gengishagnaði sínum, þá séu þessar 10 millj., sem ætlazt er til að ná af gróða bankanna, teknar af gróða bankanna í heild og skipt á milli bankanna að greiða það í hlutfalli við gróða þeirra, að greinin m. ö. o. orðist þannig: „Bankarnir skulu greiða 10 millj. kr. af árshagnaði sínum, og skiptist upphæðin milli bankanna í hlutfalli við hagnað þeirra.“ Þó að það sé ekki verulegt atriði, þá kemur hér fram sá aumi og lágkúrulegi hugsunarháttur, að það þarf endilega að undanþiggja einhverja, — og vegna hvers er Búnaðarbankinn, sem er aðalbankinn í þessu sambandi, — Iðnaðarbankinn er ungur og veikur, — undanþeginn? Hann hefur alveg jafnmikið bolmagn til þess eins og hinir bankarnir að greiða af gróða sínum til almennings í þessu landi, eins og hv. 3. þm. Reykv. orðaði það, og það er sá banki, sem Alþingi á undanförnum árum hefur veitt langmest fjármagn til. Vegna hvers skyldi hann þá ekki eins og aðrir bankar vera þess umkominn að láta nokkuð af sínum gróða í það málefni, sem hér er um að ræða, og getur nokkur þm. fært rök að því, að það sé ástæða til þess að taka út einstaka grein úr rekstri bankanna og skattleggja hagnað af henni fremur en heildargróðann? Ég held ekki, og allra sízt gjaldeyrisgróðann, þegar einmitt vegna gjaldeyrishagnaðarins er verið að leggja sérstök störf og sérstaka þjónustu á bankana, eins og ég gerði grein fyrir áðan. Ég vildi mega leyfa mér að afhenda forseta þessa skriflegu brtt.

Svo eru nokkur atriði í sambandi við frv., sem ég taldi alveg nauðsynlegt að fjhn. fengi tækifæri til þess að halda stuttan fund um á milli umræðnanna nú. Ég geri ráð fyrir, að 3. umr. taki við að lokinni 2. umr. hér. Ég skal nefna t. d., að ég var að ræða áðan við hæstv. atvmrh. um varahluti í flugvélar. Við athugun þá sýndist mér, að á varahluti flugvéla kæmi 16% yfirfærslugjaldið. Flugvélar eru undanþegnar þessu gjaldi, og varahlutir í flugvélar hafa verið tollfrjálsir fram að þessu, og hæstv. ráðh. tjáði mér, að það hefði ekki verið meiningin að leggja á varahluti í flugvélar ný gjöld núna með þessu. Þá þyrfti að lagfæra það á milli umræðnanna, ef þetta fær staðizt við nánari athugun, — eða kannske að þetta sé einhvers staðar í frv., þannig að þetta sé ekki gjaldskylt, og þá bið ég afsökunar á því, ef það verður leiðrétt, en ég fæ ekki séð það. Við vorum í fjhn. með athugun á skipagjöldum sérstaklega, og meiri hl. flutti till. um það í samráði við ríkisstj., að ríkisstj. geti undanþegið yfirfærslugjaldi nauðsynleg skipagjöld erlendis að nokkru eða öllu leyti og sett þau skilyrði um það, er þurfa þykir. En ég er alveg sannfærður um, að það er ekki ætlazt til þess, að það sé tekið yfirfærslugjald af lendingargjöldum flugvéla erlendis. Þó er það ekki orðað hérna, og ef þetta væri samþykkt án þess að það kæmi inn í, þá er í raun og veru ekki eftir lögunum annað að gera en að innheimta slík gjöld af flugvélunum, sem ég er alveg sannfærður um að hvorki hæstv. ríkisstj. né stjórnarliðið að öðru leyti ætlast til að gert verði. Þyrfti það mál einnig að koma til athugunar.

Svo langar mig til að spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvað þýði 19. gr. í frv., þar sem stendur í upphafinu: „Nú á aðili eign í erlendum gjaldeyri, og má hann þá eigi nema með leyfi innflutningsskrifstofu ráðstafa henni til vörukaupa eða annarra greiðslna, sem háðar eru yfirfærslugjaldi.“ Hann má ekki nema með leyfi innflutningsskrifstofnunar ráðstafa henni til vörukaupa eða annarra greiðslna, sem báðar eru yfirfærslugjaldi, og hlutaðeigandi skal greiða 16% yfirfærslugjald af gjaldeyrisupphæð þeirri. Við skulum segja, að sjómaður eigi erlendan gjaldeyri, sem hann hefur gert grein fyrir og getur með réttu átt, og hann langar til þess, ja, hann langar kannske bara til þess að fara niður á ölstofu og fá sér bjór og kannske eitthvað meira, kaupa stól eða smáborð eða eitthvað því um líkt. Á hann þá samkv. þessari grein að borga 16% yfirfærslugjald af þeim gjaldeyri, sem hann notar til þessara kaupa? Eftir orðanna hljóðan á hann að gera það. Er ekki full ástæða til þess að orða þetta einhvern veginn öðruvísi, því að þessi gr. segir, eins og hún er orðuð núna, að hver sá, sem eigi löglegan gjaldeyri erlendis, megi ekki nota hann erlendis öðruvísi en fá leyfi innflutningsskrifstofunnar til þess, ef hann kaupir fyrir hann eitthvað, sem er leyfisskylt, og a. m. k. borga af því 16% yfirfærslugjald.

Mig langar enn fremur til þess, af því að það hefur blandazt inn í umr., að spyrja nú beint að því, — ég þakka hæstv. fjmrh. í þessu sambandi fyrir það svar, sem hann gaf mér um álagningu söluskatts í heildsölu, sem var skýrt og skorinort, en mig langar þá til að spyrja: Hvað á hæstv. ríkisstj. við með orðunum „brýnustu nauðsynjar og helztu rekstrarvörutegundir útflutningsatvinnuveganna“ — þar sem segir í greinargerðinni, að á þetta tvennt hafi engar nýjar álögur verið lagðar? Brýnustu nauðsynjavörur, hvað er það? Og hvað eru helztu rekstrarvörutegundir útflutningsatvinnuveganna? Sennilega á hæstv. ríkisstj. auðvelt með að svara því, hvað eru brýnustu nauðsynjavörur, en það er þýðingarmikið fyrir okkur þm. að vita, hvaða skilning ríkisstj. leggur í það, hvað skuli teljast brýnustu nauðsynjavörur, og það er nauðsynlegt að fá líka skilgreiningu á því, hverjar eru helztu rekstrarvörutegundir útvegsins, þegar kemur í ljós, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að fjölmargar þýðingarmiklar rekstrarvörur útflutningsins eru skattlagðar bæði með 16% yfirfærslugjaldi á gjaldeyrinum og 11% innflutningsgjaldi. Ég nefndi ýmsar vörutegundir, eins og björgunarhringi, akkeri og akkerisfestar, víra og sjódufl, ljósker, hraðamæla, línubyssur og ýmislegt annað áðan. Ef ekki er neitt af þessu talið með helztu rekstrarvörutegundum útflutningsatvinnuveganna, svo sem ríkisstj. gerir væntanlega ekki, þá hlýtur þetta að hafa fallið fyrir utan einhverja ákveðna skilgreiningu, sem hún hefur á því, hvað eru helztu rekstrarvörutegundir útflutningsins, og væri mjög æskilegt og nauðsynlegt fyrir okkur að fá það upplýst.

Loks langar mig til að minnast á byggingarefnið, sem eru lögð ný gjöld á í þessu frv., og það tel ég ákaflega misráðið, eins og nú standa sakir. Það hafa aldrei áður verið jafnmargar byggingar í smíðum, ekki aðeins í höfuðstað landsins, heldur um gervallt land, eins og nú er, og fólk á ákaflega erfitt með að koma þessum byggingum upp, ekki sízt vegna þess, um hversu mikla lánsfjárörðugleika hefur verið að ræða. Nýjar álögur á helztu byggingarvörutegundir, sement, timbur og járn, eru kannske, eftir því sem ég kemst næst, 8–10% eða eitthvað því um líkt, en á ýmsar aðrar þarfir til bygginga miklu hærri.

Ég vildi mjög gjarnan óska eftir því að mega ræða þetta á fundi í fjhn., sem þyrfti ekki að vera langur, og við þá fulltrúa ríkisstj., hvort ekki væri hægt að gera aðra skipan á þessum málum og einmitt með sérstakri hliðsjón af því, hvernig ástatt er og þar sem fyrir hv. Alþ. liggur, þegar það kemur saman eftir áramótin, að gera alveg sérstakar ráðstafanir í sambandi við húsnæðismálin, og er þá kannske nokkurt öfugstreymi í því að hafa rétt fyrir jólin verið búinn að leggja á þessar miklu og nauðsynlegu þarfir almennings 10% og kannske hærri aðflutnings- og yfirfærslugjöld, án þess að það sé auðvelt að átta sig á því í skjótu bragði.

Ég sagði áðan, að það væri mjög erfitt fyrir okkur að átta okkur á, hversu miklar hækkanir hér væri um að ræða. Við höfum sem sagt, meðnefndarmaður minn í fjhn. og ég, algerlega gefizt upp á því að gera neina tilraun til þess að færa nokkuð á milli flokka í 27. gr., þar sem taldar eru upp og flokkaðar niður vörur þær, sem innflutningsgjöldin falla á.

Nokkur dæmi höfum við látið reikna út fyrir okkur um hækkunina á einstökum vörum. Þær segja ekki mikið, því að það eru ekki nema örfáar vörutegundir, það hefur ekki unnizt meiri tími til þess fyrir okkur, enda höfum við verið mjög bundnir. Það kemur í ljós eftir þessum útreikningum, ef þeir eru þá réttir, — ég vil hafa um það allan fyrirvara, að það geti vel verið, að í þessu sé einhver misskilningur, og þeir menn, sem gerðu þetta fyrir okkur, verða þá leiðréttir af hæstv. ríkisstj., ef tilefni er, — en þar kemur fram, að hækkunin er gífurleg á mörgum vörum. Það reiknast til, að laukur hækki um 08.7%, að lyftiduft hækki um 59.2%. (Gripið fram í: Lyftiduft lyftist upp.) Já, hæstv. fjmrh. lyftist nú ekki núna. Dömusokkar lyftast um 51.2%, hækka um 51.2% og gólfteppi 64%, miðstöðvarofnar um 13.9%, pípur 13.26%, hreinlætistæki um 27.9%. Þessi fáu dæmi eru náttúrlega, eins og ég segi, mjög alvarlegar hækkanir, en þau eru hins vegar allt of fá til þess að vera mælikvarði á, hvað þessar hækkanir eru miklar. En það gefur þó hugboð um ásamt ýmsu öðru, sem fram hefur komið í meðferð málsins, að tekjuáætlunin, sem gerð er í greinargerð frv., kunni að verða þannig í framkvæmdinni, að þetta frv. skili miklu hærri tekjum en gert er ráð fyrir.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa um þetta fleiri orð, en vil mælast til þess, að tóm gefist til þess að skjóta á fundi í fjhn. á milli umr.