20.12.1956
Neðri deild: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Gerð hefur verið grein fyrir till. fjhn. um að bæta inn þessari breytingu um flugvélagjöldin, en ég hafði nú viljað freista þess á milli umræðnanna, að skýrt væri ákveðið um flugvélavarahluti einnig, en að öllu atbuguðu þótti það ekki fært, og ég flyt þá heldur enga brtt. um það. Það var vinsamlega í málið tekið af þeim hæstv. ráðh., sem ég ræddi við, og ég leyfi mér að vænta þess, að því muni reiða af, svo að viðunandi sé fyrir þá aðila, sem hlut eiga að máli.

Þá vék ég við 2. umr. að byggingarefni og nauðsyn þess að hækka ekki álögur á því eins og á stæði. Ég skal ekki orðlengja neitt meira um það nú, en í samræmi við það, sem ég sagði þá, leyfi ég mér að flytja hér skriflega brtt. um, að þau verði undanþegin yfirfærslugjaldinu, að sú breyt. verði gerð á 16. gr., að við a-lið bætist, þar sem taldar eru upp þær vörur, sem undanþegnar eru yfirfærslugjaldinu: nr. 17 í 21. kafla, sement, nr. 1–4 í kafla 40, plankar, bitar og borð úr furu og greni, þar með talinn hemlockviður, nr. 6 í 63. kafla, bárujárn, og nr. 57–58 í 63. kafla, miðstöðvarofnar og miðstöðvarkatlar. Það eru auðvitað miklu víðtækari breytingar, sem að mínum dómi væri æskilegt að gera þarna, en ég hef þó látið við það sitja að taka þessar meginbyggingarefnavörur, sem hér eru upp taldar, og vil beiðast þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari skriflegu brtt.