20.12.1956
Efri deild: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Einu sinni mun hafa verið snarað á íslenzku útlendum reyfara, sem hlaut á vorri tungu nafnið „Hinn óttalegi leyndardómur“. Bókin var mikið lesin, en að henni þótti lítill menningarauki. Ef ég ætti að gefa afstöðu Sjálfstfl. til þessa stórmáls eitthvert nafn, þá mundi ég kalla hana hinn óttalega leyndardóm. Sannleikurinn er sá, að í hv. Nd. hefur þetta mál nú verið rætt tvö kvöld og tvær nætur eða langt fram á nótt. Nú eru að hefjast umræður um það hér í hv. Ed., og við höfum heyrt aðalforsvarsmann stjórnarandstöðunnar halda hér ýtarlega ræðu. Samt sem áður er afstaða stjórnarandstöðunnar hinn óttalegi leyndardómur. Við vitum ekkert, hvað hún vill gera í málefnum framleiðslunnar. Í öllum þeim ræðum, sem fluttar hafa verið, hefur ekki fengizt um það ein setning, hvað sjálf stjórnarandstaðan leggi til um lausn á þeim vanda, sem hún þó viðurkennir að íslenzkri framleiðslu sé á höndum. Gagnrýnin er öll algerlega almenns eðlis og algerlega neikvæð. Það eina, sem er jákvætt í ummælum stjórnarandstöðunnar, er viðurkenningin á því, að sjávarútvegurinn fyrst og fremst og reyndar landbúnaðurinn einnig þurfi á næsta ári á auknum tekjum að halda frá því, sem var á liðnu ári. Þetta er játað. Síðan heyrist ekki eitt orð, ekki einn stafur um það, hvernig eigi að afla þess fjár, þeirra mörgu milljóna, sem þeir þó viðurkenna að framleiðslan þurfi að fá í auknar tekjur.

Það er enginn ágreiningur milli okkar í ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar um það, að meginleiðirnar, sem til greina koma til úrbóta, eru tvær, annars vegar er almenn tekjutilfærsla í þjóðfélaginu og hins vegar gengisbreyting. Þeir segja ekki skýrt, hvort þeir vilji heldur. Afstaða stjórnarinnar er alveg ljós. Við höfum valið tekjutilfærsluna og höfum gert það í samráði við launþegasamtökin í landinu og í samráði við samtök helztu framleiðenda í landinu. Þeir segja ekki, að þessi leið sé rétt, segja ekki heldur, að hún sé röng. Og þeir segja ekkert um það, að þeir vilji gengisbreytingu heldur. Hví ekki að segja það, ef þeir meina það? Það væri afstaða, en ekki lengur neinn leyndardómur. Þetta getur ekki gengið, að gagnrýna með almennum og óljósum orðum án þess að segja, hvað eigi að koma í staðinn. Við vitum ekkert um það, hverju mennirnir vilja breyta. Telja þeir t. d. tekjuþörfina ofmetna? Telja þeir þær 240 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að flytja á milli yfir til framleiðslunnar, of háa fjárhæð? Ef þeir telja fjárhæðina of háa, ber þeim skylda til að benda á, hverjir fái of mikið. Ég leyfi mér að spyrja þá, sem hér munn tala á eftir: Hverjir fá of mikið, ef kvartað er undan, að tekjuupphæðin sé of há? Fá bátarnir of mikið? Það vil ég fá að vita. Fá togararnir of mikið? Það væri gaman að fá að heyra það. Eða fá frystihúsin of mikið? Af hverjum á að taka af þeim, sem fá upphæðirnar, ef upphæðin er talin of há? Ef menn eru óánægðir með, hvernig fjárins er aflað, vil ég líka fá ábendingar eða helzt beinar tillögur um það, hvar eigi að lækka álögurnar. Ef menn telja of mikið lagt á einhverja ákveðna vörutegund, — maður hefur heyrt helzt nefnda hér silkisokka og heimilistæki, — ef menn telja álögur á þessar vörur of miklar og vilja lækka þar, á hverju á þá að hækka? Á kannske að hækka á þeim vörum, sem við lögðum ekkert á: kaffi, sykri, mjöli og þar fram eftir götunum? Svona almennt orðalag dugir ekki. Meginstaðreyndirnar eru þessar: Er heildarupphæðin of há? Ef hún er það, af hverjum á þá að taka? Er of mikið lagt á einhverja vöru? Ef svo er, á hverju á þá að hækka?

Það hefur heyrzt nokkuð í umr. um málið, einkum þó í hv. Nd., að það væri lítill munur á þessum ráðstöfunum og þeim ráðstöfunum, sem fyrrverandi stjórn gerði í fyrra og hittiðfyrra. Það er á þessum ráðstöfunum meginmunur, og ég skal segja það í örfáum orðum, hvern ég tel vera meginmuninn. Hann er í fyrsta lagi fólginn í því, að þeim gjöldum, sem nú eru á lögð, er dreift eftir allt öðrum grundvallarreglum en gjöldunum var dreift í fyrra. Þá var fylgt þeirri reglu að dreifa álögðum gjöldum sem jafnast á þær vörur, sem báru gjöldin. Nú er fylgt gerólíkri reglu, Það er fylgt þeirri reglu að dreifa gjöldunum ójafnt eftir því hvers eðlis vörurnar eru. Það koma engin ný gjöld, ekki einn eyrir, í viðbót á helztu rekstrarvörur sjávarútvegs og landbúnaðar. Það koma engin ný gjöld, ekki einn eyrir, í viðbót á brýnustu nauðsynjavörur almennings, helztu vörurnar sem eru í vísitölunni, kornvörur, kaffi og sykur og því um líkt. Hitt megineinkennið á þessum ráðstöfunum, borið saman við ráðstafanirnar í fyrra, er það, að nú eiga að fylgja þessari tekjutilfærslu milli stétta þjóðfélagsins víðtækar viðbótarráðstafanir. Nú á að fylgja þessum ráðstöfunum víðtækt verðlagseftirlit. Í fyrra var engin tilraun gerð til þess að hafa hemil á verðlaginu. Verðlagsmyndun var að mestu leyti frjáls. Nú á að fylgja þessum ráðstöfunum stóreignaskattur. Ekkert af því var gert í fyrra. Nú á að fylgja þessum ráðstöfunum þriðjungslækkun á tekjuskatti hinna tekjulægstu, bæði hjóna með börn og einstaklinga. Nú á að fylgja þessum ráðstöfunum gagnger endurskipulagning á fisksölumálunum. Ekkert slíkt var áformað eða gert í fyrra. Nú á að fylgja þessum ráðstöfunum endurskipulagning á bátagjaldeyriskerfinu, ekkert slíkt var gert í fyrra. Allar þessar viðbótarráðstafanir eiga að miða að því og miða að því að dreifa byrðunum réttlátar og sanngjarnar en raun varð á í fyrra.

Reynslan hefur líka þegar sýnt, að allur almenningur í þessu landi, bæði meðal launþega og framleiðenda, lítur gerólíkum augum á þessar ráðstafanir og ráðstafanirnar í fyrra. Í hverju kemur það fram? Það kemur fram í því, að ráðstafanirnar í fyrra hlutu hvorki viðurkenningu launþegasamtaka né framleiðendasamtaka. Það vita allir hv. þm., að óánægjan með tillögur fyrrverandi ríkisstj. á s. l. ári var svo mikil í hópi útvegsmanna, að þeir neituðu að starfa samkvæmt þeim. Það var ekki róið allan janúarmánuð, fyrsti mánuður vertíðarinnar fór forgörðum. Tugir miljóna töpuðust þjóðinni í erlendum gjaldeyri, af því að útvegsmennirnir sjálfir, helztu samtök þeirra framleiðenda, sem málið snertir, voru óánægðir með aðgerðir fyrrverandi ríkisstj. Í hópi launþeganna var óánægjan ekki minni af því, hvernig byrðunum var dreift, og af því, að engar viðbótarráðstafanir fylgdu. Launþegasamtökin snerust gegn fyrrverandi ríkisstj., snerust gegn ráðstöfunum hennar, með þeim afleiðingum, sem alkunnar eru. Nú hefur það gerzt, að bæði launþegasamtökin og samtök framleiðendanna, þ. e. a. s. bæði samtök útvegsmanna og bænda, hafa lýst yfir stuðningi sínum við þessar ráðstafanir, hafa lýst yfir, að þau muni una þeirri tilraun, sem hér er gerð til þess að stöðva verðbólguhjólið, tryggja örugga atvinnu í framtíðinni og leggja heilbrigðan grundvöll undir vaxandi framleiðslu þjóðarinnar í framtíðinni. Þessar staðreyndir tala skýrara máli en nokkur ræðuorð fá gert um það, hvílíkur reginmunur er á ráðstöfunum þessarar stjórnar og ráðstöfunum fyrrverandi stjórnar. Þessi stjórn hefur fengið stuðning launþegasamtaka og framleiðendasamtaka. Fyrrverandi stjórn fékk það ekki. Þessi meginstaðreynd er einmitt höfuðgrundvöllur þess, að ráðstafanir fyrrv. stjórnar urðu ekki til frambúðar, heldur urðu bráðabirgðaráðstafanir. Það er von ríkisstj., að atbeini sá, sem tillögur hennar hafa fengið meðal launþega og meðal framleiðenda, muni verða þess valdandi, að þessar ráðstafanir reynist ekki bráðabirgðaráðstafanir, heldur varanlegt úrræði.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að í þessu frv. væri í raun og veru ekkert nýtt. Hvílíkur reginmisskilningur er þetta. Skyldu menn ekki eiga að taka meira mark á heildarsamtökum launþega, heildarsamtökum útvegsmanna, heildarsamtökum bænda heldur en málsvara Sjálfstfl. hér á hinu háa Alþingi? Ef ekkert nýtt var að gerast, hvers vegna snerust þá útvegsmenn á móti stjórninni í fyrra, en með henni núna, hvers vegna snerust launþegarnir á móti stjórninni í fyrra en með henni núna, eða hver er skýringin á afstöðu bændanna? Nei, sannleikurinn er sá, að hér er auðvitað um nýja stefnu að ræða, sem hefur komið fram í þeim tímamótum, sem nú hafa verið mörkuð í framleiðslu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar á þann hátt, að víðtækara samstarf hefur tekizt með hagsmunasamtökunum og ríkisvaldinu en nokkurn tíma áður. Það er auðvitað meginstaðreynd, eins og íslenzkt þjóðfélag er nú skipulagt, að landinu verður ekki aðeins ekki vel stjórnað, heldur eiginlega alls ekki stjórnað, nema því aðeins að þar ríki samstarf á milli ríkisvaldsins annars vegar og hinna voldugu hagsmunasamtaka hins vegar. Milli þessara aðila þarf að ríkja traust, gagnkvæmt traust. Það er þetta traust, sem hefur vantað undanfarin ár og hefur verið meginundirstaða þess ófarnaðar, sem verið hefur einkenni íslenzkra efnahagsmála undanfarin ár. Það er vegna skilnings á þessu, sem ríkisstj. hefur talið það meginverkefni sitt að skapa slíkt gagnkvæmt traust milli samtaka launþega og framleiðenda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Sem betur fer hefur það tekizt, og það er einlæg von ríkisstj., að á því ástandi verði áframhald, vegna þess að með því einu móti verður hagur þjóðarheildarinnar vel tryggður í framtíðinni.

Það ber mikið á því í málflutningi hv. stjórnarandstöðu að telja þá tekjuöflun, sem frv. gerir ráð fyrir, til gífurlegra byrða. Þeim 240 millj. kr. tekjuafgangi, sem frv. gerir ráð fyrir, er deilt niður á hvert mannsbarn í landinu, jafnt á ungbarnið í vöggunni og gamalmennið, og einnig fundið út, að nýjar byrðar á hvert nef í landinu séu 1500 kr., eða 7500 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Hv. síðasti ræðumaður komst meira að segja upp í 10 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Ónákvæmt er nú reiknað, en mér sýndist, að það, sem lægi til grundvallar, væri, að ofan á þessar 240 millj. kr. bætti hann stóreignaskattinum, og er að vísu ekki nákvæmt enn, heldur jafnað mjög mikið upp á við. Í fyrsta lagi nær ekki nokkurri átt, við sjáum, hvað blekkingin er augljós, þegar menn taka að jafna fyrirhuguðum stóreignaskatti, sem er yfirlýst að eigi að innheimtast á næstu fimm árum, sem viðbótargjöldum á hvert mannsbarn, barnið í vöggunni og gamalmennið, til útgjalda á næsta ári. Slíkir útreikningar eru náttúrlega langt frá því að vera sæmandi mönnum hér á hinu háa Alþingi. Auk þess er öll hugsunin í þessum útreikningum bláber vitleysa. Þeir eru byggðir á því, að þessi 240 millj. kr. tekjutilflutningur sé allur saman tekinn af borgurunum og látinn hverfa og sé eytt. Manni skilst það helzt, að ríkisstj. ætli sér að taka í sinn vasa 240 millj. kr. og eiginlega brenna peningana eða brenna verðmætin, sem peningarnir svara til, sökkva þeim í sjó eða kveikja í þeim. Því aðeins að þetta væri rétt, væru þetta hreinar álögur á landsmenn. Allir vita auðvitað, að ríkisstj. hefur enga slíka brennu í huga og ekkert, sem jafngildir því, að hún ætlaði sér að taka skip og sökkva miklum verðmætum í sjó niður.

Hvað er hér að gerast? Skilja menn í raun og veru ekki, hvað hér er að gerast, eða er blekkingarhugurinn svo stórkostlegur, að menn látist ekki skilja jafneinfaldan hlut og hér er þó á ferðinni? Hvað er hér að gerast? Það er verið að taka 240 millj. kr. úr vasa sumra borgara þessa þjóðfélags og láta upphæðina næstum alla í vasa annarra borgara þjóðfélagsins. Það er kjarni málsins. Hverjir eru það aðallega, sem fá þessa miklu milljónatugi. Það eru framleiðendur við sjávarsíðuna fyrst og fremst og sjómenn við sjávarsíðuna, auk þess bændur. Sá, sem gerði þennan útreikning, var maður sem lýsti því yfir, að hann væri sérstakur fulltrúi sjómanna og útvegsmanna. Þeir eru fjölmennir í hans kjördæmi, og það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. telji sig sérstakan fulltrúa þeirra. En ef hann telur mönnum þessar 240 millj. kr. til útgjalda sem byrði, hví gleymir hann þá að nefna tekjuaukann, sem sjómennirnir hans, útvegsmennirnir hans fá vegna þessara álagna? Má gleyma því? Ef ég tæki, sem mér dytti að vísu aldrei í hug að gera, 100 kr. úr hægri vasa hv. þm. N-Ísf. og léti þær í vinstri vasa hans, þá þætti mér vægast sagt mjög óheiðarlegur málflutningur, ef hann hlypi hér út á Austurvöll, að ég nú ekki tali um, að hann færi með það í Morgunblaðið, að ég hefði stolið af sér 100 krónum. Nei, ég mundi auðvitað fljótlega minna hann á, að það, sem áður var í hægri vasa hans, væri núna komið í vinstri vasa hans, og ekki það einasta, hann væri nákvæmlega jafnríkur eftir sem áður. Það gæti meira að segja vel verið, að peningarnir væru betur komnir í vinstri vasanum en þeim hægri og að ég hafi gert honum greiða.

Það er þetta, sem er að gerast í þessum tillögum. Það er verið að taka 240 millj. úr vasa sumra manna og láta í vasa annarra manna. Þjóðin í heild hvorki græðir á þessu né tapar, alveg eins og hv. þm. verður hvorki ríkari né fátækari, þó að hundraðkrónuseðillinn færi úr öðrum vasa í hinn. (SB: Er þá ekki verið að færa úr einum vasa í annan á sama manni?) Núna? Sumpart, það merkilega við það er, að það eru sumpart sömu mennirnir sem fá peningana. (Gripið fram í.) Alveg rétt. Sumir útvegsmenn, sem fá auknar tekjur af þessum sökum, borga auðvitað fyrir vörurnar, sem lagt er á. (Gripið fram í.) Jú, það er alveg rétt. Það kann vel að vera, að hinir séu fleiri, en það er ég alveg handviss um, að þeir, sem borga, eru þeir menn, sem þola að borga, frekar en hinir, sem eiga að fá peningana, mundu þola að fá þá ekki. Það er það, sem er kjarni málsins. Þetta ættu alveg sérstaklega fulltrúar sjómanna og útvegsmanna að skilja, því að væri þetta ekkj gert, mundi hagur þeirra stórrýrna, því að þeir fengju ekkert í sinn vasa.

Ef menn vilja tala um raunverulega byrði í sambandi við þessar álögur og ef þeir vilja tala rétt og í samræmi við kjarna málsins, í réttara skilningi á öllu málinu út frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, þá er það eitt byrði af þessum álögum, sem notað er í nýja fjárfestingu, vegna þess að öll fjárfesting skerðir auðvitað skilyrðin til neyzlu á því ári, þegar hún er framkvæmd. Að svo miklu leyti sem hluti af þessum 240 millj. kr. fer eða er ætlað að fara í nýja fjárfestingu í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þá má segja, að um byrði sé að ræða, sent þjóðin í heild taki á sig í sambandi við ráðstafanirnar. Þannig er málið auðvitað rétt skoðað. Hitt er engin byrði fyrir þjóðina í heild. Ef menn telja fjáröflunina of mikla, vegna þess að í sambandi við hana sé fyrirhuguð of mikil fjárfesting, þá vildi ég gjarnan fá að vita hjá hæstv. stjórnarandstöðu, hvaða fjárfestingu hún vill minnka frá því, sem verið hefur. Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga er fyrirhugað að gera ráð fyrir myndarlegu framlagi til jafnvægissjóðs, til þess að efla jafnvægi í byggð landsins. Við skulum bíða tillagna hv. sjálfstæðismanna um það, hvort þeir telja þær upphæðir, sem ríkisstj. fyrirhugaði í þessu sambandi, of háar. Ég býst við, að þeir muni frekar telja þær of lágar, og það getur vel verið, að í því hafi þeir einmitt rétt fyrir sér, að þær þyrftu að vera hærri. Það þarf að veita verulegt fé til raforkuframkvæmda í sambandi við fjárlögin. Þetta er tveir aðalfjárfestingarliðirnir. Við skulum líka bíða tillagna hv. sjálfstæðismanna um það, hvort þeir telja þær upphæðir, sem ríkisstj. fyrirhugar í þessu sambandi, of lágar. Ég á von á hækkunartill. frá þeim, en ekki lækkunartill. Þetta eru einu byrðarnar, þjóðhagslega skoðað, sem slíkar ráðstafanir hafa í för með sér, og varðandi þær er sannleikurinn sá, að þær vill Sjálfstfl. án efa þyngja meira en við munum treysta okkur til að leggja til.

Hv. þm. spurði í ræðu sinni, og það var mjög eðlileg spurning: Hvers vegna var þessi leið, sem við höfum kallað millifærsluleiðina, valin, — og á þá auðvitað við: Hvers vegna var ekki gengisbreytingarleiðin farin? — Skýringin á þessu er ofur einföld. Það var meginatriði í stefnu allra núv. stjórnarflokka að gera þær ráðstafanir í efnahagsmálum, sem víðtækast samkomulag gæti orðið um við samtök launþega og framleiðenda. Mjög ýtarlegar athuganir og mjög ýtarlegar viðræður leiddu í ljós, að sú leið, sem ríkisstj. hefur nú lagt til, var einmitt sú leið, sem samkomulag gat fengizt um, bæði við launaþegasamtökin og við samtök framleiðenda, þ. e. a. s. útvegsmanna og bænda. Þetta er meginskýringin á því, að þessi leið var farin.

Hv. þm. spurði, hverjar hafi verið till. þeirra erlendu sérfræðinga, sem ríkisstj. kvaddi sér til ráðuneytis á sínum tíma. Álitsgerð þeirra var afhent ríkisstj. sem trúnaðarmál með sérstakri ósk hinna erlendu sérfræðinga um, að álitið yrði ekki birt nema með leyfi þeirra. Eftir þessu hefur ríkisstj. farið. (SB: Hefur hún ekki beðið um leyfi?) Það er engin nýlunda, að með álit sérfræðinga sé farið sem trúnaðarmál, og ætti hv. þm. og aðrir sjálfstæðismenn að minnast þess, hvernig farið var í fyrra með álit innlendra sérfræðinga í málinu. Þá skipaði ríkisstj. nefnd fjögurra manna, fjögurra íslenzkra hagfræðinga, til þess að gera ýmsar athuganir fyrir sig. Þessir fjórir hagfræðingar skiluðu ýtarlegu áliti. Við margbáðum um það, sem þá vorum í stjórnarandstöðu hér á hinu háa Alþingi, að fá að sjá þetta álit. Við fengum nei og aftur nei, fengum aldrei að sjá það. Hæstv. forsrh. svaraði því þá til, að ástæðan væri sú, að hinir innlendu sérfræðingar, hagfræðingarnir fjórir, hefðu sent ríkisstj., fyrrverandi ríkisstj., álit sitt með þeirri sérstöku skriflegu ósk, að álitið yrði ekki birt, ekki einn sinni þingmönnum, og af þeirri beiðni taldi ríkisstj. sig skuldbundna.

Þó að ég hefði í fyrra óskað mjög eftir því að fá að sjá tillögur þessara fjögurra hagfræðinga, sem ég þekki alla mjög vel og met mikils, verð ég að segja, að mér kom ekki alveg á óvart afstaða þeirra í þessu máli. Sannleikurinn er nefnilega sá, að á undanförnum árum, oftar en einu sinni, hafa álitsgerðir hagfræðinga, álitsgerðir sérfræðinga, verið misnotaðar svo herfilega, að algerlega ófyrirgefanlegt er. Alls konar stjórnmálamenn hafa beitt skoðunum eða ábendingum og útreikningum hagfræðinga fyrir sig á fullkomlega villandi hátt. Segi ég þetta ekki í ádeiluskyni á neinn sérstakan flokk, heldur eiga stjórnmálaflokkarnir allir meira og minna sammerkt í þessu. Þetta er yfirleitt skoðun þeirra hagfræðinga, sem hafa verið kvaddir til ráðuneytis ríkisstjórnum hér undanfarin ár. Ég hef sjálfur margoft unnið fyrir ríkisstjórnir og opinbera aðila einmitt að slíkum álitsgerðum og útreikningum, ýmist einn eða ásamt öðrum, og einnig orðið fyrir því ásamt öðrum. Þetta er reynsla okkar hagfræðinganna allra og skoðun okkar allra, alveg án tillits til þess, í hvaða stjórnmálaflokki við erum. Hlutverk hagfræðinga í slíkum vanda eins og þeim, sem nú hvílir á höndum, er fyrst og fremst að benda á leiðir, að gera dæmin greinilega upp, um hvaða leiðir sé að velja og hvaða afleiðingar hver ráðstöfun um sig hafi. Það er ekki hlutverk hagfræðinganna sem fræðimanna að velja á milli leiðanna. Það er hlutverk stjórnmálamannanna, og því hlutverki verða þeir að gegna. Þeir verða að hafa kjark til þess að velja sjálfir þær leiðir, sem þeir telja rétt að fara, og bera ábyrgð á vali sínu, en reyna ekki að skella því yfir á herðar svokallaðra sérfræðinga, sem bókstaflega ekkert hafa með valið milli leiðanna að gera sem fræðimenn. Þar ræður stjórnmálaskoðunin eða þjóðfélagsmálaskoðunin öllu, bókstaflega öllu.

Það var þessi reynsla innlendra hagfræðinga á s. l. tíu árum, sem olli því í fyrra, að hinir fjórir ágætu hagfræðingar óskuðu eindregið eftir því, að tillögur þeirra eða útreikningar þeirra yrðu skoðaðir sem trúnaðarmál hjá ríkisstjórninni henni til athugunar, en yrðu ekki pólitískt bitbein hér á Alþingi.

Þeir erlendu hagfræðingar, sem hingað komu á s. l. hausti, kynntust mjög fljótlega ástandi mála hér að því er þetta snertir. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að meginorsök þess, að þeir vildu láta fara með sína skýrslu sem trúnaðarmál, var sú, að þeir vildu ekki láta gera hana hér að pólitísku bitbeini innanlands.

Hitt er svo annað mál, að þegar mesti bardagahamurinn er runninn af mönnum, teldi ég persónulega mjög æskilegt og eðlilegt, að báðar skýrslurnar yrðu birtar, bæði rannsókn innlendu hagfræðinganna frá því í fyrra og rannsókn hinna tveggja erlendu hagfræðinga frá því í haust. Til lengdar og sérstaklega eftir að ákvarðanir eru teknar eiga náttúrlega ekki slík plögg að vera neitt leyndarmál.

Hv. þm. N-Ísf. sagði, að almenningi væri ætlað að borga 220 millj. kr. skv. till. ríkisstjórnarinnar, en hinum ríku aðeins 15 milljónir. Hér er mjög hallað réttu máli. Hinir ríku koma til með að borga mjög verulegan þátt af 240 milljónunum, en hinir tekjulægstu bókstaflega ekki neitt, vegna þess, hvernig álagningunni er hagað, að öllum helztu nauðsynjavörum og rekstrarvörum útflutningsatvinnuveganna er algerlega hlíft við öllum nýjum gjöldum, en þeim mun hærri gjöld lögð á þær vörur, sem einmitt hinir ríku nota. Hins vegar kom mér það á óvart að heyra málsvara Sjálfstfl. kvarta undan því, að of lítið sé lagt á hina ríku. Ég mun hafa tillögurétt hér í hv. Ed., þó að ég hafi hér ekki atkvæðisrétt, og ég býð hv. þm. hér með að flytja með honum till. um að hækka stóreignaskattinn. Mér skyldi verða sérstök ánægja að hafa hann sem meðflutningsmann að till. um að hækka hann, t. d. þótt ekki væri nema um 10–20 milljónir, svo að hann þurfi ekki að kvarta mikið undan því, að við viljum hlífa hinum ríku.

Þá fjölyrti hv. þm. mjög um gróða hins nýja skips Sambandsins og Olíufélagsins, Hamrafells, og taldi hann mjög óeðlilegan. Ég ætla ekki að ræða þetta mál ýtarlega, því að bráðlega þarf að gera fundarhlé. Ég vildi aðeins benda á það, að olía hefur ávallt verið flutt hingað til landsins fyrir farmgjöld, sem hafa ákvarðazt af heimsmarkaðsverði á farmgjöldum. Hingað hefur aldrei áður komið olíufarmur, ekki einn olíufarmur fyrir lægra farmgjald en svarað hefur til hinna skráð farmgjalda á olíu á heimsmarkaðnum. Flutningar Hamrafellsins núna eru fyrstu olíuflutningar til landsins, þar sem landsmenn fá olíu undir skráðu heimsmarkaðsverði á farmgjöldum fyrir olíu, fyrstu flutningar í Íslandssögunni, þar sem olía kemur til landsins undir skráðu heimsmarkaðsverði. Þá ætlar viss hópur manna hér í landinu alveg að ærast. Þessi lækkun niður fyrir heimsmarkaðsverð, sem eigendur Hamrafellsins buðu fram af frjálsum og fúsum vilja, nemur hvorki meira né minna en 10 millj. kr. á fjórum ferðum, 2½ milljón í hverri ferð. Ég verð að segja, að fyrir þetta fyndist mér meiri ástæða til þess að þakka eigendum Hamrafellsins heldur en ausa þá óhróðri fyrir það, að þessi farmgjöld, sem þó eru 2½ millj. kr. lægri á ferð heldur en markaðsfarmgjöldin, skuli færa þeim gróða miðað við bókfært kaupverð skipsins, þegar það var keypt. Þeim mun undarlegri er þessi afstaða hv. sjálfstæðismanna, afstaða þeirra til verðlagsmála í olíuflutningunum, þegar það hefur verið afstaða þeirra í farmgjaldamálum Eimskipafélagsins, að það væri eðlilegt að láta flutningsgjöld Eimskipafélagsins fara að meira eða minna leyti eftir hinu almenna verðlagi á flutningsgjöldum, en ekki eftir hinu gamla kostnaðarverði skipanna, þegar þeirra var aflað. Allir, sem til þekkja, vita, að sá gífurlegi gróði, sem Eimskipafélagið safnaði á stríðsárunum, átti einmitt rót sína að rekja til þess, að Eimskipafélagið fékk að njóta þess, að á stríðsárunum hækkuðu farmgjöld í heiminum almennt mjög verulega. Ef þá hefði verið framfylgt þeirri stefnu, sem Morgunblaðið núna telur sig höfuðmálsvara fyrir, þá hefði ekki átt að leyfa Eimskip neina hækkun á farmgjöldum sínum í styrjöldinni. Reikningarnir hefðu getað jafnazt algerlega, vegna þess að eigin skip þess voru keypt fyrir stríð og leiguskipin fengust fyrir sérstaka milligöngu ríkisstj. og velvild Bandaríkjastjórnar fyrir mjög hagstætt verð, miklu lægra verð en svaraði til farmgjaldanna á heimsmarkaðnum yfirleitt. Þetta var ekki gert. Eimskip sigldi að vísu fyrir taxta, sem að mörgu leyti voru miklu lægri en markaðstaxtarnir, en í heild voru samt miklu hærri en svaraði til sams konar kostnaðarverðsútreiknings og Morgunblaðið og Sjálfstfl. krefst nú að bitni á Hamrafellinu. Og á því byggðist sá mörg hundruð millj. kr. gróði, sem Eimskipafélagið safnaði í styrjöldinni. Tiltölulega mjög lítill ágreiningur var um það, að eðlilegt væri, að Eimskipafélagið fengi á þennan hátt að safna sér nokkrum sjóðum til endurnýjunar á skipaflota sínum. Um nákvæmlega sama er að ræða núna. Það er talið eðlilegt, að þessi nýja grein íslenzkra siglinga fái aðstöðu til þess að efla hag sinn og safna nokkrum sjóðum í skjóli þess ástands, sem skapazt hefur á heimsmarkaðnum í flutningamálum, sérstaklega þegar þess er gætt, að félagið hefur reynzt fúst til þess af frjálsum vilja að sigla til landsins fyrir gjöld, sem eru miklu lægri en við þyrftum að borga erlendum aðilum, ef við hefðum ekki átt skipið. Þetta er auðvitað mergurinn málsins.

Það er vægast sagt ósmekklegt að kalla þessar ráðstafanir fáheyrt svindl, eins og hv. þm. N-Ísf. gerði í ræðu sinni.

Sjálfstfl. hefur frjálsa samkeppni á stefnuskrá sinni og segir: Samkeppnin lifi, — a. m. k. þegar hann vill tala fallega og hátíðlega. En nú vildi ég spyrja og biðja þessa hv. þm. um að athuga vandlega, hvað spurningin raunverulega þýðir: Hvað mundu þeir sjálfir og þeir, sem standa hjarta þeirra næst, segja, ef samkeppnin væri látin lifa í olíumálunum varðandi flutning á olíu til landsins? Hvað mundu þeir segja og olíufélögin B. P. og Shell, ef eigendur Hamrafellsins segðu: Við skulum flytja olíu fyrir sjálfa okkur, sjáið þið um ykkar eigin olíu og olíuflutninga. Flytjið hana sjálfir?

Allir vita, hvað þetta mundi þýða. Þetta mundi þýða á skömmum tíma gjaldþrot B. P. og Shell, nema því aðeins að útlendingar, sem þar hafa mikinn áhuga á, að ekki fari neitt illa, hlypu undir baggann og hjálpuðu íslenzkum vinum sínum. Það væri augljóst mál, að hin tvö stóru olíufélögin, B. P. og Shell, geta alls ekki keppt við Sambandið eða Olíufélagið á frjálsum markaði um flutninga til landsins. Sú olía, sem þau flyttu hingað, yrði miklu dýrari en sú olía, sem kæmi með Hamrafellinu, ef hún yrði seld fyrir kostnaðarverð reiknað á þann hátt, sem Morgunblaðið heimtar að það sé reiknað.

Það, sem málsvarar Sjálfstfl. eru því í raun og veru að heimta með afstöðu sinni til þessara olíumála og með því að bæta við, að samkeppnin eigi að lifa, er það, að svo yrði saumað að B. P. og Shell, að þau ættu sér ekki viðreisnar von nema með dulinni hjálp erlendra vina sinna.

Ég tel mjög vel farið, að ekki hefur orðið sú niðurstaða á þessu máli, að þessi leið hafi verið farin. Ég tel það mjög gott, réttmætt og æskilegt, að samkeppnin hefur ekki verið látin lifa í þessu tilfelli, því að það hefði getað orðið þjóðinni í heild dýrt spaug. En svona er það. Það er stundum munur á því, sem menn segja, af því að menn telja það hljóma fallega, og hinu, sem menn raunverulega óska sér, ef menn skoða málið ofan í kjölinn.

Þá sagði hv. ræðumaður í sambandi við þetta mál, að það væri orðið næstum því spaugilegt ástand, að Sjálfstfl. sækti nú að milliliðunum, en stjórnarflokkarnir snerust til varnar. — Það væru sannarlega spaugilegir atburðir, ef þetta væri í raun og veru að gerast. Ef það væri þetta, sem væri að gerast, að Sjálfstfl. brygði brandi gegn milliliðunum í þjóðfélaginu, gegn okrurunum, en núverandi stjórnarflokkar skytu fyrir þá skildi, þá væru það óneitanlega kostulegir atburðir. Það er ekki heldur þetta, sem hefur verið að gerast. En af því að hv. þm. talaði jafnfagurlega og hann talaði, þannig að það mátti vel skilja mál hans þannig, að hann væri enginn sérstakur vinur milliliða og vildi gjarnan færa milliliðakostnaðinn niður, — hv. þm. talar venjulega mjög frjálslyndislega, þegar hann heldur ræður eins og þessar, — þá finnst mér nú rétt að benda honum á örfáar staðreyndir, sem veita honum mikinn kost á því og góðan kost á því að sýna í verki þennan hug sinn um andstöðu gegn óhóflegum milliliðakostnaði. Ég ætla að nefna honum örfáar tölur. Ég skal ekki þreyta hvorki hann né aðra hv. þm. með miklum tölum um þetta efni, ég ætla að benda honum á örfáar tölur um álagningu á fjórar vörutegundir og ætla að bera það undir hann og aðra hv. þdm., hvernig mönnum þykja tölurnar, hvort mönnum þykir líklegt, að milliliðirnir hafi þar borið skarðan hlut frá borði eða mikinn.

Þeir ávextir og þær niðursuðuvörur, sem fluttar voru til landsins 1955, kostuðu í innkaupsverði erlendis 5 millj. kr. Skv. þeim reglum, sem íslenzkir heildsalar beita nú, nemur álagning á þessa ávexti og niðursuðuvörur 52 millj. kr., helmingi hærri upphæð en innkaupsverðið erlendis, og söluverðið út úr búð hjá smákaupmanninum nemur 137 millj. kr. Álagning heildsala og smásala á ávexti og niðursuðuvörur er hér innanlands með öðrum orðum helmingi hærri en fob.-verðið erlendis.

Hliðstæðar tölur um bómullarefni, mjög algenga vefnaðarvöru, eru eftirfarandi: fob.-verð erlendis — af innflutningnum 1955 — nemur 22 millj. kr., álagningin innanlands 28, einni millj. kr. meira, og útsöluverðið er 66 millj. kr. Ég nefni ekki tölur um flutningsgjöld og tolla og það, sem hið opinbera tekur í gjöld af þessum vörum, til að flækja málið ekki of mikið.

Tvö dæmi enn: Innflutningur bifreiðavarahluta nam á fob.— verði 14 millj. kr., álagning 16 — enn er hún hærri — og útsöluverðið 50. Og síðasta dæmið: Innflutningur hreinlætistækja 2.6 millj., álagningin 2.7 — alltaf tekst þeim að hafa álagninguna örlítið hærri en sjálft innkaupsverðið erlendis — og útsöluverð 9.7.

Ég rek ekki fleiri dæmi, þó að hægt væri að nefna þau. Ég orðlengi ekki heldur um það, að þessar tölur bera þess greinilega vott, að álagningin er of há. Af þessu vil ég ekki láta menn draga þá ályktun, að hér þurfi endilega að vera um mikinn gróða að ræða. Þetta gæti alveg eins þýtt það, að allt skipulagið væri meira og minna ófullkomið. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að gróði í sjálfu sér þurfi að vera mikið þjóðfélagsmein, ef hann á rót sína að rekja til dugnaðar og hagsýni þess, sem er að græða. En ef gróðinn á rót sína að rekja til þess, að aðilinn hefur einhvers konar einokunaraðstöðu, einhvers konar sérstöðu eða stundar einhvers konar vafasama verzlunarhætti, þá er hann óheilbrigður. Álagningin getur verið há, þó að lítið græðist, ef skipulagið er óheilbrigt. Ég er hræddur um, að það sé meginástæða þess, hve álagningin hér er óeðlilega há.

Herra forseti. Ég biðst nú afsökunar á því, að ég hef dregið fundinn nokkuð fram yfir venjulegan þinghléstíma, og skal nú ljúka máli mínu með því að andmæla síðustu staðhæfingu hv. þm. N-Ísf., sem var um það, að ríkisstj. hafi brugðizt helztu fyrirheitum sinum. Hvert var helzta fyrirheit ríkisstj., þegar hún var mynduð? Hvert var helzta fyrirheit allra stjórnarflokkanna í kosningabaráttunni í sumar? Það var að brjóta blað í íslenzkri stjórnmálasögu síðari ára, að því leyti að efna til víðtæks samstarfs milli ríkisvaldsins annars vegar og samtaka launþega og framleiðenda hins vegar. Þetta var meginfyrirheit ríkisstjórnarinnar, og við þetta fyrirheit hefur hún staðið að fullu og öllu.