22.11.1956
Efri deild: 16. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Skv. lögum um atvinnuleysistryggingar eru það þrír aðilar, sem greiða framlag til atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er ríkissjóður, sveitarsjóðir og atvinnurekendur. Ríkissjóður greiðir 2% af vinnulaunum, bæjar- og sveitarfélög 1%. Ef miðað er við þær áætlanir, sem nú eru gerðar um þessi útgjöld, þá er reiknað með, að framlag ríkissjóðs á næsta ári verði um það bil 19 millj. kr. og framlag hinna aðilanna hvors um sig því um það bil 91/2 milljón. Í þessum lögum er svo gert ráð fyrir, að Alþ. kjósi fimm menn í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðsins, Vinnuveitendasambandið einn, og Alþýðusamband Íslands einn. Hins vegar hefur alveg verið fram hjá bæjar- og sveitarfélögunum gengið um tilnefningu í stjórn sjóðsins.

Mér finnst rétt, þegar hæstv. ríkisstj. flytur nú frv. um breytingu á þessum lögum, breytingu um skipun stjórnar sjóðsins, að þá sé einnig gerð sú breyting, að Samband íslenzkra sveitarfélaga fái fulltrúa í sjóðsstjórnina, og ætla ég, að engum geti blandazt um það hugur, að það sé fullkomið sanngirnismál. Ég mun því flytja till. á síðara stigi þessa máls um það, að Samband íslenzkra sveitarfélaga fái að tilnefna einn í þessa sjö manna stjórn.