20.12.1956
Efri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. meiri hl. með fyrirvara og tel rétt að gera með fáum orðum grein fyrir fyrirvara mínum og afstöðu til frv.

Frv. er stjórnarfrv., og að því leyti er það í samræmi við stjórnarmyndunarsamning frá í sumar sem leið, að í honum var tekið fram, að aukin skyldu áhrif verkalýðsins i stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Vitanlega skiptir það meira máli fyrir þá, sem tryggðir eru, en alla aðra landsmenn, hvernig sjóði þessum er stjórnað, svo að eðlilegt verður að teljast, að þeir fái að hafa þar sterka hönd í bagga um framkvæmdir. Eftir lögunum, eins og þau eru nú, þá er þeim ætlaður jafn réttur í stjórninni og atvinnuveitendum, þ.e. einn maður af sjö.

Atvinnuveitendasambandið hefur gert athugasemdir við þetta frv. og talið, að lögin hafi verið byggð upp á því samkomulagi, að jafn yrði réttur þessara tveggja aðila í stjórn sjóðsins. Ekki hefur fundizt nein sönnun fyrir því í þeim gögnum, sem leitað hefur verið eftir og fyrir liggja um samningu frv. að lögunum, og ekki hefur heldur komið fram í þeim viðræðum, sem heilbr.- og félmn. hefur átt við aðilana, nein sönnun fyrir því, að á þessum grundveili hafi lögin verið sett. En ég tel rétt rök mæla með því, að hinir tryggðu hafi meiri rétt til áhrifa en vinnuveitendur, og á því er frv. líka byggt, sem nú liggur fyrir.

Hins vegar verð ég að segja það, að ég hefði líka talið rétt, að hinir tryggðu greiddu þá einnig beint tillag i sjóðinn. Mér finnst óviðfelldið og fremur líklegt til að leiða af sér skakkar hugmyndir, að þeir, sem njóta réttar, beri ekki jafnhliða beinar skyldur. Mér hefur líka skilizt, að það þekkist hvergi, þar sem atvinnuleysistryggingar eru, nema hér, að hinir tryggðu greiði ekki sjálfir eitthvert iðgjald til trygginganna.

Annars er það margt, sem þarf að laga í lögunum um atvinnuleysistryggingar að minn áliti, enda eru þau frumsmíð og voru sett með takmörkuðum ráðrúmstíma, eins og hv. frsm. minni hl. skýrði frá. Það var vitað mál, þegar lögin voru sett í fyrra, að á þeim voru gallar, í þeim voru gölluð ákvæði, sem þá fékkst ekki samkomulag um breytingar á. En í þess stað var selt inn í lögin, að þau skuli endurskoðuð eftir tvö ár í samráði við verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda, og nú er því ekki nema eitt ár, þangað til þau verða tekin til endurskoðunar í heild. Þess vegna tel ég raunar, að ekki stórfelldari breyting en frv. felur í sér hefði mátt bíða endurskoðunarinnar. En ég nenni samt ekki að vera á móti henni, af því að hún er borin fram af stjórn, sem ég styð, og lögð er mikil áherzla á það innan stjórnarinnar, að hún nái fram að ganga.

En af því að svo stutt er til endurskoðunar laganna, þá flyt ég engar brtt. um það, sem mér finnst að öðru leyti að lögunum; tel betri vinnubrögð að láta það bíða heildarendurskoðunar að koma fram með slíkar till.

Höfuðgalla laganna tel ég, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn er ekki sameignarsjóður fyrir allt landið, heldur er hann séreignasjóðir fyrir byggðirnar. Þeir eiga sínar sérstöku eignir, sem þeir sjálfir mynda. Verkalýðsfélög hvers sveitarfélags fá í sína sjóðreikninga tekjur af vinnu sinna félaga, og tryggingarnar í hverju félagi fara því eftir ríkidæmi þess sveitarfélags í sjóðnum eða þess verkalýðsfélags. M.ö.o. þar, sem atvinnan er að jafnaði mest, hafa menn sterkastan bakhjarl í sjóðnum, í raun og veru í öfugu hlutfalli við það, sem þörfin er. Atvinnuleysistryggingarnar efla þess vegna ekki jafnvægið í aðstöðu manna í landinn svo sem vera ætti, og þó leggur ríkið árlega til helming tekna sjóðsins.

Annað, sem ég tel fráleitt, er það, að sveitarfélögin, sem leggja til fjórða part af árlegum tekjum sjóðsins, hafa enga hlutdeild í ráðstöfunarrétti sjóðsins. Þeim er ekki ætluð þar nein hlutdeild, eins og lögin eru. Ættu sveitarfélögin þó að eiga sama rétt til áhrifa og atvinnurekendur, af því að framlagið til sjóðsins er nákvæmlega hið sama hjá sveitarfélögunum og atvinnurekendunum í hverri byggð, en auk þess hafa sveitarfélögin fram yfir atvinnurekendurna ríka ástæðu til að fylgjast með úthlutun úr sjóðnum, af því að úthlutunin kemur inn á svið fátækramálanna, sem sveitarfélögin eiga að annast.

Hv. 6. þm. Reykv. (GTh) flytur till. á þskj. 83 um, að Samband íslenzkra sveitarfélaga fái einn mann af sjö í yfirstjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Ef það næði fram að ganga, væri í því lítils háttar réttarbót, en aðallega þó á yfirborðinn, af því að atvinnuleysistryggingarnar eru að mestu sérmál hverrar byggðar. Það, sem þarf að verða, er, að sveitarstjórnirnar fái fulltrúa í úthlutunarnefndirnar heima fyrir. Þær nefndir eru hinar raunverulegu stjórnir á hverjum stað. Í þeim hafa nú verkalýðsfélögin þrjá fulltrúa og vinnuveitendur tvo, en sveitarfélagið engan. Þetta tel ég fjarstæðu og mjög óskynsamlegt fyrirkomulag. Leiðrétting á þessu verður samt að bíða að mínu áliti heildarendurskoðunarinnar. Ég held, að hv. 6. þm. Reykv. ætti líka að láta sína till. bíða, þangað til lögin verða í heild tekin til endurskoðunar. Hún felur í sér of litla réttarbót fyrir sveitarfélögin. Ég mun af þeirri ástæðu ekki greiða henni atkvæði núna. Ég vil gera hærri kröfur f.h. sveitarfélaganna en í henni felst, enda er praktískara, að sú krafa og aðrar slíkar kröfur korni fram, þegar lögin verða tekin til endurskoðunar í heild, úr því að ekki er nema eitt ár þangað til.

Vill nú ekki hv. 6. þm. Reykv. taka till. aftur, geyma hana og gera hana víðtækari, þegar endurskoðunin kemur fram? Þá skal ekki standa á því, að ég gerist liðsmaður í kröfum f.h. sveitarfélaganna um eðlilega þátttöku í stjórn þessara mála. Að þessu sinni sé ég ekki, að þýðingu hafi að hefja sókn þeim efnum. Ég mun þess vegna, eins og nál. 1 er með sér, fylgja frv. óbreyttu. Sem stjórnarstuðningsmaður nenni ég ekki að bregða fæti fyrir það.