20.12.1956
Efri deild: 37. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það fór nú hálfilla fyrir hæstv. félmrh. í þessari ræðu sinni. Hann ætlaði sér að afsanna snarlega þá fullyrðingu mína, að undirtónn þessa frv. væri pólitísks eðlis, sem sagt, að hann væri ekki fyrst og fremst að hugsa um áhrif verkalýðsins, heldur hagsmuni kommúnista. Hæstv. ráðh. sagði í upphafi máls síns, að með þessu frv. væri ekki verið að gera nema ákaflega einfaldan hlut, það væri verið að færa til fulltrúa frá Sjálfstfl. til Alþýðusambands Íslands. Þarna er þó a.m.k. verið að taka fulltrúa af pólitískum flokki, Sjálfstfl., og fá í hendur Alþýðusambandi Íslands, segir hæstv. ráðh., — ég segi: pólitískum samtökum, sem notuð eru af kommúnistaflokknum á harðsvíraðri pólitískan hátt en nokkur önnur samtök í landinn.

Hæstv. ráðh. hefði þess vegna getað orðað þetta enn greinilegar með því að segja, að með þessu frv. væri ekki verið að gera neitt annað en að færa til fulltrúa frá Sjálfstfl. til kommúnistaflokksins. Þá hefði hann sagt sannleikann allan.

Hann á alltaf dálítið erfitt með sannleikann, þeim kemur aldrei verulega vel saman, sannleikanum og hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. á vanalega erfitt með það, þó að hann jafnvel langi til þess að segja sannleikann allan, þá kemst hann aldrei meira en upp í svona helming, kannske 15%, og hann hefur, held ég, í þessu tilfelli komizt upp í 75%. En það þýðir það, að sannleikurinn er sá, sem ég hef haldið hér fram, að það er ekki verið að gera neitt með þessu frv. annað en það, að lýðræðisflokkar ríkisstj. eru að hjálpa kommúnistaflokknum til þess að taka einn fulltrúa af Sjálfstfl. í stjórn þessa sjóðs. Það er þetta, sem ég harmaði og taldi að þessir flokkar mundu einhvern tíma einnig fá ástæðu til að sjá eftir að hafa gert.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort Sjálfstfl. ætti einhvern sérstakan rétt á því að eiga einn allra stjórnmálaflokka 2 fulltrúa í sjö manna stjórn, sem Alþ. kýs fimm menn af. Hvers vegna á Sjálfstfl. sérstakan rétt á 2 fulltrúum, eða átti, þegar kosið var, og á enn? Vegna þess að hann er langsamlega stærsti stjórnmálaflokkurinn í þjóðfélaginu. Það stendur meira en helmingi fleira fólk á bak við Sjálfstfl. heldur en flokk hæstv. félmrh. Engu að síður er lýðræðisþroski hæstv. ráðh. ekki meiri en svo, að hann kemur og segir: Ég vil ekki fá jafnmarga fulltrúa og Sjálfstfl., heldur fleiri. Hann vill fá einn kosinn af Alþ., eins og hann hefur, og hann vill fá tvo kosna hjá Alþýðusambandi Íslands, því að auðvitað ætlar hæstv. ráðh. kommúnistaflokknum þessi áhrif. Það getur vei verið, að þessi ummæli mín hér og ábendingar um, hvað hæstv. ráðh. hafi í huga, verði til þess, að Alþfl. fái annan fulltrúann. En ég gæti bezt trúað, að vesalings Alþfl. ætti mér það upp að unna, vegna þess að ég hef vakið athygli á þeim slæma tilgangi hæstv. ráðh. með frv. Ég er ekki að segja, að ég sé neinn hjartnanna og nýrnanna rannsakari, þó að ég sjái þetta. Við hittumst ekki hér í fyrsta skipti í dag, ég og hæstv. félmrh., við þurfum ekkert að gegnumlýsa hvor annan, býst ég við. Ég þarf ekki gegnumlýsingartæki til þess að vita, hvað fyrir hæstv. ráðh. vakir. Ég sé það á honum, og ég finn það á till. hans. Þær eru nefnilega skýrar í þessu tilfelli. Það getur engum dulizt.

Það er náttúrlega utan við þetta mál, sem ég þó minntist á í ræðu minni hér áðan, að Alþýðusamband Íslands undir forustu kommúnista og hæstv. félmrh. hefði gert sér mjög til minnkunar og farið allt öðruvísi að en verkalýðssamtök í öðrum frjálsum lýðræðislöndum í sambandi við Ungverjalandsmálin. Það vita allir hv. þm. a.m.k., að það er yfirvarp eitt hjá hæstv. ráðh., þegar hann segir, að beiðnin um samúðaryfirlýsingu við Ungverja hafi borizt of seint til þess, að þetta væri framkvæmanlegt. Vinnustöðvunarbeiðnin barst ekkert seinna til Alþýðusambands Íslands en til almennings og til fjölda annarra samtaka í landinu, sem tóku þátt í því hléi, sem gert var á störfum. Alþýðusambandið hafði betri aðstöðu til þess en flestir aðrir með sinu stóra trúnaðarmannakerfi og sínu sambandi við verkalýðsfélögin í landinu og starfsliði sínu og stórri skrifstofu hér í Reykjavik. Þetta er ekkert nema fyrirsláttur hjá hæstv. ráðh., vegna þess að hann vill breiða yfir það, að hann var að ganga erinda kommúnistaflokksins, hins alþjóðlega kommúnisma, sem er að murka lífið úr ungversku þjóðinni í dag. Ég skil, að hæstv. ráðh þyki það leiðinlegt, að allir skuli vita þetta, en það er ekki hægt að breiða yfir það.

Svo ætlar hann að fara að slá sig til riddara á því, að sænska alþýðusambandið hafi haft sama hátt á. Þetta leyfir hæstv. ráðh. sér að segja, vitandi það, að a.m.k. margir hv. þm. hafa lesið sænsk blöð og fylgzt með sænskum málum og vita, að verkalýðssamtök um gervalla Svíþjóð efndu til mótmælaaðgerða og vinnustöðvana, hvert í sinum byggðarlögum, að vísu ekki öll á sama tíma, til þess að mótmæla gerræði og blóðfórnum kommúnismans í Ungverjalandi. Svo stendur hæstv. ráðh. hér upp og ætlar með einhverju gömlu blaði að sanna það, að verkalýðssamtökin í Svíþjóð hafi haft sama hátt á og Alþýðusamband Íslands undir forustu kommúnista. Ég segi, að mér þykir nú skörin færast upp í bekkinn, þegar slíkum rökum er beitt. Nei, verkalýðssamtökin sænsku höfðu sannarlega allt annan hátt á heldur en Alþýðusamband Íslands undir forustu kommúnista. Það getur hver og einn einasti maður sannfært sig um, sem lítur í blöðin frá þeim dögum.

Það þarf ekki heldur að fara neitt í grafgötur um það, með hverjum aðalmálgagn þessa hæstv. ráðh. hefur staðið. Ég veit ekki betur en það hafi verið ræður og bréf kvislingsins, sem nú stjórnar Ungverjalandi fyrir hönd Rússa og stjórnar aftökunum og blóðfórnunum þar, sem hafa verið birt um skeið daglega í blaði hæstv. ráðh., Þjóðviljanum. Það taldi sér skylt að túlka málstað morðingjans. Það þýðir ekkert að vera að breiða yfir svona hluti. Þetta eru staðreyndir, sem blasa við allri íslenzku þjóðinni. Vitanlega eru kommúnistar hér dauðhræddir við þetta og vita, að það er að hrynja af þeim fylgi vegna þessara hryllilegu atburða og vegna þess að gríman hefur fallið af smetti alheimskommúnismans, og sé hún ekki endanlega fallin af hæstv. félmrh., þá á hún eftir að gera það innan skamms, þannig að það villist enginn á því, hvers konar andlit hann og flokksmenn hans bera.

Hitt skil ég svo mætavel, að mínum gamla félaga og andstæðingi, hæstv. félmrh., finnst allmikill heiður að því að geta a.m.k. sagt frá því, þó að það sé alveg ósatt, að ég hafi einhvern tíma verið kommúnisti. (Gripið fram í.) Það er ósköp eðlilegt, að hæstv. ráðh. vilji toga einstaka heiðarlegan mann yfir á snæri kommúnista. Ég fyrirgef honum það alveg, enda þótt ég segi hv. þd. það, að hann hafi þarna „forgripið“ sig á sannleikanum, eins og stundum hefur hent hann fyrr.

Varðandi svo hitt, sem hæstv. ráðh. klykkti nú út með, að Sjálfstfl. hefði ekki haft áhuga fyrir að kaupa togara fyrir Íslendinga og þá náttúrlega sérstaklega ekki fyrir fólk úti um land, en nú allt í einu fengi hann þennan áhuga, þegar hann væri kominn í stjórnarandstöðu, vil ég segja þetta:

Ég álít, að hæstv. ráðh. ætti seinastur af öllum mönnum að fara að tala um togara. Ég segi það alveg eins og er. Við komum báðir úr sama byggðarlagi. Við höfum báðir verið þar bæjarfulltrúar, báðir haft þann heiður að vera forsetar bæjarstjórnar þar, á Ísafirði, báðir haft þann heiður að vera viðriðnir togaramál. Hæstv. ráðh. hefur verið riðinn við þau á þá lund, að hann hafði forustu um það, þegar hann réð í bæjarstjórn þessa litla byggðarlags, að selja burt eina togarann, sem byggðarlagið átti, og selja hann hvert? Til Reykjavíkur. (Félmrh.: Og hver seldi Reykjavík hann?) Útgerðarmenn í Reykjavík áttu hann hér lengi vel, allt stríðið, og græddu á honum. Hæstv. ráðh. lofaði sjómönnum á Ísafirði því, þegar þessi togari var seldur, að fyrir andvirði hans skyldu keyptir annað hvort 20 bátar á stærð við samvinnufélagsbátana, sem voru 40 tonna bátar, eða 40 bátar á stærð við „Dísirnar“, sem voru 15–20 tonna bátar. Hæstv. ráðh. seldi togarann burt frá Ísafirði, frá fólki, sem vantaði atvinnu, til Rvíkur, til manna, sem þar notuðu hann allt stríðið og græddu á honum. Þetta var á hápunkti stríðsgróðatímabilsins. Þetta var ekki á því tímabili, þegar menn voru farnir að tapa á togurum. Umhyggja hæstv. ráðh. fyrir fólkinu í sínu plássi, sínu kjördæmi síðar, var þá ekki meiri en þetta, að hann seldi skipið burt. Hvers vegna er svo hæstv. ráðh. að minnast á togara og það við mig, sem hann veit að átti þó nokkurn þátt í því að útvega þessu sama byggðarlagi tvo nýtízku togara, að vísu eftir að menn voru farnir að tapa á togaraútgerð?

Ég álít, að hæstv. ráðh. hafi eins og stundum áður nefnt snöru í hengds manns húsi, en það er nú hans yfirsjón, hans eilífa yfirsjón, að nefna það helzt sem sízt skyldi.

Ég skal ekki fara að rifja upp þær umr., sem hafa farið hér fram undanfarið um togarakaup og hæstv. ráðh. hefur ekki heyrt hér í hv. þd., vegna þess að hann hefur ekki verið hér viðstaddur. En í þeim umr. var það sannað eins rækilega og á verður kosið, að Sjálfstfl. hefur haft forustu um kaup þeirra togara, sem nú eru í landinu, svo að segja allra. Það var þess vegna ekki í neinu ósamræmi við fyrri stefnu Sjálfstfl., að ég og hv. þm. Vestm. fluttum brtt. um það við frv. ríkisstj. um togarakaup o.fl., að togurunum skyldi fjölgað úr 15 í 20. Við færðum rök að því, að það hefði verið skynsamlegra að veita ríkisstj. þessa heimild, því að þetta er þó einu sinni ekki nema heimild. Ef ríkisstj. fannst of mikið að fá heimild til þess að kaupa 20 skip, þá gat hún bara látið smíða 15. Hún var ekkert skyldug til þess. En hæstv. ríkisstj. vildi ekki einu sinni hafa heimildina til þess að láta smíða 20 skip. Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi átt sinn þátt í því að móta þá afstöðu ríkisstj., að heimildin mátti ómögulega ná til nema 15 skipa, þó að það væri ekkert verið að skylda ríkisstj. með minni brtt. og okkar hv. þm. Vestm. til þess að kaupa 20 skip. Það var bara verið að veita henni heimild. Það var verið að rýmka heimild hennar til þess að láta endurnýja togaraflotann og leysa atvinnuþörf þess fólks, sem vantar atvinnutæki víðs vegar um land.

Ég endurtek svo það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, er ekki flutt sem réttlætismál fyrir verkalýðshreyfinguna, eins og hæstv. ráðh. vill vera láta. Hann hefur nú lýst því yfir, að það sé flutt til þess að færa fulltrúa frá Sjálfstfl. yfir til kommúnistaflokksins. Þessi yfirlýsing stendur og þar með mín rök gegn þessu máli.