20.12.1956
Neðri deild: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Mér skilst, að þetta mál sé um breytingu á stjórn atvinnuleysistryggingasjóðsins. Það er kunnugt, að þetta mál var deilumál í Ed., og því er haldið fram, að sú breyting á sjóðsstjórninni, sem ætlunin er að gera, brjóti í bága við það samkomulag, sem gert var milli aðila, þegar atvinnuleysistryggingarnar voru ákveðnar í sambandi við lausn verkfallsins 1955.

Nú er sennilega meiri hluti fyrir þessari breytingu hér á Alþingi, og mér hefur skilizt, að ætlunin væri að koma þessu máli áfram fyrir áramót eða áður en þingi er frestað. Ég vil nú benda á, hvort ástæða er til að knýja svo fast á um þetta. Ekki mundi heimurinn farast, þótt dregið væri að kjósa í þessa stjórn, þangað til þingið kemur saman í janúar, og eru raunar mörg dæmi þess, að þó að ákveðið sé, að kjósa eigi stjórn fyrir áramót eða annað slíkt, þá hefur það dregizt og ekki gert skaða.

Þar sem hér er um nokkuð viðkvæmt mál að ræða og því haldið fram af einum aðila, að beint sé brotið á móti þeim forsendum, sem ráðgerðar voru, þá tel ég, að það þurfi að athugast betur. Með því segi ég ekki endanlega um afstöðu mína til málsins, en ég vil mjög eindregið fara þess á leit, að hætt verði við að knýja málið fram fyrir áramót, og bendi til þess, að Sjálfstfl. hefur ekki hagað sínum umr. í sambandi við efnahagsmálin þannig, að tafir yrðu á, eða á nokkurn hátt reynt að beita málþófi eða hindra það, að málið næði fram að ganga á þeim stutta tíma, sem þinginu er ætlaður til meðferðar þess. Hefði þó verið í lófa lagið að ræða málið málefnalega miklu lengur en gert hefur verið. En mér finnst ástæðulaust að níðast svo á þolinmæði manna, sem hér er ætlazt til að gert sé, og tekið sé upp lítilvægt deilumál, sem þetta er að vissu leyti, og það knúið fram með afbrigðum, úr því að það er þannig til komið, að það er beint talið, að það brjóti á móti þeim forsendum, sem fyrir hendi voru, þegar þessir samningar voru gerðir.

Ég vildi því í allri vinsemd á þessu stigi málsins fara þess á leit, að málinn yrði frestað, — það er ekkert á móti því, að það gangi til n. nú þegar, — en að fyrirætlanirnar um, að það yrði knúið fram, yrðu látnar bíða eða frá þeim yrði horfið. Ég tel, að enginn skaði sé skeður, þó að það dragist fram yfir áramót, þá er vafalaust þinglegur meiri hluti til þess að koma því fram, en þá gefst okkur hinum færi á því að athuga málið betur og koma sjónarmiðum okkar að á málefnalegri hátt en við eigum kost á nú.