28.01.1957
Neðri deild: 46. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Fram. meiri hl. (Gunnar Jóhannesson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. Nd. hefur athugað frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 7. apríl 1956, um atvinnuleysistryggingar. Frv. er flutt af hæstv. félmrh. í Ed. Hv. deild afgreiddi frv. óbreytt síðustu dagana fyrir jól, og gafst heilbr.- og félmn. Nd. ekki tími til þess að afgreiða málið frá sér, áður en Alþ. tók sér frí frá störfum.

N. hefur nú tekið málið til afgreiðslu. Meiri hl. n. leggur til, sbr. nál. á þskj. 190, að frv. verði samþ. óbreytt. Hv. þm. Ísaf. gat ekki mætt á fundi n., þegar málið var afgreitt, vegna fjarveru úr bænum, en 8. þm. Reykv. var ósamþykkur frv., eins og það nú er. En í dag hefur verið útbýtt nál. minni hl., sem er á þskj. 195 og frsm. minni hlutans mun gera frekari grein fyrir.

Frv. gerir ráð fyrir þeirri einni breytingu frá gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, að Alþýðusamband Íslands skuli eiga tvo af sjö stjórnarfulltrúum atvinnuleysistrygginganna og að stjórnmálaflokkarnir fái með hlutfallskosningu á Alþingi fjóra fulltrúa kosna í stað fimm áður og Vinnuveitendasamband Íslands einn.

Það virðist svo sem ekki þyrftu að verða deilur hér á hv. Alþ. um þetta mál, svo sjálfsagt og augljóst réttlætismál sem það er. Vissulega er atvinnuleysistryggingamálið almennt stórmál, sem þjóðina varðar að meira eða minna leyti. Flestar menningarþjóðir líta þannig á, að atvinnuleysistryggingar séu jafnnauðsynlegar og sjálfsagðar og t.d. sjúkratryggingar. Þær þjóðir, sem taldar eru standa okkur næstar í menningu og lífsháttum, hafa fyrir löngu komið á hjá sér atvinnuleysistryggingum, og vel að merkja án þess að verkalýðshreyfingin í þeim löndum hafi þurft að knýja þetta réttlætismál fram með eða í langvarandi verkföllum. Íslenzka verkalýðshreyfingin varð hins vegar að beita verkfallsvopninu í langan tíma til þess að knýja málið fram og varð að fella niður verulegan hluta af sanngjörnum kaupkröfum sínum gegn því, að myndaður yrði með iðgjaldagreiðslum atvinnuleysistryggingasjóður, eins og bent er réttilega á í athugasemdum við frv.

Rétt er líka að geta þess, að á undanförnum þingum hefur verið flutt af þingmönnum Sósfl. frv. um atvinnuleysistryggingar, sem hlaut ekki á þeim tíma samþykki meiri hluta Alþingis og var svæft í nefnd undanfarin ár.

Þrátt fyrir það, þó að það sé rétt, að þetta mál sé mál, sem snertir að meira eða minna leyti flesta þjóðfélagsborgara beint og óbeint, er það samt sem áður alveg óumdeilanlegt, að atvinnuleysistryggingarnar eru fyrst og fremst mál, sem varðar verkalýðshreyfinguna og hvern einasta meðlim verkalýðsfélaganna. Þetta er stórkostlegt hagsmunamál verkafólksins, sem það knúði fram, eins og ég hef bent þegar á, í harðri og langvarandi baráttu við atvinnurekendur og ríkisvald. Það er því ekki nema sjálfsagt og í alla staði eðlilegt, að verkalýðssamtökin hafi krafizt og krefjist þess að fá aukin áhrif í stjórn atvinnuleysistrygginganna frá því, sem nú er, enda marglýst yfir af fulltrúum verkalýðssamtakanna á byrjunarstigi málsins og sömuleiðis við umr. hér á Alþingi um sjálft frv. um atvinnuleysistryggingarnar, að verkalýðssamtökin mundu á engan hátt una því til lengdar, að áhrif þeirra í stjórn atvinnuleysistrygginganna yrðu ekki meiri en lögin gerðu ráð fyrir í upphafi. Það er því í fullu samræmi og beinlínis eftir óskum verkalýðssamtakanna í þessu máli. Ég fullyrði, að það er ekkert deilumál innan verkalýðshreyfingarinnar um að fara fram á að krefjast frekari áhrifa af hendi verkalýðsfélaganna í stjórnum þessara sjóða eða atvinnuleysistrygginganna heldur en verið hefur, og að þetta frv. er beinlínis flutt hér eftir óskum verkalýðsfélaganna víðs vegar um allt land.

Í aths. við frv. er bent á, að samkv. eðli málsins væri sanngjarnt, að verkalýðssamtökin fengju meiri hluta í stjórn atvinnuleysistrygginganna. Hér sé þó aðeins farið fram á, að þau eigi tvo í sjö manna stjórn. Ég leyfi mér alveg sérstaklega að benda á þetta hér, og sýnir það, svo að ekki verður um deilt með neinum rökum, að verkalýðssamtökin sýna mikla hógværð og ég vil segja fullmikla tilhliðrunarsemi í þessu máli.

Verkalýðssamtökin hafa sannarlega sýnt það frá fyrstu bendi, að þeim, sem eru ein stærstu fjöldasamtök hér á þessu landi, er vel trúandi fyrir fjármunum og að þau muni ekki misnota vald sitt, þó að þeim væri veittur óskoraður réttur yfir atvinnuleysistryggingunum. En eins og frv. þetta ber með sér og ég hef þegar bent á, er hér ekki verið að fara fram á, að verkalýðssamtökin fái meiri hluta í stjórn atvinnuleysistrygginganna, síður en svo. Hér er aðeins farið fram á, að þau fái tvo menn í sjö manna stjórn, Alþ. skal kjósa fjóra menn og Vinnuveitendasamband Íslands einn.

Ég hef á engan hátt skilið þá hv. alþm., sem eru andvígir þeirri breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Margir hv. alþm. í stjórnarandstöðu hafa nú að undanförnu talað af miklum fjálgleik um verkalýðinn, verkalýðssamtök og launastéttir og að hlutur þessa fólks hafi verið fyrir borð borinn af núverandi ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar hér á Alþingi. Það mætti því ætla, að frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. og atkvgr., væri þeim kærkomið tækifæri til þess að sýna í verki vinsemd sína í garð verkalýðssamtakanna. Þetta frv., þó að það sé ekki mikið að vöxtum, er örlítill prófsteinn á einlægni þeirra hv. alþm. í garð verkalýðssamtakanna, prófraun, sem meðlimir verkalýðsfélaganna munu um allt land fylgjast vel með, hvernig leyst verður.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða á þessu stigi frekar um þetta mál, en legg til við hæstv. forseta, að að umr. lokinni verði málinu vísað til 3. umr.