23.10.1956
Neðri deild: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er um breytingu á skipun húsnæðismálastjórnar. Húsnæðismálastjórn var áður skipuð fimm mönnum, og var húsnæðismálastjórninni síðan skipt í tvær deildir. Tveir menn úr hennar hópi voru nefndir til þess að annast framkvæmdastjórn af hendi húsnæðismálastjórnarinnar, en hinir þrír höfðu með höndum stjórn tæknideildar húsnæðismálastjórnar.

Eftir stjórnarskiptin varð ég þess var, að svo mátti heita, að húsnæðismálastjórnin væri óstarfhæf, og það var vel skiljanlegt. Þá var úr gildi gengin helmingaskiptaregla fyrrverandi ríkisstjórnar og það, sem hafði þótt fara með eðlilegum hætti nokkurn veginn, þegar hvor þessara tveggja, sem önnuðust lánveitingarnar, annaðist sinn helming. Þegar þetta þótti ekki lengur vera í gildi, kom upp margs konar ósamlyndi milli þessara tveggja aðila, og það var togazt á um nærri hvert atriði og stóð margt fast. Þá kom til úrskurðar félmrn. um skilning á ýmsum atriðum hvað ofan í annað, og þetta sá ég að gat ekki gengið svo. Auk þess höfðu svo bætzt ýmis ný störf á húsnæðismálastjórnina, m.a. að sjá um framkvæmd á brbl. um afnot íbúðarhúsnæðis í kaupstöðum og fleiri störf, sem nú kölluðu að.

Það varð því að ráði, að það yrði að breyta skipun húsnæðismálastjórnarinnar, og var það gert á þann hátt, að skipuð skyldi þriggja manna framkvæmdastjórn úr sjö manna húsnæðismálastjórn. Allir þessir fimm menn, sem í húsnæðismálastjórninni voru áður, eru þannig í henni nú, en verkum er þannig skipt milli húsnæðismálastjórnarmanna, að þrír skulu í stað tveggja áður fara með framkvæmdastjórn húsnæðismálastjórnarinnar, en hinum þremur er ætlað að taka þátt í störfum húsnæðismálastjórnar að öðru leyti. Formaður nefndarinnar er eins og áður tilnefndur af Landsbanka Íslands og varamaður í hans stað. Það er nú Jóhannes Nordal hagfræðingur Landsbankans, og gegnir hann formannsstörfum eins og áður og verksvið hans hið sama.

Þetta er einasta breytingin, sem í þessum lögum felst.

Ég heyrði í gær, að það var vikið að því, að þessi breyting á skipun húsnæðismálastjórnar mundi verða kostnaðarsamari en hinn fyrri háttur. En það er á misskilningi byggt. Þessum mönnum fimm hafði verið ákveðin þóknun, 32800 kr. á ári hverjum um sig þessara fimm, og í lögunum stendur, að ráðh. geti ákveðið þóknun húsnæðismálastjórnarinnar. Þessi ákvörðun um launin var felld niður með bréfi og miðast við 1. okt. Síðan verður hinni nýju húsnæðismálastjórn ákveðin þóknun með tilliti til starfa hennar. Ég fullyrði, að það verður ekki til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, að þrír menn í stað tveggja áður fara með meginhlutann af störfum húsnæðismálastjórnarinnar, því að hinir, sem aðeins eiga að mæta þarna á fundum, líklega einn sinni í mánuði eða svo, hljóta auðvitað að fá ákveðna tiltölulega lága þóknun, og það fé, sem áður fór þess vegna til greiðslu húsnæðismálastjórnarinnar, mun sízt verða meira við þessa breytingu.

Breytingarnar í frv. eru sem sé eingöngu þær, að stjórnin er nú skipuð sjö mönnum í stað fimm áður og að þrír fara með framkvæmdanefndarstörf innan stjórnarinnar í stað tveggja áður.

Ég legg til, að þetta frv. fari að lokinni þessari umr. til heilbr.- og félmn.