23.10.1956
Neðri deild: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Þess var nú fyllilega að vænta, að hin harða stjórnarandstaða sæti ekki þegjandi og klumsa allan fundinn út, og kom mér það því ekkert á óvart, að hv. síðasti ræðumaður lét til sin heyra. Það var auðvitað það, sem mátti búast við. Hins vegar skal ég segja honum það strax, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eingöngu um breytingu á húsnæðismálastjórninni sjálfri og ekki um aðrar almennar breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni. Ég taldi því ekki ástæðu til að fara að þenja mig hér um hið mikla og víðtæka og margþætta vandamál, húsbyggingamálin almennt, því að frv., sem til umr. var, fjallaði alls ekki um annað en stjórn þessara mála. Ég hélt mér því í framsöguræðu minni fyrir frv. eingöngu við efni frv. En breytingin er sú, að stjórnin skuli skipuð sjö mönnum í staðinn fyrir fimm áður, að í staðinn fyrir að tveir fóru með framkvæmdavaldið áður, fara núna þrír með það.

Hv. þm. talaði um, að þessi brbl. séu gefin út þvert ofan í ákvæði stjórnarskrár. Stjórnarskráin segir, að brbl. skuli gefa út, þegar brýn nauðsyn krefji, og sú brýna nauðsyn var fyrir hendi. Gamla húsnæðismálastjórnin var orðin óstarfhæf, kom sér ekki saman um eitt eða neitt og bað um úrskurð á úrskurð ofan. Þess vegna voru sett um þetta brbl. Ég vænti þó a.m.k., að það standi hvergi skráð í stjórnarskránni, að íhaldsmaður verði að fara með framkvæmdavald húsnæðismálastjórnar. Ef svo væri, þá væri ég vitanlega að brjóta stjórnarskrána með setningu þessara brbl.

Hann kvartaði undan skorti á alvöru í sambandi við þetta mál. En alvaran er þessi ein í þessu frv., að núverandi stjórn ætlaði ekki að fela íhaldsmanni að hafa framkvæmdastjórn þessara mála fyrir sig. Hins vegar hefði legið vel við að taka upp hætti fráfarandi ríkisstj. og segja: Stjórnarandstaðan skal engan fulltrúa eiga í þessari stjórn. — Þannig var lýðræðisástin, þannig var það í framkvæmdinni áður. Það hefði verið hægt að setja hér lög um, að það skyldu vera þrír í húsnæðismálastjórn og enginn úr stjórnarandstöðunni. Það var eftir þeirra kokkabókum.

Ekki vildi ég hafa þann háttinn á, sýndi meiri mildi. Og þetta er gert á þann hátt, að þeir fulltrúar, sem núverandi stjórnarandstaða átti áður í stjórn húsnæðismálanna, eru þar enn þá. Þeir hafa ekki þann trúnað stjórnarinnar hins vegar að vera í framkvæmdastjórninni. Undan þessu er kannske ástæða til að kvarta, en þá á bara að gera það ódulbúið og segja: Það er þetta, sem við höfum að athuga við þetta frv.

Ég held, að það sé rétt, úr því að hv. þm. fór að ræða húsnæðismálin almennt, að ég skýri frá því, að í sumar óskaði ég eftir því, að húsnæðismálastjórn gæfi skýrslu um það, hvernig þessi mál stæðu, framkvæmdin á lögunum í heild. Formaður húsnæðismálastjórnar var á förum úr landinu, en gaf þó út bráðabirgðaskýrslu, áður en hann fór. Ég hefði gjarnan viljað ræða einstök atriði þeirrar skýrslu við hann, en þess hefur ekki verið kostur, því að hann hefur verið utanlands þangað til nú fyrir örfáum dögum. Ég taldi því áðan ekki rétt að gera þessa skýrslu að umræðuefni, fyrr en kostur hefði gefizt á að ræða nánar við formann húsnæðismálastjórnarinnar, en eftir ræðu hv. þm. tel ég þó rétt að víkja að nokkrum atriðum, sem upplýst eru í þessari skýrslu.

Hv. þm. talaði um, að það hefðu verið gerðar varanlegar umbætur á húsnæðismálaástandinu með setningu löggjafarinnar 1954, og því er ekki að neita, að hún er mjög til bóta. En hann sagði, að fram til þess tíma, að þau lög hefðu verið sett, hefði allt verið í óreiðu í þessum málum. Ég fullyrði, að þrátt fyrir það góða áform, sem vakti fyrir mönnum með setningu þessarar löggjafar, er allt í óreiðu í þessum málum enn þá, og sú varanlega bót er ekki fengin í dag. T.d. nú, þegar hin nýja húsnæðismálastjórn tekur við, eru skýrslur um það, að það eru milli 800 og 900 fokheldar íbúðir í Reykjavik einni, sem óskað hefur verið eftir að fengju lán úr hinu almenna lánakerfi, en ekki hefur verið hægt að veita neitt lán. Það voru 840 nákvæmlega þann 20. ágúst s.l., sem þá voru orðnar fokheldar, og er því líklegt, að þær séu komnar yfir 900 nú. Það eru 132 fokheldar þá á miðju sumri í Kópavogskaupstað, 59 í Gullbringu- og Kjósarsýslu, 52 í Hafnarfjarðarkaupstað, en alls á miðju sumri núna 1293 íbúðir fokheldar og áttu þá rétt á lánum. Hvað er svo til af fé, þegar gamla húsnæðismálastjórnin fer frá, t.d. til þess að fullnægja lánaþörfinni í Reykjavík? 1.1 millj. króna. Það gæti verið úrlausn fyrir 30–40 íbúðaeigendur. Haldið þið, að vandinn sé leystur, eins og hv. þm. var að gefa í skyn? Haldið þið, að hann sé ekki laglega leystur? Nei, það er enn þá allt í sama ófremdarástandinu í húsnæðismálunum, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu.

Hvaða fyrirheit voru gefin, þegar löggjöfin var sett, um fjármagn til íbúðarhúsabygginga? Það kemur, eins og hv. þm. vék að, fram í bréfi Landsbankans þann 18. marz 1954, en þar skuldbindur Landsbankinn sig til að tryggja sölu bankavaxtabréfa fyrir 44 millj. kr. Verðbréfakaup opinberra tryggingafélaga, sem ríkisstj. hlutast til um, nema ca. 4 millj. kr.; útlán sparisjóða, sem væntanlega verða að nokkru leyti lánveitingar beint til lántakenda, en að einhverju leyti með bankavaxtabréfum, 20 millj.; íbúðalán lífeyrissjóða, sem væntanlega verða með svipuðum hætti og útlán sparisjóðanna, aðrar 20 millj.; í fimmta lagi í byggingarsjóð verkamanna 4 millj.; í sjötta lagi lán til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, að hálfu frá ríki og að hálfu frá hlutaðeigandi bæjar- eða hreppsfélagi, 6 millj.; í byggingarsjóði sveitanna 2.5 millj. Samtals er þetta 100.5 millj. kr. hvort árið um sig, 1955 og 1956.

Hefur nú verið staðið við þetta? Er þetta raunveruleikinn, eða er þetta pappírsgagn? Einn af bankastjórunum var hérna að tala áðan. Hann má vita um það.

Úr A-flokki voru veitt á árinu 1955 388 lán, alls að fjárhæð 20 millj. 220 þús. kr.; úr B-flokki 290 lán, alls að upphæð 7 millj. 214 þús. kr. Þetta eru 27 millj. og 400 þús. kr. á árinu 1955.

En skýrslan frá húsnæðismálastjórn gefur upplýsingar auk þessa fram til 22. ág. þessa árs, og þar segir, að það sé búið að veita alls þann 22. ágúst 1113 lán og að öllu meðtöldu, byggingarsjóðsframlagi og sparisjóðalánum, 76 millj. 674 þús. kr., en hvort árið um sig átti að skila 100.5 millj. kr., og þá er komið langt fram á síðara árið.

Auðvitað verður að ganga hart eftir því, að sú áætlun, sem gerð var um þetta og frv. byggðist á og alþm. miðuðu við, þegar þeir tóku þátt í að afgreiða þessa löggjöf, verði framkvæmd. Þar er mjög mikið komið undir velvilja og brennandi áhuga þeirra manna, sem í senn sitja á Alþingi og skipa bankastjórastöður. Og það er gott til þess að vita og ánægjulegt að heyra það, að einmitt þessir menn hér á þingi eru brennandi í andanum i þessum málum í því að leysa þau og trúaðir á, að með fullnægingu þessarar löggjafar sé aðalvandinn leystur. Það eru núna á miðju sumri 2023 lánbeiðnir óafgreiddar. Núna fyrir nokkrum dögum voru þær komnar upp í 2200 óafgreiddar. Lánsupphæðirnar, sem hafa verið veittar, eru að meðaltali, þegar lögð eru saman A- og B-lán, meðaltal yfir allt landið, 55390 kr. Að meðaltali hefur íbúðareigandi, sem er að stríða við að koma yfir sig þaki, fengið 55390 kr. sem lán. Meðaltalið í Rvík er þó 59974 kr. Þetta eru ekki háar upphæðir. En samt sem áður, þó að hafi verið leitazt við að hluta þetta svona niður, vantar samt fé til að fullnægja yfir 2000 lánbeiðendum.

Það er því rétt, sem hv. þm. segir, að það er full ástæða til í fyrsta lagi að sjá um hina fyllstu framkvæmd á þeirri áætlun, sem gerð var um fjáröflun samkv. löggjöfinni, sem nú er í gildi, og í annan stað að leita eftir auknu lánsfé, og þar er ég honum sammála, að til þess að leysa þetta stórkostlega vandamál, húsnæðismálin, verði jafnvel að leita eftir erlendum lánum. Mér þykir ánægjulegt að heyra, að það er hans bjargfasta skoðun, að það sé engin frágangssök. Ég er alveg sannfærður um það eins og hann, að fáist sæmilega hagfellt lán til nægilega langs tíma, erlent lán, þá sé ekki mjög áhættusamt að taka slíkt lán til þess að gera stórátak í húsnæðismálum þjóðarinnar.

Það er ekki einasta holdsveikisárið, sem blasir við augum Íslendinga, braggarnir í Rvík. Kofarnir í sjóþorpunum úti um landið eru ekki skárri, og það er þess vegna ekki eingöngu hér um það að ræða að útvega lánsfé handa Reykjavíkurbæ, heldur handa kaupstöðunum úti um land og sjóþorpunum úti um land og til sveitanna sömuleiðis, til þess að þjóðin búi við mannsæmandi húsnæði. Það er sýnilegt, að þó að allir standi vel við gefin loforð, þá vantar aukið fé í þetta, og það verður að gerast. Og það er gott til þess að vita, að stjórnin stendur ekki ein að því verki. Stjórnarandstaðan ætlar þar að leggja sitt lið, en þau mál öll koma til umr. á Alþ., áður en langt um líður, og það verður miklu viðtækara mál en þetta frv. um breytingu á húsnæðismálastjórninni einni saman.