23.10.1956
Neðri deild: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki með minni ræðu áðan að verða til þess, að eitt af fyrstu verkum þessa hæstv. félmrh. væri að byrja á því að hlaupa á sig hér í ræðustólnum, en það var bara rétt eins og maðurinn væri búinn að gleyma því, að hann er sjálfur félmrh. og hefur meðferð þessara mála og framkvæmd með höndum. Þm. eiga rétt á því að heyra eitthvað, hvað hann hugsi sér og hvað sé fram undan hjá ríkisstj., en ekki bara, að hann hafi einhvern tíma í sumar talað við form. húsnæðismálastjórnar og aldrei haft tíma til að hugsa meira um málið.

Nei, það mun áreiðanlega vera heillavænlegra fyrir þennan hæstv. ráðh. að gera sér fyrr en seinna grein fyrir því, að hann getur ekki leikið hér sama hlutverkið og hann hefur á undanförnum árum leikið, hvorki í ræðustólnum né meðferð mála hér á þingi. Ég sagði áðan í minni ræðu: Af hverju að vera með þennan feluleik í sambandi við þetta frv., koma hér, eins og hæstv. ráðh. gerði, með kattarþvott og reyna að skrökva því að sjálfum sér og þm., að eitthvað allt annað sé meint með frv. en hann raunverulega meinar? Og hver sannaði svo betur mál mitt en hæstv. ráðh. sjálfur?

Alvaran í þessu frv. er þessi ein, sagði hann, að núv. stjórn ætlar ekki að fela íhaldsmanni framkvæmd þessara mála. Ja, ef ráðh. hefði bara verið nógu hreinskilinn til þess að segja þetta strax, þá hefði ég ekki þurft að þessu leyti að vera með mínar aðfinnslur um það, hversu ómerkilegt frv. væri og lítilfjörlegur kattarþvottur ráðherrans.

En þessi hæstv. ráðh. er nú búinn að segja hv. þingi og alþjóð, að alvaran hafi verið þessi ein í þessu máli, og þá veit maður það frá honum sjálfum, þó að aðrir hafi vitað það fyrir, hvað fyrir þessum mönnum vakti. En það lagði ég einmitt áherzlu á, að menn hefðu mátt búast við alvarlegri aðgerðum í þessum málum en þeim, sem hér er um að ræða, og að málið í heild verðskuldaði það, að hv. þm. fengju eitthvað að vita um boðskap og ráðagerðir núv. hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Annars er það nú svo, að ég verð líka að vekja athygli á því, að ef mönnum er svo afskaplega brátt, nýorðnum ráðamönnum, að skipta um embættismenn eða starfsmenn og eingöngu af pólitískum ástæðum, hefur það samkv. venju í íslenzku þjóðfélagi ekki verið gert fram til þessa, öðruvísi en þá að einhver rökstuðningur fylgdi máli. Hér er bara sagt raunverulega, að einum manni, sem átti sæti í húsnæðismálastjórn, væri ekki trúandi til þess að fara ásamt með öðrum manni með úthlutun lánanna. Við höfum hins vegar ekki heyrt neinar rökstuddar ásakanir á misgerðir þessa manns í þessu máli, hvorki fyrr né síðar, og ef menn eiga að taka það hátíðlega eða trúanlegt, að þessi húsnæðismálastjórn hafi allt í einu verið orðin óstarfhæf, eftir að Hannibal Valdimarsson varð félmrh., þá verða menn að skírskota til fyrrv. hæstv. félmrh. og spyrja, hvort hann hafi aldrei orðið var við neitt óstarfhæfi í fari þessara manna og þetta hafi komið svona skyndilega fram, eftir að hæstv. núv. félmrh. tók við embætti sínu.

Þessi hæstv. ráðh. segir, að allt sé í óreiðu enn í húsnæðismálunum, allt saman í sömu óreiðunni. Ég reyndi að gera grein fyrir því í minni ræðu, að í staðinn fyrir það, að hér var orðin stöðvun fyrir fimm árum í húsbyggingamálum, bæði hér í Rvík og nágrenni og annars staðar á landinu, hefur átt sér stað svo ör og heillavænleg þróun í þessum málum á s.l. árum, að það hefur aldrei verið neitt viðlíka af íbúðarhúsnæði í byggingu, hvorki hér eða í nágrenni né annars staðar á landinu, og nú, og ef takast má að halda áfram þróuninni með svipuðum hraða og verið hefur, þá væru mestu vandkvæði þessara mála leyst á næstu 2–3 árum að mínum dómi.

Þetta er það, sem ég hélt fram og lagði einmitt áherzlu á, að það væri það, sem bæði hæstv. núv. ríkisstj., Alþingi, opinberir aðilar, eins og bæjarstjórnir og sveitarstjórnir, þyrftu að horfast í augu við, að einbeita núna aðgerðum sínum og kröftum að því að ljúka þeim mörgu byggingum, sem svo víðs vegar eru í framkvæmd. Hitt gefur auga leið, að einmitt vegna þess mikla áræðis, samhliða hinu nýja og aukna frelsi í þessum málum, hefur til þess leitt, að miklu fleiri íbúðir eru í byggingu en svo, að þeir, sem í því standa, hafi getað fengið nægjanlegt fjármagn að láni til þessara framkvæmda.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að þegar hæstv. ráðh. var að tala um, að það yrði að leggja höfuðáherzlu á, að sú áætlun, sem gerð hafi verið í lögunum um húsnæðismálastjórn, — eða frv. og grg. þess, — næði fram að ganga, þá geri ég ráð fyrir því, að hæstv, ríkisstj. hafi fyrir sitt leyti fylgzt með því á sínum tíma, og að sjálfsögðu er rétt af þessum hæstv. ráðh. að fylgjast með því, að að svo miklu leyti sem hann vísaði til mín sem eins af bankastjórum hér í þessu landi, þá vil ég segja það, að samningurinn við bankann, sem ég á hlut í, og aðra banka, aðra en Landsbankann, byggðist á tilteknum lánveitingum, 20 millj. kr. samanlagt frá bönkunum, á þessum 2 árum og rennur út um næstu áramót, og við okkur hefur ekkert meira um það mál verið talað. Við höfum lánað til þessara mála eins og tilskilið var s.l. ár, 1955, og munum vissulega á þessu ári standa við þær skuldbindingar, sem við gáfum fyrrverandi ríkisstj. í þeim banka, sem ég á sæti í, og okkur hefur aldrei dottið annað í hug. Að þessu leyti held ég að sé alveg sama að segja um hina viðskiptabankana í landinu. Hins vegar er það auðvitað öðru fremur þjóðbankinn, Landsbankinn, sem tók að sér að hafa forgöngu í þessu máli, og um hans viðskipti við fyrrverandi eða núverandi ríkisstj. get ég ekkert sagt. En að svo miklu leyti sem mig snertir og aðra, sem ég veit að hafa hliðstæða aðstöðu, hefur vissulega allt verið efnt, sem lofað var.