23.10.1956
Neðri deild: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held, að það hafi verið algerlega rangt hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég hafi látið í ljós, að ég hefði ekki tíma til að tala um húsnæðismálin. Ég skal lýsa því yfir, að ég er reiðubúinn til þess að ræða við hann og aðra hv. þm. um húsnæðismálin, hvenær sem er, og einkanlega þá í sambandi við till., sem fram verða lagðar um lausn þeirra mála almennt. Það er líka ranghermi — og alveg frá rótum, að ég hafi sagt hér, að einum manni hafi ekki verið trúandi til að vinna sín störf. Þetta eru ósannindi og þau vísvitandi. Að þessu vék ég ekki, að maðurinn hefði á nokkurn hátt verið ótrúverðugur í starfi, og ég mótmæli því.

Ég veit það fyrir víst um þá skýrslu um byggingarstarfsemi Reykjavíkurbæjar, sem hv. þm. flutti hér, að ámóta skýrslu hefðu fjöldamargir þm. aðrir getað flutt um byggingarstarfsemi í þeirra bæjar- og sveitarfélögum, því að það er vissulega ekki Rvík ein, sem er að byggja. En það held ég að sé sannarlega að fara út fyrir umræðuefni hér, frv. um breyt. á stjórn húsnæðismálanna, þegar farið er að gefa skýrslu um byggingarstarfsemi Reykjavíkurbæjar. Ég skal því alveg láta því atriði ræðunnar ósvarað, að öðru leyti en því, að mér er nú tjáð, að því fólki, sem hefur fengið vilyrði fyrir íbúðum í raðhúsum Rvíkurbæjar, muni verða gert að skyldu, að þegar það fái lán úr hinu almenna húsnæðismálakerfi, þá eigi þetta fólk að borga 39 þús. kr. til Rvíkurbæjar af því væntanlega láni. Ekki eru miklar líkur til þess, að þetta lán gæti orðið hærra en meðallánin hjá öðrum, og skilst mér þá, að þetta fólk eigi að skila meginhluta af væntanlegu láni úr húsnæðismálakerfinu til Rvíkurbæjar aftur. Ég vil láta í ljós, að það er ákaflega hætt við því, að sumt af þessu fólki missí sínar íbúðir, ef möguleikar þess til þess að halda þeim miðast við það að fá lán og endurgreiða það aftur til Rvíkurbæjar. Ég held, að Rvíkurbær, ef hann hugsar sér að bæta úr húsnæðisneyð þess fólks, sem hefur nú fengið vonir um að flytja úr bröggunum og í þetta húsnæði, þurfi að gera við það betur, svo að það geti haldið þessu húsnæði, en ekki veita því vilyrði upp á þessa 1.1 millj. kr., sem er nú til, þegar fráfarandi húsnæðismálastjórn skilur við, til lánveitinga til íbúðarhúsnæðis í Reykjavík fyrir þessi áramót.