06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og fram kom raunar i framsöguræðu frsm. meiri hlutans, gátum við hv. 8. þm. Reykv. ekki orðið sammála meiri hl. um að samþykkja þetta frv. Við teljum, að það, sem á hafi vantað um húsnæðismálastjórn, hafi ekki verið það að fjölga mönnum í stjórninni, þó að við höfum út af fyrir sig ekki kannske beint við það að athuga, þó að mönnum sé fjölgað; það, sem aðallega hafi legið á, hafi verið að útvega fé, til þess að hægt væri að auka framkvæmdir og stuðla betur að húsbyggingum en gert hefur verið. Við leggjum því til, að þetta frv. sé fellt.

Það er ekki séð a.m.k., að það eitt að fjölga í stjórninni verði til þess, að fjárframlögin komi greiðar, og við teljum sem sagt, eins og ég sagði áðan, að það séu aðallega þau, sem stendur á; það standi stjórn sjóðsins og framkvæmdum, sem hann á að stuðla að, fyrir þrifum, að enn hafi ekki tekizt að útvega nægilegt fé. Það var að vísu farið allmyndarlega af stað, og hann er búinn að gera mikið gagn nú þegar, og það er vonandi, að betur gangi með fjárútvegun til hans en útlit er fyrir nú í svipinn.