06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki meiningin að fara að hafa mörg orð um þetta frv., sem hér er til 2. umr. Eins og fram kemur, hafa sjálfstæðismenn í hv. heilbr.- og félmn. ekki séð ástæðu til þess að mæla með því, að þetta frv. yrði samþykkt, og finnst mér það mjög eðlilegt.

Hvað er það, sem þetta frv. hefur að færa? Það hefur það að færa að fjölga í stjórn húslánasjóðs úr fimm upp í sjö menn. Það framlag, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur haft til þessa fram að bera í því máli að útvega fé og gera mönnum léttara að byggja og koma yfir sig nauðsynlegu húsnæði, ér að fjölga í stjórn sjóðsins. Það bólar ekki á því, að hæstv. stjórn hafi útvegað nokkurt fé til húslánasjóðs, og nú er svo komið, að margir menn, sem byrjuðu á því að byggja smáíbúð yfir sig, bæði hér í Rvík og víðs vegar úti um land, standa uppi ráðþrota, vegna þess að þeir fá hvergi lán. Fátækir menn, sem vonuðu, að það væri að skapast möguleiki til þess, að þeir gætu eignazt þak yfir höfuðið, byrjuðu fullir bjartsýni á þessu ári og sumir á s.l. ári í þeirri trú, að þeir fengju þó a.m.k. 70 þús. kr. að láni úr húslánasjóði til þess að koma íbúðinni upp. En seinni hluta þessa árs hefur ekkert verið lánað úr húslánasjóði. Mér er kunnugt um það, að nokkrir menn austan af Rangárvöllum gerðu sér erindi til þess að ræða við húslánastjórn fyrir nokkrum dögum um það, hverjar vonir stæðu til, að þeir fengju lán úr sjóðnum út á þau hús, sem þeir eru nú að byggja. Og þeir fengu svör. Húslánastjórn má eiga það, hún gaf nokkuð ýtarleg svör, þau, að þeir þyrftu ekki að vonast eftir neinu láni á þessu ári og sennilega ekki fyrri hluta næsta árs. Og nú standa þessir menn uppi ráðalausir, vegna þess að það fé, sem þeir höfðu ástæðu til að ætla að yrði fyrir hendi, fæst ekki. En þetta er táknrænt um það ástand, sem ríkir nú um landið allt.

Hæstv. ríkisstj. segir: Þegar fráfarandi stjórn fór frá völdum, skildi hún ekki eftir sjóði handa okkur til þess að ráðstafa, og þess vegna höfum við ekki fé.

Þetta hefur maður heyrt hér í þingsölunum. En hæstv. stjórn gleymir því, að hún á sök á því, að bankarnir eru tómir, að vegna ráðdeildarleysis hennar, vegna þess, að fólkið í landinu vantreystir henni, hefur sparifjármyndunin í landinu algerlega orðið að engu. Menn minnast þess, að fyrstu sjö mánuði þessa árs safnaðist nýtt sparifé í bankana, 136 millj. kr., hefði orðið 230 millj. um áramót, ef stjórn hefði verið í landi, sem fólkið treysti, og þá hefðu bankarnir getað látið fé í húslánasjóð eins og s.l. ár.

Þetta er aðeins eitt dæmi um það, að það verður dýrt fyrir þjóðina að hafa stjórn i landinu, sem þjóðin ekki treystir.

Þetta er eitt dæmi um það, hversu núv. ríkisstj. hefur lagt mikla áherzlu á það að skipa nefndir og ráð, — þar sem hún, áður en hún sér nokkra möguleika til þess að leggja fé í húslánasjóð, kemur með frv. um að fjölga stjórnendum sjóðsins.

Það hefur verið aðalverkefni núv. stjórnar að skipa nefndir, skipa ráð, fjölga í stjórnum, útvega skjólstæðingum sínum launaðar stöður.