06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, enda ekki ástæða til að svara mörgu því, sem hæstv. félmrh. hefur talað hér, og því síður fyrir það, að hv. 5. þm. Reykv. tók bann orði til orðs, svo að ekkert stóð eftir af því, sem hann hafði sagt.

Hæstv. félmrh. var enn að tala um sparifjársöfnunina, að reynsla undanfarandi ára hefði sýnt, að hún hefði alltaf minnkað í nóvember og desember. Þetta kann nú rétt að vera. En staðreyndin er eigi að síður sú, að undanfarin ár hefur alltaf verið nokkur sparifjársöfnun og að fyrstu 7 mánuði þessa árs var hún meiri en hún hefur verið nokkru sinni fyrstu 7 mánuði á undanförnum árum. Það eitt út af fyrir sig sannar, að ef viðhorf fólks í landinu hefði veríð óbreytt til ríkisstj., þá hefði sparifjársöfnunin á þessu ári orðið meiri en nokkru sinni fyrr, enda þótt hún hefði orðið eitthvað hægari síðustu mánuði ársins en hina fyrri. Þetta hygg ég að sé þýðingarlaust fyrir hæstv. félmrh. að reyna að hrekja, og ætti hann þá að vera minnugur þess, sem hann sagði hér áðan, að það væru engin börn hér í deildinni. Sem betur fer, er það ekki. Það eru skynsamir menn, sem eiga létt með að gera sér grein fyrir þessu. Og þegar hæstv. félmrh. talar um, að það sé ekki samhengi á milli sparifjársöfnunarinnar og fjáröflunar til húslánasjóðs og annarra framkvæmda, þá er engu líkara en að hann sé að ræða við börn. Jafnvel þótt á þessu ári sé búið að lána úr húslánasjóði eins og gert hefur verið ráð fyrir samkvæmt lögum, þá hefur reynslan sýnt, að þetta er ekki nóg. Fyrrv. ríkisstj. gerði ráðstafanir til, á meðan hún sat að völdum, að það væri til fé til útlána, og menn fengu á þeim tímum úrlausn sinna mála. Ef stjórn hefði verið í þessu landi seinni hluta ársins, sem hefði einkennzt af öðru en úrræðaleysi, þá hefði hún vitanlega reynt að afla sér heimildar og möguleika til þess að gera þeim mönnum, sem hafa byrjað á byggingum í góðri trú, fært að halda áfram. Það hlýtur að vera verkefni hverrar ríkisstj. að bregðast við aðstæðunum, eftir því sem við á. Og þegar nú reynslan sýndi, að það fé, sem veðlánakerfið í upphafi gerði ráð fyrir, var ekki nóg, þá var það vitanlega verkefni ríkisstj. og þá fyrst og fremst núverandi hæstv. félmrh. að beita sér fyrir því, að þetta fátæka fólk, sem nú er að byggja íbúð yfir sig um landið allt, standi ekki uppi ráðþrota.

Hæstv. félmrh. hefði kannske komizt hjá því, að þetta væri mikið rætt hér í Alþingi, ef hann með þessu fáránlega frv., sem hér er til umr. nú, hefði ekki gefið tilefni til þess. En þegar hæstv. félmrh. í stað þess að gera eitthvað raunhæft og eitthvað til gagns, gefur út brbl. um að fjölga í stjórn húslánasjóðs á þeim tíma, sem hann hefur ekkert fé til umráða, þá er ekki nema eðlilegt, að að því sé fundið við hann, að hann hefur verið úrræðalaus og aðgerðalaus í þessum málum. Það er þó eitt gott við hæstv. félmrh., og það er það, að hann hefur viðurkennt, að hann hafi ekki getað gert neitt í þessu. Og ég skal taka undir það, að það er af úrræðaleysi hans og getuleysi, en ekki af viljaleysi. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla, að hann innst inni vilji ekki bæta úr þessu, ef hann sæi á því nokkur ráð.

Ég sé ekki, að það sé ástæða til að ræða þetta öllu meira. Ég vil mótmæla því, að það, sem ég sagði hér áðan, í þeim fáu orðum, sem ég viðhafði þá, hafi verið að nokkru leyti rangt. Og ég vil enn segja: Það var til of mikils mælzt af núverandi ríkisstj. að ætlast til þess, að fyrrverandi ríkisstj. skildi eftir sjóði handa komandi ríkisstj. til ráðstöfunar. Fráfarandi ríkisstj. sá um það, á meðan hún sat að völdum, að það væri unnið samkvæmt áætlun að öllum framkvæmdum. Það var unnið samkvæmt áætlun og hraðar en upphafleg áætlun að raforkumálunum. Það var samkvæmt áætlun útvegað fé handa Búnaðarbankanum, til þess að hann gæti lánað til landbúnaðarins. Og það var samkv. áætlun útvegað fé til húslánasjóðsins, til þess að það væri hægt að gera mönnum úrlausn.

En ég spyr: Það er kannske á fleiri sviðum en hvað húslánasjóðinn snertir, sem hæstv. ríkisstj. er úrræðalaus? Sennilega er ekki enn búið að útvega fé til þess, að hægt sé að halda áfram raforkumálunum. Og vitað er, að það er gert ráð fyrir að verja minna fé í dreifingu rafmagnsins út um sveitir landsins á næsta ári heldur en á yfirstandandi ári, vegna þess að málsvarar hæstv. ríkisstj. hafa talið, að ríkisstj. gæti ekki útvegað fjármagn. Og vitað er, að enn hafa ekki verið veitt lán úr Búnaðarbankanum, úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði. En ég vil vona, að úr því rætist.

Ég held, að það fari bezt á því fyrir hæstv. félmrh., þegar hann kemur hér upp í ræðustólinn, að forðast að brigzla fyrrv. ríkisstj. um, að hún hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar. Og ég held, að hæstv. félmrh. mætti verða stoltur, ef hann gæti í sinni ráðherratíð séð fram á það, að núverandi hæstv. ríkisstj. gæti haldið áfram því uppbyggingarstarfi, sem fyrrv. ríkisstj. hóf og vann að, á meðan henni entist tími til.