06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég get vel skilið, að hv. 2. þm. Eyf. leiðist að halda langar ræður um lítil mál. En það er kannske óhætt að hugga hann við það, að hann þurfi e.t.v. ekki mjög lengi að biða þess að fá hér tækifæri til þess að ræða um stærri mál. Vona ég, að þetta sé honum heldur til gleði og huggunar en til raunar, eftir því sem hann lét orð falla að minnsta kosti.

Þetta, að það hafi fæðzt mýs, en ekki fjöll, ég skil það vel, að ef honum finnst hér vera of mikill músagangur, þá vilji hann, að þeirri plágu létti og það verði heldur einhverjar stærri fæðingar, sem hann hafi fréttir af. Og það er alls ekki vonlaust mál.

Viðvíkjandi því, að ég hef fagnað því tvívegis að eiga von á styrkum stuðningi hins stóra stjórnarandstöðuflokks, Sjálfstfl., ef á þyrfti að halda, um að standa að því, að tekin yrðu erlend lán til íbúðarhúsnæðis, þá hef ég áður tvívegis látið í ljós fögnuð yfir því og ég geri það enn. Við góð mál ber alltaf að fagna góðum stuðningi, og það munar um mannsliðið, eftir því sem Grettir sagði og reynslan hefur staðfest.

Því atriði, að forseti Íslands hafi verið blekktur með forsendum þessa frv., mótmæli ég alveg. Það stafar einungis af misskilningi hv. 2. þm. Eyf., þar sem hann heldur, að því minna sé að gera hjá húsnæðismálastjórn sem minna fé sé fyrir höndum. Ég gæti einmitt ímyndað mér, að það væri reynsla bankastjóra, að því fyllri hendur fjár sem þeir hefðu, því fljótari væru þeir að afgreiða sína viðskiptavini og bjóða þeim næsta inn. En þegar fjárþröng er, hlaðast verkefnin upp og vandinn eykst, og það gengur áreiðanlega erfiðar og seinlegar að afgreiða sama fjölda manna. Auk þess var svo það, að þegar ekki skyldi unnið lengur á sama grundvelli og fyrrv. stjórn ætlaðist til, þá urðu deilumálin mörg milli þeirra tveggja, sem áður höfðu farið þarna með framkvæmdavaldið. Auk þess veit ég, að hv. 2. þm. Eyf. er svo sanngjarn maður í eðli sínu, — ég er búinn að kynnast honum í mörg ár í fjvn. meðal annars, — að hann telur enga sanngirni í því, að núverandi stjórn hefði mann úr stjórnarandstöðunni til að fara með helming framkvæmdavaldsins um þessi mál, og veit ég því vel, að hann telur ákaflega eðlilegt og sanngjarnt, að þetta mál væri borið fram í bráðabirgðalagaformi. Það er ég sannfærður um, að hann veit, að hans flokkur hefði gert, ef hann hefði verið í okkar sporum.

Ég held, að ég hafi með þessu svarað því, sem ég taldi ástæðu til þess að svara úr ræðu hv. 2. þm. Eyf., og hef þar ekki fleiru við að bæta. En ég vona sem sé, að hann verði ekki fyrir vonbrigðum um það, að hann fái innan mjög langs tíma að tala um stærri mál hér i þinginu heldur en svona smámál eins og þetta.