06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði: Kerfið er tómt. — En eina ráðið hjá honum var að fjölga í húsnæðismálastjórninni til þess að sitja yfir tómu kössunum, eins og hann orðaði það.

Það var einmitt þetta, sem ég gat um hér að hefði valdið því, að við gátum ekki verið samferða meiri hlutanum um að mæla með að samþykkja frv., að við töldum ríða meira á öðrum úrbótum en þeim.

Hann sagði, að búið hefði verið að semja um fjáröflun, sem hefði átt að duga, en hefði ekki dugað. Hæstv. ráðh. hafði þó ekki leitað til Landsbankans um erlenda lánsútvegun, sem heimiluð er skv. e-lið 5. greinar laganna um húsnæðismálastjórn, fyrr en eftir ábendingu frá hv. 5. þm. Reykv. Við teljum, að á meðan það var ekki gert, hafi ekki verið gert allt, sem unnt var, til fjáröflunar, — fjáröflunar, sem hæstv. ráðh. viðurkenndi þó að full þörf hefði verið á.

Viðvíkjandi húsnæðismálastjórninni eða fjöldanum í stjórninni er mér það ekki aðalatriði, hvort það eru 3, 5 eða 7 í stjórninni, ef nægilegt fé fæst, svo að allir, sem rétt eiga á lánum til íbúðabygginga, fái þau. Þó að þeir fái kannske ekki fulla upphæð, sem æskileg væri fyrir þá, fái þeir a.m.k. úrlausn.

Ummælin um það, að hæstvirt ríkisstj. sé „stikkfrí“ þangað til á næsta ári, eru svo barnaleg, að þau eru ekki svaraverð að mínu áliti, því að auðvitað á hver ríkisstj. að leitast við að leysa þau vandamál, sem óleyst eru hverju sinni.

Þegar lögin voru sett, var vonazt til, að það fjármagn, sem um leið var tryggt, mundi nægja til að bæta verulega úr lánsfjárskortinum. Það hefur líka hjálpað verulega, en þó verið mikils til of lítið. Þegar það kom í ljós, að það var of lítið, bar ríkisstj. að leita eftir því — og alveg sérstaklega hæstv. félmrh. — að bæta úr því.

Áætlunin var, sagði hæstv. ráðh., að 100 millj. áttu að duga, en nú eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur, síðan lögin voru sett, hafa sjálfstæðismennirnir í stjórn sjóðsins lagt til, að leitazt verði við að afla 250 millj. kr. á ári. Hæstv. ráðh. telur það ábyrgðarlítið að leggja slíkt til, en viðurkennir þó um leið, að ekki muni af því veita.

Um sparifjársöfnunina er nú upplýst, að fyrri hluta ársins varð hún meiri en nokkru sinni áður á sama tíma árs. Ef ekki hefði skipt um stjórn til hins verra, var ástæða til að ætla, að áframhald hefði orðið á sparifjársöfnuninni. En það hefur ekki orðið. Sparifjársöfnunin hefur stöðvazt og jafnvel verið tekið út meira en lagt hefur verið inn í sumum sparisjóðum. Undanfarin ár hefur sparifjársöfnunin haldið áfram, líka síðari hluta ársins, þó að hún hafi ekki verið eins mikil og á fyrri árshelmingi. Hér er því sýnilegt, að sparifjáreigendur hafa ekki treyst sparisjóðunum fyrir fjármunum sínum í svipuðum mæli og undanfarin ár.

Hæstv. 6. landsk. talaði um helmingaskiptaregluna. Ég hef ekki séð úthlutunarlista húsnæðismálastjórnar frekar en hv. þm., en þar sem ég þekki til, er þetta alls ekki rétt. Þar hefur ekki verið farið eftir stjórnmálaskoðunum umsækjenda. Þeir, sem úrlausn hafa fengið, hafa verið af öllum þeim stjórnmálaflokkum, sem um var að ræða.

Viðvíkjandi beiðni hæstv. ráðh. um stuðning við þetta mál, þá er það ábyggilegt, að það stendur ekki á sjálfstæðismönnum, hvorki í húsnæðismálastjórninni né öðrum, að veita því stuðning, að nægilegt fé fáist til þessara mála.