28.01.1957
Efri deild: 46. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl. um breyt. á lögum nr. 55 1955, um húsnæðismálastjórn og veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða, en þau lög setti hæstv. fyrrv. ríkisstj. í samræmi við samkomulag þeirra flokka, er að henni stóðu. Ekki er vafi á því, að veðlánakerfi það, sem myndað var með þessum lögum, og önnur ákvæði, sem þessi lög höfðu að geyma, bættu mjög úr aðkallandi þörf þeirra bæjarfélaga og einstaklinga, sem stóðu í því að byggja íbúðarhúsnæði, því að segja mátti, að lánastarfsemi eða lánastofnanir væru lokaðar fyrir þessum aðilum. Aðeins þeim, sem höfðu aðgang að lánum úr lífeyrissjóðum eða studdust að einhverju við einhvers konar byggingarfélagssamtök, var mögulegt að byggja, en það var lítill hluti allra þeirra, sem húsnæðislausir voru eða bjuggu í heilsuspillandi húsnæði, en einmitt II. kafli þessara laga hljóðar um útrýmingu slíkra íbúða. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þessi lög í sambandi við frv. þetta, sem hér liggur fyrir.

Í 6. gr. l. er svo ákveðið í b-lið, að lánaupphæð úr veðlánakerfinu nemi samtals allt að 2/3 hlutum verðmætis íbúðar samkvæmt sérstöku mati, en fari þó ekki yfir 100 þús. kr. á hverja íbúð.

Samkvæmt c-lið sömu greinar er lágmarksupphæð hinna svonefndu A-lána 50 þús. kr. og B-lána 20 þús. kr., eða samtals 70 þús. kr. á íbúð.

Lánin, sem veitt voru, náðu þó í ýmsum tilfellum ekki þessari upphæð, a.m.k. ekki á smærri stöðum úti um land, þar sem ég þekki til. Þar námu lánin yfirleitt ekki nema um 50 þús. kr. Þrátt fyrir það var þetta mikil hjálp til þeirra, sem lánin fengu, og ólíkt betra ástand en áður var, þegar ekkert lán var að fá til þessara hluta. En þrátt fyrir það að lánin voru skorin niður og lækkuð, reyndist fjármagn ekki fyrir hendi í veðlánakerfinu til að fullnægja eftirspurn eftir lánunum. Svo mikil var eftirspurnin. Tugir, ef ekki hundruð íbúða standa nú hálfgerðar um allt land og framkvæmdir við þær stöðvaðar að meira eða minna leyti, vegna þess að eigendur þeirra hafa reitt sig á að fá lánin og byrjað framkvæmdirnar í þeirri von, en sú von hefur brugðizt enn sem komið er. Geta allir gert sér í hugarlund, hver vandræði og erfiðleikar stafa af þessu ástandi fyrir hlutaðeigandi einstaklinga og bæjarfélög.

Ég drep á þessar staðreyndir í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir til staðfestingar á brbl. um breyt. á umræddum lögum um húsnæðismálastjórn o.fl.

Menn skyldu nú ætla, að þegar núv. hæstv. félmrh. tekur sig til að breyta þessum lögum, fari breytingar a.m.k. að einhverju leyti í þá átt að fá aukið fé í veðlánakerfið, svo að fullnægt verði eftirspurninni eftir lánunum og vandræði þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, yrðu leyst. En það reyndist ekki svo, hverju sem um er að kenna, en breytingin fór í þá einu átt að fjölga um tvo menn í húsnæðismálastjórn, að því er virðist til að sitja yfir tómum sjóðum.

Þegar fyrrv. ríkisstj. lagði frv. um húsnæðismálastjórn o. fl. fyrir Alþingi, voru ákvæði í 1. gr. um það, að 3 menn skyldu sitja í húsnæðismálastjórninni. Í meðferð þingsins breyttist þetta svo, að stjórnina skyldu skipa fimm menn og aðrir fimm til vara. Í framkvæmd var þetta síðan svo, að tveir menn úr stjórninni önnuðust úthlutun lánanna, skipuðu nokkurs konar framkvæmdarstjórn, án þess að minnzt væri á þá tilhögun í lögunum sjálfum, og hélzt sú skipan, þar til gefin voru út brbl. hinn 21. sept. 1956 að tilhlutun hæstv. núv. félmrh., og þau voru um það, að fjölga skyldi um tvo menn í stjórninni, úr fimm og í sjö, og nú skyldi ráðh. tilnefna þrjá menn úr stjórninni til þess að hafa á hendi stjórn allra framkvæmda á vegum hennar, eins og segir í frv. Í rökstuðningi fyrir brbl. segir m.a., að störf húsnæðismálastjórnar hafi reynzt miklu umfangsmeiri en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Þá er minnt á, að störfin hafi aukizt enn vegna þess, að stjórninni hafi verið falið að hafa eftirlit með framkvæmd laga um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum.

Rök fyrir því, að hin eiginlegu störf húsnæðismálastjórnar hafi aukizt, vantar alveg, enda ekki fyrir hendi. Ástæðan fyrir útgáfu þessara brbl. virðist því hafa verið einhver önnur en þetta. Og það er ekki langt að leita. Með úthlutun lánanna fóru, eins og ég hef áður sagt, tveir menn, og höfðu gert frá byrjun. Eftir að núv. stjórn var mynduð, varð að breyta þessu, og það var líka gert hreinlega með brbl. og framkvæmd þeirra. Þessum ráðh. var með sérstöku ákvæði falið að skipa þrjá menn úr stjórninni í nokkurs konar framkvæmdarstjórn, m.a. og aðallega til að úthluta lánunum, að því er virðist, hvað hann og strax gerði. Þar með virðist hinum eiginlega tilgangi brbl. vera náð. En hví ekki að viðurkenna þennan tilgang í upphafi, í stað þess að gefa brbl. út, vægast sagt með mjög hæpnum, ef ekki röngum forsendum?

Frv. þetta, sem er 3. mál hv. Nd., var mikið rætt þar, en að lokum afgreitt til þessarar hv. d. og afgreitt í heilbr.- og félmn. 20. des., eða tveim dögum fyrir þinghlé.

N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en við hv. 11. landsk. erum á móti frv. Eins og segir í nál. okkar á þskj. 194 lítum við svo á, að engin nauðsyn hafi verið á að fjölga mönnum í húsnæðismálastjórn, eins og á stóð, en það er aðalatriði frv.

Við leggjum því til, að frv. verði fellt. En verði frv. samþykkt, munum við bera fram brtt. við það eða fylgja brtt., ef fram skyldu koma.