28.01.1957
Efri deild: 46. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er nú kannske alveg ástæðulaust að taka til máls um þetta þrátt fyrir ræðu hv. frsm. minni hl. Það er þó rétt að mótmæla því, að það séu neinar rangar forsendur fyrir setningu þessara brbl. Það var greinilegt, að húsnæðismálastjórnin, eins og hún var áður skipuð, var orðin óstarfhæf eftir stjórnarskiptin. Það var dottinn burt sá grundvöllur, sem þessir tveir menn áttu að starfa eftir og hafði ráðið þeirra grundvallarafstöðu til mála, og afleiðingin varð einfaldlega sú, að málin hlóðust upp óafgreidd, sem bezt kemur í ljós af þeirri skýrslu, sem þeir þá gáfu um, að það væri ekki, eins og hv. 2. þm. Árn. sagði hér áðan, tugir eða hundruð af óafgreiddum lánabeiðnum frá fólki, sem hafði verið búið að koma húsum sínum undir þak, heldur voru það þúsundir. Það var hátt á þriðja þúsund, sem lá óafgreitt hjá þeim, og bættist sífellt við. Þannig gat það ekki gengið. Þar við bættist svo, að um þau mál, sem þessir tveir menn ætluðu svo að taka til afgreiðslu eftir stjórnarskiptin, var ekki samkomulag. Þeir skírskotuðu til ráðuneytis eða annars um úrskurði, og það var sýnilegt, að það var ekki hægt að afgreiða þessi mál með eintómum úrskurðum frá ráðuneytinu.

Þetta ástand kallaði fram nauðsyn á breytingu, og þar sem Alþingi sat þá ekki að störfum, var ekki hægt að gera það öðruvísi en með brbl. Hins vegar var þetta gert á eins mildilegan hátt og unnt var, þar sem enginn af þeim, sem áður voru í húsnæðismálastjórn, var látinn víkja þaðan, heldur látnir vera áfram í stjórninni og aðeins bætt við tveimur mönnum og síðan ákveðin framkvæmdarstjórn úr þessari 7 manna stjórn. Þeir menn, sem stjórnarandstaðan átti áður í húsnæðismálastjórn, eru þar enn og taka þátt í störfum húsnæðismálastjórnarinnar á fundum hennar fullskipaðrar, en að vísu hvorugur þeirra í framkvæmdarstjórninni.

Það bættust svo við ný verkefni á húsnæðismálastjórnina með setningu laganna um bann við notkun íbúðarhúsnæðis til annarra nota en til íbúðar, og var það ærið viðbótarverkefni fyrir húsnæðismálastjórnina. Var sýnilegt, að sú stjórn, sem fyrir var og hafði ekki haft bolmagn til þess að afgreiða málin, eins og þau áður lágu fyrir henni, var ekki til þess bær að bæta við sig nýjum verkefnum.

Það var farið hér nokkrum orðum um lánakerfið, hversu mjög það hefði bætt úr þörf. Ég hygg nú, að hver sá, sem kynnir sér það, komist að þeirri niðurstöðu, að lánakerfið hafði komizt í þrot. Það höfðu á þessum tveimur árum, sem sú löggjöf hafði staðið, einmitt hrúgazt upp óafgreiddar lánabeiðnir, svo að skýrslurnar hermdu, að þær væru á þriðja þúsund. Það hafði verið lofað gulli og grænum skógum, sagt, að hver maður ætti að fá lán, sem færi í byggingu, og þetta hafði vakið slíkar vonir, að það fjármagn, sem í áætlunum húsnæðismálakerfisins eða veðlánakerfisins var gert ráð fyrir, hrökk ekki til, allra helzt þegar það vildi ekki heldur skila sér nema að tiltölulega litlum hluta. Það var brostinn fjárhagsgrundvöllurinn fyrir þessu, byggingarþörfin rak fast á eftir, og hin gullnu loforð um, að þetta kerfi ætti að leysa hvers manns þörf, sem á annað borð ætlaði að byggja og þyrfti að byggja, hver einasti maður skyldi fá 70 þús. kr. lán, — það hafði alveg brostið, og það eina, sem var í raun og veru ljósi punkturinn í þessu, var það, að löggjöfin hafði upphaflega aðeins verið miðuð við tvö ár og átti að ganga úr gildi núna um áramótin 1956–57. Það blasti því við, að það yrði að undirbúa nýja löggjöf, sem tæki öðruvísi, á allt annan hátt á þessu mikla vandamáli, húsnæðisvandamálinu, heldur en gert hafði veríð ráð fyrir með setningu laganna um hið almenna veðlánakerfi. Slík löggjöf hefur verið í undirbúningi núna undanfarnar vikur og kemur fyrir Alþingi innan mjög langs tíma, — ég get fullyrt meira að segja: innan mjög skamms tíma. Og það er sú löggjöf, sem verður að taka á þessu vandamáli í heild. Með brbl. var ekki ætlunin að ná öllu fram, heldur því, að það myndaðist starfhæf stjórn á grundvelli laganna, sem áttu að gilda fram til áramótanna.

Að því er svo snertir þann fjárhagsgrundvöll, sem sú löggjöf byggðist á, þá var hann sem sé svona brostinn, að á þriðja þúsund húseigendur, sem voru komnir með hús sín undir þak, höfðu ekki fengið neitt lán, og því fé, sem lánakerfið réð yfir fram til síðustu áramóta, var úthlutað til lánveitinga út um land og hér í Rvík og nágrenni, þó að meiri hluta úti um land, vegna þess að fráfarandi stjórnarmenn viðurkenndu, að þeir hefðu heldur látið landsbyggðina sitja á hakanum við tvær seinustu úthlutanir, þar sem þeir gerðu ráð fyrir, að það væri frekar hægt að fá einhverja fjárhagslega aðstoð úti um land fram undir haustið. En þegar svo allt var í þrotum þar, þá var útveguð til bráðabirgða 5 millj. kr. upphæð núna í desembermánuði í viðbót við það, sem lánakerfið hafði gert ráð fyrir, til þess að auka svolítið við þær lánveitingar, sem annars var hægt að veita á seinasta ársfjórðungnum.

Ég hygg því, að menn geri sér það ljóst, að hið stóra viðhorf til byggingarmálsins sem vandamáls blasi við þessari hv. d. og við Alþingi, þegar hin nýju frv. um byggingarmálin koma fyrir þingið. Hér er aðeins um að ræða staðfestingu á brbl., sem nauðsyn var að setja, til þess að húsnæðismálastjórnin í því öngþveiti, sem hún sat, væri starfhæf fram til síðustu áramóta.