28.01.1957
Efri deild: 46. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mig langar til í sambandi við þetta mál að beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvaða vonir standi til þess, að hægt sé að auka verulega fjármagn til húsbygginga. Hann lýsti réttilega þörfinni, og við vitum það allir, að hún er geipilega mikil. Hann lýsti þessu, hæstv. ráðh., að það biðu á þriðja þúsund íbúðir, sem ekkert lán gætu fengið, og að lánakerfið, sem sett var, hefði komizt í þrot. Ég skal nú ekkert um það segja, en hitt fullyrði ég, að þetta kerfi, þó að ekki væri stórt skref, gerði mikið gagn. En ég vildi gjarnan vita, hvað ríkisstj. hefur hugsað sér til þess að leysa þetta mál, svo að verulegu gagni komi, því að það er engin lausn á málinu að fjölga mönnum í stjórn fyrirtækisins, ef sú stjórn hefur ekkert að gera, ef hún hefur ekkert fé til þess að lána. Það er vitaskuld engin lausn á málinu. Þess vegna langar mig til þess að vita, hvernig hugsað er að leysa þetta mál til frambúðar.