28.01.1957
Efri deild: 46. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Hv. þm. V-Sk. bar fram eina fsp., um það, hvaða vonir stæðu til um útvegun fjár. Ég verð nú að segja það, að meðan ekki er að fullu gengið frá hinu frv. um fjáröflunarleiðirnar, þá er ekki rétt að skýra Alþingi frá því, hvað komið hefur helzt þar til greina. Þó get ég aðeins sagt það, að í viðræðum, sem fram fóru á s.l. hausti við Landsbanka Íslands, var sérstaklega eftir því gengið við hann, hvort bankinn væri því meðmæltur eða mótmæltur, að lengra væri gengið á þeirri braut, sem hafin var með hinu almenna veðlánakerfi um sölu vísitölutryggðra verðbréfa. Landsbankinn gaf á því viðræðustigi þær upplýsingar, að sala þeirra verðbréfa hefði gengið greiðlega og það væri ekki útilokað, að hægt væri að heimila hærri hundraðshluta af heildarlánunum með slíkum vísitölutryggðum bréfum, t.d. til helminga, en mína hafði það aðeins verið tveir á móti 7, og ekki staðið á því, að slík bréf seldust. Þetta er ein af þeim leiðum, sem ég nú þegar get sagt frá að horft er á og Landsbankinn hefur látið í ljós að hann teldi ráðlegt að fara frekar en farið hefði verið samkvæmt gildandi löggjöf. Að öðru leyti held ég, að það verði að fara þarna ýmsar leiðir til þess að útvega nægilegt fé til byggingarmálanna, af því að hlutverkið er ekki bara að svara eðlilegri íbúðaaukningarþörf augnabliksins, heldur líka að hreinsa þann óhreina grunn, sem skapazt hefur, að útvega fjármagn til þeirra nokkuð á þriðja þúsund húseigenda, sem ekki hafa fengið neitt.

Ég tel þá rétt, að ég geri aðeins nánar grein fyrir því, sem ég áðan kallaði, að þetta húslánakerfi hefði komizt í þrot. Það liggur í því, að með setningu laganna og þeim gífurlegu gullnu loforðum, sem þá voru gefin um, að þeir, sem réðust í að byggja sér íbúðarhús án tillits til stærðar, án tillits til efnahags, ættu rétt á, þegar húsið væri orðið fokhelt, að fá 70–100 þús. kr., var slíku eiginlega lofað, þó að í framkvæmdinni væri aldrei tekið í mál að hafa hærra en 70–100 þús. kr. lán vegna slíkra húsbygginga. Þessi lagasetning vakti svo miklar vonir, að hún spanaði af stað slíkt byggingaflóð, að lánakerfið réð ekki við neitt. Það er rétt að segja frá því sem dæmi. Þá sjá allir, hversu óforsvaranlegt þetta var orðið. Þegar þessir tveir menn, sem önnuðust lánveitingarnar, höfðu afgr. lánin fyrstu mánuðina, þá var komin svo margföld tala umsækjenda um lán, sem áttu fullan rétt samkv. l., að viðtölin ein hjá þessum tveimur mönnum voru ekki fram á kl. 5 eða 6 á kvöldin, ekki fram á kl. 10 og 11 á kvöldin, ekki fram á miðnættið, þau voru stundum fram á kl. 4 og 5 að morgni, og fólkið, sem átti samkv. lögum landsins rétt á að fá lán, hékk þarna í forstofu og stigum og út undir götu í viðtalsbiðröð fram undir kl. 4 og 5 að morgni. Svona var þetta bara eftir nokkra mánuði, eftir að þessir menn höfðu starfað í nokkra mánuði, og það er þessi hali, sem liggur núna óafgreiddur enn í dag, og verður með fjáröflun væntanlegrar löggjafar að reyna að hjálpa til að ljúka hinu hálfgerða húsnæði, sem fólkið er nú að baslast með og sumt að örmagnast undir, og gera það að nothæfu íbúðarhúsnæði í viðbót við það, sem „normalt“ þarf að bæta við á ári hverju hér í bænum og annars staðar, þar sem húsnæðisskorturinn er mestur. Þetta ætti að nægja til að sýna mönnum, að það er ekki ofsagt, að þetta húsnæðismála- eða veðlánakerfi hafi komizt í þrot. Það er ekki hægt að „púkka“ upp á það í sömu mynd með því að framlengja löggjöfina um veðlánakerfið. Það verður að verulegu leyti, ég vil segja nálega að öllu leyti að byggja á nýjum grunni. En arfurinn, óreiðuarfurinn, sem skapaðist á tímabili veðlánakerfisins, á þessum tveimur árum, hin ófullnægða lánaþörf, sem þá var ýtt undir, en ekki fullnægt, bíður og verður að leysast með nýrri löggjöf.

Það er þetta, sem ég vildi segja í tilefni af ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem hér töluðu núna á undan mér.