27.05.1957
Sameinað þing: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Thors:

Herra forseti. Hv. tilheyrendur. Við þessar umr. er stjórnarliðinu ætlaður þrefaldur tími á við okkur sjálfstæðismenn, en því meiri er þörfin á, að menn festi sér orð okkar í minni og veiti því athygli, hvort stjórnarliðið svarar með rökum eða aðeins út í hött.

Rétt fyrir áramótin fluttu sjálfstæðismenn þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að rjúfa þing í því skyni, að þjóðinni gæfist kostur á því að sýna hug sinn til valdhafanna. Rök sjálfstæðismanna fyrir þessari kröfu voru þau, að þá þegar hefði ríkisstj. vanefnt þau fyrirheit, sem hún gaf kjósendum fyrir kosningar í júnímánuði s.l. í slíkum höfuðefnum, að menn spyrðu þá ekki lengur um, hvað stjórnin ætti eftir að efna, heldur hvað hún ætti eftir að svíkja af kosningaloforðunum. Vitna ég um þetta til málflutnings sjálfstæðismanna við útvarpsumr., sem fram fóru um nefnda þáltill. í febrúarmánuði s.l.

Rétt þykir þó aðeins að minna á, að eins og kommúnistar kingdu öllum stóryrðum sínum um stjórnarskrárbrot og þingmannarán Alþfl. og Framsfl., þannig sviku líka þessir flokkar alla eiðana um, að þeir mundu aldrei vinna með kommúnistum. Allir þessir menn mátu meira ráðherrastólana og völdin en orð sín og eiða. Þykir mér ekki ólíklegt, að svikin, sem framin voru með samstarfinu við kommúnistana, eigi a.m.k. sinn þátt í því, að einn hinn fremsti stjórnarliða hefur nú sagt af sér formennsku Alþfl. og þingmennsku.

Alveg sama máli gegnir um dvöl varnarliðs Bandaríkjanna á Íslandi. Fyrir kosningar hétu þessir menn að senda varnarliðið tafarlaust úr landi og ákváðu með því að svíkja samning Íslands við vestrænar þjóðir, gera Ísland að varnarlausri bráð hugsanlegs árásaraðila og veikja þannig varnir frjálsra og frelsisunnandi þjóða. S.l. haust var strikað yfir öll þessi stóru orð. Ber að vísu að fagna því, en atferlið er engu að síður svík við þá, sem kosið höfðu stjórnarliðið ýmist vegna móðursýki eða beinlínis af þjónkan við þau öfl, sem vilja, að Ísland sé óvarið. Sú afsökun stjórnarliða gagnvart þeim, sem þeir hafa svíkið, að friðarhorfur séu nú miklu óvænlegri en áður, eru auðvitað hrein tyllirök. Hvort tveggja er, að fyrr sem nú og nú sem fyrr logar ófriðareldurinn alls staðar undir, þótt enginn viti og sízt við, hvort, hvar eða hvenær bálið brýzt út, sem og hitt, að sumir stjórnarliðar sækja því fastar, að Ísland sé óvarið, sem þeir telja ófriðareldinn færast nær okkur. Lýsa orð Einars Olgeirssonar við umr. í Nd. s.l. haust um áframhaldandi dvöl varnarliðsins hér á landi vel hugarfari og innstu þrá þessara manna. Hann sagði efnislega þetta: Það er hætta að hafa varnarlið á Íslandi á friðartímum, en það er lífshætta, ef til ófriðar dregur.

Svik stjórnarinnar gagnvart þeim, sem vilja, að Ísland sé varnarlaus bráð, er efnislega fagnaðarefni, þótt svik séu auðvitað alltaf vítaverð.

Miklu verra er, að hin gullnu loforð varðandi efnahagsmálin hafa líka reynzt innantómt hjal og helber brigðmælgi.

Ég kemst ekki hjá að minna á, að undir forustu hæstv. forsrh., Hermanns Jónassonar, rauf Framsfl. samstarfið við Sjálfstfl. og færði fram þau rök, að nú dygðu ekki framar nein vettlingatök, á síðustu árum hefði eingöngu verið beitt bráðabirgðaúrræðum, sem leiddu til beinnar glötunar, ef ekki yrði nú þegar snöggt við brugðið, snúið við af braut tortímingar og efnahagsvandinn leystur með varanlegum úrræðum eftir nýjum leiðum. Eru um þetta ótal skjalfest ummæli, skýr og ótvíræð, en öllum svo kunn, að óþarft er að rekja þau hér.

Stjórnin tók að því leyti réttum afleiðingum þessara kosningaloforða, að forsrh. kvaddi hingað erlenda sérfræðinga, sem hann sagði óyggjandi. Skyldu þeir taka út þjóðarbúið, svo sem ráðh. kvað að, því að Íslendingar yrðu nú að velja eða hafna, en slíkt mætti enginn krefjast að þjóðin gerði í blindni. Hún ætti réttmæta kröfu á að fá vitneskju um sannleikann, sannleikann einan og allan, og þá vitneskju skyldi hún nú loks fá og það tafarlaust.

Nú leið, og þjóðin beið. Hinn 7. okt. s.l. komu fyrstu gleðifréttirnar. Forsrh. tilkynnti, að hinir óyggjandi sérfræðingar hefðu lokið úttektinni, enn þá væri að vísu ekki alveg tímabært að sýna þjóðinni framan í sannleikann allan, en svo mikið kvaðst hann þó geta sagt, að sérfræðingarnir hefðu staðfest dóm hans og ugg allan um nauðsyn varanlegrar úrlausnar eftir nýjum leiðum, því að ella gengi þjóðin fram af glötunarbarminum. Við þessi geigvænlegu og alvöruþrungnu aðvörunarorð bætti forsrh. — öllum þeim fjölda, sem nokkurt mark tekur á honum, til mikillar gleði — þeim boðskap, að eftir nýju leiðunum og með varanlegu úrræðunum væri auðvelt að ná fyrirheitna landinu. Enginn skyldi missa spón úr aski sínum. Einskis lífskjör þyrfti að skerða. Sjálfur mundi hann stýra förinni og opna hlið hins nýja sæluríkis.

Einnig þetta man þjóðin, svo að óþarft er að rekja það frekar.

Síðan þetta skeði, eru liðnir nær 8 mánuðir. En enn þá hefur þjóðin ekki fengið að skyggnast inn fyrir hlíð sæluríkisins. Enn þá fá menn ekkert að heyra um hin nýju, varanlegu úrræði hinna óyggjandi sérfræðinga, þrátt fyrir mikla og ítrekaða eftirgangsmuni okkar sjálfstæðismanna. Og enn þá virðist foringinn ekki reiðubúinn að hefja gönguna til fyrirheitna landsins.

En því betur hefur þjóðin fengið að kynnast muninum á orðum og efndum. Stjórnarliðar, sem fastast fordæmdu fyrri úrræði, hafa nú pískað þjóðina með hnútasvipum miklu lengra inn á þessa glötunarbraut, sem þeir svo nefndu, en nokkur dæmi eru til í sögu hennar. Í stað þess að leysa efnahagsvandann án fórna, eins og lofað var, var þjóðin kaghýdd með 400 millj. kr. nýjum sköttum og lífskjör alls almennings skert meira en nokkur dæmi eru til um að gert hafi verið af manna völdum hérlendis.

Þannig hafa jafnt fyrirheitin sem forustan brugðizt.

Og nú spyrja menn og krefjast svars: Hvað var það, sem sérfræðingarnir sögðu? Hér duga engin undanbrögð og sízt þau að segja, að þeir hafi engar beinar till. gert. Hvað fólst í umsögn þeirra? Á hverju byggði forsrh. orð sín 7. okt., þegar hann sagði, að sérfræðingarnir hefðu í meginefnum staðfest þann boðskap hans og annarra stjórnarliða, að án nýrra leiða blasti glötunin við? Þessu verður forsrh. að svara, vilji hann njóta nokkurs manns trausts.

Ef sérfræðingarnir dæmdu fyrri úrræðin, sem forsrh. fordæmdi og klauf stjórnarsamstarf út af, en beitti þó sjálfur um síðustu áramót, farsælust, bar forsrh. auðvitað að skýra frá því, biðja afsökunar og biðjast lausnar. En ef sérfræðingarnir töldu þær leiðir lokaðar og önnur varanlegri úrræði óumflýjanleg, hvernig í ósköpunum getur þá sá maður, sem rýfur stjórn í því skyni að breyta um stefnu, gengur síðan til kosninga með það loforð sem kjarna síns máls, vænzt trausts nokkurs manns eftir að hafa svikið eiða sína alla, sannfæringu sína, ráðleggingar sérfræðinganna og þörf þjóðarinnar, — þetta eitt og allt? Heldur hann, að hann geti keypt sér aflát með kjarkleysinu einu, með því einu að segja: Ég vildi, en kommúnistar vildu ekki? — Eða getur hann kannske vænzt þess að leyna vanmætti sínum með því að segja: Sjálfstfl. hefur ekki bent á nein ný úrræði. Af hverju skyldi ég þá vera að gera það? Heldur hann, að kjósendur hafi gleymt því, að það var hann, en ekki við, sem bauðst til að leiða þjóðina til farsældar eftir nýjum leiðum án þess að skerða lífskjör nokkurs manns, svo vanhugsuð sem slík fyrirheit eru?

Nei, hér er allt á eina bók lært: mikil loforð, mikil brigðmæli.

Verst er þó kannske að vissu leyti, hvernig stjórn, sem kallar sig stjórn hinna vinnandi stétta, hlunnfer verkalýðinn og launþega alla, studd í starfi af þeim kommúnistum, sem enn hafa völd í sumum af verkalýðsfélögunum.

Að sjálfsögðu standa enn í gildi forn og ný ummæli okkar sjálfstæðismanna um, að kauphækkanir séu ekki kjarabætur, heldur krónulækkun, meðan hallarekstur er almennur, enda þótt kommúnistar og Alþýðuflokksmenn mótmæltu þeim kenningum okkar allt þar til þeir settust að völdum. En það afsakar auðvitað ekki ósæmilegt athæfi alls stjórnarliðsins gagnvart launþegum landsins. Blöð stjórnarliðsins hamra stöðugt á því, að kaupmáttur launanna sé óbreyttur. Forsrh. sagði, að ekki þyrfti að skerða kjör nokkurs manns. Við síðustu útvarpsumr. staðhæfðu flestir ráðh. þetta. Sumir gáfu jafnvel í skyn, að verðlagið mundi lækka. Þessir menn vildu víst nú fegnir kjósa sér, að þeir hefðu þá haft vit á að tala dálítið varlegar. En enn eru þeir svo óskammfeilnir að þverskallast gegn sannleikanum. Lítið á vísitöluna, segja þeir og ætla með því að þvo hendur sínar. Vísitalan hefur hækkað. Það er auðvitað óæskilegt. En frá einhliða sjónarmiði launþegans er það þó sök sér. Fyrir það fær hann bætur. Svikin liggja í því, að það eru eingöngu vísitöluvörurnar, sem ekki eru látnar hækka í verði.

Allt annað, og það eru 2/3 hlutar alls þess, sem til landsins flyzt, stórhækkar í verði, vegna þess að stjórnin hefur lagt á þær vörur 300 millj. kr. í nýjum sköttum. Auðvitað notar allur almenningur meginhlutann af þessum vörum, og auðvitað er það þess vegna allur almenningur, sem greiðir stjórninni þessa 300 millj. kr. nýju skatta í hækkuðu verðlagi. Það er af þessum ástæðum, sem húsmóðirin finnur, að kaup bónda hennar endist orðið miklu verr en áður. Hér eru rætur þeirra örðugleika, sem nú eru að gera vart við sig og fara munu versnandi, jafnvel þótt takast mætti að afstýra því atvinnuleysi, sem farið er að segja til sín. En fólkið hefur fengið kaupbætur, eða finnst mönnum það ekki? Það hefur eignazt yfir sig stjórn hinna vinnandi stétta, sem heldur niðri vísitölunni. Kannske finnst sumum það nóg. Aðrir munu telja sig fá steina fyrir brauð og blekkingar í ofanálag.

Ég viðurkenni hiklaust, að eitthvað varð að gera til að forða því þjóðarböli, að útgerðin stöðvaðist. Og úr því að ríkisstj. þverbraut loforðin um ný, varanleg úrræði, varð ekki hjá sköttum komizt. Áður sætti ég árásum fyrir að draga taum útvegsmanna úr hófi fram. Núverandi stjórn hælist um í hópi útgerðarmanna yfir að hafa gert miklu betur við þá en fyrrverandi stjórn og ég. En skattþegnarnir fá ekkert um þetta að vita, ekki um þörfina og ekki um, hvað mörgum milljónatugum þessar umframbætur nema. Þetta er vítavert. Menn eiga kröfu á að fá allar þessar upplýsingar. En kannske telur stjórnin sér hagkvæmast að þegja þunnu hljóði við þá, sem borga, og tala því meir við hina, sem bæturnar fá.

Ég skal ekki ræða meira um þetta. Ég held líka, að þess sé tæplega þörf. Sá veit bezt, hvar skórinn kreppir, sem sjálfur ber hann, og fólkið finnur orðið, hvað að því snýr.

En við höfum málsbætur, segir stjórnin og sýnir skrautfjaðrirnar eins og páfagaukur. Lítið á stóreignaskattinn, byggingarlánin og bankalöggjöfina. Þarna tökum við duglega í lurginn á auðvaldinu. Við hjálpum efnalitlu fólki til að eignast þak yfir höfuðið, sem er nauðsynlegt og gott, en auk þess þjörmum við duglega að þeim efnuðu, sem er enn þá betra.

En bíðum nú við. Við skulum líta dálítið nánar á þessi djásn.

Það á að taka 80 millj. kr. af vel stæðum mönnum. Sum ákvæði þeirra laga eru ósæmileg, og hefur þó tekizt að lagfæra það versta. Auk þess eru það út af fyrir sig hæpin hyggindi af fátækri þjóð, sem ríður lífið á að safna fé, að leggja slíka skatta á þrisvar á áratug, eins og Íslendingar nú hafa gert. Engin önnur þjóð leyfir sér slíkt. Allir aðrir telja það stefna til ófarnaðar. En sleppum því. Þeir efnuðu standast áfallið. En þessar 80 millj. verða teknar af rekstrarfénu. Af því leiðir samdrátt, minnkandi atvinnu, vaxandi atvinnuleysi. Þá skuld stjórnarinnar verður almenningur að greiða að lokum með verri lífskjörum. Þar með er sú skrautfjöður plokkuð úr stjórnarhattinum.

Um aðstoðina til húsabygginga er óþarft að ræða mikið, svo vel sem málið hefur verið skýrt í blöðum Sjálfstfl. Stjórnin veit, að þetta eru að langmestu leyti sýndarlög, mest gömul ákvæði. Þess vegna er reynt að fegra þá vesæld með fullyrðingunum um, að fyrrv. stjórn hafi í þessum efnum ekkert gert. En „þá var mörgu logið“, eins og Gröndal sagði að mig minnir. Aldrei hefur nokkur stjórn á Íslandi komizt í námunda við fyrrverandi stjórn í þessum efnum. Við tryggðum fé og létum lána í þessu skyni hvorki meira né minna en 230 millj. kr. Hver getur bent á eitthvað, sem minni á slíkt í byggingarmálum Íslendinga? Að við svo ekki skildum eftir digra sjóði, svo að Íslendingar gætu fullnægt allri sinni byggingarþörf, er varla vítavert. En kannske hefðum við þó reynt að gera betur, hefðum við vitað, að jafnráðlausir og getulitlir menn tækju við af okkur.

Um skyldusparnaðinn segi ég það eitt, að þvingun er alltaf ógeðþekk og oftast gagnslítil. En auk þess er svo óviturlega um þá hnúta búið, að vart má ætla, að meira en tíundi hver maður, sem skyldan er á lögð, geti notið þeirra hlunninda, sem henni áttu að fylgja.

Bankalöggjöfin verður rædd hér af öðrum. Ég læt nægja þau ummæli, að hér er hvorki stefnt að því að efla hag bankanna né þjóðarinnar. Hér er með ógeðþekku athæfi ætlað að svipta þá yfirráðum peningamálanna, sem enginn getur með rökum ásakað um rangsleitni og allir kunnugir vita að reynt hafa eftir megni að þjóna hlutdrægnislaust hagsmunum almennings. Þetta er gert til þess að fá þeim yfirráðin í hendur, sem vænzt er að vilji fremur þjóna flokki en þjóð, þótt þær vonir geti brugðizt. En hvað sem um það reynist, þá er víst, að hér er upp tekinn sá háttur að reka menn frá starfi vegna stjórnmálaskoðana. Varðandi bankana mun af þessu leiða vaxandi öryggisleysi í peningamálum þjóðarinnar, þverrandi trú á verðgildi krónunnar og versnandi horfur á, að erlend lán verði fáanleg vestan járntjalds.

Stjórnin veit þetta allt, og þjóðin veit nú orðið flest af því.

Minni fjaðrirnar virðast líka foknar. Eða hvar eru fimmtán togararnir? Enn eru þeir aðeins rís af pappír eða svo, — lög, dauður bókstafur. Heyrzt hefur, að stjórnin njóti lítils trausts erlendis og verði því illa til fjár. Sé nú verið að bauka við að slá peninga fyrir einum aumum fimm togurum, hvernig sem það nú gengur. Þess vegna sé nú fjölgað smáskipunum, þ.e.a.s. 150—200 smálesta bátunum, úr 0 í 12. Þá á að byggja austan járntjalds. Þar eiga sumir vini, njóta þar óskoraðs trausts og virðingar fyrir gott innræti og örugga þjónkun og geta því fengið lán þar, þótt treglega gangi annars staðar. Hef ég þó sannar sagnir af því, að erlendis hafa mönnum fallið ágætlega ýmis ummæli hæstv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, bæði um tryggð Íslendinga við NATO og nauðsyn á dvöl varnarliðsins hér á landi o.fl. Veit ég ekki til fulls, hvað hann hefur sagt, en ekki virðist það þó endast stjórninni til lánstrausts í bili.

Virðist og hafa orðið miklu minna en til stóð um lánveitingar frá Bandaríkjunum, er aðeins hafa fengizt 4 millj. dollara umfram lánið til Sogsins, sem fyrrv. stjórn átti kost á að fá, lánið til Sogsins, sem fyrrv. stjórn átti kost á að fá, — ég endurtek þetta, af því að það hafa verið gerðar þrálátar tilraunir til að blekkja menn og villa þeim sýn í þessum efnum, — og hefur þó sérstakur erindreki stjórnarinnar dvalið í Ameríku á opinberan kostnað í nær hálft ár til að reyna að útvega þessi lán.

Já, öll er stjórnarásjónan ósköp visin og vesæl, hnarreist loforð og afturlágar efndir. Stjórnin veit þetta, og þjóðin veit það líka.

En, segir stjórnin, vinnufriðinn höfum við þó tryggt. Jæja, er það? Látið er eins og einsdæmi sé, að róðrar hefjist um áramót eins og nú var. Sannleikurinn er, að þetta hefur yfirleitt verið venja. En hvernig er það, — var ekki stutt verkfall um áramótin á Akranesbátunum, sem endaði með kauphækkun? Var ekki líka 2—3 vikna verkfall á Grindavíkurbátunum, sem endaði á sama hátt? Var ekki verkfall á öllum flugflotanum, sem endaði með stórfelldum kauphækkunum? Var ekki nær mánaðar verkfall á öllum kaupskipaflotanum, sem líka endaði með kauphækkun? Hafa bændur ekki fengið 7 aura hækkun á mjólkurlítra? Fengu ekki sjómenn á bátaflotanum hækkun um síðustu áramót? Fengu ekki blaðamenn 10% hækkun rétt fyrir áramótin? Fékk ekki Iðja 6% hækkun nýlega? Fengu ekki yfirmenn á togurunum nýverið hækkanir allt upp í 40%? Heimta ekki yfirmenn á kaupskipaflotanum hækkanir frá 25–37% og allt upp í 52% auk margvíslegra annarra fríðinda? Logar ekki yfirleitt allt í deilum og kauphækkunum daglega? Hófst þetta ekki allt með því, að Samband ísl. samvinnufélaga hækkaði kaupið hjá starfsfólki sinn um 8% um síðustu áramót og sýndi þá rausn að láta þessa hækkun ná heilt ár aftur í tímann? Og endar svo ekki sagan á því, að ríkisstj. hælist daglega um af stórfelldum kauphækkunum, sem hún segist ætla sjálf að tryggja kvenfólkinu með því að sjá um, að það fái sama kaup fyrir sömu vinnu og karlmenn? Og hafa ekki kommúnistar hótað því, að strax og þeir fara úr stjórn, skuli kné fylgja kviði?

Jú, svona er vinnufriðurinn og svona óbreytta kaupgjaldið, þótt kommúnistar hafi keypt sér ráðherrastóla með því að fá þá lægst launuðu með blekkingum um óbreytt verðgildi krónunnar til þess að sitja hjá, meðan þeir bezt launuðu fá sér 30–40% kauphækkanir.

Og svo leyfa þessir stjórnarherrar sér að reyna að hylja nekt sína með því að freista þess að óvirða Sjálfstfl. fyrir það, að það sé hann, sem rói undir kauphækkununum.

Vorum það við, eða voruð það þið, sem hækkuðu kaupið hjá Sambandinu? Vorum það við, eða voruð það þið, sem með stórkostlega auknum gjaldeyrisfríðindum tryggðu flugmönnum bætur, sem þeir samtals telja jafngilda 30–40% kauphækkun? Vorum það við, eða voruð það þið, sem leyfðu farmgjaldahækkanir, sem almenningur og þ. á m. auðvitað Dagsbrúnarmenn borga, gegn því, að farmenn fengju 8% kauphækkanir? Vorum það við, eða voruð það þið, sem um áramótin sömdu um 15–18% hækkun til sjómanna á bátaflotanum, eftir því sem Lúðvík Jósefsson löngu seinna skýrði frá? Voru það við eða þið, sem úthlutuðu bændum 7 aura á mjólkurlítrann, eftir að þið höfðuð sjálfir fellt slíka till. hér á Alþ.? Það voruð þið, en ekki við, sem allt þetta gerðuð, sumt til góðs, annað til ills. Þegar stjórnarliðar nú reyna að skjóta sér bak við okkur, sýnir það aðeins auma og úrræðalausa fálmara, sem ekki einu sinni þora að meðganga það góða, sem þeir hafa gert, kannske líka af því, að þeir kunna varla skil á góðu og illu, réttu og röngu.

Ég stytti nú mál mitt. Ég minni enn einu sinni á, að stjórnin hefur í öllum meginefnum brugðizt fyrirheitum sinum. Skrautfjaðrir hennar eru nú foknar út í veður og vind, því að þjóðinni hefur skilizt, að málefni stjórnarinnar eru ýmist sýndarmennska eða flokksleg togstreita.

Stjórnin er sjálfri sér sundurþykk, úrræðalaus og máttvana. Hún nýtur lítils trausts jafnt erlendis sem hérlendis. Kjósendur hennar eru vonsviknir og sárir. Lýðræðissinnar bera kinnroða fyrir samstarfið við kommúnista og fyrirverða sig fyrir að bera ábyrgð á lengsta og ómerkasta þingi í sögu Íslands, og kommúnistarnir bölsótast yfir brigðmælgi í varnarmálunum, aðgerðaleysi í landhelgismálinu, svikum foringjanna í sambandi við kaupgjaldið, fallandi verðgildi krónunnar og stórfelldari kjaraskerðingu en áður hefur þekkzt.

Af þessu einu og öllu leiðir, að við sjálfstæðismenn munum veita stjórninni vaxandi andstöðu. Við munum berjast öfluglega fyrir því, að sem fyrst verði tekin upp hin mikla framfarastefna okkar, sem leitt hefur þjóðina til meiri velsældar, jafnari og betri lífskjara en nokkur dæmi eru til um í sögn Íslendinga.