31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um breytingu á lögunum frá 1955 um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga o.fl. Það felur í sér fjölgun á meðlimum húsnæðismálastjórnar úr 5 upp í 7. Umr. hafa átt sér stað á fyrra stigi um það atriði, sem ég skal ekki gera hér að umtalsefni. En þar sem hér er á ferðinni breyting á lögunum um húsnæðismálastjórn o.fl., þykir mér rétt að hreyfa hér atriði, sem ég tel brýna nauðsyn að breyta í þessum lögum og miklu brýnni nauðsyn en að fjölga í stjórninni. Ég flyt því brtt. á þskj. 213, sem nú mun hafa verið útbýtt.

Í lögunum um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða, sem samþ. voru og staðfest á árinu 1955, fjallar II. kaflinn um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Þar segir m.a., að húsnæðismálastjórn skuli af hálfu ríkisvaldsins vera aðili að ráðstöfunum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, þar með taldir herskálar, og hafa um það samvinnu við bæjar- og hreppsfélög, er beita sér fyrir slíkum framkvæmdum. Þá er rætt um, að bæjar- og hreppsfélög, sem hafa ákveðið að gera ráðstafanir til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, skuli senda húsnæðismálastjórn áætlanir sínar og rökstuddar greinargerðir. Síðan kemur 13. gr. þessara laga, þar sem segir svo:

„Nú leggur sveitarfélag fram fé til íbúðabygginga í því skyni að útrýma heilsuspillandi íbúðum, annaðhvort sem óafturkræft framlag eða lán, og skal ríkissjóður þá leggja fram jafnháa fjárhæð á móti, allt að 3 millj. kr. á ári næstu fimm árin, að því tilskildu, að sveitarfélagið sjái um, að hið ónothæfa húsnæði verði tekið úr notkun, enda greiði ríkissjóður ekki framlag sitt fyrr en því ákvæði er fullnægt.“

Samkvæmt ákvæðum þessa II. kafla laganna munu nokkur sveitarfélög hafa hafizt handa í stærri stíl en áður til útrýmingar lélegum íbúðum. Stærsti aðilinn í þessu efni var að sjálfsögðu höfuðborgin, og bæjarstjórn Rvíkur ákvað að gera áætlun um útrýmingu allra herskálaíbúða í bænum, auk annarra heilsuspillandi íbúða.

Þessi áætlun var gerð fyrst í apríl 1954, áður en lögin voru samþykkt, ári áður, og var síðan endurskoðuð seint á árinu 1955, þegar þessi lög voru komin til framkvæmda. Þessi áætlun var í stuttu máli á þá leið, að Reykjavíkurbær skyldi byggja 600 íbúðir á næstu 4 árum til að útrýma herskálaíbúðum, sem taldar voru um 450 að tölu, en auk þess skyldu 150 íbúðir vera til ráðstöfunar fyrir aðra í heilsuspillandi húsnæði en þá, sem í herskálum búa.

Þessari áætlun hefur svo verið framfylgt þannig, að nokkur hluti þessara íbúða er þegar fokheldur, en svo var ráð fyrir gert, að nokkur hluti skyldi látinn af hendi fokheldur, en annar hluti ýmist fullgerður eða fullbúinn undir málningu.

Nú er nokkur hluti þessara íbúða þegar fokheldur og hefur verið úthlutað til herskálabúa aðallega, en á þessu ári er gert ráð fyrir, að hér í Rvík verði um 300 þessara íbúða tilbúnar.

Nú hefur húsnæðismálastjórn ákveðið að veita samkv. II. kafla laganna 70 þús. kr. á hverja íbúð, gegn jafnháu framlagi frá Reykjavíkurbæ. Reykjavíkurbær hefur fyrir sitt leyti samþykkt það. En þetta þýðir, að af hálfu ríkisins þurfa að koma allstórar fjárhæðir á þessu ári, þannig að það má gera ráð fyrir, að það verði í kringum 20 millj. kr.

Það er því ljóst, bæði vegna þess, að framkvæmdir hafa orðið meiri í þessum efnum og hraðari en gert hafði verið ráð fyrir, þegar lögin voru sett, og enn fremur, að lánsupphæð hefur verið ákveðin 70 þús. eða nokkru hærri en upphaflega mun hafa verið gert ráð fyrir, að þessi takmörkun í lögunum um 3 millj. framlag á hverju ári í fimm ár stenzt ekki. Það verður frá ríkisins hálfu, sem hefur gefið fyrirheit um að standa undir þessu til jafns við sveitarfélögin, að leggja fram miklu meira fé en þarna er ráð fyrir gert.

Til þessara hluta samkv. II. kafla laganna var veitt fyrst í fjárlögum fyrir árið 1955 3 millj. kr., í fjárlögum fyrir 1956 aftur 3 millj., eða samtals 6 millj. kr. Auk þess mun af greiðsluafgangi ársins 1955 hafa verið varið 1.7 millj. í þessu skyni, þannig að húsnæðismálastjórn hefur til ráðstöfunar 7.7 millj. kr. nú. Af því mun hún hafa ráðstafað rúmum 4 millj. til þeirra sveitarfélaga, sem hafa hafizt handa, og er þá óeytt 31/2 millj. Þó að við bætist í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár 3 millj., samtals 6 1/2 millj., þá er sýnt, hversu mjög skortir á, að ríkissjóður eða húsnæðismálastjórn geti staðið að óbreyttum lögum og framlögum undir þeim fyrirheitum, sem ríkið hefur tekið á sig í þessu skyni.

Vegna þessara raka, sem ég hér hef talið, tel ég sjálfsagt að afnema þetta hámarksákvæði, sem í lögin var sett, að leggja skuli fram allt að 3 millj. á ári næstu fimm ár. Þá yrði, ef þessi till. yrði samþykkt, skipan mála sú. að húsnæðismálastjórn f.h. ríkisvaldsins yrði að sjá um, að lagt yrði af ríkisins hálfu jafnan fram jafnhátt framlag og sveitarfélögin leggja til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, og tel ég, að það sé engin ofrausn fyrir ríkið.

Í því sambandi má geta þess, að árið 1946 voru samþykkt lög um opinbera aðstoð við íbúðabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum. Í þeim lögum var svo ákveðið, að ríkissjóður skyldi lána í þessu skyni, þ.e.a.s. til bæjar- og sveitarfélaga, sem vildu útrýma heilsuspillandi íbúðum, allt að 85% af byggingarkostnaði til langs tíma með mjög vægum kjörum, þannig að 75% af láninu áttu að vera til 50 ára með 3% vöxtum, en 10% að auki, einnig til 50 ára, þó afborgunarlaust fyrstu 15 árin, en vaxtalaus lán.

Tvö bæjarfélög hér á landi hófust handa samkvæmt þeim ákvæðum og byggðu allmargar íbúðir, það voru Ísafjarðarkaupstaður og Rvík. En að nokkrum tíma liðnum var ákveðið af Alþingi að fresta framkvæmd þessara laga. Nú var sú stefna tekin upp aftur með lögunum frá 1955, að ríkisvaldið ætti að veita sinn atbeina til útrýmingar lélegum íbúðum og leggja fram fé til jafns við sveitarfélögin, þ.e.a.s. 50% á móti 75–85% samkv. l. frá 1946.

Ég skal ekki fara frekar út í þetta mál að sinni, en vænti þess, að þessar athugasemdir og upplýsingar, sem að vísu hafa eingöngu snert Rvík, vegna þess að ég hef ekki tölur við höndina frá öðrum sveitarfélögum, sem vinna að útrýmingu heilsuspillandi íbúða, geti sýnt hv. þdm. fram á, að það sé réttmætt að afnema þetta hámark og að ríkisvaldið geri gangskör að því að útvega og lána það fé á móti sveitarfélögunum, sem lögin gera ráð fyrir.