31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á skipun húsnæðismálastjórnar er frv. til staðfestingar á brbl. um það atriði eitt. Út af till. hv. 6. þm. Reykv. vil ég aðeins segja það, að það mun í fyrsta lagi vera mjög óvenjulegt, að brtt. séu bornar fram við brbl. eða á það fallizt, að breytingar séu á þeim gerðar. Eðlilegast er, að Alþingi taki afstöðu til brbl. eins og þau liggja fyrir, annaðhvort með því að samþ. þau óbreytt eða fella þau.

Hér er nú borin fram efnisleg till. við lögin um húsnæðismálastjórn og er algerlega fjarskyld því, sem felst í brbl. Ég mundi af þessari ástæðu vilja fara fram á það við hv. þm., að hann taki brtt. sína aftur. Þetta ætti ekki að vera honum á nokkurn hátt til baga, sökum þess að sú löggjöf, sem gilt hefur s.l. tvö ár um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, er tímabundin löggjöf, sem nú er að falla úr gildi, og er vitað, — ég get a.m.k. upplýst það nú, — að sett verður á þessu þingi löggjöf um þessi efni öll í stað þeirrar löggjafar, sem nú er úr gildi að falla. Þar með koma auðvitað í hinni nýju löggjöf ákvæði um, hversu miklu fé skuli varið til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og þá finnst mér, að till. um það efni eigi heima í sambandi við þá löggjöf, en sé heldur framandi böggull með þessu frv. um staðfestingu á brbl.

Þá er þess enn fremur að geta, eins og hv. 6. þm. Reykv. reyndar gerði alveg réttilega grein fyrir, að sá eini liður í núv. húsnæðismálalöggjöf, liðurinn um fjárveitingu til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, er sá einasti liður, sem hefur staðizt og fé verið fyrir hendi fyllilega til þess að svara nauðsyninni og eftirspurninni. Það var, eins og hann upplýsti, ákveðið, að á fjárlögum væru 3 millj. kr. á ári hverju, 1955 og 1956, og svo hefur það verið, og þarna er um afgang að ræða. Þetta fé, eins og það var ákveðið í lögunum, hefur nægt, og er afgangur af því, sem nemur nú sem stendur, eins og hv. þm. upplýsti, um 3.7 millj. kr. Á árinu 1957 ættu að óbreyttum lagaákvæðum um þetta að falla til a.m.k. 6 millj. og þá að vera 9–10 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni að óbreyttri löggjöf.

En það er enginn kominn til með að segja, að svo verði, þar sem þessi löggjöf, eins og ég áður tók fram, er tímabundin, og stendur fyrir dyrum, að Alþingi taki til afgreiðslu nýja löggjöf um öll húsnæðismál. Og þá er það, sem ég tel, að till. um þetta atriði sé á sínum stað að koma fram, eftir þeim rökstuðningi, sem þá er hægt að færa fram fyrir nauðsyn meira fjár en í því frv. kynni að vera lagt til.

Ég sem sé vil af þessum tveimur ástæðum láta í ljós þá skoðun mína, að það sé eðlilegt, að till., sem hér liggur fyrir frá hv. 6. þm. Reykv., verði tekin aftur í sambandi við þetta frv. og að hún verði aftur borin fram, ef þá finnst ástæða til, í sambandi við þá húsnæðislöggjöf, sem lögð verður fyrir þetta þing innan skamms.