27.05.1957
Sameinað þing: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Pálmason:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Allir eldri bændur muna glöggt þau fjárhagslegu vandræði, sem þeim voru búin í tíð vinstri stjórnarinnar fyrri, hallærisstjórnarinnar. Þá urðu bændur almennt að vinna kauplaust, og alltaf gekk á lítinn höfuðstól. Unga fólkið flúði til bæjanna. Fjöldi jarða lagðist í auðn. Í síðustu kosningum spáði ég og fleiri því, að allt þetta mundum við fá aftur, ef slík stjórn yrði endurnýjuð. Þetta er farið að rætast, og stefnir ört í þá átt, eins og við mátti búast.

Þegar verðfestingarlögin voru sett í byrjun september s.l., tóku bændur því almennt vel, þó að það skerti þeirra hag í bili. Þeir sáu, að þar var stefnt í rétta átt, ef skynsamlegt framhald hefði á orðið. En þessu var ekki alveg að heilsa. Eftir fáa mánuði voru tollar og skattar hækkaðir gífurlega. Vísitölunni var sleppt lausri enn á ný. Verð á öllum aðfluttum vörum hefur stórhækkað, þ. á m. á sumum helztu rekstrarvörum landbúnaðarins: benzíni, olíu, kolum, áburði o.fl. Mörg stéttarfélög hafa fengið hækkuð laun, og stefnir áfram á þeirri leið. Kostnaður við allar framkvæmdir vex, framræsla og önnur ræktun um minnst 20%, byggingarkostnaður sömuleiðis, vegalagning og hvað annað. Aðeins eitt er bundið. Það er afurðaverð bændanna. Það má ekkert hækka fyrr en í september næst. Bændur verða að taka við allri hækkuninni og fá ekkert í staðinn. Ég segi svo, þótt 7 aurar fengjust í vetur til verðjöfnunar á mjólk, því að sú upphæð nægir engan veginn til þess, að bændur vestanlands, norðan og austan fái það fyrir sínar afurðir, sem verðgrundvöllurinn gerir ráð fyrir. Samsvarar það því, að launamenn fengju ekki laun sín nema með miklum afföllum. Þó að gert sé ráð fyrir verðhækkun á landbúnaðarvörum í haust í samræmi við aukinn tilkostnað, þykir mér trúlegast, að áður verði komin önnur bráðabirgðalög eða aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir þá hækkun.

Áður en þetta gerðist, vissu þó bændur, að ekkert samræmi var milli afurðaverðs og launa, enda engin leið að reka búskap með aðkeyptu vinnuafli nema með miklum halla. Það sanna reikningar ríkisbúanna bezt ár eftir ár.

En það er fleira en þetta, sem gengur í sömu átt og sannar bændum, hvert stefnt er með þeirra hag. Sú milliþn., sem fyrrv. landbrh. skipaði til að gera till. um bættan hag frumbýlinga og nýbýlamanna og í voru m.a. tveir meiri háttar framsóknarmenn, skólastjórinn á Hólum og formaður Búnaðarfélags Íslands, skilaði áliti sínu um miðjan nóvember s.l. með tveimur frv. Öðru þeirra, um aukið fé til veðdeildar Búnaðarbankans frumbýlingum til gagns, var stungið undir stól. Það mátti ekki sjást, eða koma fram. Hitt var tætt í sundur af skúmaskotamönnum stjórnarflokkanna, áður en það var að mörgum mánuðum liðnum lagt fyrir Alþingi. Er það einsdæmi í þingsögunni um frv. frá mþn., enda hafa engir stjórnarflokkamenn þorað að kannast við verkið. Nokkuð var þetta lagað í meðförum Alþ. En eitt aðalatriði mátti ekki koma til greina. Móti því komu allar hendur stjórnarflokkanna, þegar við sjálfstæðismenn fluttum till. um það. Þetta var hækkun til byggingarsjóðs sveitanna um 21/2 millj. kr., svo að unnt væri að hækka lán til íbúaðarhúsabygginga upp í 100 þús. kr. á hús a.m.k. Lán til kaupa á jörð, bústofni og vélum er það, sem frumbýlinga skortir mest, og hefur svo lengi verið. En þetta hefur eigi fengizt lagað nema að litlu leyti. Nú var ætlun mþn. að bæta úr þessu með 5 millj. kr. framlagi á ári til veðdeildar Búnaðarbankans. Það hefur ekki fengizt, till. okkar sjálfstæðismanna ekki teknar til greina, og ekkert fé hefur veðdeildin enn fengið, þó að þar liggi 300 umsóknir óafgreiddar.

Nú er talið, að ætlunin sé að lána veðdeildinni 5 millj. kr. úr atvinnuleysistryggingasjóði, sem fékk 21 millj. á fjárl. Er þetta að vísu þakkarvert, það sem það nær. En öfugstreymi finnst mér í öllu þessu, þegar vitað er, að helzta ráðið til að fá verkafólk til landbúnaðarins eða á fiskiskipin er að fá það frá öðrum löndum, Færeyjum og annars staðar að.

Hið eina, er máli skiptir og gert hefur verið landbúnaðinum til gagns í öllu flóðinu, er aukið framlag til nýbýla og ræktunar á þeim jörðum, sem hafa minnst túnin. Er það gott út af fyrir sig. En það er ekki ræktunarkostnaðurinn, sem er örðugastur með þeim framlögum, sem áður voru lögfest, heldur eru það byggingarnar og hinn gífurlegi kostnaður við að stofna til búskapar. Það er öllum ungum sveitamönnum þungt í skauti og rekur marga þeirra til bæjanna. Þeir sjá, að bændur og sveitamenn eru olbogabörnin, eins og nú er að unnið. Við í mþn. ætluðum okkur að fá nokkurn létti fram við byggingu íbúðarhúsa á nýbýlum með 25 þús. kr. framlagi á hús, og má segja, að nokkur bót sé þar að. En síðan við fluttum þá till., hefur byggingarkostnaðurinn verið aukinn sem þessu svarar. Auk þess var framlagið til þessa lækkað um 1/4, svo að það nægir aðeins handa 60 mönnum, þótt 80–100 eigi rétt á að fá það.

Sannast á öllu þessu, að meira hefur verið um annað hugsað, þó að víða séu kvartanir, en að bæta úr vandræðum sveitanna. Það er líka auglýst meira af jörðum til kaups nú en verið hefur síðustu 16 árin og líkur fyrir, að margar þeirra fari í eyði, m.a. í beztu héruðum landsins hér á Suðurlandi.

Af þessu og mörgu öðru má sjá, að þeir bændur og sveitamenn, sem kusu Hræðslubandalagið í síðustu kosningum, létu blekkjast sjálfum sér, sinni stétt og þjóðinni allri til mikils ógagns.

Fyrrv. ríkisstj. hafði marga galla, eins og allar samsteypustjórnir hafa. En ef hún hefði verið enn þá, væri ástandið gagnólíkt og miklu betra en nú er orðið. Öllum landslýð er líka að verða það ljóst, að hver vitleysan hefur rekið aðra í starfi núverandi ríkisstj. Hinni stærstu neyddust mennirnir sjálfir til að snúa frá eftir að hafa orðið þjóðinni til minnkunar um allan hinn vestræna heim. Af henni mun þjóðin þó lengi súpa seyðið. Hinar smærri verða eigi upp taldar á lítilli stundu, en yfirleitt stefna þær til vaxandi vandræða, því að það er augljóst, að stjórnin er að leiða þjóðina út í þá mestu fjárkreppu, sem þekkzt hefur, síðan vinstri stjórnin fyrri var við völd. Mun þess skammt að bíða, að það komi glöggt í ljós.

Þegar við lítum til fjármálasögu þjóðarinnar síðustu árin, leitar hugurinn til þess, að núverandi fjmrh., Eysteinn Jónsson, lét allra manna verst yfir hinni voðalegu fjáreyðslu nýsköpunarstjórnarinnar, þegar Pétur Magnússon var fjmrh. Þá átti allt að vera að sökkva. Þá voru Eysteinn Jónsson og aðrir framsóknarmenn óðir af vandlætingu út af öllu sukkinu, sem þeir kölluðu. Þá var ekkert eins nauðsynlegt á þeirra máli sem það að afnema óstjórn íhaldsins á fjármálum. En hvað voru öll gjöldin há? Þau komust hæst samkv. sjóðsyfirliti á ríkisreikningi 1946 í 228 millj. kr. Síðan hefur núverandi fjmrh. alltaf verið í ríkisstj. Hann hefur samið á víxl og svikið á víxl. Hvort sem hér er Alþfl.- stjórn, Framsóknarstjórn, sjálfstæðisstjórn eða kommúnistastjórn, þá getur Eysteinn Jónsson verið í þeim öllum. Hann tekur stefnuna frá degi til dags, eins og einu sinni var eftir honum haft.

Hvernig hefur honum svo tekizt að laga óstjórn Péturs Magnússonar, sem hann svívirti mest forðum? Þannig, að á þessu ári eru útgjöld ríkisins og útflutningssjóðs, sem er líka ríkisstofnun, áætluð samtals yfir 1200 millj. kr. Þar með fylgja hliðstæðar álögur. Þar á ofan er svo bætt 80 millj. kr. stóreignaskatti, svo að útkoman nálgast 1300 millj. kr. Hin mikla umbót hjá helzta forustumanni umbótaflokkanna, fjmrh., er því sú á rúmum 10 árum, að útgjöldin hafa hækkað og álögurnar frá 1946 um 400–470% eftir því, hvort stóreignaskattsböggullinn er tekinn með eða ekki. Hámarksgjöldin frá tíma Péturs Magnússonar eru þannig milli 5- og 6-földuð. Það er þetta, sem bezt sýnir fjármálasnilli núverandi, fyrrverandi og oftverandi fjmrh., Eysteins Jónssonar.

Hlut að þessu hafa að vísu margir átt, stéttir og flokkar, en fjmrh. hefur haft forustuna. Og ef um einhverja ábyrgð væri hægt að tala á þessu sviði, þá ber hann ábyrgðina öðrum fremur. Það er og alkunnugt, að grobbið og skrumið hefur hann fengíð og það ótæpt úti látið á síðum Tímans og úr munni framsóknarmanna. Sjálfur þykist þessi maður hafa ráðið mestu í öllum stjórnum. En þegar hann er í stjórn með Ólafi Thors, er allt illt kommúnistum að kenna. En þegar hann er í stjórn með kommúnistum, telur hann allt illt Ólafi Thors að kenna. Síðasta afrek þessa herra er svo það að hækka útgjöldin og álögurnar um nærri 400 millj. kr., síðan núverandi stjórn tók við. Það má segja nú á tímum, að ekki muni mikið um milljónina og ekki muni mikið um árið. Það hefur þó þjóðin fundið, að síðasta árið er nokkuð dýrt, frá því að hið heimskulega þingrof var ákveðið í fyrra.

En kannske munar það ekki miklu, þó að sami fjmrh. verði eitt árið enn. Fari samt svo, að ú því ári verði enn bætt 300–400 millj. kr. ofan á allan gjaldabaggann eins og þetta síðasta ár, þá mundi kominn hæfilegur tími til að óska framsóknarmönnum til hamingju með þann fjármálasnilling, sem þeir hafa jafnan mest grobbað af.

Það er kunnugt mál, að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að stjórnmálaflokkar okkar lands væru of margir, þeim þyrfti að fækka og ættu helzt ekki að vera nema tveir. Nú stefnir nokkuð í þá átt, ef stjórnarliðið gengi í einn flokk. A.m.k. liggur fyrir, að um einn geti fækkað. Framsfl. fékk langfæst atkvæði í síðustu kosningum. Það sannaðist líka, að fyrri liðsmenn hans í 6 stærstu kaupstöðunum og í 5 sveitarkjördæmum kusu upp til hópa Alþfl. M.a. er það víst, að 7 þeirra þm., sem nú teljast framsóknarmenn, kusu frambjóðendur Alþfl., þ. á m. báðir núverandi ráðh., forsrh. og fjmrh. Mundi þetta ekki geta boðað það, að Alþfl. legði Framsókn gömlu undir sig fyrir fullt og allt innan skamms? Það gæti skapað töluvert hreinni og eðlilegri pólitík, væri líka skiljanlegt framhald af því, sem gerðist í síðustu kosningum. Þá væri líka einum færra fyrir eignarréttarmenn landsins að berjast við og um leið nokkru hreinni málefnabarátta og eitthvað minna um blekkingamoldviðri.

Það er ef til vill of snemmt, að stærsti og einbeittasti stjórnarflokkurinn, Alþb., þ.e. kommúnistarnir, geti raðað öllu liðinu undir sitt stríðsmerki. En sýnilega stefnir í þá átt, því að margir fleiri en fjmrh. eru komnir langt á þeirri leiðinni. Nokkrir mundu þó, áður en yfir lýkur, fylgja Áka Jakobssyni í mótstöðunni gegn niðurrifsöflunum.

En hvað sem þessu líður, vitum við, að grundvöllur núverandi stjórnar og stjórnarbanda eru kosningalagabrotin og stjórnarskrárbrotin í síðustu kosningum. Þess er ekki að vænta, að upp úr slíkri jörð komi neinn nytjagróður, enda hefur það ekki orðið og verður aldrei. Sú ríkisstj., sem þannig er til orðin, á ekki lengi tilverurétt, ef Íslendingar vilja virða lög og stjórnarskrá.