27.05.1957
Sameinað þing: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Hv. hlustendur. Þessar útvarpsumræður ná því aðeins tilgangi sínum, að landsmenn hafi að þeim loknum betri aðstöðu til þess að dæma rétt um það, hvernig ríkisstj. hefur tekizt lausn vandamálanna, en til þess þurfa þeir fyrst og fremst að gera sér fullljóst, við hvaða vandamálum ríkisstj. tók, og enn fremur, hvernig stjórnarandstaðan hefur unnið, því að auðvitað ber hún einnig ábyrgð verka sinna og dæmir sig af þeim.

Framleiðslan stöðvaðist fyrst árið 1946 eftir stjórnarforustu Sjálfstfl. Þá var í fyrsta sinn tekin ríkisábyrgð á framleiðslunni við sjávarsíðuna. Síðan hefur dýrtíðin haldið áfram að aukast og alltaf hallað undan fæti fyrir framleiðslunni jafnt og þétt. Langverst var ástandið s.l. haust. Vegna sívaxandi dýrtíðar hafði hallinn á framleiðslusjóði orðið 20–30 millj., þörfin fyrir niðurgreiðslur aukizt um 30 millj., og á þriðja hundrað millj. þurfti til viðbótar því, sem áður var, til þess að framleiðslan gæti haldið áfram árið 1957. Um þessa þörf framleiðslunnar voru allir stjórnmálaflokkarnir sammála hér á Alþingi. Þetta var fyrsta myndin, sem blasti við við stjórnarskiptin.

Húsbyggingar um land allt voru að stöðvast vegna fjárskorts, og hátt á þriðja hundrað millj. vantaði til þess að fullgera þær byggingar, sem höfðu verið hafnar í Reykjavík einni.

Rafmagnsmál dreifbýlisins stóðu þannig, að 18–20 millj. skorti til þess að fullgera það, sem áætlað hafði verið og samið um 1956.

Bændur höfðu stofnað til stórskulda vegna framkvæmda, en ræktunarsjóð vantaði 20 millj. til þess að geta fullnægt lánaþörfinni.

Fiskveiðasjóður hafði lofað lánum, en skorti 10–20 millj.

Sementsverksmiðjan var einnig stöðvuð. Landsmönnum hafði verið sagt, að séð hefði verið fyrir fé til hennar, en í ljós kom, að það skorti 60 millj. til þess að fullgera verkið.

Nokkur fiskiðjuver voru hálfgerð og þar um bil, en framkvæmd stöðvuð sakir fjárskorts. Stækkun Sogsins þoldi enga bið, en lánsfé til verksins, hátt á annað hundrað millj., hafði reynzt ófáanlegt.

Það er þess vegna ósatt, sem hv. þm. G-R., Ólafur Thors, sagði hér áðan, að fyrrverandi stjórn hafi átt kost á láninu, enda mundi hún sannarlega hafa tekið það, ef þess hefði verið kostur.

Þegar ríkisstj. sneri sér til bankanna, var svarið á tveimur fundum, sem voru haldnir með bönkunum: Við höfum enga peninga. Okkar fé hefur verið lánað út.

Fyrrverandi stjórn hafði leitað eftir láni í mörgum löndum s.l. tvö ár án árangurs, þ. á m. til Sogsvirkjunarinnar, sem þó getur boðið betri grundvöll til lántöku en aðrar framkvæmdir vegna þess, hve fyrirtækið er arðbært.

Allar þessar tölur, sem sýna ljóslega myndina af aðkomunni, eru óhrekjandi staðreynd, og mun sennilega verða birt skýrsla nm það, áður en langt um líður. Þetta var arfurinn, sem við var tekið. Þetta voru viðfangsefnin, sem blöstu við.

Maður skyldi nú halda, að forustuflokkur fyrrv. ríkisstj., sem skildi þannig við málin eftir allt frelsið, sem hann hafði prédikað og fengið að ráða að nokkru leyti í framkvæmd hér á suðvesturhluta landsins, — að þessi forustuflokkur, sem skildi við allt í strandi og óreiðu, hagaði sér sæmilega í stjórnarandstöðunni.

En það fyrsta, sem núverandi stjórn varð að snúa sér að, áður en hún hóf störf, var að leiðrétta ýmiss konar missagnir og hnekkja rógi, sem sendur hafði verið til útlanda í fréttaskeytum í því skyni að gera stjórnarskiptin tortryggi. leg erlendis.

Blöð Sjálfstfl. eða menn frá þeim hafa umboð frá ýmsum stærstu erlendu fréttastofum heims til þess að senda þeim fréttir héðan. Þessar stóru fréttastofur senda svo fréttirnar til fjölda stórra og víðlesinna blaða víða um heim. Þessi aðstaða hefur verið notuð með þeim furðulegasta hætti til þess að senda rógskeyti út um heim um íslenzku ríkisstj.

Um þessa einstöku vinnuaðferð hefur verið rætt í blöðum, og er tímans vegna aðeins unnt að nefna örfá dæmi. Send voru skeyti til útlanda um það, að kommúnistar réðu öllu í íslenzku ríkisstj., henni væri ekki treystandi, hún mundi leita austur fyrir járntjald með flest sín vandamál. Send voru fréttaskeyti um það, að Reykjavík væri bókstaflega orðin yfirfull af austanjárntjaldsmönnum, hér væri pólsk sendinefnd, verzlunarmálaráðherra Tékkóslóvakíu o.fl., o.fl., fullt af blaðamönnum, rússneskt knattspyrnulið, þó að staðreyndin væri sú, að allar þessar heimsóknir höfðu verið ákveðnar, meðan fyrrv. ríkisstj. sat við völd. Rógskeyti voru send til útlanda út af því, að við fengum þriggja ára samning um sölu fisks við Rússland. Þó hafði fyrrv. forsrh. gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná slíkum samningum, en án árangurs. Send voru skeyti um það, að Íslendingar væru að taka upp stórfelld viðskipti við Austur-Þýzkaland, og einnig um það, að við værum að viðurkenna Austur-Þýzkaland. Þó var það einnig staðreynd, að einn aðalmaður Sjálfstfl. samdi um þessi viðskipti í samráði við fyrrv. ríkisstj. Send voru símskeyti um það út um viða veröld, að nýja íslenzka ríkisstj. væri mjög fjandsamleg Bandaríkjunum. Þannig rigndi rógskeytunum frá Reykjavík.

Tilgangurinn var auðsær: að spilla áliti ríkisstj. út á við, og þá ekki horft í það, þó að það skaðaði þjóðina. Þeir vissu það einnig, sjálfstæðismenn, að þeir höfðu stofnað til stórskulda, stórkostlegra óreiðuskulda vegna hálfgerðra framkvæmda, sem ég taldi áðan. Innlenda lánsféð hafði verið tæmt. Ef ríkisstj. gæti hvergi fengið peninga erlendis, leiddi það af sjálfu sér, hugsuðu þeir, að hún yrði að fara. Það var vonin og viðkvæðið, fyrst eftir að ríkisstj. tók við: Ríkisstj. skal fara. Hún skal hvergi fá lán, var hvíslað á klíkufundum Sjálfstfl. hér í Reykjavík og í nálægum sveitum, eftir þrjá mánuði verður hún að fara.

Ég er viss um, að það má leita víða um lönd til þess að finna jafnfáheyrð vinnubrögð gagnvart þjóðinni og hér voru höfð í frammi.

En þegar ríkisstj. hafði unnizt tími til að snúast gegn þessum rógfregnum með ýmsum hætti, var fyrsta verk hennar að stöðva dýrtíðarskrúfuna í samráði og samstarfi við aðalatvinnustéttirnar. Á þessa fundi sendi Sjálfstfl. fulltrúa sína til þess að reyna að spilla samkomulaginu. Hófst þá þegar skemmdarverkastarfsemi sú, sem Sjálfstfl. hefur stundað síðan og ég rek nánar.

Eftir að tekizt hafði að stöðva verðbólguskrúfuna, hófst annar þáttur í vinnu ríkisstj., ýtarleg rannsókn á fjármálaástandinu, samningar við efnahagsmálanefnd launastéttanna, og það tókst að ná samkomulagi. Þær aðgerði. hafa verið raktar svo ýtarlega, að ég sé ekki ástæðu til að verja tíma til þess að rekja þær hér. Samkomulag um að breyta skráðu gengi krónunnar náðist ekki, þótt ýmsir álitu, að það væri eðlilegasta lausnin, ef unnt væri að framkvæma hana í samráði og samvinnu við vinnandi fólk.

En vert er að vekja athygli á því hér, að allir stjórnmálaflokkarnir voru sammála um, að það fé, sem aflað var framleiðslunni til styrktar, mætti ekki minna vera, enda hefur því miður orðið sú raunin á eftir aflabrestinn í vetur. Og stjórnarandstaðan gat ekki bent á neinar aðrar leiðir til tekjuöflunar í þessu skyni en þær, sem gripið var til.

Þessar ráðstafanir tókst að gera fyrir áramót, þannig að framleiðslan gat í þetta skipti haldið áfram án nokkurrar stöðvunar.

Jafnhliða því, sem unnið var að þessum ráðstöfunum, hóf ríkisstj. umleitanir til þess að fá lán erlendis, enda var það óumflýjanlegt, ef átti að bjarga þjóðinni frá bráðri hættu vegna vanskilaskuldanna, sem námu, eins og áður greinir, mörgum tugum milljóna. Og einnig þetta tókst. Í Bandaríkjunum fékkst hagkvæmt lán, um 65 millj. kr. Af þessu láni fékk ræktunarsjóður Búnaðarbankans 20 millj., og tókst þar með að afstýra yfirvofandi vandræðum. Fiskveiðasjóður fékk 10 millj. til útlána. Til framkvæmda í rafmagnsmálum dreifbýlisins var varið 18 millj. og þannig komið í veg fyrir algera stöðvun þeirra framkvæmda. Sementsverksmiðjan fékk 7 millj.

Í þessu sambandi er rétt að skjóta hér inn í, við hvað er að stríða á ýmsum sviðum þjóðlífsins, þegar verðbólgan eykst svo hratt sem raun hefur á orðið á undanförnum árum. Í 10 ára áætluninni um rafvæðingu dreifbýlisins var gert ráð fyrir, að hún kostaði öll 370 millj. kr. Nú er þessi áætlun vegna vaxandi dýrtíðar orðin 450–500 millj. Kostnaður við framkvæmdir 1957 með því að draga saman allt, sem unnt er, er 110 millj. kr., eða um það bil 1/3 af 10 ára áætluninni, eins og hún var í upphafi, eða um 1/4 af henni, eins og hún er í dag. Það vantar 45 millj. kr. til þess að framkvæma áætlunina í ár, og þó hefur ríkisframlagið allt að tvöfaldazt frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Næsta stóra skrefið, sem stíga varð og ekki þoldi bið, var stækkun aflstöðvarinnar við Sogið. Eftir 2 ár verður rafmagnsskortur á hinu stóra veitusvæði. Áburðarverksmiðjan, sem sparar okkur árlega tugi millj. í erlendum gjaldeyri, hefði stöðvazt. Fyrrverandi ríkisstj. hafði leitað eftir láni í 2 ár án árangurs, eins og ég hef áður sagt. Ríkisstj. sneri sér þegar að því fyrir áramótin að leita eftir láni í Bandaríkjunum til þessara framkvæmda, og það hefur nú tekizt að tryggja þetta lán a.m.k. að verulegu leyti. En meðan á þessari lántöku stóð, sem m.a. er fyrir Reykjavíkurbæ, sem á helming Sogsstöðvarinnar á móti ríkinu, var staddur hér blaðamaður frá einu af aðalblöðum auðjöfranna í Bandaríkjunum, og skrifaði hann grein í blað sitt um það eftir viðtali við ýmsa háttsetta sjálfstæðismenn, að fráleitt og hættulegt væri að lána Íslendingum þessa peninga. En þessi rógsherferð mistókst einnig. Mun það verða nánar rakið hér af öðrum.

Eftir að ríkisstj. hafði bjargað þessum málum, sneri hún sér að því eftir áramótin að setja fjárlög, sem hafði orðið að fresta vegna annríkis við dýrtíðarráðstafanir fyrir áramótin, sem fyrr segir. Sjálfstæðismenn hafa mikið um það fjasað, hve fjárlögin séu há, og það er rétt: þau eru of há. En í fjvn. stóðu þeir með öllum till., sem hækkuðu útgjöld ríkisins, en auk þess fluttu þeir till. um útgjaldahækkanir, sem námu 15 millj. kr. Einstakir þm. báru fram hækkunartill. við fjárlagaafgreiðsluna, sem námu 10.3 millj. kr. Á yfirstandandi þingi hafa sjálfstæðismenn flutt till. ýmist um útgjaldahækkanir eða tekjulækkanir, sem nema 200–250 millj. kr. Þannig er samræmið milli orða og athafna í framkvæmd á öllum sviðum.

Eftir afgreiðslu fjárlaga hefst svo þriðji þáttur í verki þings og stjórnar, mjög margþætt og víðtækt löggjafarstarf. Löggjöf um eflingu fiskiflotans með sérstöku tilliti til jafnvægis í byggð landsins var sett fyrir áramót. Á síðari hluta þings hefur verið unnið að setningu nýrrar löggjafar um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, eflingu fiskveiðasjóðs, útflutningsverzlun, lán til íbúða í kaupstöðum og kauptúnum, stóreignaskatt, sem lagður verður í byggingarsjóð ríkisins og veðdeild Búnaðarbankans, lax- og silungsveiði, búfjárræktarlög. Löggjöf hefur verið sett um stofnun vísindasjóðs, eflingu menningarsjóðs, félagsheimilasjóðs og íþróttasjóðs auk margs annars, sem rakið hefur verið í fréttum. Loks má nefna breytingu á bankalöggjöf landsins. Er hér um að ræða mikilsverða löggjöf á ýmsum sviðum og verður rakið nánar síðar.

Það er vitanlega rétt, að þetta þing er orðið alilangt. En þegar þess er gætt, hvaða viðfangsefnum þing og stjórn hafa þurft að mæta, mun flestum skiljanlegt, að svo hlaut að verða. Í annan stað verður ekki hjá því komizt, fyrir því er reynsla, að þegar ný flokkasamsteypa tekur við völdum, verður þinghald að jafnaði lengra fyrsta þingið eftir slíka breytingu. Þannig var þetta 1946–47. Þá varð þinghald álíka langt og það reyndist nú. Þingi lauk þá 24. maí, en nú litlu síðar.

Það, sem mestu máli skiptir fyrir afkomu þjóðarinnar, er stöðugt verðlag. Þetta gerði ríkisstj. sér þegar ljóst s.l. haust. Það var stærsta atriðið. Þess vegna var sett verðlagseftirlit til þess að halda verði niðri, eftir því sem unnt væri. Þessu verðlagseftirliti hefur verið framfylgt þannig, að þeir, sem undir því búa, geta nú ekki lengur skammtað sér einir sinn hlut sjálfir. Og ég hygg, að naumast verði komizt lengra niður með verðlag en nú hefur verið gert, enda hefur öll álagning verið stórkostlega lækkuð frá því, sem áður var, til þess að draga úr álögunum. Jafnframt hefur ríkisstj. beitt sér fyrir lögum um stóreignaskatt, til þess að þeir, sem breiðust hafa bökin og grætt hafa óeðlilega á verðsveiflum undanfarinna ára, beri einnig sínar byrðar. Það, sem ríkisstj. hefur stefnt að með þessum og öðrum aðgerðum, er það, að skipting þjóðarteknanna geti orðið sem réttlátust. En það, sem mönnum gengur því miður ekki alltaf vei að skilja, er þau einföldu sannindi, að engin þjóð skiptir meiru en aflað er. Við erum vanir því á undanförnum árum að hafa mikið til að skipta, og við það höfum við vanizt án þess að gæta þess, að hundruð millj. hafa streymt hingað erlendis frá, sem við höfum ekki safnað sjálfir með framleiðslu, en fengið í styrkjum og gjöfum frá öðrum. Þegar þetta þraut, höfum við ekki öðru að skipta en því, sem við framleiðum í landinu og landið gefur af sér. Einkanlega verður þetta tilfinnanlegt fyrir þjóðina þegar stórfelldur aflabrestur verður á aðalvertíðinni, eins og á vertíðinni í vetur. Enginn heilskyggn maður getur látið sér til hugar koma, að það verði ekki tilfinnanlegt á mörgum sviðum. Þegar svona stendur á, er hætt við verðbólgu, því að mönnum vill verða það á, þegar að þrengir, að heimta, að meira sé skipt en aflað er.

Sjálfstfl. hefur samkvæmt eðli sínu verið andvígur öllum kauphækkunum og það þótt framleiðslan hafi skilað miklum gróða, en kjör verkalýðsins verið hin lélegustu. Um þetta vitnar saga flokksins, og mætti taka óteljandi dæmi. En Sjálfstfl. hefur einnig, þegar hann er í ríkisstj., bent á með sterkum orðum og réttilega eins og aðrir flokkar, að verkföll til þess að knýja fram kauphækkanir umfram það, sem atvinnuvegirnir og þjóðartekjurnar leyfa, geti aldrei leitt til kjarabóta, vegna þess — sem rétt er — að það leiði yfir þjóðina nýjar álögur og með þeim séu teknar aftur kjarabæturnar og oftast meira en það, vegna þess að atvinna verði oft óstöðug. Þetta eru auðvitað sannindi, sem hafa verið margsögð hér og annars staðar og verða ekki hrakin. Samkvæmt þessu eru verkföll til þess að knýja fram kjarabætur, sem þjóðfélagstekjurnar leyfa ekki, hliðstæð því, að skorið sé á slagæð atvinnulífsins og því látið blæða. Leiðréttingar á ósamræmi geta auðvitað verið eðlilegar. En þrátt fyrir þessi óvefengjanlegu sannindi og einmitt vegna þeirra hefur Sjálfstfl. nú gripið til nýrra ráða gegn ríkisstj. Sjálfstfl. hafði mistekizt að spilla áliti ríkisstj. með rógskeytum, a.m.k. að verulegu leyti. Stjórnin fékk bráðabirgðalán til að greiða mest aðkallandi vanskilaskuldirnar, Sogslánið einnig. Sjálfstfl. hafði og mistekizt að spilla samkomulagi um stöðvun s.l. haust og fyrir áramót, og verðlag var að verða stöðugt. Honum mistókst að spilla samkomulagi í öðrum málum.

Nú varð að grípa til nýrra skemmdar- og fólskuverka, gerast bandamaður aflabrestsins. Sú setning, sem lengi verður í minnum höfð í íslenzkri stjórnmálasögu og að endemum, er setning hv. 1. þm. Rang., Ingólfs Jónssonar, sem hann lét eitt sinn í vetur sér um munn fara í þingræðu, en hún er þannig orðrétt: „Það verður að finna önnur ráð til þess að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum en það eitt, að hún fái hvergi lán.“ Hér er flett ofan af áætlun, svo þokkaleg sem hún er. Það, sem bruggað var á klíkufundum í skúmaskotum og hvíslað um manna á meðal, er hér sagt af vangá opinberlega. Og nú er komið í ljós svo greinilega sem verða má, hver þau eru, þessi önnur ráð. Nú hefst verkalýðs- og verkfallsbarátta Sjálfstfl. fyrir alvöru. Nú er ekki lengur prédikað um lífsnauðsyn þess að halda kaupgjaldinu stöðugu, en algerlega snúið við blaðinu, eins og ég mun rekja.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands og efnahagsmálanefnd sambandsins kölluðu saman fund og létu hagfræðinga og fulltrúa sína rannsaka þróun verðlags- og kaupgjaldsmála jafnframt viðhorfi í atvinnumálum. Eftir að hafa framkvæmt þessa rannsókn komust þessir aðilar að þessari niðurstöðu, orðrétt:

„Af framansögðu er það álit miðstjórnar og efnahagsmálanefndarinnar, að ekki sé tímabært að leggja til almennar samningsuppsagnir að svo stöddu. Hins vegar vilja þessir aðilar undirstrika það meginsjónarmið, sem fram hefur komið í viðræðum þeirra við ríkisstj., að aðaláherzluna ber að leggja á að halda uppi fullri atvinnu í landinu, stemma stigu við verðbólgu og tryggja og auka kaupmátt launa.“

Sjálfstfl. hefur að vísu alltaf síðan s.l. haust haft sín „önnur ráð“ í huga og unnið að framkvæmd þeirra. En eftir að þessi álitsgerð birtist, voru góð ráð dýr. Nú áleit Sjálfstfl. voða fyrir dyrum, ef ekki væri hægt að koma í veg fyrir, að verðlag yrði stöðugt, og vinnufriður héldist í landinu. Fyrsta áhlaupið var gert í Iðju í Reykjavík. Iðnrekendur höfðu undanfarið borið fram sífelldar umkvartanir við verðlagseftirlitið út af því, að þeim væri ákveðin svo lítil álagning á iðnaðarvörur sínar, að þeir gætu undir engum kringumstæðum haldið starfseminni áfram. Þessir sömu menn buðu fram kauphækkanir til starfsfólks síns án uppsagnar, og síðan er þessi kauphækkun blásin út á forsíðu Morgunblaðsins, og það er auglýst rétt áður en Dagsbrúnarmenn ákváðu, hvort þeir skyldu segja upp samningum eða ekki, að nú séu verkamenn í Iðju með hærra kaup en verkamenn í Dagsbrún. Eftir þessa hækkun hjá Iðju senda sjálfstæðismenn fulltrúa í öll þau félög, þar sem þeir hafa mest ítök, og róa að uppsögnum og verkföllum.

Af mörgu er að taka, en hér skal aðeins rakið áhlaupið, sem sjálfstæðismenn gerðu í verkamannafélaginu Dagsbrún til þess að koma þar á uppsögnum og verkföllum. Heimildina ætti ekki að þurfa að vefengja, því að hún er Morgunblaðið sjálft. Fyrirsögnin á greininni um fundinn í Dagsbrún var þannig í Morgunblaðinu: „Kommúnistar hindra málefnalegar umræður um kjaramál verkamanna á Dagsbrúnarfundi. Beita flokksvaldi til þess að kæfa raddir verkamanna.“ Síðan skýrir Morgunblaðið ýtarlega frá ræðu fulltrúa síns á Dagsbrúnarfundinum. Hefur Morgunblaðið augsýnilega haft greiðan aðgang að ræðunni, enda talið, að aðalritstjóri blaðsins hafi skrifað hana og lagt fulltrúanum í hendur. Eftir að hafa rakið ræðuna, kemur svo næsta stórfyrirsögn: „Alþýðusamband Íslands notað sem vopn í hendi atvinnurekenda.“ Síðan er rakið, hvernig fulltrúi Sjálfstfl. vítti kommúnista fyrir slíkt athæfi. Þriðja fyrirsögn blaðsins: „Nauðsynlegt að segja upp samningum: Og síðan er reynt að færa rök að því. Fjórða fyrirsögn í sömu grein: „Önnur verkalýðsfélög fá kauphækkun.“ Er þar bent á fordæmi Iðju o.fl. Síðan er klykkt út með því að segja, að atkvæðagreiðslan í Dagsbrún hafi verið mjög ógreinileg, fundarstjóri kommúnista hafi lýst yfir, eins og þeir segja, að atkvæðin gegn uppsögninni hafi verið 24 — og svo orðrétt: „En ýmsir fundarmenn töldu, að þau hefðu verið miklu fleiri.“

Þessi frásögn í Morgunblaðinu af verkfallsbaráttu Sjálfstfl. er svo skýlaus, að um hana þarf ekki að ræða. Til þess að undirbúa þessa herferð eru iðnrekendur látnir veita starfsfólki sínu óumbeðna kauphækkun. Sjálfstæðismenn eru látnir fá skrifaðar áróðursræður til þess að lesa upp á fundum. Og þegar sóknin mistekst á Dagsbrúnarfundinum, er útdráttur úr þessum ræðum birtur í Morgunblaðinu með mörgum áberandi fyrirsögnum til þess að reyna að hafa áhrif í öðrum félögum, sem eru ístöðuminni en Dagsbrún, en um þetta leyti átti að taka ákvarðanir í mörgum félögum um það, hvort þau segðu upp eða ekki, en þar voru fulltrúar Sjálfstfl. látnir leika nákvæmlega sama leikinn.

Það er fullvíst, að sjálfstæðismenn hafa það ekki sér til málsbóta, að þeir viti ekki, að viðleitni þeirra er hrein fjörráð við framleiðsluna. Það er örstutt síðan orðið hefur að leggja nýjar álögur á þjóðina til þess að afstýra stöðvun útvegsins, og allir voru sammála um, að þeir styrkir væru ekki of miklir. Við fyrri erfiðleika hans hefur bætzt mikill aflabrestur. Iðnaðurinn stendur mjög höllum fæti og hefur enn krafizt að hækka verð framleiðslu sinnar. Það er öllum vitað mál, að undir slíkum kringumstæðum leiða kauphækkanir ekki til kjarabóta, heldur til stöðvunar, atvinnuleysis og nýrra álaga. Sjálfstæðismenn vita, að það eru ekki hagsmunir launþega, sem þeir eru að berjast fyrir. Það, sem verið er að vinna að,er að koma af stað nýrri verðbólguöldu, létta af sér stóreignaskattinum, torvelda störf ríkisstj., sem þeir óttast að skerði sína hagsmuni, og þá er ekki hikað við að grípa til fólskuverka, sem vel gætu riðið framleiðslu þjóðarinnar að fullu. Þegar sömu dagana og þessu Alþ. lýkur og hagsmunabaráttu Sjálfstfl. þar, er ætlazt til, að þau hefjist, hin viðtæku verkföll, sem þeir hafa reynt að stofna til. En það væri gott fyrir Sjálfstfl. að minnast þess, að það er hægt að stofna til fólskuverka, sem eru slíkrar tegundar, að hvort sem þau enda með ósigri þegar eða Pyrrhusarsigri í bráð, hljóta þau undir öllum kringumstæðum að enda með ósigri, þegar til lengdar lætur.

Í Morgunblaðinu 24. maí 1954 stóð þessi setning: „Það væri hörmulegt, ef nú kæmi til langrar vinnustöðvunar um hábjargræðistímann.“ Sjálfstfl. hefur nú ákveðið að stofna til styrjaldar í efnahagslífi landsins, að svo miklu leyti sem það er á hans færi. Það sýnir bezt eðli flokksins og eðli þessarar styrjaldar, að einu gildir, hvort hlutaðeigandi stéttir búa við miklu betri kjör en almennt gerist. Jafnframt er svo leynt og ljóst barizt fyrir hærri álagningu og hærra vöruverði. Nú er ekki hirt um „hábjargræðistíma“ þjóðarinnar. Verkföllin eiga nú að vera „hábjargræðistími Sjálfstfl.” til þess að koma á fullkominni ringulreið í fjármálakerfinu, koma fram hefndum og reyna að ná völdum til að skara eldi að sinni köku. En vill þjóðin borga herkostnað Sjálfstfl. með því að láta framleiðslu sinni blæða vegna verkfalla um hábjargræðistíma sinn til þess að gera hann að hábjargræðistíma verðbólgu- og valdabraskaranna í Sjálfstfl.? Ég hygg, að ýmsir þeir, sem áður hafa lagt Sjálfstfl. lið, muni nú hugsa sig um tvísvar, áður en þeir svara þessari spurningu játandi. — Góða nótt.