14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. skoraði hér beinlínis á menn að fella frv. Ég veit, að það er vissum mönnum hér í bænum og vissum félögum illa við þetta frv., m.a. vegna þess, að þessi hópur manna, sem ég skal ekkert tilnefna hér frekar, hefur byggt hús og þau kannske ekki svo fá, þannig, að þeir hafa fengið leyfi fyrir byggingunni sem íbúðarhúsi að nokkrum hluta, en þessir sömu aðilar hafa svo alls ekki notað þetta húsnæði til þeirra hluta, sem þeir voru búnir að tilkynna um í upphafi, heldur notað það allt til annarra þarfa, t.d. skrifstofuhúsnæðis. Mér kemur það því ekkert á óvart, þó að hv. 2. þm. Reykv. vilji beita sér á móti þessu frv. Ég vissi það fyrir fram. En það breytir sjálfsagt engu um það, að frv. fer í gegn þrátt fyrir þessa frómu ósk hv. 2. þm. Reykv. og flokksmanna hans. — Ég geri ráð fyrir, að þeir muni greiða þessu frv. mótatkvæði.

Hv. 1. þm. Reykv. tók undir þessi orð hv. 2. þm. Reykv. Hann talar um, að þetta væri knúið í gegn í nefndinni. Ja, af hverjum? Það er alveg rétt, að hæstv. forseti setti það hér einu sinni á dagskrá, án þess að við værum búnir endanlega að ganga frá okkar áliti. Nefndin er búin að ræða þetta á mörgum fundum, og mér var ekki kunnugt um neinn efnislegan ágreining á milli þriggja manna í nefndinni. Annar þeirra, sem hefur skrifað undir nál. frv. með fyrirvara, 5. landsk., hefur gert skýrt og skilmerkilega grein fyrir, af hverju hann skrifaði undir með fyrirvara. Og ég sé ekki, að það ætti að verða til þess að torvelda það, að frv. af þeim ástæðum nái fram að ganga.

Mér er kunnugt um það, að hv. Í. þm. Skagf. hefur líka skoðun á þessum málum og fram kom hjá hv. 5. landsk., þó að hann sé ekki mættur hér. Ég held það hafi verið afgreidd æði mörg mál hér í d., án þess að allir hafi verið mættir, og það jafnvel þó að þeir hafi verið undir nál., svo að það væri dálítið skrýtið, ef það út af fyrir sig væri einhver móðgun við viðkomandi mann, sem hefur skrifað undir eitt nál., jafnvel þó að viðkomandi hafi skrifað undir það með fyrirvara, að fresta málinu þess vegna, þar sem ekki liggur fyrir ósk frá hv. þm., sem sé 1. þm. Skagf., um það, að hann hafi óskað eftir því, að málinu væri frestað. Ef beiðni hans lægi fyrir, mundi ég vera því meðmæltur, að málinu væri frestað, að öðrum kosti ekki.

Ég skal ekki frekar ræða frv. sjálft. Eins og ég tók fram áðan, hefur málið verið rætt áður. Ég heyri það líka af þeim mönnum, sem hér hafa talað, að þeir hafa kynnt sér frv., þó að þær ályktanir, sem þeir hafa af því dregið, séu alrangar. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að ályktun hv. 1. þm. Reykv., að frv. sé svo gallað, að það sé ekki hægt að samþykkja það, sé alröng ályktun, sem hann hefur dregið, eða réttara sagt myndað sér við að lesa frv. Ég tel frv. yfirleitt hafa verið sjálfsagt, eins og málum er komið hér í Reykjavík. Það þarf að setja miklu strangari löggjöf en þá, sem þessi lög mæla á um, og viðkomandi húsnæði, og hv. þm. mega alveg vera vissir um, að slík löggjöf verður sett. Menn geta því beðið rólegir, þangað til slíkt frv. kemur fram, og tekið þá þessi mál til frekari umræðna og endurskoðunar.