14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. skaut því að mér, um leið og ég gekk fram hjá honum, að ég væri „ófeimnastur“. — Ég veit ekki, hvað hann átti við með því, eða hvort það átti að vera mér til háðungar eða lofs. Hæstv. ráðh. sagði, að „leikur hefði verið stöðvaður“ með þessu frv. Hann var ekkert myrkur í máli, hvað það var, sem hann átti við. Það leikur nú ekki lengur á tveim tungum, sem hefur verið haldið fram opinberlega, að þetta frv. er sett fram gegn einu fyrirtæki hér í bænum, Morgunblaðshúsinu. Það var Morgunblaðshúsið, sem hæstv. ráðh. vildi ná til með því að setja fram þessi lög. En ég vil nú spyrja: Er ekki hús eitt í Tjarnargötunni, sem upphaflega var byggt sem íbúðarhús og hefur til skamms tíma verið íbúðarhús, en er það nú ekki lengur? Mér er nær að halda, að þessi lög verði framkvæmd eftir því, hver í hlut á. Ég á enn eftir að sjá, að þeir, sem hafa nú aðsetur í þessu húsi í Tjarnargötu, verði reknir út úr því í krafti þessara laga. Ef til vill er ástæða til fyrir hæstv. ráðh., áður en hann gerist mjög kokhraustur í þessu máli, að athuga afstöðu sína með húsið í Tjarnargötunni.

Hv. 6. landsk., frsm. málsins, sagðist vel skilja, hvers vegna ég vildi láta fella frv., það væri ekki nema af einni ástæðu. Til væru menn, sem hefðu byggt hér hús í stórum stíl undir því yfirskini, að þau ættu að vera íbúðarhús, en svo ætti að breyta þeim síðar í skrifstofur. Mér skilst, að ég ætti fjölda af þessum húsum, sem hv. frsm. hafði augastað á. Ég verð því miður að hryggja hann með því, að ég á ekki eitt einasta hús í smiðum og hef ekki átt og hef ekki reynt þess vegna að fara á bak við lög í þessu efni. Hans skeyti í þessu máli geta því ekki beinzt að mér.

Það er öllum mönnum ljóst, að þetta frv. er stórgallað. Menn furðar þó varla á slíku, þegar það kemur frá hendi hæstv. félmrh. En hvers vegna skrifa fjórir af fimm nefndarmönnum með fyrirvara undir nál.? Vegna þess að þeir álíta það stórgallað. Og einn af þessum nm. hefur staðið hér upp og lýst yfir því, að hann muni því aðeins greiða atkv. með frv., að hann fengi loforð hjá hæstv. ráðh. um, að nýtt frv. um þessi mál sé lagt fyrir þingið og samþykkt, áður en þingi verður slitið. Bendir þetta til, að menn séu ánægðir með frv.? Bendir það til, að þeir líti á frv., sem algerlega ógallað, þegar þeir selja það skilyrði fyrir atkv. sínu, að nýtt frv., betra en þetta, verði lagt fyrir þingið, áður en því lýkur? Mér sýnist nú ekki, að ástæða sé fyrir hæstv. ráðh. til að vera mjög stoltur af fylginu, sem hann hefur með þessu frv., jafnvel í sínum eigin stuðningsflokkum. Þess vegna er það eðlileg krafa, sem hv. 1. þm. Reykv. bar fram, að frv. væri látið bíða, þangað til betra frv. væri lagt fyrir þingið. Hvað er unnið við að samþ. þetta, ef — eins og hæstv. ráðh. lýsti yfir í lok ræðu sinnar — lagt yrði fram annað betra frv. á þessu þingi? Hvers vegna eigum við þá að vera að samþ. þetta? Frv. þetta heldur sínu gildi þangað til. Hann getur byrjað að sekta menn, jafnvel um 1 millj. kr., ef bann langar til, þá, sem hafa brotið af sér. Ég vil að auki mjög eindregið taka undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. gat um í sinni ræðu, að alls ekki sé rétt, að hv. 1. þm. Skagf. fái ekki að láta álit sitt í ljós um þetta mál, sem hann skrifar undir með fyrirvara. Hann er þó fyrrv. félmrh. og sá maður í sínum flokki, sem mest hefur um þessi mál fjallað á undanförnum árum. Og úr því að hann skrifar undir nál. með fyrirvara, þá finnst mér mjög eðlileg krafa, að hann fái að skýra afstöðu sína, áður en frv. er afgr. út úr deildinni. Ef á að afgr. heildarlöggjöf um þessi mál á þessu þingi, eins og hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, þá er hvorki ástæða til að flýta þessu máli né samþykkja það.