14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. var með hnýfilyrði til mín um, að ég væri flúinn af fundi og þyrði ekki að taka þátt í þessum umr. Ég held, að efni til þeirra orða hafi verið það, að ég þurfti að skreppa hér fram á ganginn og biðja þingsvein um að skreppa með símskeyti fyrir mig. Að öðru leyti hef ég verið við þessar umr. og tel, að hæstv. félmrh. farist sízt að ásaka mig um það að hafa ekki sótt hér þingfundi. Ég hygg, að ég hafi verið hér á fundum í Nd. sennilega lengur einn en öll ríkisstj. í heild samanlagt, það sem af er þessu þingi, svo lítið sem við höfum fengið af henni að sjá og allra minnst, þegar hin merkustu mál hafa verið til umræðu.

Annars vil ég þakka hæstv. félmrh. fyrir það, að hann skyldi þó mæta á þessum fundi og taka þátt í umr., vegna þess að það er okkur stjórnarandstæðingum sérstakt gagn og mikil nytsemi, þegar þessi hæstv. ráðh. talar. Hann talar svo skelegglega á móti þeim málstað, sem hann ætlar að halda fram, að það jafnast á við margar ræður okkar andstæðinga hans. Ástæðan til þess, að ég stend hér upp nú, er eingöngu sú, að ég vonast til þess, að mín ræða gefi honum tilefni til nokkurra ræðna í viðbót, og þá verður víst ekki mikið eftir af hans málstað.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði gerzt talsmaður þess að verja ólöglega notkun húsnæðis eða taka íbúðarhúsnæði og breyta í verzlunar- og viðskiptahúsnæði. Ég ræddi alls ekki um þá efnishlið málsins. Ég ræddi eingöngu um nál. og þær ályktanir, sem yrði að draga af röksemdum og fyrirvörum einstakra nm., og sýndi fram á, að eina afleiðingin, sem hægt væri að taka af þeim rökstuðningi, væri sú að vísa málinu aftur til n. Ég takmarkaði minn málflutning eingöngu við þetta og benti á, að hæstv. félmrh. gæti mjög vel við unað þá afgreiðslu, vegna þess að brbl. héldu gildi sínu, meðan Alþingi stæði og frv. er ekki fellt. Þess vegna, ef hann hefur í undirbúningi annað viðtækara frv. um þetta efni, þá er málið fyllilega tryggt frá hans sjónarmiði, þangað til Alþingi fær að kveða á um þetta nýja frv. Svona liggur efni málsins fyrir, og ég sagði þetta gersamlega áreitnislaust í garð ráðh., og það var ástæðulaust fyrir hann að umvendast eða taka sínar venjulegu kollhúfur, sem hann gerir hér, af tilefni þeirrar meinlausu till. minnar. En ég verð að segja, að það er því frekar óviðeigandi að afgr. þetta mál nú, meðan hv. 1. þm. Skagf., hæstv. fyrrv. félmrh., Steingrímur Steinþórsson, er fjarverandi, þar sem hann hefur gert fyrirvara í málinu, og það verður að segjast eins og er, að með þessu frv. er ekki verið að gera neitt ólöglegt, að því er mér hefur skilizt, annað en það, sem ólöglegt var áður, — eða það er meginefni frv., — og það er þá eingöngu verið að herða á framkvæmd, vegna þess að fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi verið of lin í því að fylgja eftir gildandi lagaboðum. Um það skal ég ekki ræða. Það má vel vera, að þar hafi eitthvað á skort, og ekki skal ég af minni hálfu skorast þar undan ábyrgð, ef málið er skoðað og það kemur í ljós. En vitanlega var það fyrst og fremst hæstv. þáv. félmrh., 1. þm. Skagf., sem átti að annast um það, að ekki væri ólöglega skert húsnæði, þannig að íbúðarlausu fólki yrði til tjóns. Þess vegna tel ég það vera beina lítilsvirðingu og móðgun við hæstv. fyrrv. félmrh., núv. stjórnarstuðningsmann, Steingrím Steinþórsson, ef málið er afgreitt að honum fjarstöddum, eftir að hann hefur gert fyrirvara í þessu máli.

Mér stendur á sama, hvort hæstv. félmrh. trúir því eða ekki, — ég legg yfirleitt ákaflega lítið upp úr hans skoðunum, svo að ég segi eins og er, — en það er engu að síður svo, að ég hef verið því mjög mótsnúinn og lét það uppi í fyrrv. ríkisstj. og annars staðar, þar sem ég hef átt um það að fjalla, að þolað yrði, að farið yrði í kringum fjárfestingarleyfin á þann veg, sem gert hefur verið af sumum aðilum. Það er ekkert launungarmál, að ég tei, að það hafi verið mjög miður farið og sú misnotkun, sem í þessu hefur átt sér stað af hálfu einstakra aðila, sé ekki afsakanleg, og eðlilegt, að gegn því sé staðið, og stjórnarvöldin hefðu átt að gera þar rösklegri ráðstafanir en gerðar hafa verið og gerðar eru jafnvel eftir þessu frv., þar sem hæstv. félmrh. kemur og segir: Ja, menn geta keypt sig undan þessu. Bara ef menn hafa nógu mikla peninga, þá geta þeir keypt sig undan því. — Þetta þurftu menn að hlusta á. Svona er réttlætistilfinning mannsins, að ef menn hafa nógu mikla peninga til þess að losa sig undan lagaskyldunni og græða nógu mikið til þess, að þeir vilji fórna þessum miklu fjárhæðum, þá sá hæstv. félmrh. ekkert ráð til að koma í veg fyrir þetta, fyrr en hv. þm. Siglf. og ég skutum því fram, að það væri nú e.t.v. möguleiki að ráða við þetta með öðrum hætti. Og ég segi eins og er, að ég tel , að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi og það megi ásaka þá stjórn, sem ég sat í, og hæstv. núverandi stjórn fyrir að hafa ekki fylgt um þetta gildandi ákvæðum, en sá bægslagangur, sem er með þessu frv., og látalæti sé miklu frekar gerður í auglýsingaskyni heldur en af málefnalegri þörf. En ég segi hins vegar: Ég er fyllilega fús til að athuga og vera því meðmæltur, ef ég sannfærist um, að nauðsyn sé á herðingu lagaboða frá því, sem verið hefur. Einmitt þess vegna lagði ég til, að frv. fengi efnislega meðferð hjá n. En vitanlega sjá allir, að það er ekki efnisleg meðferð, heldur ósæmileg og nánast lítilsvirðing við þingdeild, þegar lagt er til, að frv. verði afgreitt með þeim hætti, sem hér er fram borið, að fjórir nm. af fimm skrifa undir nál. með fyrirvara. Hvenær muna menn eftir því í þingsögunni áður, að þannig hafi verið farið með mál, og hvenær hefur nokkur ráðh. sætt sig við, að mál yrði afgreitt af hans eigin stuðningsmönnum með slíkri fyrirvaragerð og með loforðum um það: Bara gerið nú fyrir mig, samþykkið þetta frv., ég skal bæta úr þessu öllu með nýju frv. síðar á þinginu? Langt getur metnaður ráðh. gengið um það að fá frv. sín samþykkt að nafninu til. En meira er þó um það vert, að málin séu efnislega athuguð og skynsamlega frá þeim gengið. Og segja verður alveg eins og er, og ég segi það sem eindregna skoðun mína, að það er ekki hægt að þola það, ef menn fá byggingarleyfi til þess að byggja íbúðarhús, að þá sé því tafarlaust breytt í skrifstofu- eða verzlunarhúsnæði. Ég tel, að það sé ekki hægt að þola það og horfa á það aðgerðalaust af hálfu stjórnarvaldanna.

Aftur á móti verður að játa hitt, að það er auðvitað alveg óframbærilegt og óframkvæmanlegt, að ekki megi undir neinum kringumstæðum breyta gömlu íbúðarhúsnæði í skrifstofu- eða verzlunar- eða athafnahúsnæði. Það er lífsins ómögulegt að framkvæma það. Það er hægt að setja eins mörg lagaboð um það og menn vilja. Fram hjá slíku lagaboði verður alltaf farið. Og því miður er það svo, að þannig var haldið á fjárfestingarleyfunum hér í Reykjavík undanfarið. Það er ein af afsökunum fyrir því, að ýmsir leiddust út á þá krókaleið, sem hér er verið að tala um, að það var allt of lítið leyft af byggingu atvinnuhúsnæðis, bæði skrifstofuhúsnæði, verzlunarhúsnæði, en ekki sízt vinnu og iðnaðarhúsnæði. Þetta er staðreynd, sem er óhagganleg, að miðað við fólksfjölgun í bænum og miðað við rétt hlutfall á milli íbúðarhúsnæðis og athafnahúsnæðis var þarna rangt að farið. Og þetta brýzt svo fram í því, að atvinnurekendur verða að útvega sér pláss með einhverju móti, og þá er ekki annað að gera en að taka það húsnæði, sem hægt er að fá á helztu athafnaslóðunum hér í miðbænum og annars staðar í ýmsum hverfum, sem af öðrum ástæðum þykja ekki heppileg til íbúðarhúsnæðis. Þetta er lífsins gangur, og fram hjá þessu verður því miður ekki komizt. Ráðið til þess að bæta hér úr sem annars staðar er ekki lagaþvinganir. Kúgunarráðstafanir, sem að engu gagni koma, geta orðið nytsamlegar í pólitísku ofsóknarskyni, í þeim tilgangi að gera einstaka menn tortryggilega og annað slíkt, en leysa ekki úr þörfinni. Það, sem hér þarf, er, að þess verði gætt betur en áður hefur verið, að hæfilegt hlutfall verði í stækkun bæjarins í því, sem leyft er af íbúðarhúsnæði og svo aftur til atvinnuhúsnæðis.

Ég játa, að hér er ég í raun og veru að skamma sjálfan mig, og ég skammast mín ekkert fyrir það að sjá, í hverju okkur yfirsést. Um sumt segi ég, að í þessu yfirsást mér ekki, vegna þess að ég hvað eftir annað benti á og krafðist þess, að úr þessu yrði bætt, þó að mínar skoðanir um það næðu ekki fram að ganga. En aðalatriðið er, að þannig má ekki áfram til ganga. Löggjöf hjálpar hér ekki. Það eru aðeins framkvæmdir, sem hér verða að gagni, og það, að fólkið, sem kemur til bæjarins, fái einhverja staði til þess að vinna í að þeim störfum, sem það á að lifa við. Það er sannast sagt ekki síður nauðsynlegt en að það fái íbúðarhúsnæðið, þó að ég sízt af öllu geri lítið úr því.

Hitt að vera að tala um, eins og hæstv. félmrh. lét sér sæma, að við værum hér að verja sérstaka hagsmuni Sjálfstfl., þá er sannast bezt að segja, að hér eiga allir pólitískir flokkar hlut að, þannig að ég held, að það taki því ekki fyrir okkur að vera að brigzla hver öðrum um annarra syndir. Það er rétt, að fyrirtæki það, sem ég starfa nú við, Morgunblaðið, á hús, sem mjög hefur verið um rætt í þessu sambandi. Ég er ekki að hafa neina sök af Morgunblaðinu í þessu sambandi. En það einkennilega er, að þessi löggjöf bitnar alls ekki á Morgunblaðinu sjálfu, heldur öðrum eigendum þessa húss. Ef ætlunin hefur verið sú að gera Morgunblaðinu bölvun, þá fyrirhittir það aðra. Það er jafngott, að menn viti það. Með því er ég sem sagt ekki að hafa neina sök af Morgunblaðinu, hafi það af sér brotið. Hitt vitum við, að sá flokkur, sem hæstv. félmrh. þessa dagana enn telst til, hefur ekki síður en aðrir gerzt sekur í þessum efnum. Það má minna á Skólavörðustíg 19 á sínum tíma, sem Alþfl. a.m.k. hélt fram og Alþýðublaðið um margra ára bil hélt fram að hefði verið breytt með ólöglegu móti og tekinn undir starfsemi Sósfl. og Þjóðviljans með mjög hæpnu eða algerlega ólöglegu móti. Það má minna á Tjarnargötu-breytinguna hér nú fyrir skemmstu. Það má minna á gamla Geirs Thorsteinssonar-húsið efst á Skólavörðustíg, sem annaðhvort beint eða óbeint er komið undir starfsemi, sem er mjög nátengd kommúnistaflokknum, bæði hér innanlands og utan. Það má minna á húsnæði, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú í haust átt mjög ríkan þátt í að breytt væri úr íbúðarhúsnæði í annaðhvort skrifstofur eða starfshýsi fyrir einhverja þjónustu ríkisins. Og við bætum málið ekkert með því að vera að reyna að kenna hver öðrum um sakir, sem að svo miklu leyti sem um sakir er að ræða lenda á öllum, vegna þess að löggjöfin, eins og hún hefur verið, hefur verið of þröng. Það er alger misskilningur hjá hæstv. félmrh., að það sé framkvæmanlegt að ætla að standa á því, að ekki undir neinum kringumstæðum megi breyta íbúðarhúsnæði í starfshúsnæði. Það er ekki mögulegt, og ef slíkt á að gera með löggjöf, þá er verið að gera leik að því, að löggjöfin verði brotin og virðingin fyrir ríkisvaldinn og þess heiðarleika verði niður brotin, og trúi ég raunar hæstv. félmrh. mjög vel til þess að vinna að því, ekki af illvilja, heldur af skammsýni.