14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Út af seinustu orðum hv. 1. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég gæti hins vegar trúað honum til þess að snúast á móti góðum málum af illvilja fremur en af skammsýni.

Hv. 2. þm. Reykv. reið hér á vaðið áðan með aðra ræðu til þess að lýsa andstöðu sinni við þetta frv., og þá var honum það helzt í hug að skýra þingheimi frá því, að þessi löggjöf væri til þess sett að koma höggi á Morgunblaðshúsið. Það er upplýsing út af fyrir sig hjá hv. þm. En ég get fullyrt það, að ef þessi löggjöf hefur að einhverju leyti komið við Morgunblaðshúsið, þá er það vist, að henni var ætlað að hitta hvern þann aðila, sem gerðist sekur um að breyta íbúðarhúsnæði, sem hefði verið teiknað sem íbúðarhúsnæði, í verzlunarhús eða skrifstofuhús eða til annarra nota. Og það er alveg áreiðanlegt, að þessi löggjöf hefur verið látin koma fram alveg án nokkurra undantekninga gagnvart öllum aðilum, sem á þessari braut voru, hvort sem þeir voru Morgunblaðsmenn eða ekki. Það hefur engin undanþága verið frá þeim veitt. Og hitt skal ég upplýsa, þó að það sé nú játað, að Morgunblaðshúsið hafi orðið fyrir barðinu á þessum lögum, að þá eru það margir fleiri aðilar, sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim, sem voru einmitt á þessari braut. Og það sannar, að það var full þörf á að setja þessa löggjöf. Það var mjög mannmargt í félmrn. dagana eftir að þessi lög voru sett, — menn, sem voru að kveina og kvarta undan því, að nú kæmi þessi löggjöf illa við sig, þeir væru með þetta og þetta hús í breytingu eða byggingu og það kæmi mjög við hagsmuni þeirra, ef þeir fengju ekki að halda áfram með það, það hefur engin undanþága verið veitt, hvorki einum né neinum.

Auk þessarar uppljóstrunar um Morgunblaðshúsið gat hv. 2. þm. Reykv. þess, að hann væri á móti þessu frv. af því, að það væri gallað, stórgallað, en þó hefur hann enga brtt. flutt við það. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa brotið þessi lög, bara af því að hann hefði ekki breytt neinu slíku húsi, hann hefði ekki átt neitt slíkt hús til að breyta. Eftir þessu virðist ekki hafa staðið á viljanum, og a.m.k. var það, að hann vildi gera málstað þeirra manna, sem þessi löggjöf kemur illa við, að sínum málstað.

Ég skil ekki, hver er tilgangurinn með því hjá hv. 1. þm. Reykv. og öðrum samherjum hans i þessu máli að álasa mér fyrir það, að ég hafi ekki komið í veg fyrir, að húsum væri breytt hér áður fyrr í stjórnartíð hv. 1. þm. Reykv., eins og Tjarnargötu 20 og Skólavörðustíg 19 o.s.frv. Það var í hans stjórnartíð. Ég þarf ekkert annað en að ganga meðfram Laugaveginum. Ég hef séð hús breytast úr íbúðarhúsnæði í verzlunarhúsnæði frá ári til árs. Hv. 1. þm. Reykv. hefur horft upp á þetta og hans stjórn. Og honum duga ekki fingurnir á báðum höndum til þess að telja upp þá brotlegu eða þá, sem hafa framkvæmt þetta og voru að því á s.l. sumri. Þeir skipta mörgum tugum. Hér er um að ræða sennilega hundruð íbúða, mörg hundruð íbúða. Og það að koma í veg fyrir, að þeim sé breytt á þennan hátt, jafngildir því, að það séu byggð jafnmörg hundruð íbúða.

Það fór líka svo, að hv. 1. þm. Reykv. fann það, þegar hann hafði talað hér um stund. Þá varð hann að játa, að hann væri í raun og veru mest að skamma sjálfan sig. Og það er ákaflega nýstárleg iðja hjá þingmönnum að fara hér upp í ræðustólinn til að skamma sjálfa sig. Venjulega skammast menn hér við aðra. Nei, hann varð núna að skamma sjálfan sig og játaði, að hann væri að gera það. Og svo sagði hann viðvíkjandi þessu frv., sem hefur eitt megininntak, sem er það að leggja bann við, að íbúðarhúsnæði, sem ætlað er til íbúðar samkv. teikningu hlutaðeigandi húss, sé tekið til annarra nota: Þetta er þess eðlis, að upp á þetta geta stjórnarvöldin ekki horft án aðgerða, að íbúðarhúsnæði sé tekið til annarra nota. — Það var einmitt þetta, sem ég gerði. Ég gat ekki upp á þetta horft í þessum bæ húsnæðisleysisins og setti lög, sem bönnuðu það. Allt og sumt. Þetta er nákvæmlega það, sem hv. 1. þm. Reykv. segir að stjórnarvöld geti ekki upp á horft. Hann horfði upp á það aðgerðalaus. Ég gerði það ekki. En svo ætlar hann að snúast á móti þeirri löggjöf, sem er einmitt túlkun þess, að nú vilja stjórnarvöldin ekki lengur upp á þetta horfa. Þar hljóta einhver annarleg sjónarmið að vera að verki, það verð ég að segja.

Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki hafa rætt um efnishlið málsins, hann hefði bara rætt um meðferð n. á málinu. Það má furðulegt vera, ef þessi andstaða, sem hér hefur komið fram við frv., er ekki efnisleg. Mér virðist hún fyllilega vera það, þó að hún stangist hins vegar alveg við þessar yfirlýsingar hv. 1. þm. Reykv. í öðru orðinu um, að það sé ekki hægt að horfa upp á þessa þróun, sem hér hefur átt sér stað.

Eftir að hv. 1. þm. Reykv. hefur lýst viðhorfi sínu til efnis frv. á þennan hátt, sem hann hefur gert, að aðgerðaleysi undanfarinna ára sé skammir um hann og hann hafi sjálfur tekið þátt í að skamma sig hér, af því að þetta var látið viðgangast, og svo liggur fyrir frv., sem á að banna það, að íbúðarhúsnæði sé tekið til annarra nota, og þá segir hann, að það sé einmitt það, sem stjórnarvöldin hafi ekki getað horft upp á og megi ekki horfa upp á, að sé ekki bannað, en samt snýst hann á móti málinu. Ég finn enga heila brú í þessu. Og ég hygg, að þannig sé um fleiri.

Ég býst við, að hv. þm. efist ekki um, að hann hafi hér meiri hluta í d. til þess að fella þetta mál, þegar hann hefur notið mín við hér tvisvar til þess að mæla með frv., því að það segir hann að verki bezt til þess að snúa mönnum á móti máli. Ég er alveg viss um það, að hafi hann rétt fyrir sér um það, þá bregzt mér ekki fylgisauki hins vegar við málið, vegna þess að þegar hv. 1. þm. Reykv. fer að bolast hér á móti máli, þá snýr það mönnum auðvitað unnvörpum til fylgis við málið. Síðan hann kom í stjórnarandstöðu, hefur hann bolazt svo myndarlega á móti flestum góðum málum, að það hefur auðvitað þjappað fólki saman um hin góðu málin og mun gera það alltaf. Ég get því verið honum ákaflega þakklátur fyrir það, að hann skyldi einmitt gerast „general“ fyrir því liði, sem bolast á móti þessu máli.