14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. talaði um það áðan í sinni ræðu, að ég hefði verið að kvarta undan hinum háu sektum, sem frv. þetta ákvæði. Hér er um að ræða algeran misskilning á því, sem ég sagði, eða útúrsnúning, ég veit ekki hvort heldur og skiptir e.t.v. ekki máli. En það, sem ég sagði, var þetta, að ef leggja ætti svo háar sektir við því framferði, sem hér er um að ræða, þá þyrfti að gera sér einhverja grein fyrir því, hvaða eftirlit væri hægt að hafa með því, að slíkum lögum væri framfylgt. En einmitt hvað þetta atriði snertir álít ég, að grg. hæstv. félmrh. hafi verið algerlega ófullnægjandi og bezta sönnun þess, að þær athugasemdir, sem ég hreyfði í minni fyrri ræðu, hafi verið réttmætar, því að hann talaði um það, að framkvæmd þessa máls væri í höndum húsnæðismálastjórnar, og hún hefði, að mér skildist, sent mann um bæinn, sem hefði gert samanburð á teikningum fyrir húsnæði og hvernig það væri notað.

Það, sem er aðalatriði í þessu sambandi, er það, að nú er það þannig með margt húsnæði, að það er notað bæði til íbúðar og einnig til annars, og má einmitt gera ráð fyrir því, að þessi löggjöf og önnur, sem í gildi hefur verið undanfarið og bannað hefur breytingu íbúðarhúsnæðis í atvinnuhúsnæði, ýti undir það, að farið verði í kringum löggjöfina með því að nota húsnæðið bæði til íbúða og einnig til skrifstofu eða atvinnuhúsnæðis eða á annan hátt. Það er í þessu, sem vandinn liggur við það að hafa fullnægjandi eftirlit með framkvæmd þessara laga, og get ég þá einmitt vikið að sams konar dæmi og ég tók áðan, að kaupmaður eða iðnrekandi eða handiðnarmaður, er vantar húsnæði fyrir sína atvinnustarfsemi, lætur teikna húsnæði, sem hann ætlar að byggja sem íbúðarhúsnæði, og kemur því upp, en til þess að það sé að einhverju leyti notað sem íbúðarhúsnæði, þá annaðhvort sefur hann þarna sjálfur eða lætur einhvern starfsmann sinn, sem er í húsnæðisvandræðum, sofa þarna eða einhver fjölskyldumeðlim sinn. Það er með þessu móti, sem hægt er að fara í kringum ákvæðin, og þá kemur spurningin um þetta: Hvað lengi og hvað mikið á húsnæðið að hafa verið notað á þennan hátt, til þess að hægt sé að tala um það að fara í kringum lögin? Það er einmitt þetta atriði, hvort lögin séu framkvæmanleg, sem ég álít að hefði í fyrsta lagi þurft að athuga nánar af félmrn. á sínum tíma, þegar brbl. voru sett, og þurfi nánari athugun af þeirri hv. þingnefnd, sem með málið fer, áður en það verður afgr. héðan úr deildinni.