14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði, að það, sem einu sinni er ákveðið að byggja sem íbúð, ætti að vera íbúð áfram um aldur og ævi. Þetta er vitanlega fásinna, sem er í ætt við það, að af því að einu sinni voru fiskreitir við miðbæinn, þá mætti aldrei framar taka lóðirnar til neins annars, hvernig sem aðstæður breytast. Hæstv. ráðh. þótti orðalag brtt. okkar of rúmt orðað. Við því vil ég segja það, að við gáfum meðnm. okkar kost á því að athuga hana og koma með till. um orðalag, er tryggði, eins og auðið væri, gegn misnotkun.

Hæstv. ráðh. sagði, að engar undanþágur hefðu verið veittar. Hv. 6. landsk. þm. sagði okkur þó í n., að Siglufjarðarkaupstaður mundi sækja um að vera algerlega undanþeginn lögunum. Ég veit þó ekki, hvort það er ástæðan fyrir því, að hann einn af nm. leggur til, að lögin séu samþ. óbreytt.

Dæmið, sem ég tók í fyrri ræðu minni um lækninn, sem tæki á leigu íbúð í kaupstað úti á landi, því að frv. gildir ekki bara í Rvík, a.m.k. ekki enn þá, og í því tilfelli, sem ég talaði um, minnkar oft ekki íbúðarhúsnæði, því að oft er því þannig varið, að sá læknir, er áður var í kaupstaðnum og notaði hluta af sinni íbúð til lækningastarfsemi sinnar, hefur annaðhvort selt eða leigt öðrum húsnæðið, þegar hann fluttist í burtu, sem þá tekur aftur þann hluta húsnæðisins, sem notað var til atvinnu, til íbúðar. Það er því aðeins eðlileg og sjálfsögð tilfærsla, sem ég vildi gera mögulega. Viðvíkjandi till. hv. 1. þm. Reykv. get ég upplýst það, að hv. 1. þm. Skagf. lét þau orð falla i n., þegar við afgr. þetta mál á þennan sögulega hátt, að sennilega yrði þessu máli, brbl. og brtt. okkar hv. 8. þm. Reykv., vísað aftur til n., ekki sízt ef fram kæmi yfirlýsing hæstv. félmrh. um það, að von væri á því, að nýtt frv. um þetta mál yrði lagt fyrir þingið. Það er því enn ein ástæða til þess að verða við till. hv. 1. þm. Reykv. um að vísa þessu máli aftur til n., af því að svo stendur á, að hv. 1. þm. Skagf. er fjarstaddur þennan fund.