14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég minnist ekki slíks skörungsskapar í forsetastól og umhyggju um afgreiðslu þingmála hjá neinum forseta nema mínum ágæta flokksbróður, Gísla Jónssyni. Ég get helzt líkt þessum forseta varðandi umhyggju og skörungsskap við þann ágæta mann, og segi ég það honum til verðugs lofs.

Ég vil sem sagt, vegna þess að hæstv. forseti var að svara ádeilu frá mér, ef svo mætti segja. a.m.k. orðum, hvort sem þau voru ádeila eða ekki, þá vil ég segja, að út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, ef hér er um almenna reglu að ræða, sem forseti ætlar sér að fylgja, þannig að hann fylgist þá með því, hversu lengi mál hafa verið í nefndum, og láti eitt yfir alla ganga. En hinu verður mjög að finna að, ef hann ætlar að taka þau mál sérstaklega, sem honum er umhugað, og knýja þau á dagskrá, en láta formönnum nefnda líðast hitt, sem of mjög hefur borið á á þessu þingi, að þeir legðust á þau mál, sem þeim er lítið um gefið, í stað þess, og það er rétt, sem hæstv. forseti sagði, — að Alþingi á auðvitað rétt á að skera úr um málin, en nefndir ekki að svæfa þau. En ég vil treysta hæstv. forseta til þess, að hann láti eitt yfir alla ganga um þá reglu, sem hann nú hefur tekið upp, og ef hann gerir það, þá skal ég ekki vita hann fyrir það, en að öðru. leyti áskil ég mér rétt til allrar gagnrýni.