01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Stjórnarfrv. þetta á þskj. 2, um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum, hefur verið svo umtalað, síðan sett voru brbl., sem það er lagt fram til staðfestingar, að ég tel enga ástæðu til að hafa um það langa framsögu hér við þessa umr. Heilbr.- og félmn. klofnaði, eins og hæstv. forseti gat um áðan, og eðlilega klofnaði hún um þá línu, sem n. eru kleyfastar í á þessu þingi. Við, sem meiri hlutann skipum, teljum rétt að samþykkja frv. og staðfesta með því brbl. og leggjum því til, að það verði gert.

Aðalefni laganna og eiginlega eina efni þeirra, hið stranga bann við, að hús, sem notuð hafa verið til íbúðar eða ætluð eru til íbúðar við byggingarframkvæmdir, séu tekin til annarra afnota, var ekki aðeins réttmætt, heldur nauðsynlegt fyrst og fremst hér í Reykjavík og sums staðar annars staðar. Svo mikil eru vandræði fólks með hús yfir höfuðið, en hins vegar sterk viðleitni ýmissa til að sniðganga þá brýnu þörf og taka húsnæði í þjónustu ýmiss konar starfsemi, er ekki má sitja fyrir, þegar um fjárfestingar þjóðfélagsins er að ræða.

Minni hluti heilbr.- og félmn. vill breyta frv. og flytur brtt. á þskj. 212. Vel hefðu breytingar vitanlega komið til mála og ekki sízt viðaukar til útfærslu löggjafarinnar, ef ekki hefði svo á staðið, að lagt verður fyrir þetta þing bráðlega frv. til heildarlöggjafar um húsnæðismálin. Þessu hefur verið yfirlýst hvað eftir annað í þinginu og m.a. hér í þessari hv. d. af hæstv. félmrh. í gær. Og ætlast er til, að það frv. til heildarlöggjafar verði afgreitt, áður en þessu þingi lýkur. Það frv. eiga þm. að laga, ef með þarf, svo að löggjöfin verði sem fullkomnust. En þetta litla stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir, er ástæðulaust að eyða tíma í að umskapa. Það á ekki fyrir sér að gilda sem lög nema stutta stund. Ef þessi hv. d. gerði á því breytingar, leiddi það til þess, að það þyrfti aftur til hv. Nd., sem búin er fyrir sitt leyti að staðfesta það óbreytt.

Þingið hefur annað þarfara að gera nú en að velta á milli deilda stjórnarfrv., sem er staðfesting á brbl., er víkja eiga fyrir heildarlöggjöf um sama efni svo að segja næstu daga. Með tilliti til þessa er það, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt.