01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. (KK) virtist ekki hafa mikið á móti því, að brtt. minni hl. væri samþykkt, ef það yrði ekki til þess að tefja málið, og þá mundu þessi lög verða svo stuttan tíma í gildi, að það tæki því ekki að vera að breyta þeim neitt. Við í minni hl. erum ekki á sama máli og hv. frsm. meiri hl. um þetta.

Ég álít rétt að fara nokkrum orðum um þetta í heild. Þó að þetta frv. eigi að gilda í mjög stuttan tíma, eftir því sem hv. frsm. sagði, eru þetta þó brbl., sem sett voru nokkrum dögum áður en þing átti að koma saman, og það er ekki hægt að draga aðra ályktun af því en að það hafi verið mjög áríðandi að koma lögunum á. Annars hefði verið mögulegt og ekki óeðlilegt, að þessi brbl. hefðu beðið eftir hinum boðuðu lögum um húsnæðismál, sem von er á bráðlega, eftir því sem búið er margsinnis að skýra frá.

Frv. það, sem hér er til umr, er flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru að tilhlutun hæstv. félmrh. 21. ágúst 1956 um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum. Í aths., sem fylgja frv., segir, „að það sé nú alltítt í sumum kaupstöðum landsins, að íbúðarhúsnæði sé notað til annarra þarfa en íbúðar, þótt þar sé enn ekki mikill skortur íbúðarhúsnæðis, svo að brýna nauðsyn beri til þess að setja nú þegar brbl. um afnot íbúðarhúsa, sem leggi bann við því, að íbúðarhúsnæði sé tekið til annarra afnota en íbúðar.“ Á þessum grundvelli eru brbl. sett.

Eins og nál. okkar á þskj. 211 ber með sér, var heilbr.- og félmn. ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. vill samþ. það óbreytt, en við, sem erum í minni hl., getum ekki fallizt á það og flytjum brtt. við frv.

Í 1. gr. frv. er skýrgreint, hvað skuli teljast íbúðarhúsnæði, og um það segir svo: „Íbúðarhúsnæði telst samkvæmt lögum þessum húsnæði, sem við gildistöku laganna er notað til íbúðar og er íbúðarhæft án verulegra endurbóta samkvæmt vottorði heilbrigðisnefndar, og enn fremur húsnæði, sem ætlað er til íbúðar samkvæmt teikningu hlutaðeigandi húss, staðfestri af byggingaryfirvöldum, og hefur við gildistöku laga þessara ekki verið tekið til annarra afnota.“

Ákvæði 1. gr. frv. eru tvíþætt. Í fyrsta lagi fjalla þau um íbúðarhúsnæði, sem er í notkun, og í öðru lagi um hús í smíðum, sem teiknuð eru sem íbúðarhús.

Í 2. gr. frv. segir:

„Íbúðarhúsnæði, sbr. 1. gr., má aðeins nota til íbúðar. Önnur afnot slíks húsnæðis varða húseiganda sektum samkvæmt 4. gr. laga þessara. Sömu viðurlögum varðar einnig að halda ónotuðu íbúðarhúsnæði, sem kostur er á að leigja.“

Þetta er aðalefni frv., sem felst í 1. og 2. gr. Undanfarin ár hefur ríkt nokkurt frelsi um byggingar íbúðarhúsa af vissri stærð. Hefur ekki þurft fjárfestingarleyfi til bygginganna, ef stærð húsanna, miðað við íbúð, hefur ekki farið fram úr 520 m3. Það hefur verið mikið byggt af íbúðarhúsnæði á vegum einstaklinga, bæjarfélaga og byggingarfélaga undanfarin ár, þótt ekki hafi tekizt enn að fullnægja þörfinni á þessu sviði.

En á sama tíma sem þetta frelsi hefur ríkt um íbúðarhúsabyggingar, hefur verið mjög erfitt, ef ekki ómögulegt að fá fjárfestingarleyfi fyrir skrifstofu- eða iðnaðarbyggingum. Við þetta hefur skapazt misræmi, sem leitt hefur til þess, að íbúðarhúsnæði hefur í nokkrum tilfellum verið tekið til annarra nota en íbúðar. Hefur slíkt helzt átt sér stað, þar sem um eldri hús er að ræða, sem að sumu leyti eru óhentug til íbúðar hvað gerð og staðsetningu snertir. Sjá má þess mörg dæmi við hinar eldri fjölförnu götur hér í borg, þar sem verzlun, skrifstofur og iðnaður er í hverju húsi, þar sem íbúðir voru áður. Þetta er ekki óeðlileg og ekki óæskileg þróun, að verzlanir, skrifstofur ýmsar og smærri iðnaður séu við aðalgötur, þar sem umferð er mest, en íbúðarhúsnæði flutt lengra frá, þar sem umferð og hávaði, sem henni fylgir, er ekki eins mikill. Það er því í alla staði óeðlilegt og getur í mörgum tilfellum verið skaðlegt að lögbinda það, að hús, sem að einhverju leyti eru mjög óhentug til íbúðar, t.d. af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt, eða einhverjum öðrum, skuli, séu þau notuð til íbúðar nú, aldrei verða tekin til annarra nota, hvernig sem á stendur, jafnvel þótt engin vöntun sé á húsnæði á viðkomandi stað, því að svo er frv. undantekningarlaust um nokkur frávik frá ákvæðum sínum.

Öðru máli gegnir um húsnæði, sem ætlað er til íbúðar samkvæmt teikningu hlutaðeigandi húss, eins og segir í 1. gr. frv. Þar er átt við hús í byggingu, teiknuð sem íbúðarhús og byggð sem slík, en tekin til annarra afnota að byggingu lokinni. Það er ekki óeðlilegt, þótt hamlað sé upp á móti þessari þróun og þá með lagasetningu. En að þetta á sér stað, stafar, eins og ég áður drap á, vafalaust af því ástandi, sem skapazt hefur við það, að bann hefur verið á skrifstofu- og iðnaðarbyggingum að miklu leyti undanfarin ár. Og það er víst, að þetta ástand læknast ekki með þeirri lagasetningu, sem hér er á ferð. Það verður að leyfa þessar byggingar jöfnum höndum og samhliða íbúðabyggingum og fólksfjölgun á hverjum stað.

Eins og ég hef bent á, leggur frv. algert bann við því, að íbúðarhúsnæði, sem er í notkun, verði tekið til annarra nota, og sé brotið á móti þessu ákvæði, varðar það viðurlögum samkvæmt 4. gr.

Og hver eru nú þessi viðurlög 4. gr.? Jú, 10 þús. kr. minnst og getur farið upp í milljón krónur mest. Ég hygg, að þetta séu hæstu viðurlög, sem um getur í íslenzkum lögum.

Til þess að geta áttað sig á, hvernig lög þessi verða í framkvæmd, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir framkvæmd þeirra í einstökum atriðum. Ég vil leyfa mér þessu til skýringar að setja upp eitt dæmi um það, ef húsnæði, sem notað er til íbúðar, er tekið til annarra nota.

Við skulum segja, að húseigandi býr í eigin íbúð, sem er 3 herbergi og eldhús á hæð, í kjallara er miðstöðvar- og geymsluherbergi og eitt herbergi, sem leigt er til íbúðar. Það er leigt einhleypum manni, enda gott og bjart herbergi og ágætlega íbúðarhæft, enda í nýlegu húsi. Nú verður herbergi þetta laust, sá, sem í því bjó, flyzt á brott. Við skulum halda áfram og segja, að umræddur húseigandi sé iðnaðarmaður, t.d. bókbindari, svo að maður segi eitthvað, og nú vilji hann stunda iðn sína heima í húsi sínu. Hann flytur því áhöld sín í áðurgreint kjallaraherbergi, tekur það m.ö.o. til annarra nota en íbúðar og hefur þar með gerzt brotlegur við lögin. Ég vil minna á ákvæði 2. gr.: „íbúðarhúsnæði, sbr. 1. gr., má aðeins nota til íbúðar. Önnur afnot slíks húsnæðis varða húseiganda sektum samkvæmt 4. gr. laga þessara.“ Ég hef áður bent á, hver viðurlögin eru. Það eru minnst 10 þús. kr. og getur farið upp í milljón krónur. Svo að maður haldi þessu dæmi áfram, þá verður það næsta, sem gert verður í þessu máli, að húsnæðismálastjórn heimsækir þennan húseiganda, tilkynnir honum, að hann hafi gerzt brotlegur við þessi lög, lögin um notkun íbúðarhúsa, og viðurlög fyrir minnsta brot séu 10 þús. kr.

Ég vil taka annað dæmi um það ákvæði frv., að það skuli sæta viðurlögum að halda ónotuðu íbúðarhúsnæði, sem kostur er að leigja. Í sumum tilfellum getur þetta verið nauðsynlegt ákvæði, en í sumum tilfellum getur þetta komið afskaplega einkennilega út og harkalega.

Við skulum segja t.d., að maður á íbúð, sem hann býr í, og skiptir ekki máli, hversu stór sú íbúð er, en hann er ásamt fjölskyldu sinni vegna atvinnu sinnar eða einhverra annarra orsaka fjarverandi frá heimili sínu í 5 mánuði af árinu. Hann vill ekki leigja íbúð sína þennan tíma, og hún stendur því auð. Möguleikar eru á því að leigja þessa auðu íbúð, ekki er nokkur vafi á því, en maðurinn, sem á hana og ætlar að koma í hana aftur eftir 5 mánuði, veigrar sér við að leigja hana. .

Ég vil minna á ákvæði laganna, sem við þetta atriði eiga. Þar segir svo: „Sömu viðurlögum varðar einnig að halda ónotuðu íbúðarhúsnæði, sem kostur er að leigja.“ Þessi maður er brotlegur við lögin, og viðurlögin eru þau sömu og áður, 10 þús. kr. til milljón.

Ég leyfi mér nú að víkja þeirri spurningu til hæstv. félmrh.: Álítur hann, að þessir menn í þessum tveimur dæmum, sem ég hef nefnt, verði brotlegir við þessi lög, ef þeir haga sér svona eins og ég hef lýst? Ef það verður álitið, að þessir menn verði brotlegir við lögin, er þá sæmandi að setja svona lög?

Við, sem erum í minni hl. heilbr.- og félmn., hv. 11. landsk. (FÞ) og ég, sjáum ekki annað en að lögin séu ótvíræð, svo ótvíræð, að í báðum þessum nefndu tilfellum og öðrum slíkum sé um ótvíræð brot á lögunum að ræða, og við álítum einnig, að hér sé um verknað að ræða, sem ekki beri að refsa fyrir, og lög, sem ákveða refsingu fyrir slíkan verknað, séu ekki samboðin siðuðu þjóðfélagi.

Í nál. okkar á þskj. 211 segir, að við viljum ekki samþ. frv. óbreytt. Það eru ákvæði í því, sem ég hef áður minnzt á, sem við viljum ekki standa á móti eða greiða atkvæði á móti, en við viljum freista þess að flytja brtt., sem prentuð er á þskj. 212, þar sem félmrh. er heimilt að veita undanþágu frá lögunum, ef sérstaklega stendur á og ef vissum formsatriðum er fullnægt. Ef brtt. okkar verður samþ., er það vissulega mikil bót á frv. Þá hefur félmrh. heimild til þess að veita undanþágur, ef um óveruleg atvik er að ræða, eins og ég hef sýnt fram á í þessum tveimur dæmum, sem ég hef tekið. Og ég vænti nú, að hæstv. félmrh. geti viðurkennt þetta og fallizt á að mæla með því, að þessi brtt. okkar verði samþ.