01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. N.-M. kom hér upp í ræðustólinn í gær og fann að því, að menn kæmu hér upp til þess að tala um daginn og veginn. Mér fannst hann nú vera nærri því að gerast brotlegur um þetta sjálfur, þar sem hann komst nú áðan út i að tala um mjólkurverð og annað slíkt. En ég ætla nú aðeins að víkja að því, sem hann talaði um.

Dettur hv. þm. það í hug, að í vaxandi borg fari verzlun, verzlunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði og annað slíkt minnkandi? Allur sá urmull af fólki hér t.d. í höfuðborg landsins, allur sá urmull, sem býr hér, hvað er það margt af þessu fólki, sem vinnur við heimili sitt? Verður það ekki að fara af heimilum sínum á morgnana og í skrifstofuhúsnæði og iðnaðarhúsnæði og annað slíkt til þess að vinna? Ef þetta væri ekki til, ef þetta væri allt minnkandi, eingöngu væru byggð íbúðarhús, hvað væri þá um atvinnuna? Verzlun í bæjum og borgum er þjónusta við fólkið.

Hv. þm. minntist á það, að mjólkurbúðum hefði fækkað. Ég veit ekki, á hvaða tímabili þeim hefur fækkað. (Gripið fram í.) Á síðustu 4 árunum. En það er undarleg þjónusta við fólkið, ef upp rísa fjölmenn borgarhverfi hér og þar, við sjáum Reykjavík, hvað hún hefur þanizt út, og ef mjólkurbúðir eiga ekki einmitt að elta fólkið. Þjónustan er ekki í lagi, nema þetta sé gert, og þegar ný hverfi rísa upp, þá er það alltaf krafa fólksins og það brýzt í því sjálft, ef einstaklingarnir hafa ekki möguleika á því að koma því fram, að byggja sína verzlun upp. Þetta er mér persónulega kunnugt um. Það má benda t.d. á Kópavog í því sambandi. Fólkið átti mjög erfitt með að draga að sér og annað slíkt. Kvenfólkið er mest bundið við sín heimili og börn fram eftir deginum, fram yfir hádegi, og verður þó að hafa til mat og annað slíkt, sem það hefur kannske ekki nokkra möguleika til þess að ná í, einkanlega ef mjög langt er að fara og mjög erfitt. Nei, verzlunin er þjónusta — það þarf að taka það með í reikninginn — og dreifing á vöru. Auðvitað er svo um margt af þessum vörum, sem verið er að dreifa, að við getum sagt, að það sé ekki endilega þörf á þeim og að það sé óþarfavarningur og lúxus, en þetta fylgír nú alltaf með.

Hæstv. félmrh. kemur inn á það, hvort rétt hafi verið að hindra ólöglega notkun húsnæðis, og á þá við hús, sem eru í byggingu og eru teiknuð sem íbúðarhús og ef til vill fengið leyfi fyrir þeim sem íbúðarhúsum, en eru svo tekin til annarra nota, þegar þau eru tilbúin. Ég var búinu að lýsa því áður, að við værum því meðmæltir að koma í veg fyrir þetta og viðurkenndum, að það væri nauðsynlegt að setja löggjöf um þetta atriði. En ég benti á, að um leið og löggjafinn nær í þessa aðila, þarf löggjafinn að varast það að ganga yfir smælingjana, sem ekki brjóta neitt af sér, en samkvæmt laganna hljóðan í þessu frv. eru brotlegir líka, og það er einmitt dæmið, sem ég tók áðan. Hæstv. ráðh. svaraði því ekki, hvort þessir menn mundu falla undir þessi lög, svo að því er ómótmælt, að maður, sem tekur eitt herbergi í húsi sinu til iðnaðar, svipað dæmi og ég nefndi, er brotlegur við lögin, og það álít ég óréttlátt, og þess vegna fluttum við brtt. okkar, hv. 11. landsk. og ég. Svo segir ráðh.: Hvað verður eftir af lögunum, ef brtt. er samþykkt, hvað verður eftir af lögunum? Lögin standa bara öll eftir. Hann hefur alltaf síðasta orðið. Það koma umsóknir, og það koma meðmæli, en hann metur í hvert sinn, hvort það sé hægt að gera þetta, og segir já eða nei. Það hefur verið talað um Morgunblaðshöllina, það hefur verið talað um höll uppi i Þingholtsstræti, það hefur verið talað um höll uppi á Skólavörðustíg, sem hafi einmitt verið byggðar á þennan hátt, sem hér er verið að koma í veg fyrir. Það hefur verið talað um þetta. Ef beiðni kemur frá þessum aðilum, þá þykir mér líklegt, að ráðh. segi bara: Þetta kemur ekki til nokkurra mála. — En ef beiðni kemur frá manni, sem endilega þarf að nota eitt herbergi í íbúðinni sinni, sem hefur verið íbúð, og ætlar að fara að nota það til iðnaðar, — ef beiðni kemur frá honum og meðmæli viðkomandi bæjarstjórnar, því ekki. að leyfa það? Svo segir hæstv. ráðh.: Ja, það er ekkert eftir af lögunum, ef okkar brtt. væri samþ. Þetta er vitanlega hreinn misskilningur. Hann segir, að hann mundi líta þannig á, að sér væri skylt að veita undanþáguna, ef beiðni kæmi frá eiganda og meðmæli bæjarstjórnar. Það er alls ekki átt við það, að honum sé það skylt; hann hefur alltaf síðasta orðið, eins og ég sagði.

Við þekkjum dæmi til þessa. Sækjum við ekki um leyfi fyrir hinu og öðru? Sækjum við ekki um leyfi fyrir byggingum? Sækjum við ekki um leyfi fyrir innflutningi á bílum og öðru slíku? Er það síðasta orðið, þó að við komum með rökstudda beiðni um, að okkur liggi á að fá þetta, t.d. bíl, við skulum hugsa okkur það, og meira að segja skólabíl til þess að flytja börn á, rökstudda beiðni og göngum eins vel frá henni og hægt er, svo að ljóst er, að um beina nauðsyn er að ræða? Hver hefur síðasta orðið? Innflutningsnefndin — og segir nei. Alveg nákvæmlega sama í þessu tilfelli.

Svo að ég víki nú aftur að hv. 1. þm. N-M., þá minnist hann á það, að n. hefði átt að athuga, hvað margar íbúðir hafi losnað. Þetta gerði n. ekki. Og ég get sagt það um minni hl., að við höfum ekki gert þetta. En þetta hefði verið óneitanlega fróðlegt. Og n. hafði ekki meira við þetta mál en það, að það er afgreitt á einum stuttum fundi og sáralítið talað um það að öðru leyti, hvað þá að þetta sé rannsakað. En það hefði vitanlega verið fróðlegt, einmitt að vita um þetta, hvaða áhrif lögin hafi haft, síðan þau voru sett. Ef áhrifin eru engin, ef ekkert hefur gerzt í þeim, þá hefði náttúrlega verið alveg óþarfi að vera að setja þau, þar sem von er á heildarlöggjöf um íbúðarhúsnæði eftir nokkra daga, eftir því sem fram hefur komið. Þá hefði ekki þurft að vera að selja þessi brbl. En ef fyrir lægi, að l. væru búin að gera stórkostlegt gagn, væri öðru máli að gegna.