01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Hv. frsm. minni hl., 2. þm. Árn., lýsti undrun sinni yfir því, að lagt væri kapp á að staðfesta brbl. þau., sem gilt hafa og munu gilda eftir venju, meðan þingið stendur, þó að þau séu ekki staðfest, hann var hissa á því, af því að gert væri ráð fyrir nýrri löggjöf, sem yfirtæki hlutverk þessara brbl. En hann þarf sjálfsagt ekkert að undrast það, þó að sú stjórn, sérstaklega sá ráðh., sem hefur gefið út brbl., kunni því betur, að lögin séu staðfest af Alþingi, heldur en að þau séu látin deyja út sem brbl. Það munu allar stjórnir leggja áherzlu á þetta. Og þar sem nú svo stendur á með þessi lög, að þau hafa verið þörf, líka að dómi stjórnarandstöðunnar, þá er engin ástæða til annars en að staðfesta þau. Það er að vísu svo, að eins og n. klofna eftir vissum reglum á þessu þingi, þá skiptist afstaða til mála nokkuð eftir vissum reglum, og það hefur sýnt sig, enda viðurkennt í öðru hverju orði, að stjórnarandstaðan er á móti þessari löggjöf, af því að hún telur sig hafa þeirri skyldu að gegna að vera í samræmi við lögmálið um hið kleyfa efni.

Hæstv. 2. þm. Árn. hafði ekki aðra sögu að segja en ég um, að hann vissi ekki dæmi þess, að menn hefðu orðið hart úti fyrir sektir, er stöfuðu frá þessum brbl., þó að sektarákvæði þeirra séu há. Hann hefur viðurkennt, að þau voru þörf löggjöf. Og þá getum við líka bætt því við, að þau hafa verið góð lög, úr því að þau gerðu sitt gagn, án þess að menn yrðu fyrir fjárútlátum, og þar af leiðandi er fullkomin ástæða til þess að staðfesta þau.