22.10.1956
Sameinað þing: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

1. mál, fjárlög 1957

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að frv. til fjárlaga, sem lagt hefur verið fram, vil ég fara nokkrum orðum um afkomu ríkissjóðs árið 1955, en ég mun þó ekki verða sérstaklega langorður um það efni né lesa upp ríkisreikninginn, þar sem hv. alþm. fá hann nú í sínar hendur.

Tekjur ríkissjóðs á rekstraryfirliti urðu 646 millj. og fóru því fram úr áætlun um 133 millj. kr. Rekstrarútgjöldin urðu 512 millj. og fóru þannig allverulega fram úr áætlun, en þó miklu minna en umframtekjunum nam. Rekstrarafgangur varð 133 millj. í staðinn fyrir 58 millj., sem gert var ráð fyrir í fjárlögunum, en greiðsluafgangur varð um 65 millj. króna.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá varð niðurstaðan sú, að nær öllum greiðsluafganginum var ráðstafað á síðasta Alþ., og voru um það efni sett ákvæði í 22. gr. fjárlaganna fyrir yfirstandandi ár. Ég rifja hér upp, hvernig þessu fé var ráðstafað :

1. Lán til bjargráðasjóðs vegna óþurrkanna á Suður- og Vesturlandi 101/2 millj. kr.

2. Lán til ræktunarsjóðs 22 millj. kr.

3. Lán til veðdeildar Búnaðarbankans 2 millj. kr.

4. Lán til fiskveiðasjóðs 10 millj. kr.

5. Lán til íbúðalánasjóðs í kaupstöðum og kauptúnum 13 millj. kr.

6. Framlag til stofnkostnaðar ýmissa skóla 11/2 millj. kr.

7. Aukaframlag til hafnarframkvæmda 1 millj. og 200 þús. kr.

Samtals nemur það fé, sem ráðstafað var, 60 millj. og 200 þús. kr.

Ýmsar ástæður lágu til þess, að tekjur ríkissjóðs fóru svo verulega fram úr áætlun á árinu 1955. Tekjur og viðskipti yfir höfuð fóru vaxandi í krónutölu vegna hækkandi dýrtíðar og vaxandi verðbólgu, en mest hefur þó munað um þær miklu aukatekjur, sem ríkissjóður hafði af innflutningi bifreiða á árinu 1955, en eins og kunnugt er, voru á því ári fluttar inn mjög margar bifreiðar með sérstöku tilliti til tekjuöflunar til stuðnings útgerðar togaraflotans.

Talsverðar umframgreiðslur urðu á ríkisrekstrinum, eins og reikningurinn ber með sér, þó að þær yrðu miklu minni en umframtekjurnar. Eru umframgreiðslur þetta ár á langflestum liðum fjárlaganna, og ástæðan er sú m.a., að á því ári, í fyrra, fóru öll útgjöld mjög vaxandi vegna hækkandi dýrtíðar, eins og fram kemur líka í tekjuhlið fjárlaganna og ég hef þegar rætt um.

Þá voru á árinu 1955 gerðar ráðstafanir til þess að afnema ýmsar skerðingar á launum embættismanna, sem höfðu verið í gildi undanfarin ár, afnumin skerðing verðlagsuppbóta og einnig skerðing á grunnlaunauppbót. Fengu opinberir starfsmenn með þessum ráðstöfunum mikla réttingu sinna mála, en uppbótum þessum hafði verið haldið niðri um nokkurt árabil. Þetta var eins konar aðdragandi að þeirri allsherjar endurskoðun á launakjörum opinberra starfsmanna, sem átti sér stað á síðasta Alþ., þegar nýju launalögin voru sett.

Það er tæplega ástæða til að nefna sérstaklega mjög marga liði í umframgreiðslunum, vegna þess að þær greinast af framangreindum ástæðum á nær alla eða flesta liði fjárlaganna. Sérstök ástæða er þó til þess að nefna eftirfarandi:

Brýrnar á Múlakvísl og Skálm fóru af í hlaupi, og varð að leggja 1 millj. 619 þús. kr. til brúabyggingar á þessar ár án fjárveitingar á árinu 1955. Þá voru greiddar án sérstakrar fyrir fram lagaheimildar 31/2 millj. kr. úr ríkissjóði til uppbótar á útflutning Suðurlandssíldar á árinu 1955. Uppbótargreiðslur á Suðurlandssíld urðu að vísu miklu meiri en þetta á árinu, en meiri hluti kostnaðarins var með lögum frá síðasta Alþ. lagður á framleiðslusjóð.

Þá má geta þess, að kostnaður við að greiða niður verð innlendra vara varð 5 millj. og 200 þús. kr. meiri en áætlað var. Ekki voru þó niðurgreiðslur auknar á árinu 1955, heldur varð neyzlan meiri en þau rn. gerðu ráð fyrir, sem þessa liði áætla.

Þá má geta þess, að notað var 1 millj. 574 þús. kr. meira til stækkunar sjálfvirku stöðvarinnar í Reykjavík en ráðgert var á fjárlögum, en var þó raunar hluti af því á heimildargrein, og var það gert til þess að tryggja vélar til stöðvarinnar í tæka tíð og einnig til þess, að bygging hennar gæti haldið áfram með fullum hraða, en bygging þessarar stöðvar er orðin ein hin allra mest aðkallandi framkvæmd, svo sem kunnugt er. Kveður svo rammt að símaskortinum í Reykjavik, að jafnvel læknar hafa langtímum saman orðið að vera símalausir og raunar fleiri, sem vegna atvinnu sinnar geta í raun réttri ekki með nokkru móti verið án símasambands.

Til framkvæmda í flugvallamálum eru notaðar á árinu 2 millj. og 200 þús. kr. fram yfir áætlun. Þá er einnig þess að geta, að til atvinnuaukningar voru veittar 5 millj. kr., en ráðstafað 6 millj. 950 þús. kr., eða 1 millj. 950 þús. kr. umfram fjárveitingu. Reyndist svo fast sótt eftir fjármunum í þessu skyni og þörfin víðs vegar svo mikil, að gripið var til þessarar umframgreiðslu til þess að bæta úr því allra brýnasta.

Þá voru í samráði við fjvn. fest kaup á tveimur sendiherrabústöðum, í París og í Bonn, og notað í því skyni á árinn 1 millj. 944 þús. kr. Eru þó ekki öll kurl til grafar komin í þessu efni, vegna þess að leggja varð mikið fé í að endurbæta hús það, sem keypt var í París, og kemur sá kostnaður á þetta ár.

Hefur þá verið greint frá aðalumframgreiðsluliðunum og höfuðástæðunum fyrir umframgreiðslum ársins 1955.

Ég kem þá að fjárlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, fyrir árið 1957. Fjárlagafrv. ber að leggja fram í byrjun Alþingis. Nú er á hinn bóginn þannig ástatt um efnahags- og framleiðslumál landsins, að öllum er ljóst, að eigi verður hjá því komizt að gera nýjar ráðstafanir i þeim málum. Eru þau mál öll nú í athugun hjá ríkisstj. og ráðuneytum hennar, en ekki verið teknar ákvarðanir um það, til hvaða úrræða skuli grípa. Fjárlagafrv. varð því að miða við það ástand. sem er, þegar það er lagt fram. Verður að gera ráð fyrir, að frv. taki þeim breytingum í meðförum á Alþ. síðar, sem ástæða kann að vera til vegna nýrra ráðstafana í efnahagsmálum og framleiðslumálum yfir höfuð. Þetta á einnig við um tekjuöflunarfrumvörpin, þ.e.a.s. framlengingarfrumvörpin, sem fjárlagafrv. fylgja.

Það skal strax tekið fram, að í frv. er ekki gert ráð fyrir viðbótargreiðslum þeim á verði vara innanlands, sem gripið var til í haust samkv. brbl. um stöðvun verðlags og kaupgjalds fram til áramóta. Eru þessar greiðslur ekkí teknar með, þar sem ekkert er um það vitað, hvort til greina kemur eða ekki að inna þær af höndum á næsta ári. En getið skal þess strax til fróðleiks mönnum, að áætlað er, að kostnaður við þessar viðbótarniðurgreiðslur mundi nema á heilu ári um 23–24 millj. kr., en lækka vísitöluna um 31/2 stig frá því, sem hún ella mundi vera. Sýnir þetta, að niðurgreiðslur þessar kosta sem svarar 6 millj. og 800 þús. kr. yfir árið á hvert vísitölustig. Það er ekki gott að fullyrða, hve mikið þessar niður greiðslur kosta ríkissjóð þann tíma, sem þær hafa verið ákveðnar, eða til 1. jan., en ekki er ólíklegt, að þær muni kosta 8–9 millj. kr. á því tímabili.

Á fjárlagafrv. eru rekstrarútgjöldin áætluð 642 millj. kr. og útgjöld í eignahreyfingakaflanum 69 milljónir. Á gildandi fjárlögum eru útgjöldin á rekstrarreikningi áætluð 596 millj. kr. og í eignahreyfingakaflanum 65 millj. kr. Verður því niðurstaðan sú, að greiðslur alls eru áætlaðar 50 millj. kr. hærri á þessu frv. en þær, sem ráðgerðar eru í gildandi fjárlögum. Á hinn bóginn eru tekjurnar áætlaðar 711 millj. í þessu frv. í stað 659 í gildandi fjárlögum. Eru því tekjur áætlaðar 51 millj. og 700 þús. kr. hærri í þessu frv. en á fjárlögum ársins.

Gert er ráð fyrir því í frv., að tekjur og gjöld standist á, því að ekki er teljandi, þó að örlítill greiðsluafgangur sé ráðgerður.

Mun ég þá víkja nokkuð að höfuðatriðum fjárlagafrv. eða réttara sagt gera stutta grein fyrir breytingunum frá gildandi fjárlögum.

Þá eru fyrst fjárveitingar til framkvæmda eða fjárfestingarmála, eins og menn eru nú mjög farnir að orða það. Það má segja, að fjárveitingar til verklegra framkvæmda séu í heild sinni jafnháar í þessu frv. og í gildandi fjárlögum. Ekki er þó svo að skilja, að allir framkvæmdaliðir séu nákvæmlega eins settir og i fjárlögum yfirstandandi árs. Nokkrar breytingar eru á einstökum liðum. Þær eru yfirleitt ekki svo stórvægilegar, að ég telji ástæðu til að rekja þær í framsögunni fram og til baka. Sumir framkvæmdaliðirnir eru settir jafnháir og þeir voru i frv. fyrrverandi stjórnar til fjárlaga fyrir árið 1956, þegar það var lagt fyrir Alþ. Aðrir eru settir jafnháir því, sem þeir eru í gildandi fjárlögum, og loks er í nokkrum dæmum farið bil beggja og fjárhæðir settar mitt á milli þess, sem lagt var til í fjárlagafrv. í fyrra, og hins, sem Alþ. að lokum ákvað. Nokkrar undantekningar eru þó frá þessu og eru þessar helztar:

Fjárveiting til framkvæmda í flugmálum á 20. gr. er hækkuð um 2 millj. kr. Á fjárlagafrv. yfirstandandi árs eru veittar 31/2 millj. í þessu skyni. Augljóst er, að þessi fjárveiting er nærri því sem dropi í hafið, þegar hún er borin saman við þau verkefni, sem óleyst biða í þessari starfsgrein. Þetta er heldur ekkert undarlegt, þegar þess er gætt, hvað flugið er í rauninni ungur þáttur í samgöngukerfi landsins, og það einnig haft í huga, hversu ör framþróunin er í þeim málum og hve stórfelldur þáttur flugið er nú þegar orðinn í samgöngum landsins. Sýndist því óhugsandi annað en að bæta hér nokkuð við það, sem áður hefur verið áætlað í þessu skyni, og þyrfti þó óneitanlega mun meira fjármagn til þessara mála, en það gildir nú um svo margt annað.

Þá eru fjárveitingar til eignaaukningar landssímans hækkaðar um 800 þús. kr. Er það nokkur tilfærsla á einstökum liðum fram og til baka. Þannig er fjárveiting til símalagningar í sveitum aðeins lækkuð eða sett 2 millj. kr. samkv. till. póst- og símamálastjóra, og gerir póst- og símamálastjórnin sér vonir um, að hægt verði með þessari fjárveitingu að verða við öllum óskum um síma eða símasamband á sveitabæi, sem enn þá hafa ekki fengið síma. Er mjög merkum áfanga náð, þegar sími er kominn á alla bæi í sveit, eða símasamband, enda þótt samt vanti þá enn mikið á, að öll sveitaheimili hafi fengið síma, þar sem viða yrði þá enn aðeins einn sími á tvíbýlis- eða fleirbýlisjörðum. Næsti áfangi í símamálum sveitanna yrði að fá síma á hvert heimili í sveit, enda að því stefnt hröðum skrefum, að hvert heimili á landinu eigi kost á síma.

Fjárveiting er tekin upp til þess að byrja á byggingu sjálfvirkrar símastöðvar í Keflavík. Haldið er áfram að veita fé til stuttbylgjusambands við Hornafjörð og fjárveiting til stuttbylgjusambands við Borgarnes hækkuð um 600 þús. kr., en báðar þessar framkvæmdir eru liðir í þeim áætlunum, sem nú er verið að framkvæma til þess að bæta úr því vandræðaástandi, sem ríkt hefur í símamálum Austfirðinga og Norðlendinga nú undanfarið. Þá eru veittar 2 millj. og 800 þús. kr. til stækkunar sjálfvirku stöðvarinnar í Reykjavík. Því miður tókst ekki að ljúka nýju stöðinni á þessu ári, eins og ráðgert var. 1. sept. var eftir að leggja í þetta fyrirtæki 17 millj. og 800 þús. kr. Það var sú fjárhæð, sem þá vantaði til þess að ná landi, 1. sept. í haust. En ráðgert er að leysa það mál þannig: leggja fram 2 millj. og 800 þús. kr. samkv. 22. gr. fjárlaga fyrir 1955, þ.e.a.s. fjárlaga yfirstandandi árs, og er verið að reyna að útvega það fé að láni til stutts tíma, vegna þess að gera má ráð fyrir, að sjálfvirka stöðin geti staðið undir stuttu láni. Þá fæst gjaldfrestur á efni til stöðvarinnar í Þýzkalandi, sem nemur 2 millj., og fjárveiting í þessu fjárlagafrv. er ráðgerð 2 millj. og 800 þús., eins og ég sagði áðan. Eru þá komnar 7 millj. og 600 þús. af þessum 17 millj. og 800 þús., sem eftir var að leggja í fyrirtækið frá 1. sept. Vantar þá enn 10 millj., og er það von manna, að stofngjöld frá hinum nýju símanotendum geti staðið undir þeirri fjárhæð. Enn getur harðnað svo á dalnum um fjáröflun til þess að ljúka stöðinni, að grípa verði til þess að selja mönnum réttinn til hinna nýju númera nokkrum mánuðum fyrir fram. Munu menn betur skilja, að vei getur svo farið, að til þessa úrræðis þurfi að grípa, þegar menn hafa kynnt sér þær upplýsingar, sem ég mun gefa hér á eftir um það, hvernig ástatt er um fjáröflun yfirleitt til fjárfestingarmála samanborið við þau verkefni, sem menn hafa með höndum.

Þá vil ég greina frá því, að fjárveiting til viðhalds þjóðveganna er hækkuð um 4 millj. kr. í þessu frv. Alþ. hefur undanfarið stöðugt verið að lengja þjóðvegakerfið með því að taka upp nýjar leiðir í þjóðvegatölu, og bætt var við á síðasta Alþingi. Hefur vegamálastjóri sýnt greinilega fram á, að með þeirri umferð, sem nú er orðin, og þeirri þjóðvegalengd, sem Alþ. hefur ákveðið, er alveg vonlaust að halda vegunum færum með minni fjárveitingu en þeirri, sem hér er ráðgerð í fjárlagafrv., og telur hann raunar þörf á meiru. Þess má einnig geta til marks um þróunina í umferðarmálum, að 1953 voru bifreiðar í landinu 10700, en eru nú taldar 15600, eða nærri 5 þús. fleiri en þær voru fyrir þremur árum. Enn fremur má benda á, að lengd akfærra þjóðvega hefur á sama tíma aukizt um 1000 km. Það eru sem sé þær leiðir, sem teknar hafa verið í þjóðvegatölu.

Þetta eru helztu hækkanirnar, sem orðið hafa á fjárveitingum til verklegra framkvæmda frá gildandi fjárl., en í heild eru þær, eins og ég sagði áðan, því sem næst jafnháar og í fjárlögum yfirstandandi árs. Allar eru fjárveitingarnar til verklegra framkvæmda miklu lægri en forstöðumenn starfsgreina sýna fram á að brýn þörf sé fyrir, enda vitum við vel, hversu framkvæmdaþörfin kallar að, bæði í vegamálum, brúamálum, hafnar og vitamálum, skólamálum, heilbrigðismálum og raforkumálum, svo að aðeins nokkur dæmi séu nefnd.

Þessar till. í fjárlagafrv. eru á hinn bóginn nánast miðaðar við, að ekki er hægt að sjá, að mögulegt sé að hækka fjárveitingar til verklegra framkvæmda, nema nýjar ríkistekjur komi til, og svo hitt, hve fjárfestingin í landinn í heild er mikil, og augljóst er, að þjóðin ræður ekki við meiri fjárfestingu í heild en hún hefur nú með höndum að óbreyttum ástæðum, og raunar ekki að óbreyttum ástæðum við það, sem hefur verið í fang færzt.

Af þessum ástæðum eru ekki hærri fjárhæðir teknar í fjárlagafrv., en ekki fyrir það, að þörfin sé ekki fyrir hendi. Er þó vandséð, hvernig á að halda áfram að framkvæma raforkuáætlun dreifbýlisins t.d. með hæfilegum hraða, án þess að ríkið sjálft leggi beinlínis til meira fé en gert hefur verið. Og sama er að segja um ýmislegt af því, sem verið er með á prjónunum varðandi framkvæmdir til þess að stuðla að auknu jafnvægi í byggð landsins. Þá mun eins og fyrri daginn reynast erfitt að komast af með það fé, sem á frv. er ráðgert til vega, brúa, hafna, sjúkrahúsa og skóla, svo að dæmi séu nefnd, og mun það mjög koma í ljós síðar hér á hv. Alþ. En eins og ég kem að síðar, er alvarlegt ástand í fjárfestingar- og fjáröflunarmálum, og það verður ekki hægt að halda áfram að byggja fjárfestingarframkvæmdir á lausaskuldasöfnun, eins og gert hefur verið í raun og veru á þessu ári.

Þessa þætti verður að skoða hér á Alþ. ofan í kjölinn, og verða þeir að takast til meðferðar í sambandi við ákvarðanir um ráðstafanir í efnahags- og framleiðslumálum almennt, enda eru ákvarðanir um fjárfestingu og fjáröflun til hennar, þ. á m. um opinbera fjárfestingu, mjög þýðingarmikið atriði í þessu sambandi.

Ég sagði áðan, að heildarútgjöld fjárlagafrv. væru um 50 millj. kr. hærri en i gildandi fjárlögum. Nú munu menn spyrja: Í hverju liggja þessar hækkanir? Mun ég gera nokkra grein fyrir því, hvernig á þessari hækkun stendur.

Hækkun útgjalda vegna nýju launalaganna umfram það, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 1956, mun að áætlun fjmrn. verða um 4 millj. kr.

Í þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir vísitölu 178, og er það 2 stigum hærra en í gildandi fjárlögum, og veldur það útgjaldahækkun, sem nemur a.m.k. 3 millj. kr.

Síðasta Alþingi setti lög um þjóðskrá til afnota fyrir margar stofnanir, og kostnaður við þá starfrækslu mun nema um 540 þús. kr. Gert er ráð fyrir, að nýtt varð- og björgunarskip, Albert, komi til starfa á næsta ári, 9 mánuði ársins, og er rekstrarkostnaður þann tíma áætlaður 1 millj. og 300 þús. kr.

Á ríkisspítölunum koma til greina nýjar deildir og nýtt starfsfólk, einkum landsspítalanum. Enn fremur hefur verið samið um að borga þeim. sem vinna um nætur, álag á kaup, og kostnaður við sumarleyfi hefur einnig aukizt vegna lengingar á leyfum. Telst ráðuneytinu svo til, að kostnaðarauki vegna þessara liða á heilbrigðismálum sé um 1 millj. 180 þús. kr.

Styrkur til sjúkrahúsabygginga er hækkaður um 700 þús. kr. Sjúkrahúsin stækka, og ný koma til, einnig þau, sem ríkið rekur ekki sjálft, og af því leiðir auknar greiðslur úr ríkissjóði til sjúkra manna og örkumla, sem dvelja á sjúkrahúsum, og hækkar sá liður um 680 þús. kr. Enn fremur fer rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa samkv. nýlega samþykktum lögum á Alþingi vaxandi um 800 þús. kr.

Þá er tekinn upp nýr liður, rekstrarstyrkur til St. Jósefsspítalanna, 5 kr. á dag, og nemur það um 380 þús. kr. Raunar var í vetur sem leið ákveðið í samráði við fjvn. að veita þennan styrk, en hann hefur ekki fyrr verið í fjárlögum.

Fjárveiting til áhaldakaupa vegna vegagerða og hafnargerða er hækkuð um 1 millj., 500 þús. í hvorn stað.

Fjárveiting til viðhalds þjóðvega hækkar um 4 millj. kr., eins og ég hef þegar gert grein fyrir. Framlag til sýsluvegasjóða hækkar um 400 þús. kr. vegna lagabreytinga frá síðasta Alþingi. Orlofsgreiðslur vegna vegagerðarinnar hækka um 300 þús. kr.

Þá er flokkunarviðgerð á Heklu 900 þús. kr., og framleiðslusjóðsgjald vegna útgerðar strandferðaskipanna samkv. lögum, sem sett voru á síðasta þingi, nemur um 300 þús. kr.

Þá er álag á næturvinnu starfsfólks hjá flugmálunum 1 millj. og 100 þús. kr.

Þá kemur áætluð hækkun kennaralauna, og kemur þar þrennt til greina undir þeim lið. Kennarafjöldinn er áætlaður of lágt í gildandi fjárlögum. Fleiri kennarar hafa nú fyrirheit um orlof næsta ár en nokkru sinni fyrr, eða 16 talsins, sem hafa fyrirheit um árs orlof. Og hinn 13. júlí s.l. gaf menntmrh. út reglugerð um styttingu vinnutíma hjá kennurum, eftir að vissu aldursmarki er náð, og kostar þessi reglugerðarbreyting sem svarar 10 nýjum kennaraembættum. Samtals er því áætluð hækkun á þessum lið, kennaralaunum, 4 millj. kr.

Með breytingu á lögum um ríkisútgáfu námsbóka var á síðasta Alþingi ákveðið, að ríkisútgáfa námsbóka sæi fyrir námsbókum á unglingastiginu, sem svo mun kallað, en áður hafði sú starfsemi aðeins náð til barnaskóla. Er gert ráð fyrir, að hluti ríkissjóðs af kostnaði við þessa breytingu verði næsta ár um 700 þús. kr.

Með nýrri lagasetningu nú fyrir skömmu og reglugerð í samræmi við þau lög var með ýmsu móti aukin þátttaka ríkissjóðs í rekstrarkostnaði barnaskólanna, auk þess sem skólakostnaður fer sífellt hækkandi vegna aukins nemendafjölda, og nemur hækkun á þessum lið 2 millj. og 200 þús. kr.

Sem kunnugt er, hefur orðið að framkvæma enn á ný fjárskipti í Dalasýslu eða Dalahólfi, eins og það er kallað. Hækkar því kostnaður við sauðfjársjúkdómavarnir og fjárskipti um 4 millj. 245 þús. kr.

Með lögum nr. 50 1948 var frestað að leggja fram 1 millj. til landnámssjóðs og lögfest á þeim tíma, að hana skyldi leggja fram árið 1957. Hækkar þetta fjárlögin nú um 1 millj. kr.

Gert er ráð fyrir, að jarðræktarframkvæmdir muni enn aukast nokkuð, og hækka því jarðræktarframlögin eða áætlun á þeim lið um 21/2 millj.

Fjárveiting til að leita nýrra fiskimiða er hækkuð um 250 þús. kr., og þyrfti þó í raun og veru að leggja meira fé til þeirra mála.

Ákveðið var í fyrra að kaupa nýjan jarðbor, stórvirkan, og þá ráðgerður rekstrarkostnaður í fjárlögum yfirstandandi árs hálft árið. Rekstrarkostnaður er nú ráðgerður meiri en hann var ráðgerður þá, og er því hækkun á þessum lið 600 þús. kr. Auk þess er ráðgert að kaupa nú miklu dýrari og stórfenglegri bor en þá var talað um, sem verður miklu dýrari í innkaupi, en þar í móti kemur, að náðst hefur samkomulag um það við Reykjavíkurbæ, að ríkið og Reykjavík kaupi þann hinn mikla bor í félagi, þannig að líklega mun stofnkostnaðarfjárveitingin nægja til þess að greiða hluta ríkissjóðs af stofnkostnaðinum.

Þegar ákveðið var að setja löggjöf um atvinnuleysistryggingar, var áætlað, að framlög til trygginganna af ríkisins hendi mundu vera 14 millj. kr. á ári. Þótt ekki sé búið að kanna þetta mál enn til fulls, þykir nú augljóst, að kostnaður ríkissjóðs við tryggingar þessar verður ekki undir 19 millj. kr. á ári, og er því sá liður í þessu frv. hækkaður um 12 millj. kr., en í gildandi fjárlögum er hálfs árs framlag, 7 millj. kr.

Nýju lögin um almannatryggingar, sem sett voru á síðasta þingi, eru nú að koma til framkvæmda, og valda þau — ásamt vísitöluhækkun — útgjaldaaukningu, sem nemur um 2 millj. og 900 þús. kr.

Kostnaður við húsnæðismálastjórn, sem sett var upp samkv. nýrri löggjöf frá Alþ., er álitið að muni vaxa um 200 þús. kr.

Fjárveiting til flugvallagerðar, sem áður hefur verið á minnzt, er hækkuð um 2 millj. kr. Framlag til niðurgreiðslu á vöruverði, sem miðað er við þær niðurgreiðslur, sem framkvæmdar voru fram að 1. sept., er vegna fólksfjölgunar og aukinnar neyzlu landbúnaðarafurða hækkað í frv. í 2 1/2 millj. kr., en annars er í frv. ekki gert ráð fyrir viðbótarniðurgreiðslunum, eins og ég tók fram áðan.

Í fjárlögum yfirstandandi árs eru greiðslur vegna vanskila á ríkisábyrgðarlánum áætlaðar 12 millj. kr. Það er nú alveg augljóst orðið, að þessi fjárhæð hrekkur hvergi nærri til að mæta vanskilum á ríkisábyrgðarlánum, en þau fara sífellt vaxandi. Má heita, að ríkissjóður greiði af öllum dieselrafstöðvalánum. Mjög háar fjárhæðir falla á ríkissjóð árlega vegna ábyrgða í sambandi við togarakaup, og sívaxandi vanskil eru á hafnargerðarlánum á þeim stöðum, þar sem verið er að byggja tiltölulega dýrar hafnir og bryggjur i von um vaxandi framleiðslu og umferð, en litlar tekjur í aðra hönd. Af þessum ástæðum er þessi liður nú hækkaður um 4 millj. kr., eða í 16 millj. kr., og er ég þó afar hræddur um, að hann sé ekki settur nógu hár. Það má hiklaust fullyrða, að þessar ríkisábyrgðir, sem mestum ríkisútgjöldunum valda, eru stuðningur við dreifbýlið fyrst og fremst og stuðla þannig að jafnvægi í byggð landsins og verka að því leyti vel. Hitt er eigi að síður álitamál mikið, hvort það er heppileg aðferð að nota þessa leið svo mjög og veita ábyrgðir, sem sýnilega falla beint á ríkið, og þá kæmi til mála, að hin aðferðin væri viðhöfð, að veita heldur meiri beinan stuðning. Það er hætt við því, að þessi stórfelldu vanskil, sem þoluð eru aðgerðalaust, vegna þess að hlut eiga að máli byggðarlög, sem lítið bolmagn hafa, veiki, þegar til lengdar lætur, vilja manna yfirleitt til þess að standa í skilum.

Það má t.d. upplýsa það, að ýmis togarafyrirtæki úti um land, og þar eiga bæði hlut að máli fyrirtæki, sem eru opinber og hálfopinber, og líka fyrirtæki einstakra manna, eru í milljóna vanskilum við ríkið, en það hefur ekki verið talið fært að ganga eftir því, að þessi fyrirtæki stæðu í skilum, vegna þess, hvernig ástatt er um atvinnuhætti á þeim stöðum, þar sem þau eru rekin. Hér er á ferðinni mikið vandamál, sem hv. Alþingi og ríkisstj. þurfa að athuga, hvaða fyrirkomulag eigi að hafa á þessum stuðningi framvegis, hvort þetta sé heppilegasta leiðin.

Þær hækkanir á ríkisútgjöldum, sem nú hafa verið taldar, nema samtals 59 millj. 679 þús. kr. Þetta er nokkru hærri fjárhæð en nemur nettóhækkun fjárlagafrv. Ástæðan er sú, að niður falla eða lækka nokkrir liðir fjárlaganna, sem kemur á móti, og enn fremur hækka tekjur einstakra stofnana, svo sem flugmála, sem í fjárlögum eru dregnar frá gjöldunum. En ég ætla, að þetta yfirlit eigi að geta gefið mönnum allglögga hugmynd um, hvers vegna fjárlögin fara hækkandi. Það er blátt áfram vegna þess, að Alþingi tekur með nýrri löggjöf sífellt meiri og meiri skyldur á ríkið. Sumpart er þar um nýja þjónustu að ræða við almenning, t.d. auknar tryggingar og þess háttar, en sumpart er verið að færa yfir á ríkið smám saman kostnað, sem aðrir aðilar hafa borið, t.d. eins og sveitar- og bæjarfélögin, og er það talsvert áberandi þáttur undanfarið, bæði í kennslumálum og heilbrigðismálum.

Þá hækka fjárlögin að sjálfsögðu með vaxandi dýrtíð í landinu, og ef ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að stöðva dýrtíðarflóðið nú í sumar, mundi þetta fjárlagafrv. hafa litið öðruvísi út. En eins og þegar hefur verið tekið fram, þá er frv. miðað við það ástand, sem nú er í þeim málum, og því gert ráð fyrir vísitölu 178, en skylt er þá um leið að minna á það enn einu sinni, að þær aukaniðurgreiðslur, sem hjálpa til að halda vísitölunni í 178, eru ekki teknar með í frv. af ástæðum, sem ég greindi áðan.

Ég gat um það áðan, að tekjur ríkissjóðs væru í þessu frv. áætlaðar um 51 millj. kr. hærri en í gildandi fjárlögum. Í grg. frv. er fjallað um þessa tekjuáætlun, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það hér. Ég vil aðeins rifja það upp, að þessi hækkun á tekjuáætlun er að nokkru leyti á beinum sköttum, vegna hækkandi tekna almennt í landinu í krónutölu, og að nokkru leyti byggð á því, að tekjuauki sá handa ríkissjóði, sem samþykktur var á síðasta Alþingi, mun færa ríkissjóði auknar tekjur allt næsta ár, en gilti á hinn bóginn aðeins frá 1. febr. það ár, sem nú er að líða. Annars er þessi tekjuáætlun byggð á reynslu yfirstandandi árs og því miðuð við, að innflutningur á næsta ári verði svipaður því, sem hann er í ár. Má það í rauninni telja furðudjarfa áætlun að gera ráð fyrir slíku, eins og ástatt er um gjaldeyrismálin. Það er sem sé augljóst, að það er flutt inn meira nú en hægt er að borga, og þess vegna þarf aukna framleiðslu og auknar þjóðartekjur til þess, að þetta fjárlagafrv. standist vel í framkvæmdinni.

Verður tekjuhlið fjárlaganna að athugast mjög gaumgæfilega við meðferð málsins á Alþingi, þegar vitað er, hvaða leiðir verða farnar í efnahagsmálunum og málum framleiðslunnar, og eru frv. um framlengingu núverandi tekjustofna einnig lögð fram nú með fjárlagafrv. með þeim fyrirvara, eins og ég sagði áðan, að þau endurskoðist við meðferðina á Alþingi með tilliti til afgreiðslu efnahagsmálanna yfir höfuð.

Á hinn bóginn mun allt gert, sem unnt er, til þess að tryggja og bæta innheimtu ríkisteknanna, og verður aukið eftirlit með innheimtu og álagningu beinna skatta og meira lagt í kostnað við þau mál en verið hefur undanfarið í þeirri von, að hægt verði að koma þar á einhverjum lagfæringum. Tollgæzlan verður líka efld og lagt meira í kostnað við hana en hefur verið í þeirri von, að það geti bætt ástandið í þeim málum.

Þá vil ég að lokum, áður en ég skil við fjárlagafrv., minnast á nokkur ný atriði í 22. gr. Undanfarin ár hefur verið í fjárlögum heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir hraðfrystihús og fiskimjölsverksmiðjur, allt að 60%. Nú er lagt til, að hliðstæða ábyrgð megi veita vegna stofnkostnaðar kjötfrystihúsa og mjólkurbúa. Þykir sanngjarnt, að þessar framkvæmdir njóti sömu fyrirgreiðslu og hinar, ef slíkt mætti verða þeim að einhverju liði, er undir þeim standa.

Þá er lagt til að heimila ábyrgðir vegna togarakaupa á Akranesi og á Austfjörðum. Þessi skipakaup hafa þegar farið fram, en þegar kaupin voru gerð, var ekki veitt ríkisábyrgð, Á hinn bóginn eru mörg fordæmi fyrir því, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir mestum hluta af andvirði skips, þegar þannig hefur staðið á, og raunar hefur það upp á síðkastið ævinlega verið gert, þegar togarar hafa verið keyptir til byggðarlaga úti um land. Fjárhæðir þær, sem heimilað er að ábyrgjast, eru miðaðar við, að þessir staðir njóti hliðstæðrar fyrirgreiðslu og aðrir staðir, sem fengið hafa togara fyrir milligöngu ríkisstjórnarinnar.

Mjög skortir fé til þess að greiða áfallnar kröfur vegna framkvæmda á rafvæðingu dreifbýlisins, og kem ég að því síðar. Verður að leita allra hugsanlegra ráða til að komast fram úr þeim vanda. Þannig stendur á, að ekki hefur þurft á að halda nokkru af því fé, sem lagt hafði verið til hliðar í ákveðnu skyni, sbr. lög nr. 51 1955, um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs 1954. Nemur þetta fé samtals 41/2 millj. kr. Er hér lagt til í frv., að heimilað verði að lána raforkusjóði þetta fé. Hrekkur það þó skammt til þess að leysa fjáröflunarvandamál þetta, og kem ég að því síðar.

Heimilað var í fyrra að lána ræktunarsjóði, fiskveiðasjóði og íbúðalánasjóði talsverðar fjárhæðir af greiðsluafgangi. Vegna þess að brýna nauðsyn ber til að efla alla þessa sjóði með öllum tiltækum ráðum, leggur ríkisstj. til, að þessi lán verði gerð að beinum framlögum til sjóða þessara.

Ég mun nú minnast nokkrum orðum á horfurnar varðandi afkomu ríkissjóðs á þessu ári og ástandið í efnahagsmálum landsins, eins og það nú blasir við.

Eins og landsmönnum er kunnugt og raunar hefur að nokkru leyti komið fram af því, sem ég hef þegar sagt, hefur undanfarið verið greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum, þótt ekki hafi slíkt verið ráðgert i fjárlögum. Hefur þetta bjargað frá stórvandræðum varðandi ýmsar fjárfestingarlánveitingar, eins og ég hef þegar rakið. Aldrei er hægt að vita með vissu eða nokkurri nákvæmni á þessum tíma árs, hvernig afkoman verður að lokum, en nokkuð sést, hvers vænta má. Verður helzt ráðið af þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, að greiðsluafgangur verði enginn á þessu ári. Kemur hér ýmislegt til greina, fyrst og fremst það, að tekjuáætlunin var teygð meira en oftast áður til þess að koma endunum saman á Alþingi í fyrravetur í fjárlagafrv. Þá hefur ríkissjóður orðið fyrir talsverðum útlátum umfram það, sem ákveðið var í fjárlögum. Ekki er það þó meira en oft hefur verið áður. Sérstaklega er þess að geta í því sambandi, að til þess að koma í veg fyrir stórkostlega nýja hækkun á verðlagi í landinu og þar með enn nýja hækkun á framleiðslukostnaði og raunar algera stöðvun framleiðslunnar nú þegar var gripið til þess ráðs að auka niðurgreiðslur landbúnaðarvara innanlands í haust, eins og ég hef minnzt á áður. Var þetta gert í sambandi við samkomulag það, sem varð um stöðvun kaupgjalds og verðlags. Áætla ég, eins og ég sagði áðan, að kostnaður við þetta verði um 8–9 millj. kr. á þessu ári.

Í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir, að tekjur og gjöld stæðust á, og vona ég, að ekki fari svo illa, að greiðsluhalli verði. Á hinn bóginn er það mjög alvarlegt mál, að enginn greiðsluafgangur skuli geta orðið á þessu ári, eftir því sem nú horfir. Brýna nauðsyn hefði horið til, að ríkissjóður hefði haft hreinan afgang og getað lagt fyrir fé til þess að vega á móti ofþenslunni í þjóðarbúskapnum, sem er mjög áherandi, eins og sakir standa. Um slíkt er ekki að ræða á hinn bóginn, enda reyndist ekki einu sinni fært að koma slíku við í fyrra og hitteðfyrra, þótt afgangur væri, vegna þess, hve menn höfðu færzt mikið í fang um framkvæmdir. Það verður mun tilfinnanlegra en ella, að afkoma ríkissjóðs er nú lakari en áður, en verðbólgan hefur nú dregið ríkissjóð uppi líka, ef svo mætti að orði kveða, — þetta verður tilfinnanlegra en ella vegna þess, hvernig nú er ástatt um ýmsar framkvæmdir, sem hið opinbera hefur á sinni könnu, sumpart beint og sumpart óbeint. Verður ekki annað sagt en að til vandræða horfi í þessum efnum.

Eins og áður mun hafa verið frá skýrt á hv. Alþingi, tókst loks fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar og með þátttöku dönsku ríkisstj. að fá erlent lán til þess að standast erlenda kostnaðinn við sementsverksmiðjuna að mestu leyti, en vantar þó nokkrar milljónir upp á. Þetta gerðist eftir hartnær þriggja ára árangurslausar tilraunir til þess að fá lán í sementsverksmiðjuna. Sementsverkmiðjan kostar alls, að því er nú er áætlað, um 100 millj. kr., og hefur stofnkostnaður verksmiðjunnar auðvitað alltaf verið að hækka vegna verðbólguþróunarinnar í landinu. Erlendi kostnaðurinn nemur um 43 millj., og er fyrir honum séð að miklu leyti. En þótt Framkvæmdabankinn geri eins og hann getur til þess að greiða fyrir innlenda kostnaðinum, þá vantar samt a.m.k. 35 millj. til þess að standast innlenda kostnaðinn við að byggja verksmiðjuna. Framkvæmdir við verksmiðjubygginguna voru settar af stað á s.l. ári, og vantar nokkrar millj. kr. nú strax fram að áramótum til þess að greiða kostnaðinn við þær framkvæmdir og svo í framhaldi af því 25–30 millj. á næsta ári til verksmiðjunnar fyrir utan það, sem Framkvæmdabankinn getur lánað.

Raforkuáætlun dreifbýlisins er í framkvæmd, eins og menn vita. Verið er að reisa tvö orkuver og leggja allmargar línur. Það hefur verið tryggt talsvert lánsfé til þeirra framkvæmda, eða um 120 millj. kr. á næstu árum, og var einu sinni gert ráð fyrir, að það fé mundi duga með því fé, sem ríkissjóður legði fram til þess að hrinda áætluninni í framkvæmd. En því fer nú alls fjarri. Bæði er það, að kostnaðurinn við framkvæmd þessarar áætlunar fellur miklu meira á fyrstu ár hennar en í upphafi var gert ráð fyrir, því að þetta var tíu ára áætlun, svo kemur til, að vegna verðbólgunnar hefur heildarkostnaður áætlunarinnar sífellt verið að hækka, og loks hefur ráðizt í kostnaðarmeiri framkvæmdir en ráðgert var. Er því svo komið, að það fjármagn, sem upphaflega var gert ráð fyrir að fá og samið við bankana um að leggja fram, hrekkur hvergi nándar nærri til þess að standa undir kostnaðinum. Hafa þó verið tekin erlend lán til efniskaupa, eftir því sem hægt hefur verið, og ríkissjóður hefur hækkað mjög verulega árlegt framlag sitt á fjárlögum frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Á þessu ári var tekið 23 millj. kr. lán í sambandi við efniskaup frá Tékkóslóvakíu. Á hinn bóginn hefur af viðskiptaástæðum orðið að kaupa allmikið af efni frá ýmsum öðrum clearinglöndum eða vöruskiptalöndum, eins og við köllum þau í daglegu tali, þar sem ekki hefur verið hægt að fá lán í sambandi við kaupin, og því heldur minna orðið um erlendar lántökur í þessa rafmagnsáætlun en ella.

Ástandið er nú þannig í þessum efnum, að það vantar a.m.k. 15 millj. kr. fram að áramótum til þess að greiða beinlínis áfallnar skuldbindingar vegna verka, sem verið var að vinna í sumar, umfram það, sem til þessara mála hefur verið lagt af ríkisfé, og umfram þau lán, sem tryggð höfðu verið. Er bezt að segja það eins og það er, að enginn veit í dag, hvar á að taka fé til þess að greiða þennan — ef svo mætti orða það — vanskilahala. Þá vantar a.m.k. 30 millj. kr. á næsta ári umfram fjárveitingar og umfram umsamin lán, til þess að hægt sé að halda áfram með fyrirhuguðum hraða.

Ræktunarsjóður hefur undanfarið lánað út á framkvæmdir í sveitum landsins, og bændur hafa haldið áfram framkvæmdum sínum á þessu ári í því trausti, að svo yrði áfram. Undanfarið hefur Alþjóðabankinn lánað tvisvar handa ræktunarsjóði gegnum Framkvæmdabankann, en í tvö skipti, árin 1954 og 1955, fengust á hinn bóginn engin lán í Alþjóðabankanum í þessu skyni, þar sem bankinn var okkur þá lokaður af ástæðum, sem ég ræði síðar. Kom þá til bjargar, að greiðsluafgangur varð á ríkisbúskapnum, og var gripið til þess að taka af því fé handa ræktunarsjóði. Því miður eru ekki horfur á því nú, að greiðsluafgangur ríkissjóðs bjargi málum að þessu sinni, og vandast þá málið, ef ekki tekst að fá lán nú í haust í Alþjóðabankanum, en slíkt er algerlega í óvissu enn, og vík ég að því síðar. En fram úr þessu máli verður að ráða á einn eða annan veg, svo að út á þessar framkvæmdir verði hægt að lána eins og undanfarið, og það verður gert.

Þá er enn rétt að geta þess í sambandi við þann vanda, sem bráðast kallar að varðandi fjáröflun til fjárfestingarframkvæmda nú á þessu hausti, að fiskveiðasjóður hefur á því byggt, að fundið verði eitthvert fé handa honum til útlána umfram það, sem hann hefur haft úr eigin uppsprettum, og mun vart hjá því komizt, að hann verði að fá einhverja úrlausn strax í haust og meira síðar til þess að standast skuldbindingar sínar, sem að talsverðu leyti a.m.k. hafa verið á hann teknar í samráði við yfirvöldin.

Hér eru nú engin smávandamál á ferðinni, þegar þess er gætt, að hér er aðeins um að ræða skuldbindingar, sem yfirvöldin hafa beinlínis á sig tekið og verður að standa við. Er það ekkert minni háttar neyðarúrræði, ef ríkið neyðist til þess að safna lausaskuldum til að standa við þessar skuldbindingar. Slíkt er vitanlega fullkominn neyðarkostur, og ef til þess þyrfti að grípa að safna lausaskuldum í seðlabankanum, sem þessum skuldbindingum nemur, og taka þannig í raun réttri fé, sem ekki er til, og setja það í umferð, þá torveldar það stórkostlega þær ráðstafanir, sem nú þarf að gera til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðva verðbólguna. En fram hjá þessum skuldbindingum verður ekki komizt. Það verður að horfast í augu við þær.

Ég hef nú aðeins rætt um þær skuldbindingar, sem ríkisvaldið hefur sjálft stofnað til með eigin framkvæmdum eða tekið á sig með beinum fyrirheitum. Það er svo þar fyrir utan, að vitaskuld er mikil þörf fjárfestingarlána þar að auki, og kem ég að því máli siðar.

Ástæða er til þess að minnast hér í framhaldi af þessu á framleiðslusjóðinn og horfur varðandi hann. Að vísu er þar ekki um fjárfestingarmál að ræða, en það gefur gleggri mynd af þeim viðfangsefnum, sem nú er við að glíma, og því, hvernig málum er komið, ef hans er minnzt einmitt í þessu sambandi.

Framleiðslusjóður var settur upp á síðasta Alþingi til þess að standa undir hinum nýju uppbótum til framleiðslunnar og halda henni þannig gangandi, — það er víst óhætt að segja um stundarsakir, enda var því yfirlýst, að þessar nýju uppbætur ofan á það, sem fyrir var, leystu ekki til frambúðar vandamál framleiðslunnar né efnahagsmálin yfir höfuð. Ekki leið langur tími, frá því að Alþingi var slitið síðast, þangað til það lá fyrir, dagana fyrir kosningarnar í vor, að engin síldarútgerð gat átt sér stað án stórfelldra uppbóta á Norðurlandssíldina, en fyrir því var ekki gert ráð, þegar framleiðslusjóður var settur á stofn örskömmu áður. Til þess að síldveiðarnar skyldu ekki stöðvast, var gripið til þess af þáverandi ríkisstj. að lofa því að bæta upp Norðurlandssíldina. Var sú skuldbinding tekin á framleiðslusjóð með brbl., en ekki séð fyrir nýjum tekjum handa sjóðnum á móti.

Sama sagan endurtók sig, þegar átti að gera út á reknetjaveiðar við Suðvesturland og annars staðar á landinu. Þá var enn komið í veg fyrir stöðvun með því að lofa auknum uppbótargreiðslum á Faxasíld úr framleiðslusjóði og enn þá án nýrrar tekjuöflunar,

Karfamið fundust í haust, og mikið barst að af karfa, meira en hægt var að taka til frystihúsanna. Var þá enn heitið uppbótum nokkrum á karfaafla, sem færi í fiskimjölsverksmiðjur, einnig úr framleiðslusjóði.

Þá var svo komið fyrir togurunum nú fyrir skömmu, að þeim var með engu móti kleift að fiska fyrir það verð, sem frystihúsin gátu boðið fyrir karfann eða fiskinn, þrátt fyrir 5000 kr. dagstyrk, og hefur þá enn verið gripið til þess ráðs að halda gangandi með því að lofa framlögum úr framleiðslusjóði og enn án sérstakrar tekjuöflunar á móti. Jafnframt var í sambandi við þá ráðstöfun gert að skilyrði, að togararnir legðu mikinn hluta af afla sínum á land til verkunar næstu mánuði, og þannig stóraukin atvinna í sjávarplássum landsins.

Af landbúnaðinum er það að segja í þessu sambandi, að þar er upp komið mikið verðlagsvandamál vegna mjög aukinnar framleiðslu til útflutnings.

Heildarmyndin af þessum málum er sú, að sumar þýðingarmestu greinar framleiðslunnar dragast áfram með harmkvælum og allir meginþættir hennar væru stöðvaðir, ef þeim hefði ekki verið haldið gangandi til bráðabirgða með loforðum um ný og ný fjárframlög, sem ekki er þó fé fyrir hendi til þess að standa undir nema að einhverju leyti a.m.k. Er nú svo komið, að uppbætur á verð það, sem togaraútgerðin fær fyrir fisk sinn, munu nema nálega sem svarar kaupi allrar áhafnarinnar, og heldur þó togaraútgerðinni við stöðvun gersamlega vegna þess, hvernig afkoman er. En uppbætur á útflutningsverð bátafisks eru þó eitthvað meiri tiltölulega en togarafisks. Mér skilst, að hægt mundi vera að borga tæpan helming þess, sem er greitt fyrir Faxasíldina upp úr sjónum, ef menn ættu að búa við útflutningsverðið sjálft.

Ég hef minnzt á, hvernig komið er um fjármagn til þess að greiða gerðar framkvæmdir og til þess að greiða uppbætur á framleiðsluvörur, sem búið er að verka og senda úr landi og leggja í kostnað við að framleiða í því trausti, að staðið verði við uppbótarloforðin. En mikið vantar á, að hægt sé að standa við þessi loforð í tæka tíð.

Enn er þó eftir að minna á, að langt er síðan gjaldeyrismál Íslands hafa staðið svo tæpt sem nú. Við höfum nú búið við langvarandi gjaldeyrisskort, sem verður sífellt tilfinnanlegri. Gjaldeyriseign þjóðarinnar er minni en ekki neitt, þegar saman eru teknar eignir og skuldir í því dæmi. Sannleikurinn er sá, að þýðingarlaust er að grafa höfuðið í sandinn. Efnahags og framleiðslumál landsins eru reyrð í slíkan Gordionshnút, að með fádæmum verður að teljast. Stöðvun framleiðslunnar og stórfelldur samdráttur framkvæmda og atvinnu bíður á næsta leiti, ef ekki auðnast að koma í framkvæmd nýjum ráðstöfunum til þess að forða frá slíku. En það er allt annað en stöðvun og atvinnuleysi, sem þjóðin þarfnast. Þess vegna eru nú öflug samtök mynduð til þess að finna leiðir til að koma í veg fyrir slíkt, en tryggja í stað þess framleiðsluna og atvinnuna og það jafnvel þótt kosta kunni nokkur átök og breytingar.

Ég mun þá þessu næst drepa nokkuð á ýmsar framkvæmdir, sem verið er með á prjónunum og ætlunin er að framkvæma næstu missirin. Jafnframt mun ég ræða nokkuð um fjáröflunarmöguleika í því sambandi.

Ég vil þá fyrst minnast á ræktunarsjóðinn aftur. Hann þarf á næstu árum á lánsfjármagni að halda árlega til þess að lána bændum út á framkvæmdir þeirra.

Þá þarf fé til þess að lána út á kjötfrystihús, mjólkurbú og aðrar slíkar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru til þess að koma afurðunum í verð. En þannig hefur verið ástatt undanfarið i landinu, að engin lán — bókstaflega engin lán — hefur verið hægt að fá út á slíkar framkvæmdir, og er slíkt vitaskuld algert neyðarástand.

Þá er fiskveiðasjóður. Hann verður að lána til bátasmíða og bátakaupa, og sífellt þarf að endurnýja bátaflotann. Verður bátaflotinn einnig, ef vel á að fara, að aukast, en ekki minnka. Má í því sambandi m. a. minna á, að margir þeir, sem bezt vit hafa á útgerð, telja nú nauðsynlegt, að landsmenn eignist nokkur 180–200 tonna skip til síldveiða með hinum nýju aðferðum, sem nú eru að ryðja sér til rúms í þeim efnum og gefa góða raun og eiga vafalaust eftir að valda gerbyltingu í síldarútgerðinni. Þessir bátar mundu þá verða notaðir til togveiða eða netjaveiða þess í milli.

Þá ber brýna nauðsyn til að halda áfram að auka og bæta frystihúsakostinn við sjávarsíðuna og önnur tæki og aðstöðu til þess að vinna úr aflanum, og er skemmst af því að segja, því miður, að sumar þýðingarmestu frystihúsaframkvæmdir í landinu eru i þann veginn að stöðvast eða hafa stöðvazt vegna lánsfjárskorts. Bæta þarf skilyrðin til þess að taka á móti togarafiski viða um landið, og koma þar endurbætur í hafnarmálum einnig mjög til greina ásamt endurbótum á frystihúsum og fiskiðjuverum.

Halda verður áfram að framkvæma raforkuáætlunina fyrir dreifbýlið, og hlýtur að þurfa til þess mikið fjármagn næstu árin umfram það, sem í öndverðu var tryggt til þeirra mála, eins og ég hef þegar sýnt fram á.

Þá þarf að byggja nýju Sogsstöðina, og þolir það mál blátt áfram enga bið úr þessu, þar sem gera má ráð fyrir, að raforkuskortur fari að gera vart við sig á orkusvæði Sogsvirkjunarinnar eftir tvö ár. En skortur á raforku á orkusvæði Sogsins mundi m. a. verða stórkostlegt áfall fyrir iðnaðinn í landinu og koma hart niður á áburðarverksmiðjunni og sementsverksmiðjunni. Leikur víst vafi á því, að hægt verði að nýta sementsverksmiðjuna nema með aukinni raforku, og mun fyrirhugað að tengja Sogsvirkjun og Andakílsvirkjun saman.

Þess má geta m.a. til þess að sýna, hver áhrif verðbólguþróunin nú undanfarið hefur haft á fjárfestingarmálin, að heildarkostnaður við Sogsvirkjunina nýju er nú áætlaður 165 milljónir, en var fyrir tveimur árum áætlaður 120 milljónir króna.

Þá hefur ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir því að kaupa allt að 15 togara og stuðla með því að jafnvægi í byggð landsins.

Mjög hagfellt er að byggja við áburðarverksmiðjuna aðra verksmiðju til þess að framleiða fosfatáburð, og þyrfti að vera hægt að sinna þeirri framkvæmd alveg á næstunni.

Halda verður áfram byggingu sementsverksmiðjunnar og koma henni sem fyrst í gagnið, en til hennar vantar enn mikla fjármuni, sem ég hef áður rakið.

Margar af þessum framkvæmdum miða beinlínis að því að framkvæma þá yfirlýstu stefnu ríkisstj. að efla jafnvægið í byggð landsins með því að efla sérstaklega atvinnulífið í þeim þremur landsfjórðungum, sem nú eru verst á vegi staddir í atvinnulegum efnum.

Að öllum þessum framkvæmdum mun ríkisstj. vinna. Kemur þar margt fleira til greina, og ber því vitaskuld alls ekki að skoða þetta sem nokkra tæmandi upptalningu. Ég hef aðeins minnzt á nokkrar veigamiklar fjárfestingarframkvæmdir, sem snerta sjálft framleiðslustarfið, en þar fyrir utan kemur svo íbúðamálið og fjáröflun í því sambandi, og er það ekkert smáræðis verkefni út af fyrir sig.

Ég hef talið hér upp nokkur verkefni, en ekki nefnt margar tölur í því sambandi. Samt sem áður er augljóst af þessu stutta yfirliti, að gífurlegt fjármagn þarf á næstu árum til þess að hrinda þessum málum áfram með hæfilegum hraða ásamt öðru því, sem gera þarf.

Lítum þá á möguleikana til þess að tryggja hér á næstunni fjármagn til öflugra framfara, meðal annars þeirra framkvæmda, sem ég hef drepið á.

Augljóst er öllum mönnum, að fjárfestingarframkvæmdir, sem menn kosta ekki hver um sig af sínu eigin fé eða með eigin vinnu, verða ekki kostaðar nema af lánsfé, að undanskildum þeim framkvæmdum, sem ríki, bæjar- og sveitarfélög kosta af skatttekjum s:num. En hvernig safnast lánsfé? Með tvennu móti aðeins. Annars vegar af því fé, sem landsmenn leggja til hliðar á hverju ári í reiðufé í þær stofnanir, sem veita lánin, og á hinn bóginn af því fjármagni, sem fæst að láni erlendis og flutt er þannig inn í landið. Það er ekki hægt að búa til lánsfé til fjárfestingarlána.

Athugum svo þessa tvo möguleika á lánsfé til fjárfestingarframkvæmda. Fyrst nokkur orð um erlendu lánin.

Íslendingum er hin mesta þörf á erlendu lánsfé. Það er ofur eðlilegt. Hér er svo margt ógert og mörg verkefni, sem óbætt er að taka lán til. Íslendingum hefur aldrei orðið hált á því að taka erlend lán til arðgæfra framkvæmda. Á hinn bóginn er mjög nauðsynlegt að gæta þess, að erlendu lánsfé sé skynsamlega varið og að það verði til þess að auka arðbæra framleiðslu og þjóðartekjur. Hitt er svo annað mál, að við höfum átt mjög takmarkaðan aðgang að erlendu lánsfé undanfarið. Við höfum í nær 3 ár engin lán fengið í Alþjóðabankanum og engin löng lán til verklegra framkvæmda á þeim tíma nema lánið, sem við fengum fyrir milligöngu Bandaríkjastjórnar og samvinnu hennar við stjórn Danmerkur til sementsverksmiðjunnar og áður er að vikið. Önnur lán, sem fengizt hafa síðustu þrjú árin, hafa verið vörukaupalán til styttri tíma, sem ekki er hægt að byggja stórframkvæmdir á nema að mjög takmörkuðu leyti. Ber þar að nefna lánið í Tékkóslóvakíu, sem tekið var til kaupa á vélum í orkuver, og lán í Þýzkalandi til hafnargerðar á Akranesi og til kaupa á flökunarvélum. Þetta fjármagn hefur hjálpað nokkuð, en við getum ekki byggt stórframkvæmdir nema að litlu leyti á svo stuttum lánum og verðum því að gæta að okkur á þeirri braut.

Þrátt fyrir miklar eftirgrennslanir undanfarið hefur ekki enn tekizt að fá lán til Sogsvirkjunarinnar. Ekki er þó til á Íslandi öruggara fyrirtæki fjárhagslega en fyrirhuguð viðbótarvirkjun Sogsins.

Alþjóðabankinn synjaði um lán til sementsverksmiðjunnar fyrir nærri þremur árum og lýsti því þá yfir, að hann vildi ekki athuga um lán til Íslands aftur, fyrr en séð yrði, hvernig fjármagn yrði fengið til þess að byggja sementsverksmiðjuna, og við það hefur staðið síðan. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði lýst því yfir, að sementsverksmiðjan væri forgangsframkvæmd, og enginn gert athugasemd við það. Málinu hefur því verið haldið til streitu þrátt fyrir þessa afstöðu Alþjóðabankans. Eftir að tókst s.l. vor að tryggja erlenda lánið til sementsverksmiðjunnar fyrir meginhluta erlenda kostnaðarins, setti ríkisstjórnin sig í samband við Alþjóðabankann að nýju og óskaði eftir því, að umræður yrðu teknar upp um lánveitingar til Íslands, enda þótt ekki væri hægt að segja, að tryggt væri nægilegt fjármagn til þess að koma upp sementsverksmiðjunni, eins og ég hef bent á. Hefur Alþjóðabankinn látið sína menn kynna sér fjárhagsástandið á Íslandi í tilefni af þessari ósk okkar, eins og bankinn ævinlega gerir, áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um slík mál.

Það er á vitorði þeirra, sem til þekkja, að Alþjóðabankinn tekur allmjög tillit til þess, hvernig ástatt er um fjárhagslegt jafnvægi og fjárfestingarmál í þeim löndum, sem æskja lána frá bankanum. Og enn er í óvissu um undirtektir bankans við málaleitanir ríkisstjórnarinnar þær hinar nýju.

Mikil vinna er að jafnaði lögð í að benda erlendum aðilum, sem fyrir lánsfé ráða, á það, að það sé hættulaust að lána Íslandi, sem skuldar mjög lítið út á við, samanborið við framleiðslu og þjóðartekjur, hefur feikna framtíðarmöguleika og stendur alltaf í skilum með opinber lán og hefur alltaf gert, og að engin ástæða sé til að efast um, að efnahags- og framleiðslumálin leiti hér jafnvægis, þótt um stundarsakir hlaupi alvarlegar snurður á þráðinn. En stofnanir, sem settar eru á fót til þess að stuðla jöfnum höndum að framförum og framkvæmdum og jafnvægi í fjármálum um leið, telja sig sjálfsagt verða að taka tillit til þess m. a., hvort hætta sé á ofþenslu og afleiðingum hennar í þeim löndum, sem við þær vilja skipta.

Ég hef hvað eftir annað á undanförnum árum lagt á það mikla áherzlu bæði hér á hv. Alþ. og utan þings, hvílík höfuðnauðsyn það sé okkur Íslendingum að hafa aðgang að erlendu lánsfé, með tilliti til þeirra stórfelldu verkefna, sem biða óleyst og vandséð er, hvernig á að koma í höfn, án þess að til komi erlent fjármagn, svo að ekki sé meira sagt. Ég hef undanfarið hvað eftir annað bent á, hversu hættulegt það er einmitt í sambandi við fjáröflun erlendis, að verðbólga leiki hér lausum hala og framleiðslu- og framkvæmdamál landsins komist í sjálfheldu með örstuttu millibili. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að slíkt ástand er stórhættulegt áliti landsins út á við og veldur því tjóni einnig á þann hátt ofan á allt annað, sem af slíku leiðir að öðru leyti, þegar til lengdar lætur.

Ríkisstj. og fjármálastofnanir landsins munu að sjálfsögðu gera allt, sem unnt er, til þess að útvega erlent lánfé á næstunni í hinar þýðingarmestu framkvæmdir. En vitaskuld verða fæstar slíkar framkvæmdir byggðar að öllu leyti á erlendu lánsfé. Hollt er og nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir því, að eitt öruggasta ráðið til þess, að Ísland geti i framtíðinni átt aðgang að lánum erlendis til nauðsynlegra framkvæmda, er að koma öruggri skipan á efnahags- og framleiðslumál landsins í stað þess óskapnaðar, sem við nú búum við í þeim efnum og við höfum því miður of lengi af og til búið við.

Eitt stærsta verkefnið, sem úrlausnar bíður, er að gera þær ráðstafanir í þjóðarbúskapnum, sem geta tryggt aukna fjármagnsmyndun í landinu sjálfu, aukinn sparnað innanlands og aukið lánsframboð innanlands. Það er auðvitað þýðingarmest að koma á samtökum um ráðstafanir í efnahags- og framleiðslumálum og kaupgjaldsmálum, sem stuðla að fjárhagslegu jafnvægi og vekja traust á fjármálakerfinu. Veigamikið atriði í því sambandi er að auka fræðslu um efnahagsmálin og glæða skilning á því almennt, hvers við þarf til þess að ná slíku marki.

Eitt af því, sem mundi geta glætt skilning á þessum efnum og bætt vinnuskilyrði þeirra á Alþingi og utanþings, sem að þessu vilja keppa, væri þjóðhagsáætlun, sem fylgdi fjárlagafrv. hverju sinni, eins konar fjárlög fyrir þjóðarbúskapinn í heild, þar sem reynt væri að gera grein fyrir tekjum og gjöldum þjóðarbúsins ásamt fyrirhuguðum framkvæmdum, svo að nokkur atriði sé nefnd. Kæmi þá gleggra í ljós margt af því, sem þarf að fá sem skýrasta mynd af, t.d. hve fjárfestingin í heild getur með góðu móti verið mikil, án þess að getunni sé ofboðið, hvort þjóðartekjur eru vaxandi og hvort gera megi ráð fyrir, að neyzla geti farið vaxandi, miðað við þjóðartekjurnar og nauðsynlega fjárfestingu, svo að dæmi séu nefnd. Samkvæmt löggjöf um Framkvæmdabankann er í þeirri stofnun dregið saman mikið efni i slíka þjóðhagsáætlun, og vona ég, að þess verði ekki langt að bíða úr þessu, að þjóðhagsáætlun geti fylgt fjárlagafrv.

Við þekkjum öll, að ein höfuðorsök lánsfjárskortsins og þeirrar þenslu og fjármálaerfiðleika, sem setur velmegun þjóðarinnar í hættu, er vantraust manna á sjálfu fjármálakerfinu, óttinn við sífellda almenna verðhækkun, sem er sama og verðfall peninganna, hvort sem gengisskráningunni sjálfri er breytt eða ekki. Við vitum sem sé glöggt af reynslunni, að verðgildi peninga á orðið sáralítið skylt við þá gengisskráningu, sem viðhöfð er. Peningarnir falla í verði, þegar verðlag hækkar almennt, hvað sem skráningunni líður. Þessi verðbólguótti, sem við búum sífellt við, veldur því, að menn keppast við að koma peningum sínum í verð, sem kallað er, kaupa marga muni, sem þeir annars mundu ekki kaupa strax, vilja heldur eiga húsgrunn eða steinvegg en innstæðu eða í versta falli eyða blátt áfram fé sínu umfram nauðsyn í fánýta hluti. Þetta er ein höfuðástæða fjármálaerfiðleikanna. Það er þetta, sem veldur því, hve illa gengur að fá fjármagn til nauðsynlegustu lána í landinu, og það er þetta, sem er á góðri leið með að stöðva hér framfarir og grefur undan afkomu þjóðarinnar út á við. Öflugasta ráðið gegn þessu er að koma á auknu jafnvægi í efnahags- og framleiðslumálum, sem stutt geti að stöðugu verðlagi. En nú er orðið svo ástatt hjá okkur enn þá einu sinni, að slíku marki verður ekki náð nema með því að mynda grundvöll, sem framleiðslan getur starfað á og hægt er að gera sér vonir um að verði fastur og traustur. Ekki má á hinn bóginn þá heldur gleyma því, að menn eru langhvekktir orðnir í þessum efnum og tortryggnir, vegna þess að margar tilraunir hafa verið gerðar, tekizt um stundarsakir, en síðan aftur sótt í sama farið. Þess vegna ber að athuga gaumgæfilega, hvort eigi sé rétt að taka hér upp í einhverri mynd verðtryggingu á innstæðum eða a.m.k. opna enn betur en gert hefur verið með nokkurri útgáfu vísitölutryggðra verðbréfa, að menn geti átt kost á slíkri verðtryggingu En þá verður að sjálfsögðu um leið að ganga að sama skapi lengra en gert hefur verið í því, að lánveitingar séu sams konar skilyrðum bundnar. Hvað er líka eðlilegra en það, að þeir, sem fá kú að láni, skili aftur kú, en ekki kvígu eða jafnvel kálfi, og hvaða réttlæti er í því, að þeir, sem leggja fjármuni sína til ávöxtunar í þjóðarbúið, eigi það á hættu, að kýr þeirra verði að kvígum eða jafnvel kálfum við geymsluna?

Skattfrelsi sparifjár var lögfest til þess að vinna gegn þeim háska, þeirri eyðslu og fjárfestingar-„panik“, sem verðbólgan hefur skapað.

Það hefur verkað í rétta átt að þessu leyti án efa, en það þarf miklu fleira að koma til.

Ég vil einnig minna á einn þátt enn í þessu sambandi. Efna verður til meiri fjársöfnunar í landinu sjálfu á vegum opinberra þjónustufyrirtækja en tíðkazt hefur í ýmsum greinum undanfarið. Ég vil nefna eitt dæmi, sem virðist sýna, að full þörf er á, að við endurskoðum vinnubrögð okkar að þessu leyti. Sogsvirkjunin er vitaskuld eitt allra þýðingarmesta fyrirtæki landsins. Ætli það sé ekki um 60% af þjóðinni, sem fær raforku frá þessu fyrirtæki, og langflest iðnaðarfyrirtæki landsins og rekstur áburðarverksmiðjunnar byggist alveg á rafmagni frá þessu orkuveri. Sogsvirkjunin hefur afbragðs skilyrði til orkusölu og hefur nú verið rekin um mörg ár. Samt sem áður er nú þannig ástatt, að þegar lífsnauðsyn er að byggja nýtt orkuver og auka orkuframleiðslu Sogsvirkjunarinnar, þá á þetta volduga fyrirtæki, sem býr við þessa aðstöðu, ekkert fjármagn til þess að leggja í nýjar framkvæmdir. Getur þetta nú staðizt í landi, þar sem svo er ástatt, að lánsfjármyndun er sáralítil, allt of lítil, en fjárfestingarþörfin óskapleg? Er hægt að hugsa sér, að stórfelld uppbygging geti átt sér stað með þessum aðferðum, að ekkert fjármagn til útþenslu eða aukningar myndist við skilyrði eins og þessi? Ég held ekki. En hvers vegna hefur Sogsvirkjunin ekki eignazt neitt? Alþingi ákvað það fyrir nokkrum árum, þegar lögin um þessa stofnun voru sett, að hún ætti að selja raforku sína með kostnaðarverði, eins og kallað var, að viðbættum 5%. Auðvitað er mikil nauðsyn að hafa raforkuverð ekki hátt, og það verður að stilla því í hóf. En þótt brýn nauðsyn sé á slíku, þá verða menn samt sem áður að horfast í augu við það, að með aðförum eins og þessum getum við ekki komið stórvirkjum í framkvæmd nógu ört. Varla er hægt að búast við því, að ævinlega sé hægt að grípa upp lánsfé fyrirvaralaust til þess að kosta nauðsynlegustu stórframkvæmdir okkar alveg að fullu án nokkurs framlags frá okkur sjálfum. Við þurfum að endurskoða alla þá þætti í okkar þjóðarbúskap, sem snerta eðlilega fjármagnsmyndun í landinu sjálfu, jafnhliða því sem ævinlega er leitað eftir eðlilegum lántökum erlendis. Hér er um að ræða eitt þýðingarmesta skilyrði þess, að þjóðin geti áfram orðið efnalega sjálfstæð og þar með raunverulega sjálfstæð. Ef menn eru upp á aðra komnir um svo að segja allt, sem gera þarf af meiri háttar verkum, og geta ekki einu sinni lagt til hluta af innanlandskostnaði verkanna, verður þess ekki langt að bíða, að þjóðin verður hættulega mikið upp á aðra komin. Mun ég ræða þennan þátt fjárhagsmálanna örlítið nánar, einmitt í tilefni af því, hvernig nú er ástatt í framleiðslu- og efnahagsmálum landsins og að nú sést einmitt gleggra en oftast áður, hvert verðbólgan og ofþenslan leiðir.

Sumum hefur vafalaust hætt við því undanfarið að líta svo á, að verðbólgan hafi ekki neina stórfellda hættu í för með sér. Það væri að vísu hækkun á öllu, en tekjurnar hækkuðu bara á móti og framleiðslunni væri bægt að bjarga með uppbótum, ef í það færi. Engin sérstök hætta væri á ferðum. Það væri mikill skriður á öllu og almenn velmegun. Verðbólgan væri eins konar „krónísk“ heilabólga, sem einstakir sérvitringar þjáðust af. En þeir, sem hugsa svo, gæta þess ekki, að þessar aðfarir geta ekki gengið til lengdar, án þess að í koll komi og það alvarlega. Það er að vísu hægt að komast hjá stöðvun þeirrar framleiðslu, sem fyrir er, um stundarsakir með ýmiss konar ráðum eða máske öllu heldur brögðum og með því að endurtaka neyðarúrræðin með stuttu millibili, en þó verður það hvergi nærri umflúið, að slíkt ástand framleiðslumálanna dregur úr framleiðslunni, jafnvel þeirri, sem fyrir er, og þjóðartekjurnar rýrna og þar með lífskjör allra landsmanna. En þó að mönnum takist nú að dragnast áfram með framleiðsluna á þennan hátt, þá er áður en varir komið að allra háskalegustu afleiðingum verðbólgunnar, sem aldrei verða umflúnar nema um stundarsakir. Fjárfestingarverkefnin verða sem sé algerlega óviðráðanleg. Stofnkostnaður nýrra fyrirtækja fer sívaxandi, og verður erfiðara jafnframt og erfiðara og að lokum alveg óviðráðanlegt að afla fjár til framkvæmdanna, og kyrrstaða og atvinnuleysi kemur til sögunnar. Sparnaðurinn minnkar, vegna þess að enginn þorir að treysta verðgildi peninganna, og lánsfjárkreppan kemst í algleyming, og það er þetta, sem nú er að ske hér hjá okkur.

Ég hef sagt frá því, hvernig ástatt er um fjáröflun til sementsverksmiðjunnar, rafmagnsáætlunar dreifbýlisins, ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs, svo að aðeins sé nefnt það, sem kallar að næsta vikurnar, að ógleymdum íbúðamálunum og framtíðarverkefnunum stóru, sem kalla á fjármuni næstu missirin og ég hef nokkuð rætt um. Það má benda á, hvernig sífellt hækkar kostnaðurinn við opinberar framkvæmdir, en fjárveitingar ekki að sama skapi. Ríkisstjórn og Alþ. gefast bókstaflega upp við að afla þeirra gífurlegu fjármuna, sem þarf til að halda framkvæmdum í horfinn. Bara síðan 1954, núna síðustu 2 árin, hefur kostnaðurinn við að byggja brýr hækkað um 27%, kostnaður við viðhald vega um 24%, við nýbyggingu vega um 21%, við ýmsar þýðingarmestu raforkuframkvæmdirnar á milli 30 og 40% og við allar framkvæmdir yfirleitt að sama skapi. Jafnframt hefur svo á sama tíma meira og meira af fé ríkisins verið varið í hreinar dýrtíðarráðstafanir, niðurgreiðslu á vöruverði o.s.frv., o.s.frv. Allt þetta sýnir svo glöggt sem verða má, hvernig loppa verðbólgunnar nístir að verklegum framkvæmdum og framförum og færir í óleysanlegan hnút þýðingarmestu framtíðarmálin.

Það var hægt að halda gangandi svona, meðan þjóðin átti aðgang að gjafafé og framlögum til þess að kosta þýðingarmestu fjárfestingarverkefnin, svo sem Sogsvirkjunina síðustu, stóru, Laxárvirkjunina og áburðarverksmiðjuna, sem að langmestu leyti var byggt fyrir gjafafé. En ef þjóðin á að lifa af sínu og byggja á sjálfri sér og sínu framtaki og því, sem hægt er að fá til láns af erlendu fjármagni eftir venjulegum leiðum, þá er ekki hægt að láta reka á reiðanum á þennan hátt. Það hefnir sín, veldur stöðvun og jafnvel hruni fyrr en varir. Þetta sést glöggt á ástandinu, eins og það er nú, og kemur ef til vill greinilegast fram einmitt með því að virða fyrir sér fjárfestingarverkefnin og hvernig ástatt er nm fjáröflun til þeirra.

Það hefur að vísu gert drættina skarpari í þessari mynd en ella, að Íslendingar hafa í rauninni ekki átt aðgang að verulegu lánsfé erlendis undanfarin ár. En það væri blekking að gera sér í hugarlund, að allt hefði getað gengið eins og það hefur gengið, ef bara meira erlent lánsfé hefði fengizt, enda þýðingarlaust að loka augunum fyrir því, að þegar til lengdar lætur, er öflun erlends lánsfjár að verulegu leyti undir því komin, hvort þjóðinni tekst að skipa svo efnahags- og framleiðslumálum sínum, að það veki traust. Auðvitað er líka hægt stutta stund að leyna öngþveiti því, sem verðbólguþróun hlýtur að leiða til, með því að eyða gjaldeyrisinnstæðum, ef þær eru til, eða safna gjaldeyrisskuldum, ef einhvers staðar er hægt að fá slíkt lán í því skyni. En því er ekki til að dreifa hjá okkur nú, að slíkt sé mögulegt, því að gjaldeyriseign er minni en engin.

Línan er hlaupin á enda, það er öll teygja úr bandinu. Þetta veit þjóðin og finnur, að komið er á tæpustu nöf. Þess vegna hefur því verið fagnað almennt í landinu, að stigið var í sumar fyrsta skrefið í viðreisnarátt með stöðvun verðlags og kaupgjalds um stundarsakir, á meðan verið er að bera sig saman um, til hvaða ráða skuli gripið í þeim vanda, sem þjóðin er nú í stödd.

Mikið veltur á, að þeim þingmeirihluta, sem nú hefur verið myndaður, takist í samráði við samtök vinnandi fólks í landinu að finna hin heppilegustu úrræði til þess að fyrirbyggja þann samdrátt í þjóðarbúskapnum, sem hlýtur að verða, ef ekkert verður aðhafzt til viðreisnar.

Fyrst og fremst verður að keppa að því að auka framleiðsluna og búa vel að henni, mynda grundvöll að jafnvægi í efnahagsmálum til þess að efla traust á fjármálakerfi landsins, auka þannig sparnað og fjármagnsmyndun í landinu sjálfu og lánstraust erlendis og tryggja stórfelldar framfarir á næstu árum og atvinnu fyrir alla.

Fyrstu ráðstafanirnar verða að beinast að því að bæta hlut framleiðslunnar frá því, sem nú er, og færa fjármagn til þeirra fjárfestingarverkefna, sem eiga að sitja fyrir. Þetta er vandasamt verk, eins og þessum málum er komið, og leiðirnar í þessu verður að velja þær, sem hinu vinnandi fólki í landinu eru hagfelldastar, þegar allar ástæður eru teknar til greina, enda verður að ákveða leiðirnar í samráði við samtök þess.

Að baki þess þingmeirihluta, sem nú hefur verið myndaður, standa öfl, sem eiga að vera þess megnug að tryggja framkvæmd heilbrigðrar framfarastefnu og standa af sér allar tilraunir, sem gerðar verða til þess að koma í veg fyrir framkvæmd slíkrar stefnu. Við eigum mikil og góð framleiðslutæki, og það er mikið spurt eftir framleiðsluvörum landsmanna. Við eigum því að hafa góð skilyrði til að snúa vörn í sókn í efnahags- og atvinnumálum landsins, en til þess þarf samstillt átök og góða samheldni þeirra, sem nú hafa efnt til samtaka um stjórn og löggjafarstarf, ekki aðeins þeirra, sem á þingi sitja eða í ríkisstjórn eru, heldur engu síður alls þess mikla fjölda, sem styður ríkisstj. og þingmeirihlutann.

Þetta verða menn að festa sér vel í minni og taka öflugan þátt í stjórnmálastarfinu í þessa stefnu.